• Lykilorð:
  • Kyrrsetning
  • Stjórnvaldssektir
  • Tekjuskattur

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. ágúst 0018 í máli nr. K-6/2018:

A

(Hjördís Halldórsdóttir lögmaður)

gegn

Tollstjóra

(Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta hófst með kröfuskjali dagsettu 7. maí sl. sem barst dómnum sama dag. Sóknaraðili er A, [...], og varnaraðili er Tollstjóri, Tryggvagötu 19, 101 Reykjavík. Málið var tekið til úrskurðar eftir aðalmeðferð þess 6. júlí sl. Vegna sumarleyfa og manneklu féllst dómari á þá ósk lögmanns varnaraðila að úrskurður yrði ekki kveðinn upp fyrr en aðra viku í ágúst.

I.

Sóknaraðili krefst þess að kyrrsetningargerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, nr. [...]/2017, sem fram fór hjá sóknaraðila þann 19. desember 2017 að kröfu Tollstjóra, verði felld úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Til vara er þess krafist að fjárhæð kyrrsetningar á eignum sóknaraðila verði lækkuð verulega.

Jafnframt er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

II.

Rannsókn á skattskilum sóknaraðila vegna tekjuáranna 2010 til og með 2014 hófst með tilkynningu til sóknaraðila af hálfu embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins þann 18. janúar 2016.

Með bréfi 5. desember 2017 óskaði skattrannsóknarstjóri ríkisins eftir því við varnaraðila að embættið hlutaðist til um að eignir sóknaraðila yrðu kyrrsettar til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu og sektar að fjárhæð 82.000.000 kr., sbr. 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Þann 14. desember 2017 lagði varnaraðili fram kyrrsetningarbeiðni á hendur sóknaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem krafist var kyrrsetningar á tilteknum eignum til tryggingar væntanlegri kröfu ríkissjóðs að fjárhæð 82.000.000 kr. Varnaraðili óskaði einnig eftir því að gerðin færi fram án tafar og að sóknaraðili yrði ekki boðaður til gerðarinnar með vísun til 4. mgr. 8. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, sbr. 21. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók beiðnina fyrir þann 19. desember 2017 á skrifstofu sýslumannsins og var þar fallist á kyrrsetningarbeiðni varnaraðila þrátt fyrir mótmæli lögmanns sóknaraðila, sem beindust að því að um væri að ræða einfalda túlkun á tekjuskattslögum og handvömm löggilts endurskoðanda en ekki ásetning sóknaraðila.

Kyrrsettir voru eignarhlutir sóknaraðila í fasteigninni að [...], Reykjavík, vegna meintrar kröfu að fjárhæð 82.000.000 kr. Samkvæmt skattframtali 2016 nam heildarverðmæti eignarinnar samkvæmt fasteignamati 80.850.000 kr., þ.e. samtals eignarhlutir sóknaraðila og þáverandi eiginkonu hans. Hins vegar verður ekki annað ráðið en að einungis eignarhlutir sóknaraðila hafi verið kyrrsettir, og þá að andvirði 40.425.000 kr. þrátt fyrir ádrátt skattrannsóknarstjóra í bréfi til varnaraðila um að kyrrsettir yrðu einnig eignarhlutir eiginkonu sóknaraðila fyrir allt að 30.000.000 kr. vegna sameiginlegrar ábyrgðar hjóna á skattinum. Upplýsingar um annað liggja a.m.k. ekki fyrir í málinu.

Sóknaraðili óskaði eftir verðmati á eignarhlutnum sem kyrrsettur var en ákvað síðan að leggja matið ekki fram í málinu.

Sóknaraðili starfar sem [...]. Hefur hann að sögn, ásamt [...], fjárfest í kostnaðarsamri ráðgjöf sérfræðinga á sviði skattskila og endurskoðunar til að sjá um uppgjör sín og fjármál. Alla tíð kveðst hann hafa lagt áherslu á að rétt sé staðið að skattskilum hans og uppgjöri og hafi það komið honum verulega á óvart þegar skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn sína á skattskilum hans. Frá upphafi kveðst sóknaraðili hafa verið í góðri trú um að þeir sérfræðingar sem ráðnir höfðu verið til að sjá um skattskil hans og uppgjör stæðu að því með réttum hætti og hefði aldrei verið tilefni til að ætla annað en að rétt væri staðið að framtalsskilum hans og uppgjöri.

III.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð í skilningi 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 70. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944.

Í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila hafi verið farið fram á að sóknaraðila yrði ekki tilkynnt um gerðina fyrirfram með vísan til 4. mgr. 8. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, sbr. 21. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, þvert á almennan rétt gerðarþola. Þó að varnaraðili hafi ekki rökstutt, með neinum hætti, í kyrrsetningarbeiðni hvernig skilyrði framangreindra lagaákvæða væru uppfyllt, hafi sýslumaður fallist á þessa kröfu, einnig án alls rökstuðnings. Telur sóknaraðili að sýslumanni hafi borið að rökstyðja í kyrrsetningargerðinni á hvaða grundvelli skilyrði til þess að sóknaraðili yrði ekki boðaður til gerðarinnar væru uppfyllt.

 

Sóknaraðili telur svo virðast sem enginn reki hafi verið gerður að því að áætla virði hinna kyrrsettu fasteigna heldur virðist svo vera að sýslumaður hafi fallist á kyrrsetningu eignar sóknaraðila án þess að fyrir lægi hvort kyrrsetning hennar væri umfram þá kröfu sem gerð var. Telur sóknaraðili líkur vera á því að verðmæti þeirra eigna sem kyrrsettar voru sé umfram þá fjárhæð sem óskað var kyrrsetningar á. Í öllu falli sé það mat sóknaraðila að það sé verulega ámælisvert af sýslumanni að fallast á kyrrsetningarbeiðni án þess að reynt sé að áætla virði hinna kyrrsettu eigna, enda feli það í sér mikla hættu á því að kyrrsettar séu eignir umfram þá fjárhæð sem krafist er kyrrsetningar á.

Samkvæmt veðbandayfirliti fyrir fasteignina að [...], Reykjavík, kemur fram að á fasteigninni hvílir kvöð frá 11. júní 2013. Kveður hún á um að eignarhald eigenda fasteignarinnar skuli vera óraskað í fimm ár frá og með þeim degi, þ.e. til 11. júní 2018. Í þessu felist að fasteignirnar verði ekki framseldar beint eða óbeint og að réttindi annarra, svo sem veðréttindi, kaupréttur eða önnur takmörkuð eignarréttindi verði ekki stofnuð yfir eignunum án skriflegs samþykkis Seðlabanka Íslands. Þetta komi fram á veðbandayfirlitum sem varnaraðili hafi látið fylgja með kyrrsetningarbeiðni sinni. Það sé mat sóknaraðila að sýslumanni hafi borið að kanna hvort á fasteignunum hvíldu kvaðir sem girt gætu fyrir ráðstöfun sóknaraðila á framangreindum fasteignum við mat á því hvort nauðsynlegt væri að kyrrsetja eignarhlut sóknaraðila í framangreindri fasteign, og þá rökstyðja í kyrrsetningargerðinni hvers vegna nauðsynlegt hafi verið að kyrrsetja eignarhlut í fasteign sem bundin sé ráðstöfunarrétti með kvöð frá Seðlabanka Íslands.

Veðbandayfirlit yfir hina kyrrsettu fasteign að [...] hafi ekki fylgt með kyrrsetningarbeiðninni. Sýslumaður virðist þannig, að mati sóknaraðila, ekki hafa skoðað veðbandayfirlit eignarinnar og því kyrrsett eignarhlut sóknaraðila í framangreindri fasteign þrátt fyrir kvöðina frá Seðlabanka Íslands. Það sé mat sóknaraðila að sýslumanni beri, komi fram beiðni um kyrrsetningu eigna, að kanna veðbandayfirlit á þeim eignum sem óskað er kyrrsetningar á.

Það sé því byggt á því af hálfu sóknaraðila að slíkir annmarkar hafi verið á framkvæmd kyrrsetningargerðarinnar nr. [...]/2017 að fella beri kyrrsetninguna úr gildi.

Þá telur sóknaraðili að skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt séu ekki fyrir hendi.

Í framangreindu ákvæði komi fram að til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum sem sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sé heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila sé rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. laga nr. 90/2003, ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga.

Með lögum nr. 23/2010 hafi þessi heimild verið sett inn í tekjuskattslögin. Í lögskýringargögnum sé hnykkt á því að varnaraðili meti sjálfstætt hvort tilefni sé til að fara með kyrrsetningarbeiðni fyrir sýslumann að fenginni beiðni frá skattrannsóknarstjóra, og að kyrrsetning eigna sé íþyngjandi þvingunarúrræði sem beri að beita af sérstakri varúð. Þá hafi verið samþykkt breytingartillaga um að það nægði ekki að einungis væri til staðar „grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. laga um tekjuskatt“, heldur þyrfti sá grunur að vera rökstuddur. Hafi sú tillaga verið samþykkt og því sé áskilið að til staðar sé rökstuddur grunur.

Með lögum nr. 24/2011 hafi enn fremur verið gerð sú breyting á 6. mgr. 113. gr. tekjuskattslaga að áskilið sé að hin meinta refsiverða háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Heimild til kyrrsetningar samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 fáist einungis séu þrjú skilyrði samkvæmt ákvæðinu uppfyllt.

Í fyrsta lagi sé það skilyrði að um sé að ræða rökstuddan grun um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. laga nr. 90/2003, en í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila komi ekki fram á hvaða grundvelli hinn rökstuddi grunur byggist, heldur sé einungis vísað til mats skattrannsóknarstjóra. Er það því mat sóknaraðila að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt og að sýslumanni hafi borið að hafna beiðni varnaraðila um kyrrsetningu á þeim grundvelli.

Í öðru lagi þurfi að vera hætta á að eignum verði skotið undan, þær glatist eða rýrni að mun. Þetta skilyrði sé ekki uppfyllt. Í beiðni skattrannsóknarstjóra frá 5. desember 2017 þar sem óskað er eftir því að varnaraðili hlutist til um kyrrsetningu á eignum sóknaraðila sé því ekki lýst á nokkurn hátt hvað gefi tilefni til þess að ætla að eignum verði skotið undan, þær glatist eða rýrni að mun.

Að sama skapi sé enginn reki að því gerður í kyrrsetningarbeiðninni að rökstyðja hvaða hætta sé á undanskotum eigna. Í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila komi einungis fram að sóknaraðili eigi eignir. Það eitt sé ekki nægjanlegt að til staðar séu eignir heldur þurfi að vera raunveruleg hætta á undanskoti eigna. Varnaraðila beri, samkvæmt lögum, að meta sjálfstætt hvort tilefni sé til þess að óska kyrrsetningar. Feli sú krafa í sér að embættinu beri að rannsaka það hvort nauðsynlegt sé að óska kyrrsetningar og hversu mikið af eignum skuli kyrrsetja. Það verði að gera þá kröfu að þessari heimild sé beitt varlega og að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefji. Með hliðsjón af því að þessari heimild beri að beita af varúð og með hliðsjón af meðalhófsreglunni um að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er verði að telja að varnaraðila beri að rökstyðja ítarlega hvaða hætta sé á undanskoti eigna.

 

Sú skattrannsókn sem kyrrsetningarbeiðnin byggi á hafi verið í gangi frá byrjun árs 2016. Á þeim tíma hafi sóknaraðili ekki með neinum hætti gefið tilefni til þess að ætla að eignum yrði skotið undan eða að meðferð hans á þeim gæfi nokkurt tilefni til þess að ætla að þær myndu glatast eða rýrna verulega. Ekki hafi heldur orðið nein rýrnun á eignum sóknaraðila heldur þvert á móti. Undir rekstri rannsóknar skattrannsóknarstjóra hafi sóknaraðili verið samstarfsfús og veitt allar þær upplýsingar sem skattrannsóknarstjóri hefur talið nauðsynlegar. Það sé því ekkert tilefni til þess að ætla að sóknaraðili muni skjóta undan eignum eða að ætla að þær muni rýrna verulega.

Kyrrsetning eigna sé gríðarlega íþyngjandi inngrip í stjórnarskrárvarin eignarréttindi einstaklinga. Gæta þurfi hófs og að ekki sé gengið lengra en nauðsyn krefur. Það verði því að gera þá kröfu að stjórnvöld, sem hafi heimildir samkvæmt þröngum skilyrðum til kyrrsetningar eigna á grundvelli sérákvæða í skattalögum, rökstyðji hvers vegna slík kyrrsetning sé nauðsynleg og hvaða hætta sé á ferðum varðandi undanskot eigna.

Eins og fram sé komið séu kyrrsettir eignarhlutir sóknaraðila með áhvílandi kvöðum frá Seðlabanka Íslands, en samkvæmt þeim skal eignarhald sóknaraðila á eignunum vera óraskað í tiltekinn tíma. Þessar kvaðir girði, sbr. framangreint, fyrir það að sóknaraðili geti ráðstafað fasteignunum, veðsett þær eða stofnað til annarra óbeinna eignarréttinda yfir þeim. Af þessari ástæðu hafi sýslumaður átt að synja beiðni varnaraðila um kyrrsetningu á eignarhlut sóknaraðila í umræddum fasteignum enda engin leið fyrir sóknaraðila að ráðstafa fasteignunum, eða veðsetja þær, með nokkrum hætti án skriflegs leyfis Seðlabanka Íslands. Það hafi því, að mati sóknaraðila, engin þörf verið á kyrrsetningu á eignarhlut sóknaraðila í fasteignunum. Þvert á móti sé augljóst af þessum tilteknu kvöðum að sýslumanni hafi borið að hafna kyrrsetningarbeiðni varnaraðila á viðkomandi eignarhlutum.

Í þriðja lagi sé það áskilið að ætla megi að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Enginn rökstuðningur sé í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila fyrir því að hin meinta refsiverða háttsemi varði við 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af því að gerður sé sérstakur áskilnaður í 6. mgr. 113. gr. tekjuskattslaga um að heimild til kyrrsetningar gildi einungis ef ætluð brot eru talin varða við 262. gr. laga nr. 19/1940 telur sóknaraðili að það sé skilyrði að í kyrrsetningarbeiðni sé rökstutt hvers vegna ætluð brot eigi við framangreint ákvæði.

Ákvæðið áskilji að um ásetning eða stórfellt gáleysi sé að ræða. Hvorki sé um að ræða ásetning né stórfellt gáleysi í tilviki sóknaraðila. Fyrir liggi í rannsókn skattrannsóknarstjóra að sóknaraðili er [...] að atvinnu og hefur enga þekkingu á fjármálum eða fyrirtækjarekstri. Sóknaraðili hafi fjárfest í mjög kostnaðarsamri ráðgjöf sérfræðinga sem sáu um fjármál hans og skattskil. Sóknaraðili kveðst alla tíð hafa staðið í þeirri trú að skattskil hans og uppgjör væru í samræmi við lög og reglur og staðin væru skil á öllum opinberum sköttum og gjöldum. Aldrei hafi verið tilefni til þess að efast um að það væri raunin. Það liggi fyrir í rannsókn skattrannsóknarstjóra að hluti málsins snúist um mistök endurskoðanda sem sóknaraðili hafði greitt fyrir að sjá um uppgjör og skattskil fyrir sig. Hin meinta refsiverða háttsemi sóknaraðila geti því ekki fallið undir 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 þar sem háttsemi hans geti hvorki talist ásetningur né stórfellt gáleysi. Af þessu leiði að framangreint skilyrði í 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki uppfyllt.

Það sé meginregla að íþyngjandi ákvæði skattalaga skuli túlka með þröngum hætti og því sé ljóst að heimild 6. mgr. 113. gr. tekjuskattslaga verði ekki túlkuð með rýmri hætti en samkvæmt orðanna hljóðan.

Það er því afstaða sóknaraðila að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi borið að hafna kyrrsetningarbeiðni varnaraðila þar sem skilyrði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 séu ekki uppfyllt. Er þess því krafist að kyrrsetningargerð nr. [...]/2017 verði felld úr gildi og kyrrsetningu á eignum sóknaraðila aflétt. Til vara er þess krafist að fjárhæð kyrrsetningar á eignum sóknaraðila verði lækkuð verulega.

Krafa sóknaraðila er sögð byggjast á 9. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Vísað er til 109. gr. og 6.–10. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þá er vísað til 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Jafnframt er vísað til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er vísað til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Að sögn varnaraðila hefur skattrannsóknarstjóri rökstuddan grun um sóknaraðili hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi skv. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvor tveggja með áorðnum breytingum. 

Skattrannsóknarstjóri ríkisins telji að ætluð skattkrafa og sekt sóknaraðila vegna rangra skattskila muni verða 82.000.000 kr. og hefur því farið fram á að eignir hans verði kyrrsettar til tryggingar greiðslu þeirra. Málið sé enn til rannsóknar og því heimilt að krefjast kyrrsetningar, sbr. 6. mgr. 113. gr. tekjuskattslaga.

Varnaraðili annist rekstur kyrrsetningarmála vegna rannsókna á brotum á tekjuskattslögum, sbr. 7. mgr. 113. gr. laganna, og sé það mat varnaraðila að nauðsynlegt hafi verið að kyrrsetja eignir sóknaraðila til að koma í veg fyrir undanskot þeirra.

Varnaraðili telur þannig hættu á að eignir sóknaraðila rýrni og verði ekki til staðar við lok rannsóknar. Byggir matið einkum á því að um mjög háa fjárhæð sé að ræða og samkvæmt skattframtölum, þá nægi tekjur sóknaraðila ekki til þess að greiða kröfuna þegar hún liggur fyrir. Þá sé brotið sem sóknaraðili er grunaður um mjög alvarlegt þar sem það falli undir 262. gr. almennra hegningarlaga.

Þá verði til þess að líta að sóknaraðili hafi mikil tengsl við útlönd. Starfs síns vegna hafi hann stærstan hluta tekna sinna frá útlöndum í gegnum hlutdeild sína í félögum og þá eigi hann hlut í erlendum félögum sem séu tengd atvinnu hans. Hann sé hluthafi og stjórnarmaður í félaginu [...] í [...]og hluthafi í félaginu [...] sem sé félag í [...]. Sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir öllum þessum félögum á skattframtölum sínum, en þessar upplýsingar hafi komið fram undir rannsókn málsins hjá Skattrannsóknarstjóra.

Áður en fjármunir sóknaraðila hafi verið fluttir til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hafi þeir verið varðveittir erlendis. Í ljósi þess sé ekki ólíklegt að enn séu til staðar eignir erlendis sem innlendir kröfuhafar geti ekki gengið að. Sóknaraðili hafi slík tengsl við útlönd að hætta sé á að verðmæti verði flutt þangað sem innheimta muni reynast að mun erfiðari.

Sóknaraðili hafi flutt til [...] 2016 og því verði að telja að innheimta á hendur honum geti reynst mjög erfið ef ekki er til staðar fullnægjandi trygging fyrir greiðslu kröfunnar á Íslandi.

Þær eignir sem eru kyrrsettar hafi komist í eigu sóknaraðila á þeim árum sem eru undir rannsókn skattrannsóknarstjóra. Megi leiða að því líkur að þær hafi verið keyptar fyrir fé sem grunur leikur á að hafi ekki verið gefið upp til skatts með lögboðnum hætti. Rannsókn málsins sé umfangsmikil og nái til margra landa, því sé nauðsynlegt að tryggja að eignir verði til staðar og rýrni ekki á þeim tíma sem hún varir.

Varnaraðili lét kyrrsetja fasteign sóknaraðila. Þar sem sú fasteign sem kyrrsett var hafi eingöngu verið að helmingi í eigu varnaraðila sé því hafnað að kyrrsett hafi verið verðmæti umfram kröfufjárhæð. Ákveðið hafi verið m.t.t. hagsmuna sóknaraðila að ljúka gerðinni ekki með árangursleysi að hluta þótt skilyrði hafi verið til þess.

Á fasteign sóknaraðila hvíla kvaðir frá Seðlabanka Íslands vegna þátttöku sóknaraðila í fjárfestingarleið að losun gjaldeyrishafta. Áður en krafist var kyrrsetningar hafi verið kannað sérstaklega hvaða áhrif þessar kvaðir hafi á eignarstöðu sóknaraðila. Niðurstaða varnaraðila hafi verið sú að þrátt fyrir kvaðirnar sé hætta á því að eignir verði ekki til reiðu við lok rannsóknar skattrannsóknarstjóra. Þær kvaðir sem um ræðir hafi átt eftir skamman gildistíma en þær falli niður í apríl, júní og október 2018. Varnaraðili hafi talið ljóst að rannsókn brotanna yrði ekki lokið fyrir þann tíma þannig að fyrir lægi endurákvörðun á sköttum og eftir atvikum meðferð refsimáls fyrir dómi. Alþekkt sé að rannsókn og dómsmeðferð flókinna skattamála sem teygja sig út fyrir landamæri Íslands taki langan tíma og því sé nauðsynlegt að tryggja að eignir verði til staðar við lok rannsóknarinnar.

 

Þá séu fyrrnefndar kvaðir ekki fortakslausar. Varnaraðili hafi aflað sér upplýsinga um þær áður en ákveðið var að krefjast kyrrsetningar og hafi fengið þær upplýsingar að hægt væri að komast að samkomulagi við Seðlabanka Íslands um innlausn kvaðarinnar og fá henni aflétt gegn uppgjöri á hlutfallslegum ávinningi af þátttöku í fjárfestingarleiðinni. Hinar þinglýstu kvaðir séu því einar og sér ekki trygging fyrir því að eignir rýrni ekki.

Varnaraðili kveður það alkunnu að bráðbirgðagerðir fari iðulega fram án boðunar enda sé það í samræmi við eðli þeirra. Því sé mótmælt að slík framkvæmd sé ekki í samræmi við lög. Við gerðina hafi sóknaraðili notið aðstoðar lögmanns síns sem hafi gætt hagsmuna hans. Þá eigi hann rétt til þess að bera gerðina undir dómstóla og því njóti hann sanngjarnrar málsmeðferðar samkvæmt stjórnarskrárvörðum réttindum sínum.

V.

Samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er heimilt, til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim sem rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. sömu laga beinist að, ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Fram kemur í 7. mgr. sömu greinar að tollstjóri annist rekstur mála samkvæmt 6. mgr. og skuli skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynna tollstjóra um mál þar sem hann telur að rannsókn hans muni leiða til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim sem grunaðir eru um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. sömu laga verði gerð fésekt. Þá kemur fram í sömu málsgrein að um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt, með þeim undantekningum að tryggingu þurfi ekki að setja, mál þurfi ekki að höfða til staðfestingar á kyrrsetningu og gjöld skuli ekki greiða fyrir ráðstafanirnar. Tekið er fram í 9. mgr. sömu greinar að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála.

Ákvæði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 er sérstök regla um kyrrsetningu sem heimilar yfirvöldum að krefjast kyrrsetningar eigna í afmörkuðum tilvikum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur verður að líta svo á að ákvæðið sé sérregla sem gangi framar almennu kyrrsetningarheimildinni í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Það rennir styrkari stoðum undir þessa ályktun að í lokamálslið 7. mgr. 113. gr. er tekið fram að um „framkvæmd og gildi kyrrsetningar“ en ekki skilyrði kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt með þeim undantekningum sem þar greinir. Því verður litið svo á að sambærileg sjónarmið eigi við þegar kyrrsetning fer fram samkvæmt ákvæðinu og gilda þegar um kyrrsetningu ræðir samkvæmt 88. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en þar er heimild til kyrrsetningar veitt til að tryggja greiðslu sektar, sakarkostnaðar eða upptöku ávinnings sem aflað hefur verið með broti, sbr. og 9. mgr. 113. gr. sem vísar til laga nr. 88/2008. Um þau sjónarmið sem þá gilda má vísa til dóma Hæstaréttar í máli nr. 601/2013 frá 17. september 2013 og í máli nr. 73/2010.

-------

Fallist er á það, miðað við framlögð gögn málsins, að uppi sé rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi og að hún geti, eins og henni er lýst, varðað við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kemur þetta og skýrt fram í bréfi skattrannsóknarstjóra til varnaraðila frá 5. desember sl. þar sem óskað var atbeina varnaraðila til kyrrsetningar, en þar var jafnframt lýst þeim brotum sem sóknaraðili er grunaður um. Sú krafa verður eðli máls samkvæmt ekki gerð í málum sem þessum að fyrir liggi ótvíræð sönnun um refsiverða háttsemi eða að meint ásetningsstig eða saknæmisstig þess er grunaður er um undanskot hafi hér þýðingu. Enginn dómur verður því felldur hvað þetta varðar eða einhverjar þær ályktanir dregnar á þessum nótum sem komið geta í veg fyrir að gerðin standi.

-------

Sóknaraðili byggir á því að fella beri gerðina niður þar sem hann hafi ekki verið boðaður til hennar eins og skylt sé samkvæmt 21. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990. Engar af þeim undantekningum sem tilgreindar séu frá meginreglunni um tilkynningarskyldu í 3. mgr. 21. gr. eigi hér við.

Ekki verður þó betur séð en að gerðarbeiðandi, varnaraðili í máli þessu, hafi með ágætum rökum talið 2. tl. 3. mgr. 21. gr. eiga hér við, og vakið athygli sýslumanns á því, enda réttmæti kyrrsetningarbeiðninnar grundvallað beinlínis m.a. á því að hætta hafi verið á undanskotum eigna, sem hlýtur að falla undir það skilyrði 2. tl. að undanþága verði eftir atvikum veitt ef „hætta þykir á að gerðarþoli muni spilla fyrir aðför“. Eins og nánar verður fjallað um síðar verður litið svo á að þær eignir sem kyrrsettar voru séu þess eðlis að mjög auðvelt sé að skjóta þeim undan standi vilji til slíks, en það á ekki síður við um aðrar eignir skráðar á sóknaraðila sem þó var ákveðið að kyrrsetja ekki. Gerðarbeiðandi, varnaraðili þessa máls, stóð frammi fyrir meintri skattkröfu sem var umtalsvert hærri en sem nam verðmæti þeirra eigna sóknaraðila sem hann vissi að gætu staðið til tryggingar kröfunni. Sýslumaður féllst augljóslega á kröfu um að tilkynna ekki um fyrirhugaða gerð en um það á hann síðasta orðið við gerðina. Æskilegt hefði verið að tilgreina sérstaklega ástæðu þessa háttar í gerðabók en vöntun á því verður þó ekki talin hafa áhrif á gildi gerðarinnar, með hliðsjón af framangreindu og eðli málsins.

 

Þá er ekki óvarlegt að ætla, samkvæmt mati dómsins, að hér verði einnig vísað til 1. tl. 3. mgr. sem vísar til skattkrafna samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga. Þótt sú grein eigi, að því er virðist samkvæmt orðanna hljóðan, fremur við um álagðar og gjaldfallnar skattkröfur, sem þó verður samt ekki slegið hér föstu, verður að mati dómsins ákvæðinu að breyttu breytanda einnig beitt vegna skattkrafna sem yfirvöld telja ótvírætt að séu yfirvofandi. Væri enda tilvísun til 21. gr. annars marklaus að þessu leyti, þ.e. með tilliti til þess að í engu er getið um að 1. tl. 3. mgr. 21. gr. eigi ekki við kröfur eins og þær sem eru í farvatninu ef svo má segja samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, eða „væntanlegar skattkröfur“ eins og það er orðað. 

A.m.k. hefur það, að því er best verður séð, verið látið átölulaust í dómaframkvæmd að hafa þennan háttinn á við framkvæmd þessara mála, þ.e. að tilkynna gerðarþola ekki um væntanlega gerð. Lögmaður varnaraðila fullyrti reyndar fyrir dómi að aldrei væru sendar tilkynningar til gerðarþola vegna krafna sem þessara og vísaði þar einkum til eðlis krafnanna, án þess að þetta hafi sérstaka þýðingu við úrlausn þessa máls.

Hitt er óumdeilt að sóknaraðili hafði tök á því að kalla til lögmann sinn til að vera viðstaddur gerðina og gæta hagsmuna sinna, eins og raunin varð. Sú staðreynd kom væntanlega í veg fyrir að sóknaraðili gæti óskað eftir endurupptöku gerðarinnar á grundvelli 1. tl. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990.

Þá hefur gerðarþoli heimild til að bera lögmæti kyrrsetningar undir dómstóla, eins og hann hefur gert í þessu máli.

Á það er fallist með sóknaraðila að eins og lögin eru orðuð er það meginregla samkvæmt lögum um aðför sem gilda í þessum efnum við kyrrsetningargerð að boða skuli gerðarþola til gerðarinnar. Á hinn bóginn verður að fallast á að eðli þeirrar gerðar sem hér er fjallað um sé með þeim hætti að ekki hafi hvílt skylda á sýslumanni að boða sóknaraðila sérstaklega til gerðarinnar, sbr. framangreinda umfjöllun, og að einkum 2. tl. 3. mgr. 21. gr. hafi veitt sýslumanni heimild til að fallast á beiðni varnaraðila um undanþágu frá tilkynningarskyldu.

Sóknaraðili hefur bent á að hinir kyrrsettu eignarhlutir hans í fasteigninni við [...], Reykjavík, hafi verið undir kvöðum frá Seðlabanka Íslands, sbr. framangreint, og því hafi hann ekki getað ráðstafað þeim með skjótum hætti og einungis með ærnum tilkostnaði. Því hafi engin þörf verið á því að leyna sóknaraðila þeim áformum sem hafi verið uppi um gerðina, enda hafi varnaraðila verið kunnugt um kvaðirnar og hann kynnt sér réttaráhrif þeirra. Á þetta verður að fallast enda verður, miðað við gögn málsins, ekki betur séð en að umræddir eignarhlutir sem sannanlega voru á þessum tíma undir framangreindum kvöðum hafi verið eina andlag gerðarinnar.

Á hinn bóginn verður með vísan til framangreindra atriða, þ.e. einkum undanþágureglna 3. mgr. 21. gr. laga um aðför og þess að lögmaður sóknaraðila var viðstaddur gerðina, hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að skortur á tilkynningu til hans fyrirfram um að aðfararbeiðni yrði tekin fyrir samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga um aðför eigi að leiða til þess að gerðin verði felld úr gildi.

-------

Þá byggir sóknaraðili á því að sýslumaður hafi enga tilraun gert til að áætla virði hinna kyrrsettu eigna, heldur hafi án skoðunar samþykkt að kyrrsetja þær eignir sem varnaraðili hafi bent á.

Af endurriti úr gerðabók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 19. desember sl., þar sem framkvæmd gerðarinnar er lýst, má ráða að engar efasemdir hafi verið hafðar uppi af hálfu sóknaraðila eða lögmanns hans um verðmæti hinna kyrrsettu eigna andspænis meintri skattkröfu, eða að krafa hafi verið gerð um mat á virði eigna. Þótt það sé ekki fært til bókar eins og æskilegt hefði verið verður að ganga út frá því, þar sem annars er ekki getið, að sýslumaður hafi litið svo á að ákvæði 1. mgr. 38. gr. laga um aðför stæðu gerðinni ekki í vegi. Varnaraðili fullyrti reyndar við aðalmeðferð að í raun hefði gerðin verið árangurslaus að stórum hluta þótt henni hefði ekki verið lokið með þeim hætti með tilliti til sóknaraðila. Í því ljósi og vegna þeirra sjónarmiða sem geta vegið þungt í málum sem þessum er nokkuð bagalegt að varnaraðili gerir ekki með rökstuddum hætti grein fyrir verðmæti hins kyrrsetta nema með framlagningu á skattframtali sóknaraðila 2016 fyrir tekjuárið 2015. Af framtalinu má ráða að meint skattkrafa á hendur sóknaraðila sé allt að tvisvar sinnum hærri en verðmæti eignarhlutar hans í fasteigninni.

Vegna framangreindra sjónarmiða um nauðsyn mats við gerðina verður hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að það hafi áhrif á gildi gerðarinnar að ekki hafi farið fram formlegt mat á virði þeirra eignarhluta sem kyrrsettir voru. Það athugist í þessu sambandi að sóknaraðili lét sjálfur fara fram mat á virði eignanna undir rekstri þessa máls en kaus að leggja niðurstöðu þess ekki fram í málinu.

-------

Málsástæðu sóknaraðila sem byggð er á því að varnaraðili hafi ekki lagt sjálfstætt mat á það hvort ástæða væri til að krefjast kyrrsetningar en í staðinn byggt einvörðungu á sjónarmiðum skattrannsóknarstjóra verður að telja haldlausa. Stoð fyrir málsástæðunni sækir sóknaraðili til nefndarálits efnahags- og skattanefndar, sbr. þingskjal 868 á 138. löggjafarþingi. Dómurinn telur það eðli máls samkvæmt að þegar varnaraðila berst beiðni sem þessi leggi hann mat á það hvort ástæða sé til að fylgja henni eftir enda verður að telja ábyrgðina á tjóni sem gerðin gæti valdið sóknaraðila liggja hjá varnaraðila. Ekki verður þannig séð að gerð verði krafa um að varnaraðili rökstyðji það sérstaklega að hann telji nauðsynlegt að óska eftir kyrrsetningu í samræmi við beiðni skattrannsóknarstjóra, ef hann þá ljóslega hefur fallist á að sú beiðni sé réttmæt.

-------

Dómurinn verður að hafna því að það hafi þýðingu við úrlausn þessa máls að sóknaraðili hafi lagt allt sitt traust á endurskoðanda sinn, enda verið upptekinn við [...] og sjálfur haft litla þekkingu á framtals- og skattamálum. Þessi skipan, sem varnaraðili mótmælti í sjálfu sér ekki, gæti haft aðrar lögfylgjur með sér og úrræði fyrir sóknaraðila en getur ekki haft áhrif á kyrrsetninguna, enda ber sóknaraðili sjálfur ábyrgð á framtals- og skattskilum sínum, sbr. 2. mgr. 90. gr. og 1. mgr. 1. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

-------

Það er skilyrði fyrir kyrrsetningu samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga um tekjuskatt að hætta þyki á því, nái kyrrsetning ekki fram að ganga, að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Hvað þetta skilyrði áhrærir verður að telja nokkurn vafa leika á að því teljist fullnægt.

Ekki verður til að mynda fallist á að það dugi í þeim efnum að vísa til þess eins að ef til rannsóknar eru skattalagabrot, skattasniðganga, sé þessi hætta eðli málsins samkvæmt fyrir hendi, eins og varnaraðili byggir að hluta til á. Að aðili sem hafi orðið, að því er virðist, uppvís að skattsvikum sé líklegur til þess að freista þess að koma eignum undan. Ef litið væri svona á væri ákvæðið vafalaust orðað með öðrum hætti, þannig að mat á þessu skilyrði þyrfti ekki til hverju sinni því heimildin í 6. mgr. 113. gr. er enda bundin við skattalagabrot. Þá er það einnig svo að þótt um sé að ræða eignir sem mjög auðveldlega sé hægt að ráðstafa þannig að þær verði ekki til reiðu þegar raunveruleg skattskuld stofnast þá réttlætir það eitt ekki að mati dómsins að slíkar eignir verði kyrrsettar, þótt svo virðist sem eitthvað sé slegið af kröfum undir slíkum kringumstæðum, sbr. til dæmis orðalag í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 73/2010.

Augljóst er þannig að mati dómsins að fram þarf að fara heildstætt mat hverju sinni á því hvort hætta á undanskotum eða rýrnun verðmæta sé fyrir hendi. 

Samkvæmt gögnum málsins eru kvaðir þær sem eignarhlutur sóknaraðila í [...] voru undirseldar ekki lengur til staðar og sóknaraðili því ekki lengur með bundnar hendur að hluta varðandi ráðstöfun þeirra.

Engar sjáanlegar breytingar hafa orðið á eignastöðu sóknaraðila hér á landi undanfarin ár, að því er best verður séð, nema til aukningar. Varnaraðili hefur enda enga tilraun gert til að halda slíku fram eða á því byggt. Slíkar tilfærslur geta því ekki orðið grundvöllur þess að ætla að hætta hafi skapast á undanskotum eða rýrnun eigna.

Af dómum Hæstaréttar verður á hinn bóginn ráðið að eignatilfærslur fyrir kyrrsetningargerð þurfi ekki til svo að skilyrðinu teljist vera fullnægt. Í dómi réttarins í máli nr. 73/2010, sem varðaði reyndar kyrrsetningu á grundvelli 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, var komist að þeirri niðurstöðu að við mat á skilyrðinu yrði litið til eðlis þeirra eigna sem kyrrsettar væru, fjárhæðar þeirrar kröfu sem reynt væri að tryggja og hvort aðrar eignir væru til staðar sem tryggt gætu fullnustu. Í máli nr. 385/2015, sem varðaði einnig kyrrsetningu samkvæmt lögum um meðferð sakamála, þar sem hafnað var afléttingu kyrrsetningar, verður ekki séð að um eignatilfærslur hafi verið að ræða heldur var meint skattkrafa mun hærri en sem nam verðmæti kyrrsettra eigna, þ.á.m. fasteigna. Dómurinn telur ekki óvarlegt að miða við að sömu skilyrði skuli gilda þegar um kyrrsetningu samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 ræðir, sbr. framangreinda umfjöllun.

Í máli þessu er meint skattkrafa talin nema 82.000.000 króna. Kyrrsettir eignarhlutir í [...] eru samkvæmt fasteignamati að verðmæti 40.425.000 kr. Telur varnaraðili að sóknaraðili hafi hér verið látinn njóta vafans um verðmæti eignanna og það sé síst metið of lágt. Þá hefur sóknaraðili ekki lagt fram gögn eða gert það með öðrum hætti sennilegt að verðmæti eignanna sé meira en það sem varnaraðili leggur til grundvallar. Í því sambandi athugist að verðmat sem sóknaraðili lét gera á umræddum eignum undir rekstri málsins var ekki lagt fram, eins og áður sagði.

Því verður lagt til grundvallar að meint skattkrafa virðist vera umtalsvert hærri en verðmæti þeirra eigna sem kyrrsettar voru. Þá hefur engin tilraun verið gerð af hálfu sóknaraðila til að sýna fram á að hann eigi frekari eignir sem gætu tryggt kröfuna. Varnaraðili hefur bent á að eitthvað af hinum kyrrsettu eignum hafi verið fjármagnað með peningum sem hafi verið fluttir til landsins á grundvelli fjármögnunarleiðar Seðlabanka Íslands, sbr. þær kvaðir sem hvíldu á hluta fasteigna sóknaraðila, og ekki sé útilokað að sóknaraðili eigi frekari eignir í útlöndum sem standi kröfuhöfum hér á landi ekki til boða. Um þetta verður engu slegið föstu eðli máls samkvæmt, en eftir stendur, eins og áður sagði, að sóknaraðili hefur enga grein gert fyrir frekari eignum. Þá verður gengið út frá því að hinar kyrrsettu eignir séu þess eðlis að mjög auðvelt sé að koma þeim undan ef ásetningur skyldi vakna til slíks. Að endingu verður ekki horft fram hjá því að sóknaraðili er nú búsettur erlendis en það getur leitt til þess að innheimta á meintri skattkröfu og eftir atvikum sektum reynist mun örðugri en ella. Samkvæmt heildstæðu mati verður því að líta svo á að hætta geti verið á undanskotum eigna eða þá að þær geti rýrnað og möguleiki til fullnustu þannig skerst.

-------

Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn óhjákvæmilegt að líta svo á að fullnægt sé skilyrðum 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt til að fram fari kyrrsetning í eignum sóknaraðila til tryggingar væntanlegri skattkröfu, fésekt og sakarkostnaði sem hlotist geti af téðri rannsókn skattrannsóknarstjóra.

Dómurinn telur ósannað og vanreifað hvernig brotinn hafi verið réttur á sóknaraðila sem hann nýtur á grundvelli 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 70. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, til réttlátrar málsmeðferðar.

Varakrafa sóknaraðila er að mati dómsins vanreifuð og dómurinn telur ekki heldur neitt benda til þess í málinu að verðmæti hinna kyrrsettu eigna sé umfram meinta skattkröfu, sbr. framangreint, og verður því kröfunni hafnað.

Verður því ekki hróflað við kyrrsetningu sýslumanns í málinu nr. [...]/2017.

Varnaraðili hefur ekki gert kröfu um málskostnað og verður hann ekki úrskurðaður.

Hjördís Halldórsdóttir lögmaður flutti málið fyrir sóknaraðila og Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir lögmaður fyrir varnaraðila.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila, A, þess efnis að kyrrsetningargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli nr. [...]/2017, Tollstjóri gegn A, verði felld úr gildi eða henni breytt, er hafnað.

Lárentsínus Kristjánsson (sign.)