• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skilorðsrof
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2018 í máli nr. S-217/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Ólafi Inga Gunnarssyni

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

 

     Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 17. apríl 2018, á hendur Ólafi Inga Gunnarssyni, kt. 000000-0000, Skipholti 11-13, Reykjavík fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík, með því að hafa mánudaginn 17. júlí 2017, ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti um Miklubraut við Skarðshlíð, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

            Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Verjandi kveðst afsala sér málsvarnarþóknun.

 

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í maí 1995. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 16. apríl 2018, var ákærða gerð sektarrefsing með dómi, 9. júní 2015, meðal annars vegna aksturs undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna og aksturs sviptur ökurétti. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur undir áhrifum áfengis og akstur sviptur ökurétti með dómi, 21. janúar 2016. Loks var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár fyrir hegningarlagabrot með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 2. júní 2016. Sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki þýðingu við ákvörðun refsingar í málinu.

            Hinn 7. júlí 2017 var ákærða veitt reynslulausn, skilorðsbundið til tveggja ára, á 555 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt tveimur fyrrnefndum dómum frá 21. janúar 2016 og 2. júní 2016. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar sem honum var veitt sem fyrr segir og fer refsing sú, sem ákærði hefur nú til unnið, fram úr sektum. Ber því að taka reynslulausnina upp og dæma refsingu í einu lagi, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með hliðsjón af framangreindu og að teknu tilliti til greiðrar játningar ákærða þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 19 mánuði en fresta skal fullnustu 18 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari.

            Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Ólafur Ingi Gunnarsson, sæti fangelsi í 19 mánuði en fresta skal fullnustu 18 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir