• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2019 í máli nr. S-845/2018:

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóni Bergmanni Jakobssyni

(Magnús Davíð Norðdahl lögmaður)

            Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. desember 2018, á hendur Jóni Bergmanni Jakobssyni, kt. [...],[...], Reykjavík, fyrir brot gegn valdstjórninni og gegn lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg, framin í Reykjavík aðfaranótt laugardagsins 2. desember 2017, með því að hafa, utandyra við anddyri Austurstrætis 11, kastað af sér vatni, og þegar lögreglan hafði afskipti af honum vegna þess og í kjölfarið, í lögreglubifreið á leið á lögreglustöðina við Hverfisgötu, ítrekað hótað lögreglumönnunum A, B og C, líkamsmeiðingum, og eftir að hafa yfirgefið lögreglustöðina við Hverfisgötu, kastað þar af sér vatni.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 3. gr., sbr. 30. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg nr. 1097/2008, sbr. 1. gr., a-lið 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um lögreglusamþykktir nr. 36/1988.         Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hans, dagsettu 3. desember 2018, hefur ákærði þrisvar gengist undir greiðslu sektar með lögreglustjórasáttum síðan árið 2016 vegna fíkniefna- og umferðarlagabrota. Þær sektir hafa þó ekki áhrif á ákvörðun refsingar í þessu máli.

            Með hliðsjón af framangreindu og sakarefni málsins, sem og skýlausri játningu ákærða fyrir dómi, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Davíðs Norðdahls lögmanns, 168.640 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jón Bergmann Jakobsson, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Davíðs Norðdahls, lögmanns, 168.640 krónur.

 

Þórhildur Líndal