• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Upptaka
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2018 í máli nr. S-249/2018:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Andrési Páli Kolbeinssyni

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 30. apríl 2018, á hendur Andrési Páli Kolbeinssyni, kt. 000000-0000, Bríetartúni 18, Reykjavík, fyrir fíkniefnalagabrot í Hafnarfirði með því að hafa fimmtudaginn 29. júní 2016 haft í vörslum sínum, í sölu og dreifingarskyni, 19,97 g af marijúana og 91,28 g af hassi sem lögregla fann á heimili Andrésar að Trönuhrauni 7 og hafa um nokkurt skeið, áður en lögregla leitaði í húsnæðinu í umrætt sinn, staðið þar að ræktun á 10 kannabisplöntum.

 

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að framangreind fíkniefni sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001. Þá  er þess jafnframt krafist að með dómi verði gerðir upptækir 4 gróðurhúsalampar, 2 loftsíur, 2 loftdælur, 3 borðviftur, 2 spennar og tímarofi, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

 

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í nóvember 1970. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Ákærði hefur játað brot sín greiðlega og er það virt honum til málsbóta. Við ákvörðun refsingar er einnig litið til umfangs þeirra fíkniefna sem tilgreind eru í ákæru.

Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 19,97 g af marijúana, 91,28 g af hassi, 10 kannabisplöntur, 4 gróðurhúsalampar, 2 loftsíur, 2 loftdælur, 3 borðviftur, 2 spennar og tímarofi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Engan annan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Andrés Páll Kolbeinsson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 19,97 g af marijúana, 91,28 g af hassi, 10 kannabisplöntur, 4 gróðurhúsalampar, 2 loftsíur, 2 loftdælur, 3 borðviftur, 2 spennar og tímarofi.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 105.400 krónur.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir