• Lykilorð:
  • Andmælaréttur
  • Dagsektir
  • Jafnræðisregla
  • Rannsóknarregla

Ú R S K U R Ð U R

 

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 14. mars 2019 í máli nr. Y-3/2018:

 

[…]

(Sigurgeir Valsson lögmaður)

gegn

[…]

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta hófst með kröfuskjali sóknaraðila til dómsins sem barst 18. apríl sl. Sóknaraðili er A og varnaraðili B.

 

I.

Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi fjárnámsgerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. 0000-00000, sem fram fór […] að kröfu B. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

 

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að fjárnámsgerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. 0000-00000 frá […] verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar.

 

II.

Ákveðin hafði verið aðalmeðferð málsins 14. nóvember sl. Vegna tafa sem orðið hafa á málinu frá þeim tíma þykir rétt að gera grein fyrir gangi þess í meginatriðum. Vegna ágreinings um hvort sóknaraðila væri heimilt að kalla fyrir dóm fjögur vitni, ákvað dómari að fresta aðalmeðferð málsins og halda munnlegan málflutning um ágreininginn. Málið var tekið til úrskurðar um ágreininginn eftir málflutning 14. nóvember sl. Við lok málflutnings og að virtum honum innti dómari lögmenn eftir því hvort mögulegt væri að þær upplýsingar sem sóknaraðili freistaði að afla með skýrslutökum gætu að einhverju leyti fengist með skriflegum hætti með fyrirspurnum til hlutaðeigandi. Ákvað dómari að hinkra um stund með að fella úrskurð á ágreininginn í samráði við lögmenn. Síðast 11. desember kom tölvuskeyti frá lögmanni sóknaraðila þar sem hann greindi frá því að umbjóðandi hans hefði móttekið svör við fyrirspurnum sínum frá byggingar- og skipulagsfulltrúum […], en biði svara við frekari spurningum. Eftir nokkur samskipti varð ljóst að frekari gagna yrði ekki aflað og boðaði lögmaður framlagningu nýrra gagna í málinu. Boðaði dómari þá til þinghalds í málinu 7. janúar sl. þar sem gögn voru lögð fram og lögmenn tjáðu sig stuttlega um framlagninguna og ítrekuðu kröfur sínar varðandi skýrslutökur í málinu. Með úrskurði 9. janúar sl. var kröfu sóknaraðila um að fá leidd vitni í málinu hafnað. Eftir að sóknaraðili ákvað að una þeim úrskurði var ákveðinn munnlegur málflutningur um aðalkröfu sóknaraðila. Hann fór fram fimmtudaginn 14. febrúar sl. og málið var tekið til úrskurðar sama dag.

 

III.

Krafa varnaraðila byggir á dagsektum sem lagðar voru á sóknaraðila vegna mengunar frá fráveitum þriggja húsa […]. Með bréfi rituðu 10. júní 2015 upplýsti varnaraðili að reglubundin tæming rotþróa hefði farið fram 13. maí 2015 en ekki hefði verið unnt að tæma tiltekna rotþró á jörðinni. Kom fram að grafa þyrfti upp þessa tilteknu rotþró og/eða endurnýja hana og tengja hana siturlögn. Einnig var gerð athugasemd við rotþró sem var sögð tengd gistiheimili á jörðinni og fullyrt að afrennsli hennar væri veitt beint út í […]. Var sóknaraðila gefinn festur til 15. ágúst s.á. til þess að endurnýja rotþrær á […].

 

Að sögn sóknaraðila var honum ekki gefinn kostur á að gera athugasemdir áður en framangreind ákvörðun var tekin. Varnaraðili fullyrðir hins vegar að sóknaraðili hafi átt þess kost en ekki sinnt kröfum um úrbætur eða haft samband við varnaraðila.

 

Varnaraðili ítrekaði fyrri kröfu sína með bréfi dags. 13. september 2015 og upplýsti að hann myndi leggja til […] að lagðar yrðu á dagsektir ef ekki yrði orðið við kröfu um úrbætur.

 

Að sögn varnaraðila var engu að síður beðið með álagningu dagsekta með hliðsjón af meðalhófsreglu, enda um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að ræða. Þess í stað hafi framkvæmdastjóri B átt í samskiptum við fyrirsvarsmann sóknaraðila, m.a. í tölvupósti, þar sem sóknaraðili var upplýstur um frekari kvartanir og tilkynningar um mengun á svæðinu. Með vísan til þess var óskað eftir upplýsingum um framkvæmdir af hálfu sóknaraðila, og jafnframt tilkynnt að kröfu varnaraðila um úrbætur yrði mögulega fylgt eftir með álagningu dagsekta á næsta fundi […], en sóknaraðila engu að síður gefið færi á að skila inn tímasettri úrbótaáætlun sem miðaði við verklok vorið 2016, og þá yrði beðið með álagningu dagsekta.

 

Sóknaraðili kveðst hafa gert ýmsar efnislegar athugasemdir við forsendur ákvörðunar varnaraðila með tölvuskeyti 17. mars 2016. Þar upplýsti hann að ekki væri rekið gistiheimili á […] heldur væri um að ræða íbúðarhús í útleigu. Þá var bent á að það væri á höndum […] að tæma rotþrær enda kostnaður fyrir slíkt hluti af fasteignagjöldum. Hefðu rotþrær ekki verið tæmdar bæri varnaraðila að gera athugasemdir við framkvæmd […]. Sóknaraðili kvaðst ekki kannast við saurlykt né leka frá rotþróm. Óskaði hann því eftir að fulltrúar varnaraðila kæmu í vettvangskönnun til að fara yfir athugasemdir varnaraðila og í framhaldinu væri hægt að gera tillögu að úrbótum. Sóknaraðili kveður varnaraðila ekki hafa orðið við ítrekuðum beiðnum hans í þá veru.

 

Eftir tölvuskeytið 17. mars 2016 kveður sóknaraðili aðila hafa verið sammála um að sóknaraðili fengi löggiltan pípulagnameistara til þess að fara yfir ástand fráveitumála. Hafi fulltrúi varnaraðila lýst því yfir að hann væri tilbúinn til þess að koma á staðinn og fara yfir málið. Þessu mótmælir varnaraðili alfarið og kveður ekkert slíkt samkomulag hafa tekist með aðilum og því eðlilega ekkert sem staðfesti það í gögnum málsins.

 

Í júní 2016 óskaði varnaraðili eftir upplýsingum um hvort framkvæmdum við endurnýjun rotþróa væri lokið.

 

Í september 2016 sendi varnaraðili tölvupóst þess efnis að aftur væri verið að undirbúa álagningu dagsekta. Á þessum tímapunkti kveður sóknaraðili enga athugun á meintri mengun eða athugun á staðháttum hafa farið fram.

 

Með bréfi 23. september 2016 var sóknaraðila tilkynnt um fyrirhugaða álagningu dagsekta og upplýst um að kærufrestur ákvörðunarinnar væri einn mánuður. Dagsektir voru lagðar á frá 15. nóvember 2016 og voru ákveðnar 15.000 krónur.

 

Málið var næst tekið til meðferðar á fundi […] 9. febrúar 2017, og var þá ákveðið að senda álagðar dagsektir í innheimtu. Fram kemur í tilkynningu um bókun. að sögn varnaraðila, að sóknaraðili hefði þá á engan hátt nýtt sér veittan andmælarétt en sóknaraðila hafi verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri áður en til leigubanns á fasteignirnar kynni að koma.

 

Í kjölfar álagningar dagsekta varnaraðila hafa aðilar átt í miklum samskiptum um fráveitumál að […]. Hefur sóknaraðili m.a. upplýst að hann hafi sótt um breytingu á deiliskipulagi fyrir jörðina. Verði hún samþykkt liggi fyrir að endurnýja þurfi allt fráveitukerfi á jörðinni. Óskaði sóknaraðili eftir fresti þar til afstaða fengist frá […]. Þá upplýsti sóknaraðili að skv. ástandsskoðun […] pípulagningameistara, dagsettri 5. maí 2017, væri ástand rotþróa í lagi en tæma þyrfti tilteknar rotþrær. Í niðurstöðunni hafi komið fram að ummerki affalls rotþróa væri ekki mengun eða leifar af salernispappír heldur væri um að ræða affall af hitaveitu sem beint væri í sömu affallsrör.

 

Sóknaraðili lagði fram úrbótaáætlun á fráveitumálum með bréfi til varnaraðila 10. maí 2017 sem byggði á niðurstöðu […]. Kom fram að unnið yrði að minnkun sjónrænna áhrifa og að ráðist yrði í varanlegar endurbætur þar sem frárennsli hitaveitu og rotþróa yrði aðskilið. Upplýst var að settur yrði hreinsibúnaður við rotþrær. Tók sóknaraðili fram að farið yrði í framkvæmdir þegar aðstæður á verkstað yrðu nægjanlega góðar fyrir jarðvegsvinnu. Voru verklok áætluð 1. september 2017.

 

Í upphafi árs 2018 upplýsti sóknaraðili að búið væri að endurnýja fráveitur allra rotþróa á svæðinu. Varnaraðili taldi framkvæmdir sóknaraðila ekki fullnægjandi enda ekki í samræmi við kröfur varnaraðila. Kom fram í máli varnaraðila að málið snerist ekki um mengun heldur um kröfu á nýju fráveitukerfi. Krafðist varnaraðili þess að sóknaraðili legði fram teikningar að nýju fráveitukerfi.

 

Varnaraðili bendir á að loks þann 10. janúar 2018, eða tveimur árum og átta mánuðum eftir að ástand fráveitu að […] varð ljóst, hafi verið tilkynnt um lok framkvæmda af hálfu sóknaraðila og jafnframt óskað eftir að allar álagðar dagsektir yrðu felldar niður. Þessari beiðni sóknaraðila var hafnað með erindi 24. janúar 2018, enda hafði sóknaraðili, að mati varnaraðila, ekki orðið við kröfum varnaraðila um úrbætur. Þá hafði sóknaraðili ekki óskað eftir úttekt af hálfu varnaraðila til að sýna fram á að úrbætur hefðu átt sér stað og þær væru fullnægjandi.

 

Varnaraðili hafnaði beiðni um niðurfellingu dagsekta með bréfi 24. janúar 2018. Í afstöðu hans var efnislegum athugasemdum sóknaraðila, að hans mati, ekki svarað. Hafi aðeins verið vísað til þess að ekki hefði verið orðið við kröfu um teikningar að fráveitukerfi. Í bréfinu vísaði varnaraðili til gr. 7.1 í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og taldi að ástand fráveitna á landi sóknaraðila væri ólögmætt.

 

Þann 14. febrúar 2018 sendi sóknaraðili niðurstöðu rannsóknarþjónustunnar […] til varnaraðila þar sem fram kom að niðurstaða úr öllum sýnatökum væri vel innan við allra marka og því engin mengun til staðar úr […] sem liggur að […].

 

Sama dag hafnaði varnaraðili niðurstöðum úr sýnatökum sem þýðingalausum fyrir málið þar sem mengun í ánni kæmi málinu ekkert við.

 

IV.

Sóknaraðili telur að álagning dagsekta af hálfu varnaraðila sé ólögmæt.

 

Sóknaraðili telur að krafa varnaraðila sé ólögmæt þar sem ekki hafi verið lögmæt ástæða fyrir hendi til að krefja sóknaraðila um framkvæmdir á rotþróm á […]. Byggir sóknaraðili í fyrsta lagi á að ekki sé að finna mengun frá fráveitukerfum að […]. Í öðru lagi telur sóknaraðili að fráveitukerfið sé í samræmi við þær reglur sem giltu á þeim tíma sem fráveitukerfið var byggt og í þriðja lagi að heimilt sé skv. 17. gr. samþykktar […] um fráveitumál nr. 1014 að láta frárennsli rotþróa renna í grjótpúkk í stað siturlagna eins og varnaraðili krefst.

 

Sóknaraðili kveðst hafa reynt að vinna að lausn málsins í samráði við varnaraðila án árangurs. Eftir ábendingu um meinta mengun hafi sóknaraðili látið fara fram athugun á fráveitukerfinu. Hafi niðurstaða […] pípulagnameistara verið sú að tæma þyrfti rotþrærnar og gera tilteknar lagfæringar. Hafi sóknaraðili komið þeirri niðurstöðu á framfæri við varnaraðila, og hafi afstaða varnaraðila, að því er virðist, breyst við það. Hafi sóknaraðila þá verið tilkynnt um að rotþrær á […] uppfylltu ekki ákvæði reglugerðar 798/1999 um fráveitur og skólp.

 

Upphafleg ákvörðun varnaraðila hafi byggst á meintri mengun sem talið var að mætti rekja til fráveitukerfis á jörð sóknaraðila. Sóknaraðili telur að innheimta dagsekta sé ólögmæt þar sem lögmæt ástæða hafi ekki verið fyrir hendi til þess að krefja sóknaraðila um jafn umfangsmiklar framkvæmdir á fráveitukerfi að […] og raun bar vitni. Byggi sóknaraðili á að umrætt fráveitukerfi hafi verið gert í samræmi við gildandi reglur á þeim tíma sem þær voru byggðar. Þá sé skv. 17. gr. samþykktar […] um fráveitumál nr. 1014 gert ráð fyrir að frárennsli rotþróa renni í grjótpúkk eins og sé á jörð sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili lagt fram gögn sem sýni að engin mengun sé frá fráveitukerfunum og að allar líkur séu á að hin meinta mengun sem vísað hafi verið til í bréfi varnaraðila 10. júní 2015 hafi verið ummerki um hitaveituvatn. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á mengun frá fráveitukerfum sóknaraðila.

 

Sóknaraðili telur ósannað að mengun stafi af rotþróm á […]. Upphaf málsins megi rekja til ábendingar um meinta mengun frá fráveitukerfi að Tjaldanesi, sbr. bréf varnaraðila frá 10. júní 2015. Sóknaraðili hafi fengið […], löggiltan pípulagnameistara, til þess að framkvæma ástandsskoðun á fráveitulögnum og skólphreinsikerfi við […]. Hafi niðurstaða hans verið sú að virkni rotþróa væri í lagi. Tekið hafi verið sérstaklega fram að tæma þyrfti rotþrær auk þess sem gera þyrfti tilteknar úrbætur sem sóknaraðili hafi þegar gert. Niðurstaða álitsins hafi verið að þrátt fyrir að rotþrærnar væru fullar væru þær ekki að valda mengun út frá sér. Hafi […] talið að greinanleg ummerki á yfirborði mætti rekja til affalls hitaveitu sem beint sé í sömu affallsrör aftan við þrærnar.

 

Sóknaraðili hafi einnig lagt fram niðurstöðu rannsóknarstofunnar Sýnis vegna athugunar á mengun í […], þ.e. þeirri á sem liggur að […]. Samkvæmt niðurstöðunum sé ekki að finna mengun í þeirri á sem liggur að […].

 

Þrátt fyrir þessar niðurstöður hafi varnaraðili hvorki fallið frá ákvörðun sinni né aflað gagna sem sýni fram á mengun af fráveitukerfum sóknaraðila.

 

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki uppfyllt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi farið fram rannsókn af hálfu varnaraðila á því hvort mengun stafaði af rotþróm að […] áður en dagsektir voru lagðar á sóknaraðila og ekki hafi verið lögð fram gögn því til stuðnings.

 

Í bréfi varnaraðila, dagsettu 10. júní 2015, sé vísað til meintrar mengunar og að sú mengun renni beint út í […]. Sóknaraðili hafi margoft gert athugasemdir við grundvöll kröfu varnaraðila og reynt að upplýsa málið, m.a. með framlagningu gagna um mengun í […]. Jafnframt hafi sóknaraðili bent á að […], þ.e. sú á sem vísað sé til í bréfinu liggi ekki að […].

 

Þar sem varnaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn um hina meintu mengun sé, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála, skorað á varnaraðila að leggja fram gögn sem sýni fram á meinta mengun frá fráveitukerfi sóknaraðila.

 

Sóknaraðili sé stjórnvald sem fari með lögbundið eftirlitshlutverk. Verði að gera kröfu til slíkra aðila um að þeir geti lagt fram gögn sem styðji grundvöll krafna sinna áður en gripið sé til svo íþyngjandi ákvarðana eins og álagningu dagsekta og fjárnáms.

 

Jafnframt telur sóknaraðili að andmælaréttar hafi ekki verið gætt.

 

Sóknaraðili telur jafnframt að varnaraðili hafi ekki gætt að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar hann lagði dagsektir á sóknaraðila. Á seinni stigum þessa stjórnsýslumáls hafi varnaraðili krafist að sóknaraðili legði fram fullbúin hönnunargögn að nýju fráveitukerfi. Virðist sem þessi krafa hafi fyrst komið fram eftir að sóknaraðili hafi sýnt fram á að engin mengun væri til staðar í […].

 

Sóknaraðili telur að varnaraðili verði að gæta jafnræðis og gera sambærilegar kröfur til hans og annarra fasteignaeigenda í […]. Sóknaraðili leitaði til […] til þess að óska eftir upplýsingum um fráveitumál í […]. Í svari byggingarfulltrúa […] um ástand fráveitumála hafi verið upplýst að aðeins væru til „hönnunargögn fráveitu fyrir nýjustu húsin í […]“. Af svari byggingarfulltrúans að dæma sé almenna reglan sú að ekki sé gerð krafa um að fasteignareigendur skili inn fullbúnum teikningum til bæjaryfirvalda eða varnaraðila. Virðist sem gerðar séu aðrar kröfur til sóknaraðila en annarra fasteignareigenda í […] og því sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga með stjórnvaldsákvörðun varnaraðila.

 

Með bréfi varnaraðila 12. júní 2018 hafi því verið hafnað að ekki hafi verið fylgt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þegar ákvörðun um úrbætur og álagningu dagsekta hafi verið tekin. Eins og áður byggi afstaða varnaraðila á almennum fullyrðingum og án þess að vísað sé til gagna. Sóknaraðili hafi upplýst varnaraðila um að skv. byggingarfulltrúa […] séu aðeins til teikningar fyrir fráveitukerfi nýrri bygginga í […]. Í ljósi svara byggingarfulltrúans sé skorað á varnaraðila, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála, að hann leggi fram öll gögn þar sem eigendur fasteigna í […] séu krafðir um skil á teikningum fyrir fráveitukerfi í þeim tilvikum þegar teikningar séu ekki til og gögn um ákvörðun dagsekta í þeim tilvikum þar sem ekki hafi verið orðið við kröfu varnaraðila.

 

Eftir að sóknaraðila hafi loks verið veittur andmælaréttur hafi hann upplýst að hann sé með til umsóknar beiðni um breytingu á deiliskipulagi að […]. Felist í tillögunni fjölgun fasteigna á jörðinni. Samhliða fyrirhugaðri uppbyggingu liggi fyrir að endurhanna þurfi allt fráveitukerfi á jörðinni. Hafi sóknaraðili óskað eftir fresti til að uppfylla skilyrði reglugerðar 798/1999 um fráveitur og skólp þar til afstaða hafi verið tekin til umsóknar hans um breytingu á deiliskipulagi.

 

Hafi sóknaraðili rökstutt beiðni sína með því að sýna fram á að ekki sé um mengun að ræða sem rekja megi til fráveitukerfisins, auk þess sem gert sé ráð fyrir að að frárennsli rótþróa renni í grjótpúkk í 17. gr. samþykktar […] um fráveitumál nr. 1014. Vegna þessa sé ekki skilyrði til þess að taka svo íþyngjandi ákvörðun. Sóknaraðili hafi upplýst að verði deiliskipulagstillagan samþykkt muni þær framkvæmdir og teikningar sem varnaraðili krefst aðeins vera til bráðabirgða þar sem fyrir liggi að breytt deiliskipulag kalli á endurnýjun og endurhönnun fráveitumála frá grunni. Telur sóknaraðili að svo íþyngjandi ákvörðun með tilheyrandi kostnaði sé brot gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi sóknaraðili óskað eftir að tekið yrði tillit til þess að engin mengun sé frá fráveitum á jörðinni […], og að hann sé með umsókn um breytt deiliskipulag til umfjöllunar hjá […]. Á fundi skipulagsnefndar […] 22. maí sl. hafi skipulagsfulltrúa verið falið að kynna skipulagslýsingu og afla umsagna.

 

Með hliðsjón af framangreindu telur sóknaraðili að málsmeðferð varnaraðila sé ólögmæt og beri því að ógilda gerðina.

 

Sóknaraðili byggir kröfu sína á meginreglum stjórnsýsluréttar og 10., 11., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa um framlagningu gagna er byggð á 2. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málskostnaðarkrafa er byggð á 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

V.

Varnaraðili byggir á því að álagning dagsekta sé lögmæt og heimilt sé að fullnusta dagsektirnar með fjárnámsgerð hjá sóknaraðila.

 

Byggir varnaraðili á því að allar lögmætar ástæður hafi verið fyrir hendi til að krefja sóknaraðila um framkvæmdir á rotþróm á […]. Við reglubundna tæmingu hafi komið í ljós að ein þróin var niðurgrafin og ómögulegt að tæma hana. Sú staðreynd hafi óhjákvæmilega haft í för með sér skyldu sóknaraðila til þess að ganga svo frá þrónni að unnt væri að tæma hana í samræmi við 19. gr. samþykktar […] um fráveitumál nr. 1014. Einnig hafi mengun frá fráveitukerfunum verið ljós, bæði hafi hún lýst sér sem lyktarmengun sem tilkynnt var til B, og þá hafi verið sjáanlegt að afrennsli rann frá þrónni þvert á lagaheimildir. Sú staðreynd að fjöldi tiltekinna gerla í sýnum hafi verið undir viðmiðunarmörkum sé á engan hátt staðfesting á því að engin mengun hafi borist frá fráveitunni, enda geti mengun verið til staðar án þess að gerlar í sýnum fari yfir viðmiðunarmörk. Þá beri einnig að árétta að óheimil fráveita hitaveituvatns teljist til mengunar og sé ekki í samræmi við eðlilega uppsetningu fráveitu.

 

Varnaraðili byggir jafnframt á því að fráveitukerfið að […] sé ófullnægjandi í skilningi 13.2. gr. reglugerðar um fráveitur og skólp nr. 798/1999, m.a. sökum þess að engar siturlagnir séu til staðar. Ekki sé nægjanlegt að fráveitan hafi upphaflega verið sett upp í samræmi við reglur um fráveitur á byggingartíma, heldur beri húseiganda á hverjum tíma að tryggja að fráveita sé fullnægjandi í skilningi laga. Megi ráða þetta m.a. af því hvernig 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 9/2009 sé orðuð, en sú takmörkun sem þar kemur fram taki ekki til 12. gr. laganna sem varði m.a. viðhald og skyldur húseigenda. Af þessu leiði að varnaraðila hafi verið bæði rétt og skylt að krefja sóknaraðila um úrbætur.

 

Í samræmi við 13.3. gr. reglugerðar 798/1999 skuli gengið þannig frá fráveitu við aðstæður eins og að […], að þar sé til staðar rotþró ásamt siturleiðslu. Undanþágur eigi hér ekki við, enda ekkert við aðstæður sem geri það ómögulegt að notast við nútímalega rotþró og siturlögn.

 

Þá byggir varnaraðili á að úrbótatilraunir sóknaraðila hafi ekki verið fullnægjandi, þær hafi auk þess komið fram allt of seint og eiginleg úrbótaáætlun ekki verið sett fram fyrr en eftir að dagsektir voru lagðar á, og þá hafi úrbætur ekki verið framkvæmdar í samræmi við áætlunina.

 

Varnaraðili byggir á því að málið hafi fengið eðlilega meðferð með tilliti til vandaðra stjórnsýsluhátta og stjórnsýslulaga. Þannig hafi málið verið kannað vegna ábendinga um meinta mengun. Komið hafi m.a. í ljós að fráveita hitaveitu var ekki í samræmi við lög og reglugerðir og siturlagnir ekki til staðar. Breyti það engu um þessa þætti málsins að ekki hafi mælst tiltekin mengun í […]. Þá breyti niðurstaða […] pípulagningameistara, sem sóknaraðili réð einhliða til að taka út aðstæður, engu um þessi atriði, enda er sú álitsgerð annmörkum háð, þar sem hún m.a. tiltekur það ekki sem ágalla á rotþrónum að þær séu ekki tengdar siturlögnum svo sem lög áskilja. Óumdeilt sé að heitavatnsfráveita var ekki í samræmi við lög og reglur, og af því hljótist tiltekin mengun. Aukinheldur hafi varnaraðila ítrekað borist tilkynningar um mengun á svæðinu.

 

Byggir varnaraðili á því að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi, þannig hafi aðilar á vegum varnaraðila tæmt rotþrær á staðnum og metið aðstæður í maí 2015, einnig hafi aðilar á vegum varnaraðila komið á staðinn síðar, m.a. sumarið 2017.

 

Þá byggir varnaraðili á því að andmælaréttur sóknaraðila hafi að fullu verið virtur, enda hafi honum sérstaklega verið tilkynnt um það bréfleiðis að hverjum hann gæti beint athugasemdum eða spurningum sem hann gerði á endanum, þótt þær hafi ekki breytt niðurstöðu málsins. Sóknaraðili hafi þannig raunverulega fengið færi á að kynna sér gögn, málsástæður og gera leiðréttingar, ítrekað í ferlinu og hafi gefist endurtekið færi á að koma að frekari upplýsingum líkt og hann hafi gert ítrekað. Þá vísar varnaraðili sérstaklega til þess að sóknaraðili hafi í engu sóst eftir að fá þær ákvarðanir um álagningu dagsekta sem um sé deilt í málinu, enduruppteknar, kært þær innan stjórnsýslunnar eða sóst á annan hátt eftir að fá þær ógiltar. Þetta hafi sóknaraðili látið hjá líða þrátt fyrir að honum hafi verið tilkynnt um það snemma árs 2017 að ekki yrði fallið frá innheimtu þegar álagðra dagsekta. Þegar af þessari ástæðu eigi að staðfesta fjárnámsgerð sýslumanns, þar sem það sé ekki sýslumanns að endurskoða hvort þörf sé á úrbótum í frárennslismálum, eða leggja mat á það hvernig frárennslislagnir skuli vera, heldur aðeins að meta hvort ákvarðanir varnaraðila hafi verið með lögformlegum hætti, eins og raunin hafi verið í þessu tilviki.

 

Að endingu er jafnframt á því byggt að jafnvel þó svo að niðurstaðan væri sú að betur hefði mátt standa að því að virða andmælarétt sóknaraðila, þá leiði brot á andmælarétti ekki endilega til ógildingar, nema brot á andmælarétti hafi haft áhrif á réttmæti hinnar endanlegu ákvörðunar. Svo hafi ekki háttað til í þessu tilviki.

 

Varnaraðili byggir á því að við meðferð málsins hafi á öllum stigum verið gætt að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Varnaraðili hafi fylgt sömu reglum í samskiptum við alla aðila á eftirlitssvæðinu og kannast hann ekki við að hafa leyft nokkrum aðilum að hafa frárennslismál í ólestri athugasemdalaust. Þrátt fyrir að það sé nýmæli að óskað sé eftir hönnunargögnum fyrir fráveitu þá sé á engan hátt um það að ræða að það sé brot á jafnræðisreglu að ný og vandaðri vinnubrögð hafi verið tekin upp, og auknar kröfur gerðar. Þvert á móti sé það eðlileg þróun að eftirlit batni og kallað sé eftir þeim gögnum sem á hverjum tíma sé eðlilegt að leggja fram. Í jafnræðisreglunni felist að tekið sé á sambærilegum málum með sambærilegum hætti. Það taki m.a. til þess að mál séu rekin í sama lagaumhverfi og á svipuðum tíma, séu afgreidd með sama hætti ef þau eru sambærileg. Það sé því eðlilegt að gera sömu kröfur til sóknaraðila við endurbætur nú, eins og gerðar séu til fráveitna sem verið sé að leggja við nýbyggingar í dag.

 

Byggir varnaraðili á því að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi verið gætt í hvívetna, og raunar hafi sóknaraðila verið gefnir frestir úr hófi fram, til úrbóta. Þannig hafi fyrst verið krafist úrbóta af hálfu sóknaraðila í júní 2015. Sóknaraðili hafi ekki brugðist við á neinn hátt fyrr en í mars 2016 að hann hafi sett sig í samband við varnaraðila og greint frá einhverjum vilja til að skoða það hvort farið yrði í úrbætur. Það hafi þó ekki verið fyrr en í maí 2017 að sóknaraðili hafi loks verið tilbúinn til að gera tímasetta áætlun um úrbætur, þ.e. hálfu ári eftir að dagsektir voru lagðar á. Deiliskipulagslýsing hafi síðan verið lögð fram í maí 2018 og sé nú með öllu óljóst hvenær skipulagsvinnu ljúki og framkvæmdir geti mögulega hafist, en úr því sem komið er yrði það að mati varnaraðila í fyrsta lagi á árinu 2019. Sé með öllu óásættanlegt að beðið sé í fjögur ár með úrbætur af þessu tagi. Breyti það engu um málsgrundvöllinn að B gæti samkvæmt þröngri undanþáguheimild leyft afrennsli í grjótpúkk við allt aðrar aðstæður en hér séu uppi, enda hafi hvorki verið sótt um slíkt, né það leyft. Loks sé ekki heldur unnt að fallast á að umsóknir sóknaraðila um breytingar á skipulagi og frekari uppbyggingu á svæðinu réttlæti það að honum sé þá ekki gert að fylgja gildandi lögum.

 

Kröfur varnaraðila eru sagðar byggjast á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10., 11., 12. og 13. gr., meginreglum stjórnsýslulaga, bráðabirgðaákvæði laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, og samþykkt um fráveitu í […] nr. 1014. Varðandi málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

VI.

Aðfarargerð þeirri sem hér er gerður ágreiningur um, lauk á skrifstofu sýslumanns föstudaginn 16. mars 2018. Mál þetta sætir því meðferð dómsins eftir ákvæðum 15. kafla laga um aðför nr. 90/1989 þótt hvorugur aðila hafi fjallað um málsmeðferð að þessu leyti í erindum sínum til dómsins. Kröfuskjal ásamt fylgigögnum barst dómnum 18. apríl 2018 og því vel innan þess frests sem settur er í 1. mgr. 92. gr. laganna.

 

Meginmálsástæða sóknaraðila, sem hann telur að leiða eigi til þess að aðfarargerð sýslumanns verði felld úr gildi, er sú að ákvörðun varnaraðila um beitingu dagsekta hafi verið ólögmæt. Ekki hafi verið lögmæt ástæða til að krefjast þess að sóknaraðili réðist í umfangsmiklar framkvæmdir á rotþróm á […] þar sem þær hafi verið í samræmi við reglur á þeim tíma. Auk þess heimili 17. gr. samþykktar […] um fráveitumál að láta frárennsli rotþróa renna í grjótpúkk.

 

Þessu til frekari stuðnings, þ.e. ólögmæti aðgerðarinnar, byggir sóknaraðili á því að meginreglur stjórnsýsluréttar, um rannsókn máls, meðalhóf, andmælarétt og jafnræði aðila, hafi ekki verið virtar.

 

Öllu þessu hefur varnaraðili hafnað, sbr. framangreint.

 

Gengið verður út frá því að sóknaraðili hafi samanber framangreint vísað máli þessu til dómsins samkvæmt heimild í   92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í 1. mgr. þeirrar greinar segir að aðilum að aðfarargerð sé heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um gerðina berist héraðsdómara krafa þess efnis innan átta vikna frá því gerðinni var lokið. Hvorki í 92. gr. né öðrum ákvæðum 15. kafla laga um aðför er að finna takmarkanir á því á hvaða málsástæðum aðilar geta byggt í málum sem rekin eru samkvæmt 15. kafla. Þá er í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til aðfararlaga að finna eftirfarandi skýringar á efni 92. gr.: „... er unnt að byggja þessar kröfur á hverju atriði sem er, sem varðar gerðina frá upphafi til enda eða efnislegt réttmæti kröfu gerðarbeiðanda, að því leyti sem dómstóll hefur ekki áður tekið afstöðu til málefnisins.“ Þykir því vafalaust að dómnum beri að taka afstöðu til þeirra málsástæðna aðila er varða efni og lögmæti ákvörðunar varnaraðila um dagsektir.

 

Eins og að framan greinir má rekja upphaf málsins til vinnu starfsmanna varnaraðila í maí 2015 við reglubundna tæmingu rotþróa en þá kom í ljós að ekki var hægt vegna frágangs að tæma eina af fimm rotþróm á athafnasvæði sóknaraðila þar sem hún var niðurgrafin, auk þess sem frárennsli frá annarri þró var talið í ólagi. Þá voru engar siturlagnir sjáanlegar við hús sóknaraðila í […] í […], en ekki hefur verið gerður ágreiningur um að slíkar lagnir eru ekki til staðar.

 

Vegna þessa var sóknaraðila sannanlega ritað bréf 10. júní 2015 þar sem greint var frá þessu og athugasemdir gerðar. Var strax þarna gerð krafa um að rotþrær við húsin yrðu endurnýjaðar og við þær tengdar siturlagnir. Frestur til úrbóta var veittur til 15. ágúst 2015. Í bréfinu var bent á að hefði varnaraðili athugasemdir eða fyrirspurnir vegna þessa gæti hann snúið sér til framkvæmdastjóra umhverfissviðs […].

 

Ekki verður séð að nokkur viðbrögð hafi borist áður en varnaraðili síðan ítrekaði erindi sitt með bréfi þremur mánuðum síðar eða 13. september. Þar voru úrbótakröfur ítrekaðar og sóknaraðila greint frá því að til stæði að leggja til við […] að lagðar yrðu á dagsektir. Sóknaraðila var bent á málskotsrétt til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, ef hann væri ósáttur við kröfur B.

 

Sóknaraðili kannast í greinargerð sinni við að hafa móttekið þessi erindi, þótt hann virðist koma af fjöllum í tölvuskeyti frá 17. mars 2016, sem eru fyrstu sjáanlegu viðbrögð við kröfum varnaraðila, en af gögnum málsins verður ráðið með skýrum hætti að sóknaraðili hafi engar athugasemdir gert eða haft uppi skýringar eða önnur andmæli fyrr en þar. Þetta tölvuskeyti var viðbragð við skeyti frá framkvæmdastjóra varnaraðila 11. mars það ár, en þar var óskað eftir upplýsingum um framkvæmdir við þrærnar og enn og aftur tilkynnt um fyrirhugaða álagningu dagsekta, en sagt að það yrði látið bíða ef tímasett úrbótaáætlun myndi berast áður.

 

Vegna málatilbúnaðar sóknaraðila áréttast að hvergi í þeim gögnum sem fara frá varnaraðila á þessu tímabili, þ.e. í undirbúningi að ákvörðun um dagsektir er byggt á því að ástæðan sé meint mengun, heldur sú ein að búnaður sé ófullnægjandi og óásættanlegur. Í framangreindu tölvuskeyti er þó minnst á að kvartanir hafi borist vegna mikils óþefs á svæðinu.

 

Eftir þetta gerist fátt en á fundi 22. september 2016 var svo tekin ákvörðun um álagningu dagsekta að fjárhæð 15.000 krónur og sóknaraðila tilkynnt ákvörðunin með bréfi daginn eftir. Ákveðið var að dagsektir myndu falla á frá og með 15. nóvember 2016. Aftur var bent á málskotsrétt sóknaraðila til úrskurðarnefndarinnar og greint frá því að málskotsfrestur væri einn mánuður. Frá því sóknaraðila var sannanlega tilkynnt um úrbótakröfur varnaraðila á hendur honum og þar til dagsektir skyldu leggjast á liðu því eitt ár og fimm mánuðir, sem var þá sá tími sem sóknaraðili hafði til úrbóta og andmæla.

 

Síðan er ekki tekin ákvörðun um innheimtu álagðra dagsekta fyrr en með bréfi 10. febrúar 2017.

 

Það er ekki fyrr en eftir álagningu og ákvörðun um innheimtu dagsekta sem greina má einhver markverð viðbrögð frá forsvarsmanni sóknaraðila. Þannig fékk hann pípulagningarmeistara til að taka rotþrærnar út og gerði í kjölfarið 10. maí 2017 tillögur um úrbætur, en ósannað verður að telja gegn neitun varnaraðila, að þetta hafi hann gert í samráði við B. Eftir þennan tíma hafa samskipti aðila falist fyrst og fremst í því að sóknaraðili hefur nefnt til einhvers konar úrbætur og varnaraðili hafnað þeim. Þar stendur meginágreiningur aðila um hvort svokallaðar siturlagnir verði settar upp við rotþrær hjá sóknaraðila eins og varnaraðili gerir kröfu um eða hvort dugi til að nýta aðrar lausnir og þá helst að í stað slíkra lagna verði látið sitja við grjótpúkk eins og fyrir er, einkum vegna þess að ekki hafi samkvæmt mælingum fundist teljandi mengun sem rekja megi til rotþróa í […].

 

Þá hefur sóknaraðili freistað þess að fá dagsektir niðurfelldar og úrbótakröfum slegið á frest með vísan til þess að hann hefur lagt fram tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið sem muni leiða til þess að gera þurfi gagngerar breytingar á fyrirkomulagi úrgangsmála. Þessu hefur sóknaraðili einnig hafnað og nefnt þar m.a. til sögunnar að tillögur og teikningar í þeim efnum þurfi samþykki byggingarnefndar.

 

Í fyrstu verður því slegið föstu að úrbótakröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila hafi verið réttmætar. Þannig verður að fallast á að sú staðreynd að umbúnaður einnar þróarinnar var þannig að ekki var hægt að tæma hana, hafi eðli máls samkvæmt kallað á viðbrögð, bæði eftirlitsaðila og eiganda og ábyrgðarmanns fyrir þrónni. Einnig taldi varnaraðili að hætta hafi verið á mengun vegna frágangs á svæðinu þótt ekki hafi verið byggt á því sérstaklega í fyrstu erindum til sóknaraðila. Önnur meginástæða fyrir umkvörtunum varnaraðila var sú að fráveitukerfið að […] hafi verið ófullnægjandi m.a. sökum þess að ekki eru til staðar svokallaðar siturlagnir við rotþrær sóknaraðila á svæðinu.

 

Í grein 13.3. í reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999, sem gildir fyrir landið allt, og sett er samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, einkum 5. gr. laganna og samkvæmt lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar, segir: „Fráveituvatn einstakra húsa, þ.m.t. íbúðarhús lögbýla, frístundahúsa og fjallaskála sem ekki verður veitt í fráveitur, skal veitt um rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum sem Hollustuvernd ríkisins gefur út og fyrirmælum heilbrigðisnefndar eða annan sambærilegan búnað.“ Í grein 13.2. segir að heilbrigðisnefnd á hverjum stað getur bannað notkun ófullnægjandi fráveitulagna og krafist endurbóta og endurnýjunar þeirra. Augljóst má vera að þessum ákvæðum og reglugerðinni í heild sem og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er ætlað að vernda brýna hagmuni almennings sbr. 1. gr. laganna þar sem segir í fyrri málslið að markmið laganna sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur svo fram það markmið sérstaklega hvað varðar skólp, að vernda almenning og umhverfið, einkum vatn og umhverfi þess, gegn mengun af völdum skólps. Einnig er það markmið að koma á samræmdri og kerfisbundinni söfnun, meðhöndlun og hreinsun skólps frá íbúðarbyggð, svo og hreinsun skólps frá tilteknum atvinnurekstri.

 

Sama meginreglan kemur fram í 17. gr. staðbundinnar samþykktar fyrir […] um fráveitumál nr. 1014/2010, þar sem segir að frárennsli frá rotþró skuli leitt um siturlögn. Sóknaraðili byggir á því að samkvæmt þessu ákvæði sé hægt að láta sitja við svokallað grjótpúkk og þá leið hafi varnaraðila borið að fara með vísan til meðalhófs. Á þetta verður ekki fallist. Umrætt ákvæði er bundið við tilhögun mála í […] en virðist ekki eiga sér beina skírskotun í framangreind lög og reglugerð. Mikilvægara í þessu sambandi er þó að ákvæðið er orðað þannig að um klára undantekningu sé að ræða og þessi lausn skuli ekki heimiluð nema ekki verði öðru við komið. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að sú staða sé uppi og ekki gert sjáanlega tilraun til þess. Hitt liggur fyrir að til þess að þetta komi til greina þarf væntanlega að berast umsókn til varnaraðila en ekkert liggur fyrir um að slík hafi litið dagsins ljós. Þessari málsástæðu sóknaraðila verður því hafnað en sú niðurstaða fær og stuðning af framangreindum meginreglum um tilhögun þessara mála.

 

Þá verður ekki fallist á að það dugi sóknaraðila að benda á að fráveitan hafi að hans sögn upphaflega verið sett upp í samræmi við reglur um fráveitur á byggingartíma. Fallist er á með varnaraðila að húseiganda beri á hverjum tíma að tryggja að fráveita frá eign sé fullnægjandi á hverjum tíma, þannig að komi fram nýjar kröfur sem byggja á rökstuddum og skynsamlegum sjónarmiðum eða eftir atvikum byggjast á nýrri og bættari tækni, sé heilbrigðiseftirliti heimilt að beina kröfum að eigendum fasteigna um að mál verði færð til betri vegar, eftir atvikum með hæfilegum fyrirvara. Þessi regla verður að mati dómsins byggð á þeim meginreglum sem birtast í framangreindum lögum og reglum settum á grundvelli þeirra. Þá verður talið að reglan endurspeglist líka í lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Með gagnályktun frá 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis laganna má sjá að sú takmörkun sem þar kemur fram og varðar eldra ástand tekur ekki til 12. gr. laganna sem varðar m.a. viðhald og skyldur húseigenda.

 

Af öllu framangreindu leiðir að varnaraðila var rétt og raunar skylt miðað við það hlutverk sem eftirlitið sinnir og hliðsjón af þeim hagsmunum sem varnaraðila ber að gæta, að krefja sóknaraðila um úrbætur þegar upp komst að fráveitukerfið væri ófullnægjandi.

 

-------

 

Það er meginregla þegar að andmælarétti kemur að það hvíli á aðila sjálfum að hafa frumkvæði að kynna sér gögn og tjá sig um mál. Ef sú staða er uppi að aðili hefur sannanlega vitneskju um að mál sem hann varðar er til umfjöllunar hjá stjórnvaldi þarf hann að bera sig eftir björginni ef þannig má að orði komast. Fyrir liggur í þessu máli að sóknaraðili vissi, svo til frá fyrsta degi, að mál sem varðaði kröfur um úrbætur á rotþróm í hans eigu og á hans ábyrgð var til meðferðar hjá varnaraðila. Sóknaraðili hafði næstum eitt og hálft ár til að koma andmælum sínum að eftir að málið hófst og þar til dagsektir voru lagðar á, en í máli þessu er eins og málið er lagt upp einungis fjallað um lögmæti þeirrar ákvörðunar að leggja í öndverðu dagsektir á sóknaraðila. Í málinu er þannig ekki til umfjöllunar hvort einhverjar aðgerðir sóknaraðila eftir að dagsektir voru álagðar eigi að leiða til þess að þær verði felldar niður, samkvæmt almennum sjónarmiðum sem gilda á stundum um dagsektir. Þá stóð sóknaraðila á tímabilinu til boða að skjóta ákvörðun um dagsektir til úrskurðarnefndar að lögum og/eða skjóta ákvörðuninni til dómstóla á fyrri stigum en hvorugt gerði hann.

 

Með vísan til framangreinds gangs málsins þ.e. frá upphafi þess og þar til dagsektir voru lagðar á verður að hafna því að andmælaréttur hafi verið brotinn á sóknaraðila. Hann hafði þvert á móti ótal tækifæri til að gæta að þessum rétti sínum, og reyndi sannanlega að gæta að hagsmunum sínum þótt það hafi verið nokkuð seint og um síðir. Þar verður ekki talið skipta máli að ákvörðun hafi eins og orðalag bréfsins frá 10. júní 2015 var, verið þegar tekin um að krefjast úrbóta þegar sóknaraðili fékk fyrsta formlega erindið frá varnaraðila. Samkvæmt því var veittur góður fyrirvari auk þess sem sóknaraðila var boðið sérstaklega að gera athugasemdir eða spyrjast nánar fyrir um málið. Í þessu sambandi verður einnig horft til eðlis þeirrar aðgerðar sem B vildi að ráðist yrði í og þeirra hagsmuna sem þar var freistað að gæta. Því verður alltént slegið föstu að ef sú staða hefur verið uppi að ákvörðun hafi í raun þegar verið tekin í einhverjum skilningi, þegar bréfið var sent 10. júní 2015, að þá geti það engin áhrif haft í málinu miðað við framangreint og atvik máls að öðru leyti, hvorki með afgerandi hætti á andmælarétt sóknaraðila eða gildi þeirrar ákvörðunar sem málið hverfist um.

 

Ekki verður heldur fallist á að rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin í tengslum við ákvörðun varnaraðila. Þótt hugsanleg hætta á mengun miðað við frágang fráveitumála hjá sóknaraðila hafi öðrum þræði verið til skoðunar á meðan málsmeðferð stóð yfir, þá var meint mengun ekki grundvallaratriði þegar kom að ákvörðun um álagningu dagsekta, þótt sýnt þyki eins og fyrr segir að varnaraðili hafi talið hættu getað stafað á mengun miðað við frágang fráveitukerfis. Því verður ekki séð að það hafi verið nauðsynleg ráðstöfun að rannsaka til hlítar meinta mengun vegna fráveitu sóknaraðila, áður en tekin var ákvörðun um úrbótakröfur og síðar dagsektir. Miðað við gögn málsins og forsendur fyrir álagningu dagsekta verður litið svo á að nægjanleg rannsókn hafi farið fram áður en ákvörðun var tekin. Vanbúnaður á fráveitumálum blasti þannig við um leið og fulltrúar sóknaraðila komu til þess að tæma rotþrær í maí 2015 og í þeim efnum varð engin breyting allt þar til dagsektir voru álagðar, a.m.k. liggja ekki fyrir gögn um slíkt. Ekki verður þannig séð að frekari heimsóknir og vettvangsrannsóknir fulltrúa sóknaraðila hafi þurft til að upplýsa ástand mála.

 

Þá verður að teljast ósannað að jafnræðisreglu hafi ekki verið gætt við ákvörðun varnaraðila. Þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu gefa að mati dómsins ekki tilefni til að líta svo á og ekki verður talið að þær áskoranir og bókanir sem fram hafa komið í málinu af hálfu sóknaraðila megni að varpa sönnunarbyrði um þetta atriði yfir á varnaraðila. Verður og horft til þess að alla jafnan verður stjórnvaldsákvörðun sem byggð er á lögmætum forsendum og er tekin með réttum hætti, ekki felld úr gildi þótt sýnt þyki að annar aðili eða jafnvel fleiri í sömu eða svipaðri stöðu hafi átölulaust komist upp með að ganga gegn lagafyrirmælum eða öðrum reglum.

 

Þá er ekki hægt að líta svo á að varnaraðili hafi ekki gætt meðalhófs. Þær úrbótakröfur sem farið var fram á byggja á stjórnvaldsfyrirmælum og ekki hefur verið sýnt fram á að svigrúm hafi verið til að beita undanþágu sem fram kemur í 17. gr. samþykktar um fráveitu í […] nr. 1014/2010, sbr. framangreinda umfjöllun. Hér er horft til þess að málið snýst um skort á búnaði, eða vanbúnað, sem krafist hefur verið sérstakra úrbóta á, af eða á, og ekki hefur verið sýnt fram á að aðrar lausnir hafi verið tækar sem gengu skemur, á þeim langa tíma sem meðferð málsins tók.

 

Ekki hefur verið gerður ágreiningur um að varnaraðili hefur heimild að uppfylltum skilyrðum laga og reglna til að leggja dagsektir eins og gert var. Þá heimild sækir varnaraðili til núgildandi 1. mgr. 61. gr. laga um hollustuhætti og  mengunarvarnir nr. 7/1998, áður 27. gr., sbr. það eftirlitshlutverk sem B er falið í núgildandi 47. gr. laganna sbr. áður 13. gr. fyrir gildistöku laga nr. 66/2017 um breytingu á lögunum.

 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að álagning og innheimta varnaraðila á dagsektum hafi verið ólögmæt, eða að við töku ákvarðana í málinu fram að álagningunni hafi einhverjar meginreglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð verið brotnar þannig að þessari ákvörðun varnaraðila verði haggað.

 

Eins og fyrr segir verður málatilbúnaður sóknaraðila skilinn þannig að mati dómsins að fyrst og fremst sé byggt á því að ákvörðun um álagningu dagsekta hafi í öndverðu verið ólögmæt. Varðandi það hvort ástæða hafi verið til, á seinni stigum eftir atvikum að fella niður dagsektir þá verður að mati dómsins ekki hægt að fallast á það m.v. framlögð gögn. Verður þannig litið svo á að þær aðgerðir sem sóknaraðili greip að lokum til, hafa ekki verið taldar bæta úr þeim kröfum sem varnaraðili hefur gert og hugmyndir sóknaraðila um nýtt deiliskipulag á svæðinu sem kalla muni á breytingar m.a. á fráveitukerfi megna ekki að mati dómsins að hafa áhrif á þegar tekna ákvörðun stjórnvaldsins, bæði gildir það almennt séð en aukinheldur í þessu máli vegna þess að ekkert liggur fyrir hvaða staða yrði uppi í þessum efnum yrði deiliskipulag samþykkt og áform myndu ganga í geng, auk þess sem afla yrði samþykkis viðeigandi yfirvalda. Hitt blasir og við að fjárnám hefur verið gerið gert í eign sóknaraðila til tryggingar álögðum dagsektum og innheimta þeirra þannig langt á veg kominn án þess að á þær hafi verið látið reyna á fyrri stigum og án þess að við úrbótakröfum hafi verið orðið með fullnægjandi hætti.

 

Því verður kröfum sóknaraðila í málinu hafnað.

 

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. en einkum 3. mgr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þykir óhjákvæmilegt að úrskurða sóknaraðila til að  greiða varnaraðila hluta af málskostnaði hans. Er þá einnig tekið tillit til umfjöllunar fyrir dómnum um kröfu sóknaraðila þess efnis að leidd skyldu fyrir dóm fjögur tilgreind vitni sbr. framangreint. Miðað við framlagða tímaskýrslu, eðli málsins og framangreinds verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 900.000 krónur í málskostnað.

 

Málið fluttu Sigurgeir Valsson lögmaður, fyrir sóknaraðila, og fyrir varnaraðila Sigríður Vilhjálmsdóttir lögmaður fyrir Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur lögmann.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kröfu sóknaraðila, […], um að felld verði úr gildi fjárnámsgerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. 0000-00000, sem fram fór […] að kröfu varnaraðila B, er hafnað og gerðin að kröfu varnaraðila staðfest.

 

Sóknaraðili greiði varnaraðila 900.000 krónur í málskostnað.