• Lykilorð:
  • Börn
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skilorðsbundnir dómar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 2018 í máli nr. S-681/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Þorleifi Jónssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember 2018 var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. nóvember 2018 á hendur:

 

                        „Þorleifi Jónssyni, kt. 000000-0000,

                        [...], 101 Reykjavík,

 

fyrir brot í nánu sambandi og gegn barnaverndarlögum með því að hafa, [...] 2016, á heimili [...], veist með ofbeldi að [...], kt. 000000-0000, hrint honum á stól svo hann féll í gólf með höfuð og í kjölfarið tekið hann hálstaki þar sem hann lá í gólfinu þar til hann var stöðvaður af A, allt með þeim afleiðingum að B hlaut marga yfirborðsáverka á höfði og hálsi og mar á vinstri framhandlegg. 

Mál nr. 007-2016-59685

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

B, kt. 000000-0000, gerir kröfu um að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 700.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 11. október 2016 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var birt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Einnig er gerð krafa um málskostnað að mati dóms eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til álags vegna virðisaukaskatts.“

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að hún verði þá bundin skilorði. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda, réttargæslumanni og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

            Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á refsiákvörðun í máli þessu en hann hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot. Er til þess litið, svo og til greiðrar játningar hans hér fyrir dómi. Þá hefur ákærði viðurkennt bótaskyldu gagnvart brotaþola. Vísast í þessu sambandi til 5. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til þyngingar horfir að brotaþoli var nákominn ákærða [...]. Þá var atlagan gróf og hlaut brotaþoli nokkra líkamlega áverka þó að þeir hafi ekki verið alvarlegir. Vísast í þessu sambandi til 1. tl. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ekki eru efni til þess að beita 3. mgr. 70. gr. samhliða sakfellingu fyrir 1. mgr. 218. gr. b.

            Nokkuð er liðið frá því að brotin voru framin en ekki verður annað séð en að rannsókn málsins hafi verið lokið í byrjun árs 2017. Málið er ekki umfangsmikið og verður ákærða ekki kennt um þennan drátt ákæruvaldsins.

Samkvæmt framansögðu þykir hæfileg refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Af hálfu brotaþola er gerð sú krafa að ákærða verði gert að greiða honum 700.000 krónur í miskabætur með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði krefst lækkunar bótafjárhæðarinnar.

Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Við ákvörðun miskabóta er horft til tengsla ákærða við brotaþola en það eykur miska brotaþola. Þykir miski brotaþola hæfilega metinn 400.000 krónur og ber sú fjárhæð vexti eins og í dómsorði greinir.

 

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Guðmundar St. Ragnarsson lögmanns, 105.400 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola Péturs Fannars Gíslasonar lögmanns, 84.320 krónur, og 37.800 krónur í annan sakarkostnað.

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Þorleifur Jónsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði B 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 11. október 2016 til 5. janúar 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Guðmundar St. Ragnarsson lögmanns, 105.400 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola Péturs Fannars Gíslasonar lögmanns, 84.320 krónur, og 37.800 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)

 

---------------------          ---------------------          ----------------------

            Rétt endurrit staðfestir:

            Héraðsdómur Reykjavíkur, 7. desember 2018