• Lykilorð:
  • Bankar
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Lánssamningur
  • Vanreifun

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2019 í máli nr. E-2981/2018:

Einar Pétursson

(sjálfur ólöglærður)

gegn 

LBI ehf. og

(Kristinn Bjarnason lögmaður)

Landsbankanum hf.

(Hrannar Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. janúar sl. um frávísunarkröfu stefndu, var höfðað af stefnanda, Einari Péturssyni, Marskensgade 1, 2100 Kaupmannahöfn, með stefnu birtri þann 21. september 2018 á hendur stefnda LBI ehf., Ármúla 21, Reykjavík, og á hendur meðstefnda, Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi dómkröfur á hendur stefndu:

Aðallega að „stefndu verði dæmdir in solidum vegna kröfu stefnanda að fjárhæð 150.000.000- vegna hlaupareiknings nr. 013-26-1055 krafan er vegna endurgreiðslu á kr.15.506.993, þann 23 febrúar 20011. Til  Landsbankinn hf. Austurstræti 11, 155 Reykjavík, kt. 000000-0000. (áður NBI-Banki). Greiðslan var vegna tryggingarbréfa (nr. 0137-63-370105, 370123, 370545, 37057), sem hvíldu á 5 til 8 veðrétti eignarinnar að Laugarásvegi 5, 104 Reykjavík (merkt 01-0201 fast-nr. 201-9591). Hér skal árétta að greiðslan var vegna yfirdráttar á reikningi nr. 0137-26-1055. Sem var notaður til ólöglegra verðbréfaviðskipa með framvika afleiðusamninga við almennan viðskiptavin, hátterni sem varða rannsóknarskyldu (LBI ehf., Kt: 000000-0000.) um ólögleg verðbréfaviðskipi, minna skal á að tilkoma þessa reiknings er vegna yfirfærslu eigna og skulda til (NIB-Bank) frá gamla Landsbankanum (LBI ehf.,). Tap sem varð af peningabréfum nam kr. 1.416.808- við fall bankans þann 8. október 2008. Staða peningabréfa í Landsvaka var kr. 6.588.186-. Nýi Landsbanki hefur viðurkennt þjófnað á 5.171.378- og endur greitt að hluta, er vaxta þáttur nú í meðferð sem mál nr. 14/2018, hjá Úrskurðarnefnd Fjármálaeftirlitins. Greiðsla, kr.15.506.993 var fengin frá stefnanda með blekkingum og fjársvikum. Þegar salan á fasteigninni að Laugarásvegi 5 var gerð með þvingaðri sölu, var fasteignaverð í sögulegu lámarki, má varlega áætla að eigna tap stefnanda nemi kr. 20.000.000- til 25.000.000-, einnig er útlagður lögmannskostaður til lögmannsstofnunar Mörk, Suðurlandsbraut kr. 2.400.000, heilsutjón sem verður ítarlega rakið í greinagerð með læknis vottorði, ferðakoðnaður vegna upplýsingaröflunar og vinnslu þessara „stefnu“ (stefnandi býr í Danmörku) og annar kostnaðar sem má rekja beint til hátterni starfsmanna slitastjórnar (LBI ehf.,). Telja verður að tjónið sem samstarf Landsbankans hf. og slitastjórn (LBI ehf.,) hafi valdið stefnanda sé varlega metið að samanlögðu sé kr. 150.000.000- skrifað eitthundrað og fimmtíu miljónir, að teknu tillit til 8. gr. laga nr. 38/2001. Ekki er tekið tillit til dráttarvaxta því er krafist að frá og með þingfestingar málsins þann 18. september 2018, er krafan dráttarvaxta frá þeim degi skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Að framansögðu er vísað í bréf stefnanda þann og til Landsbanka Íslands hf. og svar Landsbanka Íslands hf. þann 2. Febrúar 2018, til Fjármálaeftirlitsins og þann 31. janúar 2018 þar sem bankinn viðurkennir fjársvik fyrir hönd slitstjórnar LBI ehf.“

Til vara að „stefndi (LBI ehf., Kt: 000000-0000.) verði dæmdur til að greiða stefnanda skv. sundurliðkuðum reikningum og matsmenn kallaðir til að meta tjónið, eða til að greiða stefnanda skaðabætur að álitum ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, og dráttarvaxta frá og með þingfestingar málsins þann 18. september 2018.“

Til þrautavara að „viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda (LBI ehf., Kt: 000000-0000), gagnvart stefnanda vegna fjártjóns stefnanda sem hlaust af markaðsmisnotkun og brotum á rannsóknarskyldu slitstjórnar (LBI ehf.,).“

Stefnandi gerir í öllum tilvikum kröfu um málskostnað úr hendi beggja stefndu en til vara, fari svo að málið tapist, að málskostnaður verði felldur niður.

Af hálfu beggja stefndu er aðallega gerð krafa um að kröfum stefnanda á hendur þeim verði vísað frá dómi, en til vara krefst stefndi LBI ehf. sýknu í máli þessu.

Af hálfu beggja stefndu er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda.

Í þessum þætti málsins var tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu, þar sem stefnandi, sem er ólöglærður, hefur þrátt fyrir leiðbeiningar dómara, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, sóst eindregið eftir því að fá að halda uppi vörnum og krefst þess að frávísunarkröfu stefndu í málinu verði hrundið eftir munnlega flutning um hana.

 

I.

Málsatvikalýsing stefnanda er brotakennd og óskýr en ágreiningur virðist tengjast viðskiptum hans við LBI ehf. sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar Íslands frá 16. janúar 2014 í máli nr. 509/2013. Af hálfu stefnda Landsbankans hf. er því lýst svo að frá 1999 og til október 2008 hafi stefnandi verið í viðskiptum við meðstefnda, nú LBI ehf., með kaup á fjármálagerningum. Frá febrúar 2005 til október 2008 hafi stefnandi gert fjölda samninga um kaup á hlutabréfum í ýmsum félögum og flestir verið framvirkir afleiðusamningar auk peningabréfa. Hafi stefnandi tekið lán hjá LBI ehf. vegna þessa og sett bréf og eignir að veði. Stofnaður hafi verið tékkareikningur stefnanda hjá LBI ehf. í desember 1998 en árið 2005 hafi stefnandi síðan tekið íbúðarlán hjá LBI ehf., 5.055.000 krónur. Með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda LBI ehf., en 9. október 2008 var ákveðnum eignum og skuldum LBI ehf. svo ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú er Landsbankinn hf. 

Reikningur stefnanda hafi verið yfirdreginn um 12.930.526 krónur er hann fluttist frá LBI ehf. til Landsbankans hf. Hafi Landsbankinn hf. sent stefnanda yfirlit og hann ekki gert athugasemdir. Þann 17. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið beint því til peningamarkaðssjóða að þeim yrði slitið og hlutdeildarskírteinishöfum greitt út í formi innlána. Stefnandi hafi fengið greiðslu fyrir peningabréf sem hafi verið veðsett LBI ehf. og veðréttur við söluna færst á inneign á bankabók hans, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 489/2016. En 8. desember 2009 hafi Landsbankinn hf. millifært 5.171.378 krónur á tékkareikning stefnanda og hann þá verið yfirdreginn um 10.647.201 krónu. Á reikninginn hafi síðan borist tvær greiðslur vegna sölu stefnanda á fasteign, eða alls 15.506.993 krónur. Hafi framangreindar greiðslur verið í samræmi við yfirlýsingu Landsbankans hf., en eftir þær hafi bankinn aflétt öllum tryggingarbréfum af fasteign stefnanda og íbúðarláninu. Uppgreiðsla íbúðarlánsins hafi verið 7.185.409 krónur og staða reiknings stefnanda, frá 5. október 2011, verið jákvæð um 5.171.378 krónur.

Stefndi LBI ehf. hafi höfðað mál á hendur stefnanda vegna tveggja afleiðusamninga í Exista og gekk útivistardómur 14. apríl 2010 þar sem fallist var á kröfu LBI ehf. Í kjölfarið hafi LBI ehf. gert kröfu á Landsbankann hf. um greiðslu á innstæðu á reikningi stefnanda. Stefnandi hafi mótmælt því að Landsbankinn hf. yrði við kröfu LBI ehf. þar sem hann hafi ekki talið sig vera í skuld við LBI ehf. og hafi upplýst að hann ætlaði að fara fram á endurupptöku málsins og var málið tekið upp aftur með úrskurði 27. september 2010. Niðurstaða hafi svo fengist með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 509/2013. Hafi þá verið fallist á dómkröfu LBI ehf. um að stefnandi greiddi 12.250.430 krónur með dráttarvöxtum frá 29. ágúst 2008 til greiðsludags, auk málskostnaðar. Í kjölfarið hafi LBI ehf. gert kröfu á Landsbankann hf. um afhendingu á innstæðu á reikningi stefnanda þar sem hún stæði til tryggingar á afleiðusamningum. Landsbankinn hf. hafi þá greitt LBI ehf. innstæðuna en vegna mistaka hafi fjárhæðin þó ekki verið millifærð af reikningi stefnanda. Landsbankinn hf. hafni því að hann hafi viðurkennt þjófnað á 5.171.378 krónum en deila um vexti sé hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og ekki hluti af þessu máli. Þá hafni Landsbankinn hf. því að hann hafi í bréfi til stefnanda, 31. janúar 2018, og í bréfi til Fjármálaeftirlitsins, 2. febrúar 2018, viðurkennt fjársvik fyrir hönd slitastjórnar LBI ehf.

 

II.

Af hálfu beggja stefndu er vísað til þess að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni það vanreifaður, sbr. d-, e- og f- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að þeir geti ekki tekið til varna og að málið sé ekki dómtækt. Af hálfu stefnda LBI ehf. sé jafnframt vísað til þess að ekki séu uppfyllt í málinu skilyrði til samaðildar eða samlagsaðildar til varnar, sbr. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, og að fyrir liggi dómur um úrslit þess sakarefnis sem nú sé lagt fyrir dóm og sé bindandi á milli stefnanda og stefnda LBI ehf., auk þess sem dæmt hafi verið um þær málsástæður sem stefnandi virðist hér reisa kröfur sínar á, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. sömu laga. Af hálfu stefnda Landsbankans hf. sé jafnframt áréttað að einungis aðalkrafa stefnanda beinist að honum og sé hún ekki dómtæk þar sem málatilbúnaður gangi þvert gegn meginreglu íslensks réttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og sé um bersýnilega vanreifun að ræða og því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi.

Af hálfu stefnanda var við flutning, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar dómara, ekki vikið sérstaklega að frávísunarkröfum stefndu, heldur kaus stefnandi þar að beina máli sínu að því að fyrri úrlausnir í tengslum við ágreining málsaðila hefðu verið ótækar.

 

III.

Sé litið til stefnu málsins, þá blasir við að framsetning stefnanda á máli sínu og málatilbúnaður allur er það óskýr hvað varðar alla þætti kröfugerðar hans, hvort heldur sem snýr að aðalkröfu, varakröfu eða þrautavarakröfu hans, að vandséð er að stefndu geti tekið til varna, auk þess sem torsótt er að átta sig nægilega á framsetningu málsástæðna eða tengslum framlagðra gagna við málatilbúnað stefnanda. Verður því að fallast á með stefndu að málatilbúnaður stefnanda sé það vanreifaður, sbr. einkum d-, e-, og f-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að vísa verði málinu í heild frá dómi.  

Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki hjá því komist að gera stefnanda að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hér vera hæfilega ákveðinn 200.000 krónur til handa hvorum stefnda fyrir sig.

Mál þetta fluttu stefnandi Einar Pétursson, en fyrir stefndu þeir Sölvi Davíðsson lögmaður fyrir LBI ehf. og Hrannar Jónsson lögmaður fyrir Landsbankann hf. 

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Einar Pétursson, greiði stefndu, LBI ehf. og Landsbankanum hf., hvorum um sig 200.000 krónur í málskostnað.

 

                                                     Pétur Dam Leifsson (sign.)