• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2018 í máli nr. S-261/2018:

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Inga Lárussyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 30. apríl 2018, á hendur Inga Lárussyni, kt. 000000-0000, Mímisvegi 2a, Reykjavík fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa þriðjudaginn 17. október 2017 ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 20 ng/ml) norður Eiðisgranda uns aksturinn var stöðvaður á móts við Boðagranda

 

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall.  Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í nóvember 1986. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 26. apríl 2018, gekkst hann undir sektarrefsingu með lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrots, meðal annars ölvunaraksturs og aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, 10. febrúar 2012 og aftur 20. janúar 2016. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti, 23. nóvember 2017. Þau brot sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli voru framin fyrir uppkvaðningu framangreinds dóms og verður ákærða því dæmdur hegningarauki nú, samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 daga.

 Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá 23. nóvember 2017.

Ákærði greiði 76.971 krónu í sakarkostnað.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Ingi Lárusson, sæti fangelsi í 15 daga.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá 23. nóvember 2017.

Ákærði greiði 76.971 krónu í sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir