• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Fyrning
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 13. mars 2018 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 4. febrúar sl. Stefnandi er Vilhjálmur Valdimarsson, Fróðengi 5, Reykjavík. Stefndi er Hallur Vilhjálmsson, Einholti 12, Reykjavík.

            Endanleg aðalkrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 13.562.829 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 8.762.829 kr. frá 5. október 2005 til 31. janúar 2014, en af 13.262.829 kr. frá þeim degi til 28. febrúar 2014, en af 13.362.829 kr. frá þeim degi til 31. mars 2014, en af 13.462.829 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2014, en af 13.562.829 kr. frá þeim degi til 31. maí 2014, en af 13.662.829 kr. frá þeim degi til 30. júní 2014, en af 13.762.829 kr. frá þeim degi til 31. júlí 2014, en af 13.862.829 kr. frá þeim degi til 31. ágúst 2014, en af 13.962.829 kr. frá þeim degi til 30. september 2014, en af 14.062.829 kr. frá þeim degi til 31. október 2014, en af 14.162.829 kr. frá þeim degi til til 30. nóvember 2014, en af 14.262.829 kr. frá þeim degi til 31. desember 2014, en af 14.362.829 kr. frá þeim degi til 31. janúar 2015, en af 14.462.829 kr. frá þeim degi til 28. febrúar 2015, en af 14.562.829 kr. frá þeim degi til 31. mars 2015, en af 14.662.829 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2015, en af 14.762.829 kr. frá þeim degi til 31. maí 2015, en af 14.862.829 kr. frá þeim degi til 30. júní 2015, en af 14.962.829 kr. frá þeim degi til 31. júlí 2015, en af 15.062.829 kr. frá þeim degi til 31. ágúst 2015, en af 15.162.829 kr. frá þeim degi til 30. september 2015, en af 15.262.829 kr. frá þeim degi til 31. október 2015, en af 15.362.829 kr. frá þeim degi til 30. nóvember 2015, en af 15.462.829 kr. frá þeim degi til 31. desember 2015, en af 15.562.829 kr. frá þeim degi til 31. janúar 2016, en af 15.662.829 kr. frá þeim degi til 29. febrúar 2016, en af 15.762.829 kr. frá þeim degi til 31. mars 2016, en af 15.862.829 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2016, en af 15.962.829 kr. frá þeim degi til 31. maí 2016, en af 16.062.829 kr. frá þeim degi til 30. júní 2016, en af 16.162.829 kr. frá þeim degi til 31. júlí 2016, en af 16.262.829 kr. frá þeim degi til 31. ágúst 2016, en af 16.362.829 kr. frá þeim degi til 30.09.2016, en af 16.462.829 kr. frá þeim degi til 31. október 2016, en af 16.562.829 kr. frá þeim degi til 30. nóvember 2016, en af 16.662.829 kr. frá þeim degi til 31. desember 2016, en af 16.762.829 kr. frá þeim degi til 31. janúar 2017, en af 16.862.829 kr. frá þeim degi til 28. febrúar 2017, en af 16.962.829 kr. frá þeim degi til 31. mars 2017, en af 17.062.829 kr. frá þeim degi til 30. apríl 2017, en af 17.162.829 kr. frá þeim degi til 31. maí 2017, en af 17.262.829 kr. frá þeim degi til 30. júní 2017, en af 17.362.829 kr. frá þeim degi til 31. júlí 2017, en af 17.462.829 kr. frá þeim degi til 31. ágúst 2017, en af 17.562.829 kr. frá þeim degi til 30. september 2017, en af 17.662.829 kr. frá þeim degi til 31. október 2017, en af 17.762.829 kr. frá þeim degi til 30. nóvember 2017, en af 17.862.829 kr. frá þeim degi til 31. desember 2017, en af 17.962.829 kr. frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 10. nóvember 2005 að upphæð 20.000 kr., þann 2. desember 2005 að upphæð 25.000 kr., þann 10. mars 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 12. apríl 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 15. maí 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 14. júlí 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 11. ágúst 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 14. september 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 16. október 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 19. október 2006 að upphæð 20.000 kr., þann 12. janúar 2007 að upphæð 20.000 kr., þann 19. febrúar 2007 að upphæð 20.000 kr., þann 11. júlí 2007 að upphæð 15.000 kr., þann 8. október 2007 að upphæð 20.000 kr., þann 25. ágúst 2008 að upphæð 20.000 kr., þann 2. september 2008 að upphæð 20.000, þann 10. nóvember 2008 að upphæð 20.000 kr., þann 8. janúar 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 1. febrúar 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 11. febrúar 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 10. mars 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 4. maí 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 23. júní 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 9. júlí 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 1. september 2009 að upphæð 20.000 kr., 1. október 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 2. nóvember 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 1. desember 2009 að að upphæð 30.000 kr., þann 30. desember 2009 að upphæð 20.000 kr., þann 1. febrúar 2010 að upphæð 20.000 kr., þann 1. mars 2010 að upphæð 20.000 kr., þann 6. apríl 2010 að upphæð 20.000 kr., þann 3. maí 2010 að upphæð 20.000 kr., þann 1. júní 2010 að upphæð 20.000 kr., þann 1. júlí 2010 að upphæð 20.000 kr., þann 15. október 2010 að upphæð 58.622 kr., þann 1. desember 2013 að upphæð 100.000 kr., þann 3. maí 2016 að upphæð 100.000 kr., þann 3. maí 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 31. maí 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 3. júlí 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 2. ágúst 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 4. september 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 2. október 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 3. nóvember 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 4. desember 2017 að upphæð 100.000 kr., þann 3. janúar 2018 að upphæð 100.000 kr., þann 2. febrúar 2018 að upphæð 100.000 kr., og þann 1. mars 2018 að upphæð kr. 100.000 kr. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum lægri fjárhæð að mati dómsins með sömu dráttarvöxtum og í aðalkröfu. Hann krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

            Í málinu deila aðilar, sem eru feðgar, um ætlaðar skuldir stefnda við stefnanda yfir lengri tíma. Í fyrsta lagi er deilt um hvort stefnandi hafi lánað stefnanda 8.762.829 krónur samhliða því að stefnandi tók 11.000.000 króna lán hjá Landsbanka Íslands hf. með útgáfu veðskuldabréfs 5. október 2005 og greiddi upp allar veðskuldir áhvílandi á fasteign sinni að Lindarbraut 2, Seltjarnarnesi, þar með talið veðskuldabréf útgefin af stefnda og þáverandi eiginkonu hans sem hvíldu á eigninni auk skuldar þeirra samkvæmt óveðtryggðu skuldabréfi. Í annan stað lýtur ágreiningur aðila að greiðslum stefnda samkvæmt yfirlýsingu 31. ágúst 2010 þar sem hann skuldbatt sig til að greiða stefnanda 100.000 krónur á mánuði fram að andláti hans „vegna leiguskuldar við hann“. Málið var upphaflega einnig höfðað gegn stefnda til greiðslu 4.400.000 króna samkvæmt „skuldaviðurkenningu“, sem einnig var undirrituð af stefnda 31. ágúst 2010, þar sem stefndi lýsti því yfir að hann skuldaði stefnanda 4.400.000 krónur vegna kaupa á fasteigninni að Lindarbraut 2 af stefnanda. Eftir höfðun málsins greiddi stefndi stefnanda umrædda fjárhæð og við munnlegan flutning málsins lækkaði stefnandi höfuðstól kröfu sinnar sem nam fjárhæðinni. Er því hvorki deilt um skyldu stefnda til greiðslu þessarar fjárhæðar né dráttarvexti af þessum hluta kröfu stefnanda. Verulegur ágreiningur er með aðilum um atvik málsins.

            Óumdeilt er í málinu að stefnandi og þáverandi eiginkona hans, móðir stefnda, heimiluðu honum á árinu 1997 og 2003 að taka lán með veði í fasteign þeirra að Lindarbraut 2, Seltjarnarnesi. Samkvæmt þinglýsingarvottorði útgefnu 30. nóvember 2004 hvíldu meðal annars á umræddri fasteign tvö veðskuldabréf sem gefin voru út af stefnda og þáverandi eiginkonu hans. Nánar tiltekið var þar um að ræða veðskuldabréf gefið út til Lífeyrissjóðs verslunarmanna að fjárhæð 1.500.000, á 1. veðrétti fasteignarinnar, undirritað af þáverandi eiginkonu stefnda og veðskuldabréf útgefið til Sameinaða lífeyrissjóðsins að fjárhæð 5.200.000 krónur, á þriðja veðrétti, undirritað af stefnda. Í málinu hefur stefnandi lagt fram endurrit beiðni Sameinaða lífeyrissjóðsins 25. nóvember 2004 um nauðungarsölu sem ber með sér að vera vegna vanskila fyrrgreinds veðskuldabréfs að fjárhæð 5.200.000 krónur.

            Í stefnu er því lýst að vegna vanskila stefnda á láninu og framkominnar beiðni um nauðungarsölu hafi þurft að leysa málið skjótt svo að stefnandi og þáverandi eiginkona hans yrðu ekki húsnæðislaus. Hafi stefnandi og stefndi gert samkomulag um að stefnandi tæki nýtt 11.000.000 króna lán til að greiða upp fyrrgreind lán stefnda og eiginkonu hans og stefndi myndi endurgreiða stefnanda lánið þegar tekjur hans ykjust. Af hálfu stefnda er því mótmælt að slíkur samningur hafi verið gerður og meðal annars vísað til þess að tíðkanlegt sé að foreldrar komi börnum sínum til aðstoðar án þess að um sé að ræða lán með þeim endurgreiðslukjörum sem stefnandi vísi til. Stefndi mótmælir einnig lýsingu stefnanda á aðdraganda þess að stefnandi tók umrætt lán að fjárhæð 11.000.000 krónur og jafnframt vísað til þess að sú fjárhæð hafi verið umfram þær skuldir hans sem hvíldu á eigninni.

            Stefnandi hefur lagt fram gögn úr viðskiptabanka sínum sem hann telur sýna að hann hafi hinn 5. október 2010 greitt upp umrætt lán hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum með 5.783.347 krónum, lán hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna með 1.839.482 krónum og einnig óveðtryggt lán stefnda og eiginkonu hans hjá Landsbanka Íslands hf. með 1.140.000 krónum. Samtals hafi stefnandi því innt 8.762.829 krónur af hendi til greiðslu lána stefnda og þáverandi eiginkonu hans.

            Í stefnu er greint frá því að á fyrsta gjalddaga veðskuldabréfs stefnanda hafi stefndi upplýst að hann gæti ekki staðið undir fullum greiðslum af láninu. Af því tilefni hafi verið haldinn fjölskyldufundur sem samanstóð af stefnanda, konu hans og börnum þeirra, þ. á m. stefnda, og hafi þar verið komist að samkomulagi um að systkinin millifærðu inn á bankareikning stefnanda misháar fjárhæðir sem samtals nægðu til greiðslu af láninu. Í málinu liggur fyrir ódagsett undirrituð yfirlýsing stefnda þar sem hann lýsir því yfir að hann ábyrgist hluta af mánaðarlegum greiðslum af láni sem hvíli á íbúð foreldra hans að Lindarbraut 2. Í stefnu segir að í kjölfar þessa samkomulags, þ.e. frá og með 4. nóvember 2005 til og með 27. desember 2010, hafi systkini stefnda mánaðarlega millifært inn á reikning stefnanda og greitt samtals 2.200.000 krónur í afborganir af láninu. Samkvæmt sundurliðun stefnanda á kröfu sinni greiddi stefndi stefnanda með sama hætti 20.000 krónur mánaðarlega, með örfáum undantekningum, frá og með 10. nóvember 2005 til 1. júlí 2007.

            Með kaupsamningi 5. júlí 2010 keypti stefndi fyrrgreinda fasteign af stefnanda. Samkvæmt kaupsamningi greiddi stefndi fyrir eignina með því að taka yfir umrædda veðskuld við Landsbanka Íslands hf. sem þar var tilgreind 15.581.261 króna, en ekki voru aðrar skuldir áhvílandi á eigninni. Ekki er um það deilt að vegna kaupanna gaf stefnandi einnig út 31. ágúst 2010 skuldaviðurkenningu til stefnanda fyrir 4.400.000 krónum auk þess að skuldbinda sig, með annarri yfirlýsingu útgefinni sama dag, til að greiða stefnanda 100.000 krónur á mánuði fram að andláti hans. Í stefnu er aðdraganda kaupanna lýst svo að ljóst hafi verið að stefnandi og eiginkona hans, sem þá hafi verið farin að reskjast, hafi þurft að flytja í „öryggisíbúð“ en stefnandi hafi ekki verið í aðstöðu til þess að greiða lánið upp eða fá það flutt á aðra fasteign. Þá hafi afborganir af áhvílandi veðláni verið farnar að sliga stefnanda. Skýrslum fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar saman um að frumkvæði að kaupsamningnum hefði verið hjá stefnanda og tilteknum systkinum stefnda. Í stefnu segir einnig að fasteignaverð á árinu 2010 hafi verið verulega lágt og „eigið fé fasteignarinnar ekki mikið ef stefnandi hefði selt fasteignina árið 2010 sökum hárrar veðsetningar“. Afsal var gefið út 27. desember 2010.

            Í stefnu er áframhaldandi atvikum málsins lýst á þá leið að stefndi hafi greitt stefnanda 100.000 krónur 1. desember 2013, sem hafi verið ráðstafað að hálfu til greiðslu á láninu frá 2005 og að hálfu „sem innborgun inn á skuldaviðurkenninguna“. Hinn 3. maí 2016 hafi stefnandi greitt sömu fjárhæð sem ráðstafað hafi verið á sama hátt. Frá og með 3. maí 2017 hafi stefndi millifært mánaðarlega umrædda fjárhæð á reikning stefnanda. Hafi þeim greiðslum einnig verið ráðstafað á sama hátt.

            Af hálfu stefnda er lýsingu stefnanda á greiðslum hans samkvæmt framangreindu samkomulagi eindregið mótmælt. Í greinargerð stefnda segir að stefnandi hafi innt fyrstu greiðsluna af hendi 2. nóvember 2010. Þá kom fram í aðilaskýrslu stefnda að hann hefði innt greiðslur af hendi til stefnanda mánaðarlega upp frá því með örfáum undantekningum og þá með samþykki stefnanda sem fallið hafi frá greiðslu, t.d. í kringum jól. Samkvæmt ósk stefnanda hafi greiðslurnar farið þannig fram að stefndi afhenti stefnanda þær í reiðufé og hafi þeim greiðsluhætti ekki verið breytt fyrr en stefnandi hafi farið að halda því fram að stefndi vanefndi skyldur sínar. Stefndi hefur lagt fram gögn um bankareikninga sína sem sýna að hann, eða eiginkona hans, hafi mánaðarlega tekið út samanlagt 100.000 krónur í reiðufé.

            Í stefnu og greinargerð er rakin sala stefnanda á fasteigninni að Lindarbraut 2 á árinu 2017 og ágreiningur innan fjölskyldu málsaðila um skiptingu ætlaðs söluhagnaðar stefnda vegna sölunnar. Með hliðsjón af því að þessi ágreiningur hefur ekki þýðingu fyrir úrlausn sakarefnis málsins þykir ekki ástæða til að rekja atvik þar að lútandi sérstaklega eða bréfaskipti af hálfu málsaðila vegna þeirra.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslur fyrir dómi. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Ólöf Ananíasdóttir, fyrrverandi eiginkona stefnda, og Guðrún Vilhjálmsdóttir, systir stefnda og dóttir stefnanda.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi vísar til þess að krafa hans sé tvískipt og byggi á tveimur heimildarskjölum. Annars vegar hafi stefnandi lánað stefnda 8.762.829 krónur 5. október 2005. Þeir fjármunir hafi verið nýttir til að greiða upp tvö veðskuldabréf og eitt skuldabréf sem stefndi og þáverandi eiginkona hans voru skuldarar að og þinglýst var á fasteign stefnanda. Stefndi hafi greitt margvíslegar innborganir inn á lánið frá árinu 2005-2010 og svo innborgun 1. desember 2013 að fjárhæð100.000 krónur sem ráðstafað hafi verið að hluta inn á fyrrgreinda skuld. Jafnframt hafi stefndi innt af hendi aðrar greiðslur að fjárhæð 100.000 krónur svo sem áður er lýst og þeim greiðslum verið ráðstafað með sama hætti.

            Hins vegar hafi stefndi undirritað yfirlýsingu 31. ágúst 2010 þar sem hann skuldbatt sig til að greiða stefnanda 100.000 krónur á mánuði fram að andláti hans. Þeim greiðslum sem stefndi hafi innt af hendi hafi verið ráðstafað að hálfu til greiðslu á láninu frá 2005 og að hálfu sem innborgun á skuldaviðurkenninguna. Af þeim sökum hafi stefndi vanefnt að greiða 100.000 samkvæmt yfirlýsingunni frá upphafi, en eingöngu sé þó krafist efnda síðastliðinna fjögurra ára eða frá 1. febrúar 2014 til 1. janúar 2018. Varakrafa stefnanda byggist á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkrafan.

            Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái meðal annars lagastoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Jafnframt er vísað til meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og loforða. Einnig er byggt á lögum 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og V. kafla laga nr. 38/2001.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi eigi enga kröfu á hendur stefnda í þá veru sem lýst er í stefnu. Grundvöllur kröfu stefnanda sé enginn og með öllu óljóst hvernig stefndi eigi að hafa stofnað til meintrar skuldbindingar gagnvart stefnanda. Málatilbúnaður stefnanda og rökstuðningur á grundvelli meintrar kröfu hans á hendur stefnda hafi tekið breytingum og upphaflega byggst á því að fasteigninni að Lindabraut 2 hefði einungis verið afsalað til málamynda til stefnda og hann því krafinn um söluhagnað vegna sölu eignarinnar árið 2017. Málsókn stefnanda nú sé hins vegar byggð á skuld stefnda sem eigi rætur að rekja til ársins 2005 en fullyrðing stefnanda þar að lútandi standist ekki skoðun af fleiri ástæðum.

            Stefndi vísar til þess að hann og stefnandi hafi átt í viðskiptum með fasteign á árinu 2010 og hafi allar kröfur vegna þeirra viðskipta verið gerðar upp. Við kaupin hafi stefndi yfirtekið áhvílandi veðskuldir að fjárhæð 15.581.261 krónu og skuldbundið sig til að greiða stefnanda 100.000 krónur á mánuði fram að andláti hans. Hafi stefndi þegar greitt stefnanda samtals 9.000.000 króna á grundvelli yfirlýsingarinnar. Að lokum hafi stefndi gefið út skuldaviðurkenningu að fjárhæð 4.400.000 krónur. Framangreindir gerningar feli í sér tæmandi útlistun á lögskiptum málsaðila og með þeim hafi öll fyrri skipti þeirra, ef einhver voru, verið gerð upp. Ekkert sé fram komið um að stefnandi eigi frekari kröfur gegn stefnda en af þeim leiði.

            Stefndi hafi staðið við allar sínar skuldbindingar samkvæmt samningunum. Hann greiddi stefnanda 100.000 krónur á mánuði frá gerð samninganna. Það sé þannig alrangt að stefndi hafi vanefnt þessa greiðsluskyldu. Stefndi hafi haft þann háttinn á að taka út fjármunina í reiðufé og afhenda stefnanda, en í kjölfar þess að stefnandi hafi farið að bera brigður á efndir stefnda hafi hann byrjað að millifæra fjármunina inn á bankareikning hans. Þá hafi stefndi greitt stefnanda 4.400.000 krónur í framhaldi af kröfubréfi stefnanda 3. janúar 2018. Stefndi hafi þannig greitt stefnanda samtals 13.400.000 krónur ásamt því að yfirtaka áðurgreinda veðskuld eða samtals 28.981.261 krónu. Stefndi mótmælir því að hann hafi misnotað aðstöðu sína við kaup á fasteigninni að Lindarbraut 2 á árinu 2010 eða að hafa keypt þá eign á undir markaðsverði.

            Stefndi mótmælir sem ósönnuðum fullyrðingum stefnanda um vanskil hans og þáverandi eiginkonu hans á árinu 2005. Hann mótmælir því einnig að eitthvert samkomulag hafi verið gert á milli málsaðila á því ári. Til marks um hversu ótrúverðugar fullyrðingar stefnanda séu um hið meinta samkomulag sé fullyrðing stefnanda um að gjalddagi hins meinta láns hafi verið 5. október 2005 eða fáeinum dögum eftir að samkomulagið eigi að hafa verið gert. Skorar stefndi á stefnanda að leggja fram skattframtöl sín vegna áranna 2005-2017 þar sem fram ætti að koma að hann hafi talið umrædda skuld stefnda fram.

            Stefndi mótmælir því að hafa frá og með árinu 2005 greitt inn á skuld sína við stefnanda eða að hann hafi með einhverjum hætti viðurkennt skuldina með reglulegum greiðslum til stefnanda ásamt systkinum sínum. Hann mótmælir því einnig að í áðurgreindri yfirlýsingu frá árinu 2010 um mánaðarlegar greiðslur til stefnanda hafi falist viðurkenning á skuldinni eða þeim greiðslum hafi verið ætlað að renna til greiðslu láns frá árinu 2005. Þá telur hann málatilbúnað stefnanda mótsagnakenndan því engin þörf hafi verið á því að undirrita sérstaka yfirlýsingu á árinu 2010 um áframhaldandi greiðslu skuldarinnar með hliðsjón af þeirri fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi þá þegar verið að greiða af skuldinni allt frá árinu 2005. Stefndi áréttar þó að hann hafi aldrei innt af hendi neinar innborganir á meinta skuld frá árinu 2005 enda sé sú skuld ekki til.

            Jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hafi einhvern tímann átt meinta kröfu vegna láns frá árinu 2005 byggir stefndi á því að krafan sé niður fallin fyrir fyrningu og tómlætissakir. Með öllu sé óljóst hvenær krafan hafi átt að hafa orðið gjaldkræf til að unnt sé að átta sig á upphafstíma fyrningarfrests. Í stefnu sé því haldið fram að krafan hafi verið á gjalddaga 5. október 2005 og hafi hún þá fyrnst fjórum árum síðar eða 5. október 2009, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Jafnvel þótt miðað sé við að meint krafa hafi fyrnst á 10 árum, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, þá hafi hún verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað. Þá hafi stefnandi sýnt af sér stórfellt tómlæti við að innheimta meinta kröfu sína, enda ekkert gert í þá veru í rúmlega áratug.

            Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að greiðslur stefnda til stefnanda hafi verið innborganir á meinta kröfu stefnanda. Afar ótrúverðugt sé að greiðslurnar séu vegna innborgunar á skuld að höfuðstól 8.762.829 krónur. Þá séu greiðslurnar bæði óreglulegar varðandi fjárhæðir og dagsetningar og ekkert sem styðji að þær séu innborganir á einhverja skuld. Þessar greiðslur geti því með engu móti rofið fyrningu þeirrar kröfu sem stefnandi geri eða réttlætt stórfellt tómlæti stefnanda við að gera kröfu um hana.

            Stefndi mótmælir öllum dráttarvaxtakröfum stefnanda og vísar til þess að með öllu sé vanreifað á hverju stefnandi byggi heimild sína til að krefjast þessara dráttarvaxta. Ekkert liggi fyrir um gjalddaga meints láns en ótrúverðugt sé að hann hafi verið ákveðinn mjög stuttu eftir veitingu þess. Af þessu verði stefnandi að bera hallann. Þá er bent á að ekki hafi verið kveðið á um gjalddaga í yfirlýsingum stefnda 31. ágúst 2010. Samkvæmt meginreglu kröfuréttar hafi kröfur samkvæmt þeim því ekki orðið gjaldkræfar fyrr en stefnandi krafðist greiðslu samkvæmt þeim.

            Stefndi byggir mál sitt á almennum reglum samninga- og kröfuréttar, einkum meginreglum um nauðsyn kröfugrundvallar og sjónarmiðum um tómlæti. Þá byggir stefndi á lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. 

 

Niðurstaða

            Svo sem áður greinir lýtur ágreiningur aðila í fyrsta lagi að því hvort stefnandi hafi lánað stefnda 8.762.829 krónur samhliða því að stefnandi tók 11.000.000 króna lán hjá Landsbanka Íslands hf. með útgáfu skuldabréfs, móttekið til þinglýsingar 29. september 2005 og tryggt með veði í fasteign hans að Lindarbraut 2 á Seltjarnarnesi, og greiddi upp allar veðskuldir áhvílandi á fasteigninni. Að virtum gögnum málsins telur dómurinn nægilega komið fram að umræddu láni stefnanda hafi meðal annars verið ráðstafað til greiðslu skulda stefnda og þáverandi eiginkonu hans, þar með talið skuld þeirra samkvæmt óveðtryggðu skuldabréfi hjá Landsbanka Íslands hf., og hafi greiðslan numið alls 8.762.829 krónum svo sem haldið er fram af stefnanda.

            Í stefnu er gjalddagi láns stefnanda til stefnda að þessari fjárhæð tilgreindur sá hinn sami og stefnandi greiddi bréfin upp eða 5. október 2005. Svo sem áður greinir var mál þetta höfðað 13. mars 2018. Án tillits til þess hvort stefnandi telst hafa fært fram fullnægjandi sönnun um greiðsluloforð stefnda liggur þannig fyrir að hugsanleg krafa stefnanda er fallin niður fyrir fyrningu nema fyrir liggi að fyrning hafi verið rofin með greiðslum stefnda eða annarri viðurkenningu á skuldinni í skilningi 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér eiga við, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Gildir þá einu hvort miðað er við að krafa stefnanda teljist reist á ábyrgðarskuldbindingu stefnda samkvæmt 4. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda eða lánsloforði sem um gilti hinn almenni fyrningarfrestur samkvæmt 2. tölulið 4. gr. laganna.

            Í málinu hefur verið lagt fram skjal, undirritað af stefnda, þar sem hann lýsir því yfir að hann „ábyrgist hluta af mánaðargreiðslum af láni sem hvílir á íbúð foreldra minna, að Lindarbraut 2, Seltjarnarnesi, ásamt systkinum mínum“. Eru fimm systkini stefnda nafngreind í yfirlýsingunni án þess að þar sé getið um þær fjárhæðir sem hvert og eitt systkini skuldbindur sig til þess að greiða. Yfirlýsingin er ódagsett en í stefnu er hún skýrð á þá leið að stefndi hafi upplýst stefnanda um að hann gæti ekki staðið undir fullum greiðslum af því láni sem stefnandi tók haustið 2005. Hafi af því tilefni verið gert samkomulag um að börn stefnanda greiddu misháar fjárhæðir sem nægðu til afborgana af láninu. Hvað sem líður ágreiningi um nánari tildrög skjalsins er fram komið að stefndi greiddi stefnanda nokkuð reglulega 20.000 krónur frá 10. nóvember 2005 fram til 1. júlí 2010, en systkini hans greiddu almennt helmingi lægri upphæð á svipuðu tímabili. Einnig liggur fyrir að þessum greiðslum lauk þegar stefndi keypti fasteignina að Lindarbraut 2 af stefnanda sumarið 2010.

            Svo sem áður greinir liggja engin skrifleg gögn fyrir um að samfara útgáfu veðskuldabréfsins 5. október 2005 hafi stefnandi gert lánssamning við stefnda og, eftir atvikum, þáverandi eiginkonu hans, um endurgreiðslu 8.762.829 króna með tilteknum skilmálum. Því síður er fram komið í málinu að stefndi hafi lofað að taka alfarið að sér afborganir af hinu nýju láni haustið 2005 svo sem hreyft hefur verið af stefnanda, en af gögnum málsins er ljóst að lánið nam talsvert hærri upphæð en þær skuldir stefndu og eiginkonu hans sem þá voru greiddar upp. Að mati dómsins er ekki unnt að túlka fyrrgreinda yfirlýsingu stefnda, sem leggja verður til grundvallar að hafi verið gefin út haustið 2005, um að ábyrgjast hluta af mánaðargreiðslum hins nýja láns sem staðfestingu á því að stefndi hafi gefið stefnanda slík loforð. Er þá bæði litið til fjárhæðar greiðslna stefnda og þess að um var ræða samhent átak barna stefnanda til þess að styðja foreldra sína.

            Eftirfarandi greiðslur stefnanda á árabilinu 2005 til 2010 styðja ekki heldur staðhæfingar stefnanda um að litið hafi verið á greiðslur stefnda, sem féllu niður í kjölfar sölu fasteignarinnar að Lindabraut 2 til stefnda á árinu 2010, án athugasemda stefnanda, sem afborganir eða greiðslur inn á skuld stefnda við stefnanda. Þá liggur engin haldbær sönnun fyrir um að kaup stefnda á fasteigninni að Lindarbraut 2 af stefnanda á árinu 2010 og greiðslur hans til stefnanda í framhaldi af því hafi falið í sér innborganir inn á eldri skuld stefnda við stefnanda þannig að rofið hafi fyrningu samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905. Var hugsanleg krafa stefnanda gagnvart stefnda vegna ætlaðs lánssamnings með gjalddaga 5. október 2010 því fyrnd þegar mál þetta var höfðað og verður stefndi þar af leiðandi sýknaður af þessum hluta kröfu stefnanda.

            Í annan stað lýtur ágreiningur aðila að greiðslum stefnda samkvæmt yfirlýsingu hans 31. ágúst 2010 þar sem hann skuldbatt sig til að greiða stefnanda 100.000 krónur á mánuði fram að andláti hans „vegna leiguskuldar við hann“, en í málinu er ekki lengur deilt um skyldu stefnda til að greiða stefnanda 4.400.000 krónur samkvæmt annarri yfirlýsingu sem undirrituð var sama dag. Svo sem áður greinir er skylda stefnda til hinna mánaðarlegu greiðslna óumdeild og lýtur ágreiningur aðila einungis að fullyrðingu stefnda um að hann hafi, með örfáum undantekningum og þá með samþykki stefnanda, afhent stefnanda greiðslurnar í reiðufé.

            Við úrlausn þessa þáttar málsins verður að leggja til grundvallar þá grunnreglu kröfuréttar að skuldari beri sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi efnt kröfu með fullnægjandi greiðslu. Í málinu liggja ekki fyrir kvittanir eða gögn um millifærslur stefnda á bankareikning stefnanda. Einungis liggja fyrir upplýsingar um að stefnandi hafi tekið út af reikningum sínum í kringum hver mánaðamót 100.000 krónur í reiðufé en stefndi heldur því fram, gegn mótmælum stefnanda, að þessi greiðsluháttur hafi verið að ósk hans sjálfs. Gegn neitun stefnanda geta umrædd gögn ekki falið í sér lögfulla sönnun um að stefndi hafi í reynd afhent stefnanda umrætt fé og þannig fullnægt umræddri skyldu sinni umfram það sem stefnandi hefur sjálfur viðurkennt með málatilbúnaði sínum. Er málsástæða stefnda, þess efnis að hann hafi afhent stefnanda umræddar greiðslur með reiðufé í öðrum tilvikum, því ósönnuð og verður hann að bera hallann af því.

            Svo sem áður greinir byggðist greiðsluskylda stefnda á samningi við stefnanda þar sem stefndi lofaði mánaðarlegum greiðslum til stefnanda. Af hálfu stefnanda er einungis gerð krafa um greiðslur frá og með gjalddaga 1. febrúar 2014 til og með 1. janúar 2018. Var sú tilhögun kröfugerðar skýrð svo í munnlegum málflutningi að stefnandi féllist á að kröfur til mánaðarlegra greiðslna fyrir þann tíma væru fallnar niður fyrir fyrningu. Samkvæmt þessu krefst stefnandi í heild greiðslu á 4.800.000 krónum á grundvelli umræddrar skuldbindingar. Frá þessari fjárhæð dragast 13 greiðslur stefnda á tímabilinu 1. desember 2013 til og með 1. mars 2018, sem stefnandi hefur viðurkennt að hafi átt sér stað, eða alls 1.300.000 krónur.

            Í fyrrgreindri yfirlýsingu stefnda 31. ágúst 2010 fólst loforð um mánaðarlegar greiðslur án þess að þar væri sérstaklega getið um gjalddaga eða nánari tilhögun greiðslnanna. Að virtum gögnum málsins verður að miða við að stefnandi hafi fyrst með bréfi lögmanns síns 6. október 2017 sett fram greiðslukröfu á grundvelli yfirlýsingarinnar fyrir umrætt tímabil. Verða því dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu fyrst dæmdir frá 6. nóvember 2017, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna, svo sem nánar greinir í dómsorði. Samkvæmt þessu koma greiðslur stefnanda fyrir það tímamark einnig til lækkunar höfuðstóls kröfu stefnanda, svo sem nánar kemur fram í dómsorði.

            Stefnandi nýtur gjafsóknar við meðferð málsins fyrir héraðsdómi samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 31. janúar sl. Samkvæmt þessu greiðist gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Guðbrands Jóhannessonar, hæfilega ákveðin 2.480.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, úr ríkissjóði. Eftir úrslitum málsins, að teknu tilliti til vafaatriða þess svo og þess að eftir höfðun málsins féllst stefndi að hluta til á kröfu stefnanda, verður stefndi dæmdur til að greiða hluta málskostnaðar stefnanda sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, sem rennur til ríkissjóðs.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Guðbrandur Jóhannesson lögmaður.

            Af hálfu stefnda flutti málið Hildur Viðarsdóttir lögmaður.

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Hallur Vilhjálmsson, greiði stefnanda, Vilhjálmi Valdimarssyni, 3.900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2008 frá 6. nóvember 2017 að frádregnum innborgunum, öllum að fjárhæð 100.000 krónur, 4. desember 2017, 3. janúar 2018, 2. febrúar 2018 og 1. mars 2018.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Guðbrands Jóhannessonar, að fjárhæð 2.480.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Stefndi greiði 400.000 krónur í málskostnað sem renni til ríkissjóðs.

 

Skúli Magnússon