• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2019 í máli nr. E-3246/2018:

A og B

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

gegn Tryggva Viðarssyni

(Einar Hugi Bjarnason lögmaður)

 

 

I.     Kröfur aðila

Mál þetta var þingfest 4. október 2018 en tekið til dóms 6. febrúar 2019 að loknum munnlegum málflutningi. Stefnendur í málinu eru A, [...] í [...], og B, [...] í Reykjavík, en stefndi Tryggvi Viðarsson, Miðtúni 58 í Reykjavík.

Stefnendur í málinu gera hvor um sig þá kröfu að eftirfarandi ummæli í töluliðum 1–6, verði dæmd dauð og ómerk:

 

Facebook-færsla, 9. nóvember 2015, kl. 13:14.

 

  1. Hér eru helvítis ógeðin sem voru að nauðga og misþyrma með sérútbúna íbúð í Hlíðunum.
  2. Þessi viðrini voru ekki nafngreind eða myndbirt í blöðunum eins og aðrir með réttarstöðu grunaðra og ekki látnir sæta gæsluvarðhaldi á meðan á rannsókn stendur samt stafar samfélaginu meiri ógn af þessum gerpum en þeim sem eru með nokkrar plöntur heima hjá sér.
  3. Endilega deilið svo stelpur geti varað sig á þessum stórhættulegu einstaklingum.
  4. Ef þið sjáið þessa fávita endilega hifive a þá í smettið ... Menn sem gera svona eru ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil.

 

Frétt Pressunnar, 9. nóvember 2015, kl. 18:10.

 

  1. ... Ef það tekst að hindra þó það væri ekki nema eina nauðgun í viðbót af hálfu þessara manna þá er markmiðinu náð.

 

Athugasemd við Facebook-færslu 9. nóvember 2015, kl. 22:08.

 

  1. Magnús ég hef sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma og á meðan þeir ganga lausir eru þeir hættulegir.

 

Stefnendur gera hvor um sig þá kröfu að stefndi verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 21. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum hvorum um sig málskostnað samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti eða mati héraðsdóms. Krafist er 24% virðisaukaskatts ofan á dæmdan málskostnað, en stefnendur eru ekki virðisaukaskattsskyldir.

 

II.                       Atvik málsins

            Málsatvik eru þau að hinn 9. nóvember 2015 deildi stefndi færslu á notandasvæði sínu á Facebook þar sem hann birti myndir af stefnendum sem hann hafði fundið á Facebook-svæði þeirra. Með myndunum fylgdi texti sem sagði að þetta væru „helvítis ógeðin sem voru að nauðga og misþyrma með sérútbúna íbúð í Hlíðunum“. Stefndi kallaði stefnendur einnig viðrini sem ekki væru nafngreind eða myndir birtar af í fjölmiðlum „eins og aðrir [sic] með réttarstöðu grunaðra“.

            Í stöðufærslu sinni gerði stefndi einnig athugasemdir við það að stefnendur væru ekki látnir sæta gæsluvarðhaldi þar til rannsókn á brotum þeirra væri lokið og sagði að samfélaginu stafaði ógn af „þessum gerpum“. Þá hvatti stefndi vini sína og fylgjendur til að deila færslu sinni til að stelpur gætu varað sig á „þessum stórhættulegu einstaklingum“. Stefndi beindi einnig þeim ummælum til lesenda færslunnar að ef þeir sæju „þessa fávita“ þá skyldu þeir „endilega hifive a þá í smettið“. Síðan sagði í færslunni að „menn sem „gera svona [væru] ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil.“

            Seinna sama dag birtist frétt á Pressunni um skrif stefnda. Í fréttinni var rætt við stefnda og sagði stefndi þar að tilgangur færslunnar hefði verið að vara við stefnendum til að koma í veg fyrir að þeir gætu nauðgað fleirum, og að markmiðinu væri náð ef það tækist að hindra „þó það væri ekki nema eina nauðgun í viðbót af hálfu þessara manna“.

            Um kvöldið sama dag skrifaði stefndi athugasemd við Facebook-færslu Magnúsar Árna Gunnarssonar sem kl. 21.56 deildi frétt af mbl.is um íbúð stefnenda. Í fyrirsögn fréttarinnar kemur fram að íbúðin sem málið snerist um hefði ekki verið útbúin til nauðgana, en í færslu Magnúsar um fréttina sagði „Stundum gefa lögreglu smá tíma bara“

            Í athugasemd stefnda við færsluna, sem kom fram 12 mínútum síðar eða kl. 22:08, viðhafði hann eftirfarandi ummæli:

 

           „Magnús ég hef sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma og á meðan þeir ganga lausir eru þeir hættulegir, sé ekki eftir myndbirtingu og mun ekki taka niður. Ég vissi af þessu máli fyrir 3 vikum síðan og búinn að heyra sögur af þessum gæjum í yfir ár að þeir séu að reyna lokka stelpur til sín í eftirpartý illa creepy á því. Ég tók myndina af profile þeirra því ég vissi að þeir myndu eyða þessu og eins að þeir væru ekki einu sinni í gæslu og var búinn að ákveða myndbirta þegar þetta kæmi í blöðin. Þessir gæjar eiga ekki að ganga lausir á meðan rannsókn stendur yfir heldur eiga að vera í einangrun.“

 

            Með kröfubréfi, dags. 21. apríl 2016, var stefnda boðið að ljúka málinu utan réttar með afsökunarbeiðni og gegn greiðslu miskabóta af þeirri fjárhæð sem krafist er í þessu máli. Því svaraði stefndi ekki. Stefnendur höfðuðu í kjölfarið dómsmál það sem hér um ræðir.

 

III.                    Málsástæður aðila

Málsástæður stefnenda

            Stefnendur telja að með ummælum stefnda á Facebook-notandasvæði hans og í frétt Pressunnar, hafi þeim verið gefin að sök refsiverð háttsemi sem varðar við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 194. gr. laganna, og varðar allt að 16 ára fangelsi ef sök sannast. Ummæli stefnda um stefnendur séu afdráttarlaus og alvarleg, en stefndi fullyrti ítrekað að stefnendur væru stórhættulegir kynferðis- og ofbeldisbrotamenn sem hefðu margsinnis lokkað stelpur með sér í íbúð sem þeir hefðu sérútbúið til að brjóta gegn konum.

            Stefnendur byggja á því að í öllum hinum umstefndu ummælum felist ásakanir um að þeir hafi gerst sekir um hrottaleg hegningarlagabrot sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Öll ummælin séu til þess fallin að meiða æru þeirra.

            Hér á eftir er gerð grein fyrir því hvers vegna hver og ein hinna umstefndu ummæla séu ærumeiðandi aðdróttanir sem beri að ómerkja.

 

1.                           Hér eru helvítis ógeðin sem voru að nauðga og misþyrma með sérútbúna íbúð í Hlíðunum.

 

            Með framangreindum ummælum fullyrðir stefndi að stefnendur hafi nauðgað og misþyrmt konum og haft til þess sérútbúna íbúð í Hlíðunum. Ummælin séu uppspuni frá rótum.

 

2.                           Þessi viðrini voru ekki nafngreind eða myndbirt í blöðunum eins og aðrir með réttarstöðu grunaðra og ekki látnir sæta gæsluvarðhaldi á meðan á rannsókn stendur samt stafar samfélaginu meiri ógn af þessum gerpum en þeim sem eru með nokkrar plöntur heima hjá sér.

 

            Hér fullyrðir stefndi að stefnendur séu hættulegir afbrotamenn sem samfélaginu stafi ógn af. Því fari víðs fjarri. Stefnendur séu ekki með sakaferil og hafi aldrei verið dæmdir fyrir refsiverða háttsemi.

 

3.                           Endilega deiliði svo stelpur geti varað sig á þessum stórhættulegu einstaklingum.

 

            Hér eru stefnendur aftur sagðir stórhættulegir og að stelpur þurfi að vara sig á þeim. Það beri að meta þessi ummæli í samhengi við önnur ummæli sem stefndi viðhafði um stefnendur, en hér er stefndi að vara konur við stefnendum þar sem þeir séu nauðgarar.

 

4.                           Ef þið sjáið þessa fávita endilega hifive a þá í smettið ... Menn sem gera svona eru ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil.

 

            Hér staðhæfir stefndi að stefnendur hafi margoft nauðgað og beitt fólk ofbeldi. Ummæli stefnda séu sem fyrr úr lausu lofti gripin og því með öllu ósönn.

 

5.                           ... Ef það tekst að hindra þó það væri ekki nema eina nauðgun í viðbót af hálfu þessara manna þá er markmiðinu náð.

 

            Hér fullyrði stefndi að stefnendur hafi nauðgað og muni nauðga aftur eftir atvikum oftar en einu sinni. Eins og áður fari stefndi hér með fleipur. Stefnendur hafi aldrei nauðgað neinum.

 

6.                           Magnús ég hef sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma og á meðan þeir ganga lausir eru þeir hættulegir.

 

            Með þessum ummælum fullyrðir stefndi enn og aftur að stefnendur hafi nauðgað og misþyrmt stelpum og að þeir séu hættulegir. Að auki heldur stefndi því fram að hann hafi traustar heimildir fyrir staðhæfingum sínum. Svo sé auðvitað ekki. Þær séu byggðar á sandi enda upplognar og ærumeiðandi fyrir stefnendur.

            Stefnendur kveða það vera grundvallarmannréttindi í réttarríki að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð að lögum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskri réttarskipan, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það séu handhafar opinbers valds sem til þess séu bærir sem annist rannsókn og saksókn í sakamálum. Það sé síðan hlutverk dómstóla að dæma um sekt eða sakleysi manna sem ákærðir hafa verið fyrir refsiverða háttsemi.

            Stefnendur telja að stefndi hafi kosið að svipta stefnendur þessum grundvallarmannréttindum og úthrópa þá sem nauðgara og ofbeldismenn án þess að stefnendur hafi verið ákærðir fyrir slíka háttsemi, hvað þá heldur dæmdir. Það hafi hann gert með fullri vitund og vilja, eins og hann sagði sjálfur bæði í Facebook-færslu sinni og í viðtali við Pressuna. Þá hvatti stefnda aðra til að deila umræddum ummælum og sagði að því fleiri sem deildu þeim, því betra. Ásetningur stefnda hafi því staðið til þess að valda stefnendum jafn miklum skaða og hann mögulega gæti.

            Stefnendur kveða öll ummælin í töluliðum 1–6 í dómkröfum þeirra fela í sér ásökun um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi. Öll ummæli stefnda séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnendur. Hagsmunir stefnenda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

            Stefndi hafi enn fremur tekið myndir af stefnendum ófrjálsri hendi af Facebook-notandasvæðum þeirra og deilt á Facebook ásamt nöfnum þeirra og áðurnefndum ummælum. Með því hafi stefndi brotið gróflega gegn friðhelgi einkalífs stefnenda sem varin sé af 229. gr. laga nr. 19/1940, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en í þeim ákvæðum felist m.a. réttur stefnenda til eigin myndar. Stefndi hafi einnig hvatt vini sína og fylgjendur til að deila umræddum upplýsingum, og gert ýmislegt til að útbreiðslan yrði sem mest, meðal annars hafi stefndi farið í viðtal við fjölmiðla og tekið mikinn þátt í umræðum um stefnendur á Facebook. Það hafi orðið til þess að mörg þúsund manns deildu Facebook-færslu hans með myndum og nöfnum stefnenda, en enn fleiri hófu að deila hinum sömu upplýsingum á hinum ýmsu vefsvæðum. Stefndi hafi, eins og áður segir, verið meðvitaður um að háttsemi hans stæðist ekki lög, en þrátt fyrir það ákveðið að viðhafa hana. Hann hafi því brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnenda af ásetningi.

            Stefnendur byggja á því að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að æru þeirra. Með því hafi stefndi framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnendum sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem bæði séu rangar og bornar út og birtar án sennilegrar ástæðu til að halda þær réttar. Það sé ljóst að virðing stefnenda hafi beðið hnekki, sem og æra þeirra og persóna. Réttur stefnenda til æruverndar og friðhelgi einkalífs njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Stefnendur benda á að það sé hlutverk handhafa opinbers valds að rannsaka, ákæra og dæma menn fyrir refsiverða háttsemi en ekki almennings. Með ummælum sínum um stefnendur hafi stefndi haldið því fram að þeir hafi gerst sekir um margvísleg hegningarlagabrot sem enginn fótur sé fyrir. Þar að auki hafi stefndi átt upptökin að því að deila myndum og nöfnum stefnenda og eigi hann sök á því að þær upplýsingar dreifðust svo víða sem raun bar vitni. Færslu stefnda hafi verið deilt mörg þúsund sinnum á samfélagsmiðlum og stefnendur hafi verið úthrópaðir sem nauðgarar og þeim hótað líkamsmeiðingum og lífláti. Ljóst sé að stefnendur hefðu ekki orðið fyrir þessu gríðarlega aðkasti almennings ef ekki hefði verið fyrir mynd- og nafnbirtingar stefnda.

            Slagkraftur umfjöllunar um meint brot stefnenda í fjölmiðlum hafi verið slíkur að stefnendur óttuðust um líf sitt vegna múgæsingsins sem umfjöllunin skapaði og hrökkluðust úr landi þar sem þeir dvöldu meira og minna næstu árin. Stefnandinn B hafi misst vinnuna í kjölfarið og stefnandanum A hafi verið gert að hætta námi við Háskólann í Reykjavík. Hvorugur hafi átt afturkvæmt í fyrra starf/nám. Báðir stefnendur hafi glímt við langvarandi kvíða og þunglyndi vegna umfjöllunarinnar.

            Af öllu framansögðu telja stefnendur ljóst að ummæli stefnda um þá og dreifing upplýsinga um þá hafi verið afdrifarík. Stefnendur eigi því rétt á miskabótum úr hendi stefnda. Stefnendur telja að miski hvors þeirra um sig vegna ummæla stefnda sé hæfilega metinn 3.000.000 króna.

            Kröfur stefnenda um miskabætur eru byggðar á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 enda sé um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum, sem ætlað sé að vernda æru og friðhelgi einkalífs stefnenda, sbr. 229. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Hvað varðar kröfu um vexti og dráttarvexti á dómkröfur þá er vísað til IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en krafa um vexti byggist á 1. málslið. 4. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, þar sem segir að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað. Hvað varðar kröfu um dráttarvexti er byggt á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, þar sem segir að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn er mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi lagði fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem hér um ræðir er miðað við dagsetningu kröfubréfs í málinu, 21. apríl 2016, og er því krafist dráttarvaxta frá 21. maí 2016 til greiðsludags.

 

Málsástæður stefnda

            Stefndi reisir sýknukröfu sína á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem lögvarin sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966, sbr. lög nr. 10/1979.

            Stefndi telur að þegar meta skuli hvar mörkin á milli 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar liggja og hvað eigi erindi til almennings verði að líta til stöðu þjóðfélagsmála á hverjum tíma, hvaða málefni beri hæst í opinberri umræðu og séu almennt talin miklu varða. Því verði vart mælt í mót að umfjöllun um ætluð kynferðisbrot stefnenda hafi verið það mál sem hæst bar í opinberri umræðu á þeim tíma sem ummæli stefnda birtust. Þó að því sé ekki haldið fram í málinu að stefnendur teljist vera opinberar persónur, þá er á því byggt að einkalífsvernd stefnenda hafi verið lakari en ella þar sem þær sakir sem á þá voru bornar lentu í hringiðu þjóðfélagsumræðunnar og lutu auk þess að kærum út af refsiverðum verknaði. Ummæli stefnda hafi þannig haft ríka þjóðfélagslega skírskotun og því notið rýmkaðs tjáningarfrelsis í ljósi atvika allra.

            Stefndi vísar til þess að í fjölmiðlaumfjöllun dagana áður en ummælin birtust hafi ítrekað komið fram að kærendur hefðu borið stefnendur sökum um refsiverða háttsemi. Stefndi telji þýðingarmikið að hafa forsögu málsins í huga þegar metið sé hvort hann hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns, og þá einkum hina gríðarlega miklu fjölmiðlaumfjöllun sem hafði átt sér stað áður en stefndi tjáði sig um málið. Þá leggur stefndi áherslu á að síðar þann sama dag og færslan birtist á Facebook, nánar tiltekið kl. 14:47 þann 9. nóvember 2015, hafi stefndi beðist afsökunar á því að hafa verið óvægur í orðavali og tekið sérstaklega fram að hann vildi ekki að neinn gengi í skrokk á þessum mönnum, hann vilji ekki að það sé gengið í skrokk út af neinu, eins og það var orðað.

            Í kjölfar þessa fréttaflutnings hafi brotist út mikil reiði, m.a. á samfélagsmiðlum, sem beindist harkalega gegn persónum stefnenda. Ummæli stefnda hafi ekki verið annað en endurómur af þeim fjölmörgu fréttum sem höfðu verið fluttar af málinu dagana þar á undan. Mikilvægt sé einnig að hafa í huga að stefndi nafngreindi ekki stefnendur og að kærur á hendur stefnendum höfðu ekki verið látnar niður falla þegar stefndi lét umrædd orð falla.

            Stefndi byggir á því að hin umstefndu ummæli feli í sér gildisdóma, þ.e. huglægt mat á staðreynd en ekki miðlun staðreyndar. Í þessu sambandi vísar stefndi til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skýrt gildisdóma með rúmum hætti og gengið tiltölulega langt í að flokka ummæli sem slík, þó að staðreyndabragur hafi virst vera á þeim. Af dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins megi einnig ráða að dómstóllinn sé líklegri til að beita rúmri skilgreiningu á hugtakinu gildisdómur ef ummæli teljast vera framlag til þjóðfélagslegrar umræðu. Stefndi byggir á því að alvarleg kynferðisbrot eigi erindi við almenning og séu þess vegna hluti almennrar þjóðfélagsumræðu. Hvassir gildisdómar njóti verndar tjáningarfrelsisins ef um er ræða málefni sem á erindi til almennings.

            Af hálfu stefnda er einnig vísað til þess að ráða megi af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu að við mat á því hvort ummæli feli í sér gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd skuli ummælin skoðuð heildstætt í samhengi við málavexti að öðru leyti. Við matið sé þannig skoðaður aðdragandi ummæla, tilgangur með ummælum og önnur atvik sem máli kunna að skipta. Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins megi enn fremur ráða að tilgangur með ummælum geti haft þá þýðingu við matið að ósönn ummæli einstaklinga teljist vera réttlætanleg séu þau viðhöfð með það að markmiði að vernda mikilvæga hagsmuni, og sé þá ekki krafist beinnar sönnunar ummælanna. Með vísan til þessara sjónarmiða er á því byggt að ummæli stefnda séu réttlætanleg.

            Stefndi ítrekar að aðdragandi ummælanna hafi verið umfangsmikil fjölmiðlaumfjöllun dagana á undan ásamt nánast fordæmalausri umræðu á samfélagsmiðlum þar sem reiði var mikil, m.a. sökum þess að stefnendum hafi ekki verið gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þannig hafði m.a. komið opinberlega fram að „[í]búð í Hlíðunum [hafi verið] útbúin til nauðgana“, „[...] árásirnar [verið] hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“, „hankar [hafi verið] í loftinu sem grunur [léki] á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana“, „[...]íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar“, og að „í fyrra tilfellinu [hafi] annarri þeirra [verið] nauðgað af bekkjabróður hennar en seinni konunni nauðgað af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum“.

            Það sé undir þessum kringumstæðum sem stefndi hafi birt ummælin, sem séu í raun ekki annað en endursögn á því sem fram hafði komið í fjölmiðlum þó að orðalagið sé vissulega óheflað og hvasst. Tilgangur stefnda hafi ekki verið sá að ráðast persónulega á stefnendur heldur hafi stefndi leitast við að draga athyglina að málefni sem hann taldi að verðskuldaði athygli, þ.e. að vara við frekari kynferðisbrotum stefnenda, sem stefndi var sannfærður um, í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar dagana á undan, að væri raunveruleg hætta á.

            Undir þeim kringumstæðum sem hér hefur verið lýst byggir stefndi á því að honum hafi verið heimilt að fjalla um ætluð brot stefnanda á þann hátt sem hann gerði. Stefndi hafi lagt mat sitt á staðreyndir sem hann hafi talið vera fyrir hendi og hafi verið í góðri trú um að ummælin væru sönn vegna þess sem fram hafði komið opinberlega um málið. Þó að ummælin séu óvægin og smekklaus og gætu jafnvel talist til fúkyrða verði að játa stefnda heimild til að setja fram skoðun sína á málinu með þeim hætti sem hann gerði í ljósi þess sem fram var komið um málið í opinberri umræðu á þeim tíma. Háttsemi stefnda hafi því verið réttlætanleg miðað við aðstæður.

            Ef svo færi að ummælin yrðu ekki talin til gildisdóma heldur til staðhæfinga um staðreyndir, þá er byggt á því að ummælin hafi ekki farið út fyrir leyfileg mörk tjáningarfrelsisins. Ef ætlast væri til að stefndi sýndi fram á sannleiksgildi orða sinna væru gerðar til hans kröfur sem ógerlegt væri að uppfylla, enda fer hann ekki með handhöfn opinbers valds.

            Á því er enn fremur byggt að endursögn ósannra fullyrðinga sé varin af tjáningarfrelsinu. Í því sambandi skipti höfuðmáli að fullyrðingar um sekt stefnenda áttu uppruna sinn hjá öðrum en honum sjálfum, þ.e. fjölmiðlum, einkum fjölmiðlaveitunni 365 miðlum hf., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 729/2017. Stefndi hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi ummælanna í ljósi opinberrar umræðu dagana á undan. Stefndi hafi enga ástæðu haft til að draga í efa þær fréttir sem fluttar höfðu verið um málið og mátt treysta því að fjölmiðlar hefðu við gerð frétta sinna gætt grundvallarreglna sem fjölmiðlum beri að virða, sbr. meðal annars 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

            Að því er varðar einstök ummæli og rök stefnda fyrir því að þau rúmist innan leyfilegra marka tjáningarfrelsisins segir svo í málsvörn stefnda:

 

„Hér eru helvítis ógeðin sem voru að nauðga og misþyrma með sérútbúna íbúð í Hlíðunum“.

 

            Stefndi kveður þessi ummæli vera endursögn á því sem fram hafði komið opinberlega áður en ummæli stefnda birtust. Þannig segi í grein á forsíðu Fréttablaðsins 9. nóvember 2015 að; „Íbúð í Hlíðunum [hafi verið] útbúin til nauðgana“. Einnig segi í greininni: að „tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, gang[i] lausir, og tekið fram að „[s]amkvæmt heimildum blaðsins [hafi] árásirnar [verið hrottalegar] og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“. Í morgunfréttum Bylgjunnar kl. 08:00 þennan sama dag hafi sömu staðhæfingar verið settar fram en bætt við að „[s]amkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“. Þessar staðhæfingar hafi svo verið endurteknar í hádegisfréttum Bylgjunnar þennan sama dag.

            Stefndi telur ljóst að ummæli hans séu ekki annað en endursögn á því sem fram hafði komið opinberlega og stefndi hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra. Ummælin feli vissulega í sér fúkyrði í garð stefnenda en þau hafi verið innan marka tjáningarfrelsis stefnda í ljósi þess sem fram hafði komið opinberlega og hafi því verið réttlætanleg miðað við aðstæður.

 

„Þessi viðrini voru ekki nafngreind eða myndbirt í blöðunum eins og aðrir með réttarstöðu grunaðra og ekki látnir sæta gæsluvarðhaldi á meðan á rannsókn stendur samt stafar samfélaginu meiri ógn af þessum gerpum en þeim sem eru með nokkrar plöntur heima hjá sér“.

 

            Stefndi gengst við því að vissulega hafi hann notað fúkyrðin „viðrini“ og „gerpi“ um stefnendur, sem hafi bæði niðrandi merkingu, en séu augljóslega gildisdómar. Þá staðhæfi stefndi að meiri ógn stafi af þeim en þeim sem eru með nokkrar plöntur heima hjá sér. Í ljósi þess sem fram hafði komið opinberlega þá telur stefndi að játa verði honum svigrúm til að tjá sig með framangreindum hætti enda hafi hann verið í góðri trú um sannleiksgildi ummælanna þó að orðalagið sé vissulega óvarfærið.

 

„Endilega deilið svo stelpur geti varað sig á þessum stórhættulegu einstaklingum“.

 

            Sömu sjónarmið eigi við um þessi ummæli og þau sem rakin eru hér að framan. Þegar stefndi staðhæfi að stefnendur séu stórhættulegir sé það gildisdómur en hann byggi þá ályktun sína á því sem fram hafði komið opinberlega, þar sem stærstu fjölmiðlar landsins höfðu, án nokkurra fyrirvara, fullyrt að árásir stefnenda hefðu verið hrottalegar og ofbeldisverkin framin í íbúð sem hefði verið sérútbúin til ofbeldisverka. Stefndi hafi því verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna.

 

„Ef þið sjáið þessa fávita endilega hifive a þá í smettið ... Menn sem gera svona  eru ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil“.

 

            Stefndi telur sömu sjónarmið eiga við um þessi ummæli og þau sem eru rakin hér að framan. Hér álykti stefndi svo, út frá því sem fram hafði komið opinberlega, að íbúðin hafi verið sérútbúin til nauðgana og að menn sem hefðu komið sér upp slíkri aðstöðu væru ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil. Slík ályktun sé ekki órökrétt og stefndi hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi hennar. Rétt sé að taka fram að aðeins örfáum klukkustundum eftir að þessi ummæli voru rituð, þá hafi stefndi beðist afsökunar á orðavaldi sínu og tekið sérstaklega fram að hann væri ekki að hvetja til ofbeldis.

 

„... Ef það tekst að hindra þó það væri ekki nema eina nauðgun í viðbót af hálfu þessara manna þá er markmiðinu náð.“

 

            Stefndi telur sömu sjónarmið eiga við um þessi ummæli. Hér komi skýrt fram það sem áður er rakið um tilgang stefnda með ummælunum. Stefndi hafi, í ljósi þess sem fram hafði komið opinberlega, talið að raunveruleg hætta væri á að stefnendur myndu fremja frekari ofbeldisverk ef þeir gengju lausir. Stefndi hafi verið í góðri trú með þessa staðhæfingu í ljósi opinberrar umræðu dagana þar á undan.

 

„Magnús ég hef sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma og á meðan þeir ganga lausir eru þeir hættulegir.“

 

            Hér vísar stefndi til þess að hann hafi heyrt sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en kærendum í sakamálinu en ekki komi fram hvers eðlis þær sögur séu. Sem fyrr álykti stefndi út frá því sem fram hafði komið í opinberri umræðu, að stefnendur hefðu náð að nauðga og misþyrma og á meðan þeir gengju lausir væru þeir hættulegir. Þá hafi stefndi byggt þessa ályktun sína á því sem fram hafði komið á samskiptaforritinu Twitter, en þar birtist sjáskot af skilaboðum af snjallsímaforritinu Snapchat sem sögð voru stafa frá öðrum stefnanda til 19 ára stúlku, um að stúlkan yrði bundin og meidd o.fl. Stefndi hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi þessara ummæla.

            Samkvæmt framansögðu byggir stefndi á því að tjáning hans hafi verið innan þeirra marka sem honum séu tryggð í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi byggir á því að ummælin séu gildisdómar og hann hafi notið rýmkaðs tjáningarfrelsis til að tjá sig á þann hátt sem hann gerði í ljósi umgangsmikillar umræðu um málið á opinberum vettvangi, enda hafi málið haft þjóðfélagslega skírskotun. Grundvallaratriði í því sambandi sé að stefndi hafi verið í góðri trú um að ummælin væru sönn í ljósi þess sem fram hafði komið opinberlega. Þá sé einnig rétt að líta til þess sem áður er rakið, að stefndi hafi beðist afsökunar á óvægu orðavali sínu innan þriggja klukkustunda eftir að færsla hans birtist á Facebook, og ítrekaði að hann vildi ekki að neinn gengi í skrokk á stefnendum.

            Ef ekki verður fallist á að ummælin í heild eða að hluta séu gildisdómar heldur staðhæfingar um staðreyndir sé byggt á því að endursögn ósannra fullyrðinga sé varin af tjáningarfrelsinu. Skipti þá sköpum að fullyrðingar um sekt stefnenda hafi átt uppruna sinn hjá öðrum en honum sjálfum og að hann hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra fullyrðinga.

           

            Friðarbrot:

            Stefndi hafnar því að myndbirting hans á stefnendum hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Stefndi hafi nálgast myndirnar á opnum Facebook-síðum stefnenda og deilt þeim á sinni eigin Facebook-síðu. Tilgangurinn hafi verið sá að koma í veg fyrir frekari brot af hálfu stefnenda, sem stefndi hafi talið raunverulega hættu á í ljósi þess sem fram var komið.

            Stefndi telur einnig mikilvægt í þessu sambandi að benda á að fréttaflutningur um málið, dagana áður en myndbirtingin átti sér stað, hafi verið með þeim hætti að þar hafi verið að finna vísbendingar um hverjir hinir brotlegu væru. Því hafi verið auðvelt að bera kennsl á þá þótt þeir væru ekki opinberar persónur. Fjölmiðlar hafi þannig veitt upplýsingar um stefnendur sem nægðu þeim sem höfðu áhuga á til þess að afla upplýsinga um hverjir þeir væru. Þetta hafi leitt til þess að nöfn mannanna höfðu þegar verið opinberuð á samfélagsmiðlum þegar stefndi birti ljósmyndir af þeim. Hver sem er hafi þannig getað farið inn á Facebook-síður stefnenda og séð þar myndir af þeim. Þá sé einnig til þess að líta að stefndi hefur þegar fjarlægt umræddar myndir af stefnendum af Facebook-síðu sinni. Af þessu leiðir að mati stefnda að hann hafi ekki brotið gegn friðhelgi stefnenda með umræddum myndbirtingum.

 

Miskabótakröfur:

            Stefndi hafnar því að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnenda. Þá hafnar stefndi því alfarið að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt í málinu, en samkvæmt b-lið 1. mgr. ákvæðisins sé heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

            Með ólögmætri meingerð í skilningi síðastnefnds lagaákvæðis sé átt við saknæma háttsemi. Í þessu máli skorti á að þessu skilyrði sé fullnægt, enda hafi ummæli stefnda verið birt í góðri trú í ljósi þess sem fram hafði komið opinberlega um stefnendur. Sýknukrafa um miskabætur sé reist á þeim röksemdum sem að framan hafi verið raktar. Krafist sé sýknu af ómerkingarkröfum en gangi sú krafa eftir leiði hún til þess að skilyrði miskabóta séu ekki fyrir hendi.

            Verði ómerkingarkröfur teknar til greina, þvert gegn væntingum stefnda, hvort sem er í heild eða að hluta, er kröfum um miskabætur mótmælt sem allt of háum og án nokkurra tengsla við dæmdar miskabætur í sambærilegum málum hér á landi. Af þessum sökum krefst stefndi þess að miskabætur verði lækkaðar verulega frá dómkröfum. Stefndi mótmælir einnig vaxtakröfu og byggir á því að ekki sé tilefni til að dæma vexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu.

            Um lagarök vísar stefndi til almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga um fjölmiðla nr. 38/2011 og skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísar stefndi til 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966, sbr. lög nr. 10/1979.

            Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og ber því nauðsyn til að fá dæmdan virðisaukaskatt á lögmannsþóknun úr hendi stefnenda.

 

IV.                    Niðurstaða

1.               Ágreiningsefni málsins

            Mál þetta er höfðað til ómerkingar ummæla sem tilgreind eru í sex liðum og óumdeilt er að stefndi viðhafði 9. nóvember 2015 á Facebook-síðu sinni, í viðtali við vefmiðilinn Pressuna og í athugasemd við færslu annars manns á Facebook. Þá krefjast stefnendur bóta vegna miska sem þeir hafi orðið fyrir af völdum sömu ummæla, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

            Stefnendur telja að ummælin sem krafist er ómerkingar á feli í sér ærumeiðandi móðgun og aðdróttun í skilningi 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þau beri því að ómerkja með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Stefnendur segja ummælin ósönn og til þess fallin að sverta mannorð þeirra. Af málatilbúnaði stefnenda verður einnig ráðið að þeir telji ummælin hafa verið höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, sbr. 236. gr. almennra hegningarlaga.

            Einnig telja stefnendur að það að stefndi hafi tekið myndir af þeim af Facebook-síðu þeirra og dreift þeim á Facebook feli í sér brot gegn 229. gr. almennra hegningarlaga. Stefnendur telja jafnframt að brot stefnda á framangreindum ákvæðum eigi að varða hann greiðslu miskabóta og ómerkingu ummælanna samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga.

            Þegar gerð er krafa um ómerkingu ummæla leiðir af ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að ummælin verða að vera tilgreind þannig að ekki fari á milli mála við hvaða ummæli er átt. Í stefnu málsins tilgreina stefnendur orðrétt þau ummæli sem krafist er ómerkingar á og hvenær nákvæmlega ummælin voru viðhöfð. Enda þótt telja verði réttara að stefnendur tækju nánar fram í kröfugerð sinni hvar á Facebook ummælin sem málshöfðun þeirra beinist að komu fram bera stefnan og gögn málsins að öðru leyti með sér að þar er átt við ummæli stefnda á hans eigin síðu á Facebook og ummæli sem hann lét falla í svari við athugasemd annars einstaklings á Facebook.

            Í ljósi þessa verður að telja að ekki hafi ríkt slíkur vafi um hvaða ummæli það eru sem krafan um ómerkingu beindist að varnir stefnda hafi goldið þessarar ónákvæmni. Kröfugerð stefnenda er því nægilega skýr til að hún fullnægi meginreglum réttarfars um skýra og ákveðna kröfugerð. Er þá litið til þess að ekki verða sömu kröfur gerðar til nákvæmni kröfu um ómerkingu ummæla og gerðar verða til krafna sem eiga að vera aðfararhæfar.

            Þegar litið er heildstætt til þeirra ummæla sem stefndi setti fram á Facebook-síðu sinni 9. nóvember 2015 og málatilbúnaður stefnenda beinist að verður heldur ekki um villst að stefnendur eru þeir einstaklingar sem orðum stefnda var beint að, enda eru stefnendur þar greinilega auðkenndir með birtingu andlitsmynda af þeim. Við úrlausn þess hvort ummælin hafi falið í sér ólögmætar ærumeiðingar verður að miða við það hvernig telja megi að almennur lesandi skilji færsluna og samhengi þeirra orða sem þar eru viðhöfð við myndbirtinguna sem fylgdi færslunni. Á grundvelli þess mælikvarða verður að leggja til grundvallar að það liggi nægilega ljóst fyrir að ummælin sem tilgreind eru í liðum 1–4 í stefnu beinist að stefnendum og að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að krefjast ómerkingar ummælanna, sem og miskabóta.        

            Telja verður að hið sama gildi um ummæli sem höfð voru eftir stefnda á vefmiðlinum á Pressunni og hann viðhafði sjálfur í athugasemd við færslu Magnúsar Árna Gunnarssonar á Facebook sama dag. Þannig er haft eftir stefnda í frétt Pressunnar að ásetningur hans hafi beinlínis verið sá að vara við stefnendum og að því að þeir gætu haldið áfram uppteknum hætti. Stefndi hefur ekki borið því við að þessi ummæli hafi verið höfð ranglega eftir honum.

            Að því er varðar athugasemd stefnda við færslu Magnúsar Árna, þá er augljóst af henni að hún er sett fram sem viðbrögð við ummælum Magnúsar, sem birt voru með tengli á frétt mbl.is með upplýsingum frá lögreglu um að margumrædd íbúð í Hlíðunum hefði ekki verið útbúin til nauðgana. Í athugasemd stefnda ber hann brigður á fréttaflutning og ummæli Magnúsar, auk þess að fullyrða að hann hafi „sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma“.

            Í málinu er annars ágreiningslaust að ummælin sem eru tilefni málssóknarinnar voru látin falla í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um ætluð kynferðisbrot sem kærð höfðu verið til lögreglu. Í ljósi þess samhengis verður að hafna þeim málsástæðum stefnda að ummælin hafi falið í sér gildisdóma, enda fólu þau öll með einum eða öðrum hætti í sér skírskotun til fullyrðinga um að stefnendur hefðu gerst sekir um alvarleg kynferðisbrot og að ákveðnir atburðir hefðu þannig átt sér stað.

             Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 er það á forræði aðila hvaða sönnunargögn þeir færa fram til stuðnings málatilbúnaði sínum. Getur dómurinn því ekki byggt niðurstöðu sína á öðrum sönnunargögnum en þeim sem aðilar hafa lagt fyrir dóminn.

            Aðilar málsins hafa lagt fram gögn um umfjöllun fjölmiðla sem málið varðar. Að öðru leyti eru þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu afar takmarkaðar. Þannig liggja engar upplýsingar fyrir í málinu um þær kærur til lögreglu sem urðu til þess að fjölmiðlar fjölluðu um málið. Þá hafa engin gögn um rannsókn málsins verið lögð fyrir dóminn. Þá hefur stefndi ekki freistað þess að leiða nein vitni fyrir dóminn sem gætu borið um það hvort einhverjar af ávirðingum hans á hendur stefnendum hafi átt við rök að styðjast. Þar sem það var stefndi sem hafði í frammi ásakanir um að stefnendur, sem stefndi auðkenndi sérstaklega með myndbirtingu samhliða ummælum sínum, hefðu framið alvarleg kynferðisbrot verður að telja að það hafi staðið honum nær að upplýsa um atvik málsins að þessu leyti. Stefnendur komu báðir fyrir dóm og kváðu ummælin sem stefndi viðhafði og mál þetta varðar vera alröng. Í skýrslu stefnda fyrir dómi kom fram að hann hefði í raun engar heimildir haft fyrir því sem fram kom í ummælum hans aðrar en umfjöllun fjölmiðla og sögusagnir.

            Í ljósi þess að hvorki liggja fyrir neinir vitnisburðir né gögn í málinu um hið gagnstæða verður að leggja staðhæfingar stefnenda til grundvallar í málinu. Í því sambandi er heldur ekki hægt að líta fram hjá því að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dómi sínum frá 26. júní 2018 í máli nr. 729/2017, máli sem stefnendur höfðuðu á hendur fréttamönnum 365 miðla hf. vegna umfjöllunar um sakargiftirnar sem urðu kveikjan að þeim ummælum sem mál þetta snýst um, að fréttamennirnir hefðu í nokkrum tilvikum meitt æru stefnenda á ólögmætan hátt. Taldi Hæstiréttur að brot fréttamannanna gegn æruvernd stefnenda hefðu í meginatriðum falist í því að gefa sterklega til kynna og án fyrirvara að þeir hefðu gerst sekir um mjög gróft ofbeldi og þar með refsiverða háttsemi, sem ekkert lægi fyrir um að hefði átt sér stað, hvað þá með þeim hætti sem lýst var í hinum umstefndu ummælum.

            Hæstiréttur staðfesti að þessu leyti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem einnig var bent á að ætluð brot stefnenda hjá lögreglu hefðu ekki verið fullrannsökuð þegar umfjöllunin átti sér stað og því hefði verið óvarlegt að setja umfjöllunina fram með þeim hætti sem gert var. Hafa verður í huga að þessi dómur Hæstaréttar hefur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til hið gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

 

2.               Tjáningarfrelsi stefnda og réttindi stefnenda

            Málsvörn stefnda í málinu byggist í meginatriðum á því að hann hafi verið að neyta tjáningarfrelsis síns sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar og réttar síns til að lýsa opinberlega skoðunum sínum á málefnum líðandi stundar.

            Dómurinn tekur undir það að stefndi hafi, eins og fjölmiðlar og almenningur allur, ríkan rétt til að tjá sig um rannsókn kynferðisbrota og meðferð þeirra í réttarkerfinu. Ekki verður þó litið fram hjá því að þessu tjáningarfrelsi eru sett stjórnarskrárbundin mörk, m.a. vegna réttinda stefnenda til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, og teljast saklausir af ávirðingum um refsiverð brot þar til sekt þeirra er sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

            Stefndi hefur sér til varnar í málinu að öðru leyti einkum vísað til fyrirliggjandi umfjöllunar fjölmiðla og borið því við að sökum hennar hafi hann verið í góðri trú um að raunveruleg hætta stafaði af stefnendum.

            Undir þessa málsvörn getur dómurinn ekki tekið. Þannig verður ekki fallist á að ummæli stefnda hafi að mestu leyti takmarkast við endursögn þess sem þegar hafði komið fram í fjölmiðlum, eins og stefndi byggir á. Raunar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en stefndi hafi með því að birta andlitsmynd af stefnendum samhliða þeim ummælum sem mál þetta lýtur að, að vissu leyti gengið mun lengra og harðar fram gagnvart stefnendum en fjölmiðlar höfðu þá þegar gert. Þegar litið er til ummæla stefnda í tengslum við myndbirtinguna og þeirrar fjölmiðaumfjöllunar sem þegar hafði átt sér stað voru aðdróttanir hans ótvírætt til þess fallnar að vekja beina andúð og óvild í garð stefnenda persónulega. 

            Telja verður að stefnda hafi hlotið að vera þetta ljóst, enda verður ráðið af efni ummælanna að tilgangur stefnda með þeim og færslu sinni á Facebook hafi beinlínis verið sá að auðkenna stefnendur öðrum til viðvörunar með því að setja andlitsmyndir af þeim í beint samhengi við umfjöllun um mjög alvarleg afbrot. Samhliða lét stefndi meðal annars þau orð falla að þeir hefðu verið að „nauðga og misþyrma“ með sérútbúna íbúð í Hlíðunum og að hann hefði „sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma“.

            Eins og áður er komið fram hefur stefndi engin gögn fært fram í málinu sem renna stoð undir það að fullyrðingar hans hafi nokkurt sannleiksgildi. Þótt stefndi hafi lagt fram útprentun af umræðu á samfélagsmiðlum um samskipti annars stefnanda við annan aðila á samskiptaforritinu Snapchat og að sá stefnandi hafi viðurkennt fyrir dómi að hafa átt í slíkum samskiptum verða engar ályktanir dregnar af þessum gögnum sem renna stoðum undir þau ummæli sem deilt er um í málinu. Þannig er alls óljóst í hvaða samhengi þessi samskipti áttu sér stað á Snapchat og viðmælandi stefnenda í þeim hefur ekki borið vitni um frekara innihald þeirra. Þá verður því sem þar kemur fram ekki jafnað til þess að stefnandi hafi viðurkennt sekt sína hvað varðar þær aðdróttanir sem fólust í ummælum stefnda eða gefið tilefni til þeirra. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að stefndi hafi ekki haft neina slíka vitneskju með höndum sem gaf honum réttmætt tilefni til að birta mynd af stefnendum.       

            Að mati dómsins er engan veginn unnt að taka undir málsástæður stefnda um að einkalífsvernd stefnenda hafi orðið lakari en ella þar sem þær sakir sem á þá voru bornar hafi lent í hringiðu þjóðfélagsumræðunnar og auk þess lotið að kærum út af refsiverðum verknaði. Þótt skiljanlegt sé að reiðieldar hafi kviknað á samfélagsmiðlum vegna rangs og villandi fréttaflutnings tiltekins fjölmiðils af málinu, þá er fulljóst að stefndi hellti sjálfur olíu á þá elda með ummælum sínum og myndbirtingu. Það að annar aðili hafi upphaflega kveikt það bál sem stefnandi ákvað síðan sjálfur að kynda undir með svo afgerandi hætti getur ekki dregið úr ábyrgð hans á eigin ummælum.

            Með vísan til þess sem að framan er rakið og þegar litið er heildstætt til efnis þeirra ummæla sem tilgreind eru í kröfuliðum 1–6 í stefnu og þess samhengis sem þau voru sett fram í, einkum hvað varðar myndbirtingu stefnda af stefnendum, verður að fallast á það með stefnendum að ummælin hafi farið í bága við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga og þau beri því að ómerkja samkvæmt 241. gr. sömu laga.

            Að því er varðar þá málsástæðu stefnenda að stefndi hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga, þá verður að líta svo á að birting mynda af einstaklingum sem þeir sjálfir hafa deilt opinberlega falli almennt ekki innan gildissviðs ákvæðisins. Gögn málsins eru ekki alls kostar skýr um það hvort myndirnar sem stefndi birti af stefnendum hafi verið teknar af opinberum Facebook-síðum þeirra og þær hafi verið meðal mynda sem hver sem var gat nálgast, eða hvort þær hafi verið teknar af einkasvæði þeirra sem stefndi hafði ekki aðgang að.

            Hvað sem líður uppruna myndanna að þessu leyti verður þó að líta svo á að birting andlitsmynda af stefnendum í samhengi við þær alvarlegu ávirðingar sem stefndi hafði í frammi hafi falið í sér sjálfstætt brot gegn 229. gr. almennra hegningarlaga og verið brot gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Verður þá að horfa til þess að stefndi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi haft neitt lögmætt tilefni til ummælanna og þar með birtingar myndarinnar samhliða þeim.

 

3.               Krafa stefnenda um miskabætur

            Eins og áður segir gera stefnendur hvor um sig þá kröfu að stefndi verði dæmdur til þess að greiða hvorum þeirra miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 21. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

            Í skýrslum sínum fyrir dómi lýstu stefnendur því hvaða áhrif umfjöllun fjölmiðla og ummæli stefnda hefðu haft á líf þeirra. Þannig lýsti annar þeirra því að hann hefði þurft að hverfa frá námi og hinn frá starfi sem hann hafði gegnt um langt skeið. Þá lýstu þeir því að þeim hefðu borist hótanir og að þeir töldu sér ekki vært hér á landi þar sem allir þekktu þá vegna myndbirtinga á samfélagsmiðlum. Þeir munu í kjölfarið hafa dvalist langdvölum erlendis. Annar þeirra kvaðst fyrir dómi þó eiga hér barn, sem hann vildi gjarnan sinna. Þá kvaðst annar þeirra hafa starfað erlendis en hinn hefur, að eigin sögn, verið atvinnulaus í langan tíma. Báðir lýstu þeir fyrir dómi andlegri vanlíðan og að þeir forðuðust samskipti við fólk. Kvaðst annar þeirra hafa leitað sér aðstoðar sálfræðings.

           Í máli þessu liggja ekki fyrir nein gögn önnur en framburðir stefnenda um það hvaða áhrif umfjöllunin hafi haft á stöðu þeirra og hagi. Í ljósi þess að stefndi hefur ekki gert ágreining um þetta atriði og þegar litið er til forsendna Hæstaréttar um sams konar efni í máli nr. 729/2017, sem stefnendur höfðuðu á hendur fréttamönnum 365 miðla ehf., verður að telja nægilega fram komið að málið hafi haft mikil áhrif á stöðu þeirra og hagi.

           Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja stefnendur eiga rétt á miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi stefndu vegna hinna ærumeiðandi aðdróttana og þess brots á friðhelgi einkalífs þeirra sem fólst í að birta andlitsmyndir af þeim.

           Við ákvörðun fjárhæðar bótanna er óhjákvæmilegt að líta til þess að stefnandi gekk fram af offorsi í ummælum sínum og setti í engu fyrirvara við sannleiksgildi ummæla sinna. Ágreiningslaust er að færslu hans með myndum af stefnendum var dreift meira en tvö þúsund sinnum og ljóst er að stefndi hvatti sjálfur til sem mestrar dreifingar. Með vísan til þess sem alþekkt er um virkni samfélagsmiðla má því ætla að færsla stefnda og myndbirting hafi hlotið mjög mikla dreifingu. Í ummælunum voru bornar mjög alvarlegar ávirðingar á stefnendur sem stefndi hefur engan veginn sýnt fram á réttmætt tilefni hafi verið til.

           Þá þykir jafnframt sýnt fram á að umfjöllun stefnda hafi haft víðtæk og íþyngjandi áhrif á stefnendur, en í framburði þeirra fyrir dómi kom fram að þeir hefðu hrökklast af landi brott í kjölfarið og flosnað bæði upp úr vinnu og námi. Við mat á fjárhæð miskabóta verður að leggja áherslu á að stefndi setti í reynd stafrænan merkimiða á stefnendur um að þeir hefðu ítrekað gerst sekir um alvarleg kynferðisbrot án þess hafa neitt frekar fyrir sér en það sem hann sjálfur las í fjölmiðlum, þar sem stefnendur voru ekki nafngreindir, og hann hafði heyrt sögusagnir um. Þá verður jafnframt að líta til þess að vandfundin eru verri ámæli gagnvart einstaklingum en að þeir séu harðsvíraðir kynferðisglæpamenn.

           Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hæfilegt að stefndi greiði hvorum stefnanda fyrir sig 350.000 krónur í miskabætur. Við ákvörðun bótanna er horft til þess að stefnendum hafa þegar verið ákvarðaðar miskabætur í fyrrnefndu máli nr. 729/2017 vegna þeirrar  umfjöllunar fjölmiðla sem ummæli stefnda verða rakin til að miklu leyti. Þá er einnig litið til þess að telja verður líkur gegn því að ummæli stefnda í þessu máli hafi hlotið viðlíka útbreiðslu og umfjöllun fjölmiðla í fyrra málinu, þrátt fyrir að þeim hafi vissulega verið dreift víða.

           Stefnendur hafa enn fremur krafist þess að stefndi greiði miskabætur með vöxtum „samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001“ frá 9. nóvember 2015 til 21. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Að því er varðar tilvísun stefnenda til ákvæðis 1. málsliðar 4. gr., þá segir í ákvæðinu að þegar greiða beri vexti samkvæmt 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skuli vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir samkvæmt 10. gr.

           Telja verður ljóst að framangreint ákvæði 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 getur ekki átt við um ákvörðun vaxta á kröfu stefnenda, enda felur krafan efnislega í sér kröfu um skaðabætur, en um ákvörðun vaxta af slíkri kröfu fer eftir 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Þó að fallist hafi verið á það í dómi Hæstaréttar í máli nr. 729/2017 að miða vexti af miskabótum við ákvæði 1. málsl. 4. gr. verður dómurinn að leggja til grundvallar orðalag ákvæða laga nr. 38/2001, sem og áralanga dómvenju Hæstaréttar um sama efni, sbr. nú síðast dóm Hæstaréttar frá 15. nóvember 2018 í máli nr. 828/2017.

           Í ljósi þessa og þegar horft er til þess að stefnendur hafa ekki gert nánari grein fyrir því hvers vegna vextir af kröfu þeirra eigi að dæmast eftir 1. málsl. 4. gr. verður að sýkna stefnda af vaxtakröfu stefnenda að þessu leyti. Að því er varðar kröfu stefnenda um dráttarvexti, þá þykir rétt að fallast á kröfu stefnenda um að dráttarvextir reiknist frá 21. maí 2016, enda var þá liðinn mánuður frá því að lögmaður þeirra lagði fram kröfu á hendur stefnda um greiðslu miskabóta.

           Í samræmi við þessi málsúrslit verður stefnda gert að greiða stefndu óskipt málskostnað í málinu sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur án virðisaukaskatts.

           Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

Dómsorð:

           Öll ummæli í kröfuliðum 1–6 í stefnu eru dæmd dauð og ómerk. Stefndi, Tryggvi Viðarsson, greiði stefnendum, A og B, hvorum um sig 350.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi er sýknaður af kröfu stefnenda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001.

           Stefndi greiði stefnendum óskipt 800.000 krónur í málskostnað.