• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Endurgreiðslukrafa
  • Fasteign
  • Fjöleignarhús
  • Gjaldþrotaskipti
  • Húsaleiga
  • Húsfélag
  • Kaupsamningur
  • Leigusamningur
  • Málamyndagerningur
  • Tryggingarbréf

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 20. júní 2018 í máli nr. E-2650/2017:

Þrotabú A

(Jónas Jóhannsson lögmaður)

gegn

B og

C

(Steinbergur Finnbogason lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta var höfðað 7. september 2017 og dómtekið 30. maí 2018. Stefnandi er þrota­bú A, kennitala [...], [...], Reykjavík. Stefndu eru B, [...], [...], og C, [...], [...]. Dómkröfur stefnanda eru:

1.        Að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun þrotamanns, D, að gefa út og veita veðheimild í fasteigninni að X, fnr. [...], Reykja­­­vík, með tryggingarbréfi, þinglýstu 7. mars 2016, til handa stefndu, að fjár­hæð 8.000.000 króna á 2. veðrétt fasteignarinnar, með uppfærslurétti.

2.        Að rift verði með dómi ráðstöfun þrotamanns, D, til handa stefndu, B, að andvirði 5.432.891 króna sem fram fór þann 6. júní 2016 með afsali og afhendingu þrotamanns til stefndu á 100% eignar­hlut þrota­manns í fasteigninni að X, fnr. [...], Reykjavík.

3.        Að stefndu, B, verði gert að greiða stefnanda 5.432.891 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 6. júní 2016 til 14. september 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi hvorra tveggja stefndu, stefnanda að skaðlausu, sam­­­kvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, að teknu tilliti til virðisauka­skatts.

Stefndu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda en til vara er þess krafist að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega. Þá krefjast stefndu þess að stefn­­­­andi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, hvernig sem málið fer, að mati dóms­­ins eða að málskostnaður verði felldur niður.

Dómara var úthlutað málinu 10. janúar 2018 en fram að þeim tíma hafði hann ekki komið að meðferð þess.

 

II.

Málavextir:

D var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...] 2016, í máli nr. E-[...], sem var dómtekið 22. febrúar sama ár, dæmd til að greiða E 3.468.585 krónur með vöxtum, auk málskostnaðar. E, sem þá hafði stöðu gerðar­beiðanda, sendi sýslu­­­­manni beiðni um aðför 11. apríl 2016 til fullnustu á kröfu samkvæmt framan­greindri dómsniðurstöðu. Aðförin fór fram 8. júní sama ár en við að­för­ina lýsti lög­maður D, sem þá hafði stöðu gerðar­­þola, því yfir að hún ætti engar eignir og lauk gerðinni þann sama dag sem árangurs­­­­­lausri samkvæmt kröfu gerðar­beið­anda. 

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017, í máli nr. G-[...], var bú D tekið til gjaldþrotaskipta, samkvæmt kröfu skipt­a­­­beiðanda, fyrr­­greindrar E, dagsettri 16. júní 2016. F lög­­maður var skip­aður skiptastjóri. Við töku bús D til gjaldþrotaskipta fékk hún stöðu þrota­manns sam­kvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Frestdagur við skiptin var 16. júní 2016, sbr. dag­setn­­ingu á kröfu skiptabeiðanda um gjaldþrotaskipti. Aug­lýsing um inn­köllun kröfu­hafa birtist í Lög­birtingablaði í fyrra sinn [...] 2017 og lauk kröfu­lýsingar­­fresti 13. mars sama ár. Heildar­fjár­hæð lýstra krafna nam 6.438.017 krónum.

Við athugun skiptastjóra á ráðstöfun þrotamanns, sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991, kom í ljós að þrotamaður hafði ráðstafað til stefndu, barna sinna, til­­­­­teknum eignum. Þannig hafði þrotamaður gefið út tryggingarbréf 4. mars 2016, nánar tiltekið alls­herjar­­­­­veð með 2. veðrétti í fasteign sinni að X, til trygg­ingar skilvísri og skað­­lausri greiðslu á öllum skuldum og fjár­skuldbindingum við bæði stefndu, allt að 8.000.000 króna. Einnig hafði þrotamaður afsalað fasteigninni að X til stefndu B 1. júní 2016.  

Við aðalmeðferð gaf aðilaskýrslu F, lögmaður og skiptastjóri þrota­­­­­búsins, og vitnið G, vinur þrotamanns. Vísað verður til fram­­­burða þeirra eftir því sem þurfa þykir í niður­stöðu­kafla dómsins.

 

 

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Varðandi 1. dómkröfu um riftun á tryggingarbréfi þá vísar stefnandi til þess að trygg­­ingarbréf hafi verið gefið út 4. mars 2016 og móttekið til þinglýsingar 7. sama mán­aðar. Þá hafi bréfið verið innfært í fasteignabók 10. sama mánaðar. Bréfið veiti stefndu allsherjarveð á 2. veðrétti í fasteigninni að X, Reykjavík, með upp­­­­­­­­­færslurétti, næst á eftir veðskuldabréfi til Íbúða­lánasjóðs að höfuðstólsfjárhæð 11.920.000 krónur, en staða lánsins 1. júní 2016 hafi verið 12.467.109 krónur. Trygg­ingar­­­­­bréfið standi til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum þrotamanns við stefndu en þau teljist bæði vera nákomin þrotamanni í skilningi 2. mgr. 137. gr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1991. Fasteignamat fasteignarinnar að X, [...], árið 2016, hafi verið 17.900.000 krónur en sé nú 20.850.000 krónur. Stefn­­­­­andi byggir á því að stefndu hafi hvorki lagt þrotamanni til fjármuni né verð­­mæti og þrotamaður hafi ekki stofnað til skuldar við stefndu á þessum tíma. Trygg­ingar­bréfið hafi verið gefið út um það bil tveimur vikum fyrir frestdag og því sé þegar mætt skil­­yrðum samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 20/1991.

Varðandi 2. dómkröfu um riftun á ráðstöfun þrotamanns 6. júní 2016 að andvirði 5.432.891 króna með útgáfu afsals o.fl. þá byggir stefnandi dómkröfuna aðal­lega á 131. gr. laga nr. 20/1991. Með afsali dag­settu 1. júní 2016, sem móttekið hafi verið til þing­­lýsingar 6. sama mánaðar og inn­fært í fasteignabók 20. sama mánaðar, hafi þrota­maður framselt til dóttur sinnar, stefndu B, 100% eignarhlut sinn í fyrr­greindri fast­eign­ að X. Um sé að ræða 73,2 fermetra íbúð en við fram­­­salið hafi stefnda B orðið eini eig­andi fasteignarinnar.

Enginn kaupsamningur hafi verið gerður en í afsali komi fram að kaupverð hafi að fullu verið greitt við útgáfu afsals og að áhvílandi skuldir hafi verið yfirteknar. Stefn­­­­­­­­­andi telur að það liggi fyrir að skuldskeyting hafi ekki fengist um lán Íbúðalána­sjóðs á 1. veð­rétti eignarinnar fyrr en 7. október 2016. Þá hafi ekki verið getið um hverjar hafi verið skuldir að baki tryggingarbréfi sem yfirteknar hafi verið, en ekki hafi verið greitt með skulda­­jöfnun.

Stefnandi byggir á því að stefnda B hafi í raun aðeins yfirtekið áhvílandi skuld við Íbúðalánasjóð og hún þar með fengið íbúðina selda sér gegn óeðlilega lágu verði þannig að allur eignarhlutur þrotamanns í fasteigninni hafi verið afhentur henni. Stefn­andi telur að um sé að ræða gjöf þrotamanns til nákomins aðila. Stefnandi vísar til þess að riftunar­regla samkvæmt 131. gr. laga nr. 20/1991 byggi á hlutlægum grund­velli. Stefnandi byggir á því að með framsali fasteignarinnar að X hafi þrota­­­­maður gefið stefndu B allan eignarhlut sinn í fasteigninni án þess að raun­­­­­verulegt eða eðlilegt endurgjald hafi komið fyrir eignarhlutinn.

Þá vísar stefnandi til 140. gr. laga nr. 21/1991 og byggir á því að miða skuli fram­salið við 6. júní 2016, sem sé það tímamark þegar afsalið hafi verið afhent til þing­lýs­ingar hjá sýslumanni, en ekki eigi að miða við dagsetningu á afsalinu 1. sama mán­aðar.

Varðandi 3. dómkröfu um endurgreiðslu þá byggir stefnandi á því að stefndu beri að greiða bætur sem nemi að minnsta kosti verðmæti hinnar framseldu eignar. Stefn­­­­­andi vísar til 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar sé kveðið á um að eigi riftun sér stoð í 131.–138. gr. laganna þá skuli sá sem hag hafi af riftan­legri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðslan hafi orðið honum að notum. Stefnandi byggir á því að verðmæti eignar­hlut­arins sé að lágmarki 5.432.891 króna, sem sé verðmæti samkvæmt fasteignamati, að frá­­­dreginni áhvílandi skuld við Íbúðalánasjóð.

Í máli þessu byggir stefnandi jafnframt á 141. gr. laga nr. 21/1991 varðandi 1. dóm­kröfu um riftun tryggingarbréfs nái riftun þess ekki fram að ganga á grundvelli 137. gr. laganna. Þá byggir stefnandi 2. dómkröfu um riftun á ráðstöfun þrotamanns 6. júní 2016 að andvirði 5.432.891 króna með útgáfu afsals o.fl. á 1. og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 nái riftun ekki fram að ganga á grundvelli 131. gr. sömu laga. Enn fremur byggir stefnandi á 141. gr. lag­a nr. 21/1991 til stuðnings þeirri dómkröfu ef riftun nær hvorki fram að ganga á grundvelli 131. eða 134. gr. sömu laga. Stefnandi byggir einnig 3. dómkröfu um endurgreiðslu á 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 taki dóm­­­urinn mið af 141. gr. sömu laga við staðfestingu riftunar samkvæmt 2. dómkröfu. Með hliðsjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­ástæðum og lagarökum stefnanda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Um lagarök að öðru leyti tekur stefnandi fram að málið sé höfðað í þeirri þinghá þar sem fasteignin að X sé staðsett, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 91/1991. Þá reki stefnandi málið á hendur stefndu saman, sbr. 18. gr. sömu laga, enda eigi þau óskiptan rétt og skyldu samkvæmt tryggingarráðstöfun þeirri sem krafist er riftunar á, auk 19. gr. lag­anna að öðru leyti. Krafa um riftun afsalsgjörnings sé rekin á grundvelli 27. gr. sömu laga enda eigi krafan rætur sínar í sama atviki, aðstöðu eða löggerningi. Stefn­­­­­­andi tekur fram að krafa um vexti byggi á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­­­­tryggingu og að sú krafa miðist við það að hin bótaskyldu atvik hafi átt sér stað við færslu afsals í dagbók sýslumanns, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991. Þá byggir dráttarvaxtakrafa á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 og miðist hún við þing­­­­­­­­­festingardag málsins. Krafa um máls­kostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991. Þá tekur stefnandi fram að málið sé höfðað innan frests samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 en kröfulýsingarfresti hafi lokið 13. mars 2017.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefndu:

Varðandi greiðsluhæfi þrotamanns þá benda stefndu á að þeim hafi við afsal fast­eignar­­­innar á árinu 2016 verið með öllu óljóst að þrotamaður hefði verið ógjald­fær í skiln­­­ingi laga nr. 20/1991. Stefndu benda á að helsti kröfuhafi þrotabúsins hafi enga til­raun gert til að fá kröfu sína greidda frá þrotamanni öðruvísi en með því að knýja fram gjald­­þrot, sem að mati stefndu verði að teljast nokkuð harkalega aðgerð gagnvart há­­aldraðri konu með takmarkaðar tekjur. Stefndu telja ljóst að þrota­maður hefði getað greitt viðkomandi kröfu hefði hún fengið til þess tækifæri. Á ár­inu 2016 hefði verið ljóst að þrotamaður hefði verið tekjulítil árum saman og í raun eignalítil. Þá verði að mati stefndu ekki séð að umrædd ráðstöfun hafi skert greiðslu­­hæfi þrotamanns sem nokkru hafi numið.

Varðandi 1. dómkröfu stefnanda um riftun á tryggingarbréfi þá byggja stefndu á því að lítill hluti bréfsins hafi komið til uppgjörs við sölu eignarinnar og það hafi í raun ekki rýrt greiðslugetu bús­ins. Um sé að ræða fjárhæð sem nemi 643.542 krónum að því gefnu að fallist sé á það með stefnanda að söluverð fast­eignar­innar hafi verið 17.900.000 krónur, sbr. kaup­samn­ing og greiðslur sem hafi farið á milli.

Varðandi 2. dómkröfu stefnanda um riftun á ráðstöfun þrotamanns 6. júní 2016 að and­virði 5.432.891 krónur með útgáfu afsals o.fl. á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, þá byggir sýknukrafa stefndu B á því að greitt hafi verið fullt verð fyrir eignina, 17.256.458 krónur, án þess að tekið sé tillit til tryggingarbréfsins. Stefnda geri ekki athuga­semd við verð­mat stefnanda á fasteign­inni, 17.900.000 krónur, sem hún telji um það bil rétt verð­mæti eignarinnar með um 10 til 20% vik­mörk­­­­um vegna ráðstöfunarréttar þrotamanns. Stefnda byggir á því að full greiðsla hafi komið fyrir eignina, 17.256.458 krónur, með svofelldri sundur­­­liðun:

Með yfirtöku áhvílandi skuldar frá Íbúðalánasjóði

12.540.578 krónur

Með yfirtöku á þegar ákveðnum framkvæmdum

     850.000 krónur

Með fyrirframgreiddum leigusamningi til 12 mánaða

   1.200.000 krónur

Með greiðslu á peningum

   2.000.000 króna

Með yfirtöku á kostnaði vegna kaupsamnings

      665.880 krónur

Samtals:

17.256.458 krónur

 

Stefnda byggir á því að framan­greind upphæð sé í raun kaupverð sem sé verulega ná­lægt mats­­virði. Að mati stefndu sé því ekki grundvöllur fyrir riftun þar sem mis­mun­ur­­inn á kaup­verði og mats­­­virði geti engu máli skipt fyrir greiðsluhæfi búsins. Að því virtu beri að sýkna stefndu enda hafi verið greitt fullt verð fyrir eignina. Stefnda byggir á því að vik­mörk megi vera allt að 20% án þess að skilyrði riftunar sé fullnægt. Miðað við mats­verð sé heimilt að miða kaup­verð við 14.320.000 krónur, verði ein­hverjir af framan­greindum lið­um samþykktir sem hluti af kaupverði.

Ef ekki verður fallist á að miða við fyrrgreint kaupverð, 17.256.458 krónur, sem hafi verið greitt miðað við framangreinda sundurliðun, þá byggir stefnda á því að niður­­felling á tryggingarbréfi hafi til viðbótar skilað greiðslu fyrir mis­­­­­­­­­mun, 643.542 krónum. Að mati stefndu sé sú fjárhæð svo lág að hún hafi ekki haft áhrif á greiðslu­getu svo nokkru nemi og hún hafi verið innan eðlilegra marka varð­andi ráð­­stöfunar­rétt yfir eignum. 

Að mati stefndu bendir ekkert til þess að um hafi verið að ræða gjafa­gern­ing. Stefnda byggir á því að um hafi verið að ræða raunveruleg viðskipti þar sem greiðsla hafi komið fyrir verðmæti. Umræddur samningur, sem riftunarkrafa taki til, hafi verið greiðsla í viðskiptum sem standist fullkomlega skoðun og geti ekki talist til gjafar í skiln­­­­­­­­­­­­­ingi 131. gr. laga nr. 21/1991. Að mati stefndu verði ekki betur séð en að með mála­­­­­­­­­­­­­­­­­tilbúnaði stefnanda sé leitast við að ýja að því að engin viðskipti hafi átt sér stað milli þrotamanns og stefndu, sbr. 2. mgr. 131. gr. fyrrgreindra laga. Stefnda mótmæli þessu sem röngu, ósönnuðu og vanreifuðu.

Stefnda telur að það leiði af skýringu 131. gr. laga nr. 21/1991, að því er varðar gjafa­­­­­­­­­­­­tilgang, að viðskiptalegar ráðstafanir falli utan gildis ákvæðisins. Greiðsla sú sem innt hafi verið af hendi hafi verið á viðskiptalegum forsendum. Að því virtu falli meint riftan­­­leg greiðsla utan ákvæðisins. Einungis hafi verið um að ræða greiðslu á skuld sem til hafi verið stofnað í viðskiptalegum tilgangi.

Varðandi þriðju dómkröfu stefnanda um endurgreiðslu samkvæmt 1. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 þá mótmælir stefnda B því að þau lagaskilyrði séu uppfyllt og vísar hún til þess sem áður greinir um að skilyrði riftunar séu ekki uppfyllt. Um frekari röksemdir í því sambandi vísar stefnda til framangreindrar um­fjöllunar. 

Þessu til viðbótar taka stefndu til varna að því er varðar dómkröfu stefnanda um það hvort riftun á tryggingarbréfi verði reist á 141. gr. laga nr. 21/1991 nái riftun bréfsins ekki fram að ganga á grundvelli 137. gr. sömu laga. Stefnda B tekur auk þess til varna varðandi málatilbúnað stefnanda um það hvort 2. dómkrafa um riftun á ráðstöfun þrotamanns 6. júní 2016 að andvirði 5.432.891 króna með útgáfu afsals o.fl. fari fram á grundvelli 1. og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verði riftun ekki reist á 131. gr. sömu laga. Þá tekur hún einnig til varna varðandi mála­tilbúnað stefnanda um það hvort 141. gr. lag­anna geti átt við til stuðnings þeirri sömu dóm­kröfu nái riftun á grundvelli 131. eða 134. gr. ekki fram að ganga. Hið sama eigi við um málatilbúnað stefnanda varðandi 3. dómkröfu um það hvort endur­greiðsla fari fram á grundvelli 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 taki dómurinn mið af 141. gr. sömu laga varðandi riftun samkvæmt 2. dóm­kröfu. Með hlið­sjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­­ástæðum og laga­rökum stefndu að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Að öllu framangreindu virtu þá telja stefndu að sýkna beri þau af öllum kröfum en stefnda B byggir á sömu málsástæðum til stuðnings varakröfu um lækkun á stefnu­­­fjár­hæð. Um lagarök að öðru leyti vísa stefndu til framangreindra ákvæða í lög­um nr. 21/1991, auk 148. og 155. gr. þeirra laga. Þá vísa stefndu til meginreglna kröfu- og samninga­réttar um skuld­­­bindingargildi samninga og efndir fjárskuld­bind­inga. Varð­andi kröfu um máls­kostnað vísa stefndu til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

IV.

Niðurstaða varðandi dómkröfu um riftun tryggingarbréfs:

Fyrir liggur að umrætt trygg­­­­­­­­­ingar­bréf var gefið út af þrotamanni 4. mars 2016. Tryggingarbréfið var móttekið til þing­lýs­­­ingar 7. mars sama ár og innfært í fasteigna­bók 10. sama mánaðar með 2. veð­­­­rétti í um­­­­­­­­­­ræddri fasteign með uppfærslurétti. Frest­dagur við skiptin er 16. júní 2016 og liggur þannig fyrir að trygg­­ingar­bréfið var gefið út rúmum þremur mánuðum fyrir frest­dag. Þegar af þeirri ástæðu eru uppfyllt skilyrði rift­­­­unar samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991. Huglæg vitneskja stefndu um fjárhag þrotamanns hefur ekki þýðingu í þessu sambandi. Að þessu virtu verður fallist á dóm­kröfu stefnanda um að rift verði með dómi þeirri ráð­stöfun þrota­manns að gefa út og veita veðheimild í um­ræddri fast­eign með framangreindu trygg­ingar­­­­bréfi mótteknu til þinglýsingar 7. mars 2016, til handa stefndu, að fjárhæð 8.000.000 króna á 2. veðrétti fast­eignarinnar með upp­færslu­­rétti.

 

Niðurstaða varðandi dómkröfu um riftun ráðstöfunar þrotamanns 6. júní 2016 að and­­virði 5.432.891 króna með útgáfu afsals o.fl.:

Stefnandi byggir á því að um hafi verið að ræða gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir liggur að stefnda B er niðji þrota­manns og þær því ná­komnar í skiln­­­­­­­­ingi 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Við skýringu á hugtakinu gjöf í gjald­­­­­­­­­­­­þrota­rétti er meðal annars lagt til grund­vallar að um geti verið að ræða gjöf þótt fyrir liggi að mót­tak­andinn hafi innt af hendi eitt­hvert endurgjald. Undir reglu 131. gr. laga nr. 21/1991 geta því fallið ýmsir gagn­kvæmir samningar, þar sem sannarlega er um eitt­hvert endur­­­gjald að ræða af hálfu mót­­­­takanda, en skilyrði riftunar geta þó engu að síður verið fyrir hendi. Er almennt litið til þess hversu mikill munur er á verð­mæti endur­­­­­­­gjalds og verðmæti gjafar miðað við þann tíma þegar ráðstöfunin kom til fram­­­­­­kvæmda. Þá geta einnig geta skipt máli tengsl gjafþega og þrotamanns en þegar svona háttar til eru almennt taldar meiri líkur á því að um gjafagerninga sé að ræða ef um er að ræða ráðstafanir til nákominna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands 30. apríl 1998, í máli nr. 309/1997, sem birtur er í dómasafni 1998, bls. 1602. Tilætlun þrota­­manns þarf að hafa verið sú að auðga gjaf­­þegann án þess að hann fengi nokkurt veru­­legt endurgjald fyrir. Heiti ráð­­­stöfunar eða ytri umgjörð hefur ekki þýðingu í þessu sam­­­bandi ef ráðstöfun verð­mæta er raun­veru­leg gjöf eða örlætisgerningur. Við undan­fara gjaldþrots er sú hætta almennt fyrir hendi að skuld­ari, sem er farinn að óttast um að fjár­hagur hans stefni í þrot, grípi til þess að ráðstafa eignum með gjafa- eða örlætis­gern­­­ingum, sérstaklega til þeirra sem eru honum ná­komnir, þannig að hann eigi þess mögu­­­­­­­­lega kost að njóta þessara eigna eftir að hugsan­­­legum gjaldþrotaskiptum á búi hans lýkur. Þá er sú sönnunar­regla almennt lögð til grund­­­­vallar í þessu sambandi að það sé móttakandi greiðslu, það er sá sem riftunar­krafa beinist gegn, sem verði að sanna svo ótvírætt sé, að ekki sé um gjafa- eða örlætis­gern­­ing að ræða. Riftunar­­­­­­­regla sam­kvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 byggir á hlutlæg­um forsendum gagn­­­­­gert til þess að auðvelda þrota­búi riftun. Sönnunarbyrði fyrir því að aðilum hafi ekki verið ljóst að um gjöf væri að ræða hvílir því almennt á gjafþega.

Að mati dómsins verður málatilbúnaður stefndu B ekki skilinn með öðrum hætti en svo að ekki sé ágreiningur um verðmat stefnanda á fasteigninni, 17.900.000 krónur, samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár Íslands, við útgáfu afsals 1. júní 2016, en að stefnda byggi hins vegar á því að það rúmist innan ráðstöfunarréttar þrota­­­­­manns á fasteigninni að vikmörk megi vera allt að 20% til lækkunar án þess að skil­­­yrðum riftunar sé fullnægt samkvæmt gjaldþrotarétti. Miðað við slíka lækkun hafi eðli­­legt sölu­verð fast­eignar­­­innar getað verið allt að 14.320.000 krónur sé gengið út frá allt 20% lækkun á verðmæti eignar­innar sam­­kvæmt framangreindu fasteignamati, og til þess verði að líta við mat á kaupverðinu og hvernig það var greitt. Stefnda B hefur ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir málsástæðu þessari með vísan til laga eða annarra réttar­heimilda og er hún því haldlaus og verður ekki lögð til grundvallar í máli þessu.

Fyrir liggur og er óumdeilt að stefnda B yfirtók lán þrotmanns hjá Íbúða­lána­­­­sjóði, áhvílandi með fyrsta veðrétt á umræddri fasteign að X. Stefn­andi leggur til grundvallar að fjárhæðin miðist við eftirstöðvar lánsins 1. júní 2016 með verð­­­­­­bótum, 12.467.109 krónur, en stefnda leggur hins vegar til grundvallar fjár­hæð miðaða við upp­­­greiðsluverðmæti lánsins án þóknunar, 12.540.578 krónur. Meðal gagna er yfir­lýsing þrotamanns og stefndu til Íbúðalánasjóðs, dagsett 7. október 2016, um yfir­töku hinar síðarnefndu á umræddu láni. Að því virtu liggur fyrir að lánið var ekki greitt upp og verður því fallist á það með stefnanda að leggja til grundvallar fjár­hæð láns­ins miðað við eftirstöðvar þess 1. júní 2016 með verðbótum, það er 12.467.109 krónur.

Meðal gagna er skýrsla þrotamanns hjá skiptastjóra 19. janúar 2017 á grundvelli 2. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991. F, lögmaður og skiptastjóri, kom fyrir dóm­­inn og gerði grein fyrir framkvæmd skýrslutökunnar og upplýsti í meginatriðum um það sem fram kom við skýrslutökuna og staðfesti efni skýrslunnar. Bar skipta­stjórinn meðal annars um að skýrslutakan hefði verið framkvæmd með almennum hætti og hún hefði í meginatriðum gengið vel. Þrotamaður hefði ekki treyst sér til að rita nafn sitt undir skýrsluna vegna tiltekins sjúkdóms og hefði hún því notað stimpil með nafni sínu í stað undirritunar. Þrota­maður hefði komið vel fyrir, svarað spurn­­ingum greið­lega og skilið það sem fram fór. Vitnið G, sem var við­statt skýrslu­tökuna, kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir tengslum sínum við þrota­­­mann og aðkomu sinni að skýrslutökunni. Vitnið bar meðal annars um að þrota­maður hefði í umrætt skipti hjá skiptastjóra ekki haft getu til að mæta þangað ein vegna líkamlegra og andlegra veikinda. [...]. Vitnið hefði bent skiptastjóra á veik­indi þrota­manns og skipta­stjóri virst sýna því skilning. Þá taldi vitnið ekki víst að þrotamaður hefði komið upp­lýsingum varðandi stöðu þrotabúsins á réttan hátt frá sér en tók fram að með að­stoð vitnisins hefði skiptastjóri með spurningum sínum náð fram réttri mynd af stöðu bús­ins. Vitnið og skiptastjórinn hefðu rætt það stuttlega í hléi eða við lok skýrslu­­­­­­tökunnar að óvíst væri um fullkominn áreiðanleika skýrslu þrotamannsins og skipta­stjórinn hafi virst vera meðvitaður um það. Þá tók vitnið fram að þrotamaður hefði vegna veikinda sinna engan skilning á því hvað væri eða hefði verið áhvílandi á fast­eign­inni eða hver ætti fasteignina. Fyrir liggur að vitnið G er vinur þrota­manns og ber að líta til þess við mat á sönnunar­gildi framburðarins, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991. Skýrsla þrotamanns hjá skipta­stjóra er undirrituð af þrotamanni, skipta­stjóra og framan­greindu vitni án athuga­­semda. Skýrsla skiptastjóra telst vera opinbert skjal í skiln­ingi einka­­málaréttar­fars og telst efni skjals­ins vera rétt þar til annað er sannað, sbr. 71. gr. laga nr. 91/1991. Að framangreindu virtu, og þar sem annarra gagna nýtur ekki við, þá er það mat dóms­ins að efni skýrslunnar hafi ekki verið hnekkt.

Í málinu er ágreiningur uppi um það hvort stefnda B hafi tekið á sig kostn­aðar­­hlut þrota­manns í framkvæmdum á vegum húsfélags, 850.000 krónur, sem búið hafi verið að ákveða að ráðast í á vettvangi húsfélagsins fyrir eigandaskipti fast­eignar­innar. Stefnandi vísar meðal annars til þess að í afsali hafi ekki verið getið skuldar vegna þessara framkvæmda né heldur í tryggingarbréfi eða skýrslu þrota­manns hjá skipta­stjóra. Þá byggir stefn­andi á því að ákvörðun um framkvæmdirnar hafi verið tekin á vettvangi hús­­félagsins eftir að stefnda tók við fasteigninni sem þing­lýstur eig­andi. Fyrir liggur að afsal vegna um­ræddrar fasteignar var gefið út 1. júní 2016, það var móttekið til þing­­­­­­­­­­lýs­ingar 6. sama mánaðar og innfært í fasteignabók 20. sama mán­aðar. Stefnda hefur lagt fram ljósrit af fundarboði H húsfélaga­þjónustu vegna húsfundar hjá hús­­­­­­­­­félaginu Y, dag­sett 8. september 2016, vegna hús­fundar 28. sama mán­­­aðar. Í fundar­boðinu greinir meðal annars að taka hafi átt ákvörðun um að veita stjórn hús­félags­ins heimild til að semja við tiltekið verk­taka­fyrirtæki sem hefði verið lægst­­­­­­­­­­­­­bjóðandi á grundvelli tilboðs byggt á útboðs­gögn­um. Þá hafa auk þess verið lögð fram ljós­rit af sex reikn­­­­­­­­­­­­­­­­ingum frá sömu húsfélaga­þjónustu, útgefnum 1. febrúar 2017, 1. mars 2017, 1. apríl 2017, 1. maí 2017, 1. júní 2017 og 20. júní 2017, og allir með sömu skýr­ingu [f]ram­­kvæmdir utanhúss – gluggar 2017, sam­­tals að fjárhæð 843.834 krónur, þar sem stefnda er tilgreind sem greiðandi. Miðað við dag­setn­ingu fyrrgreinds fundarboðs og dagsetningu umrædds hús­­­­­­­fundar og fram­­lögð gögn um eignarhald fasteignarinnar þá liggur fyrir að stefnda B var þing­­­­­­­­­lýstur eigandi fasteignar­innar á þeim tíma þegar ákvörðun var tekin á vettvangi hús­­­­­­félags­­ins um fram­­­kvæmdir á veg­um þess. Þing­­l­ýstur eigandi fasteignar í fjöl­eignar­­­­­­­­húsi er almennt ábyrgur fyrir hlutdeild í sam­eigin­legum kostnaði húsfélags við­kom­­andi eignar, sbr. 3. mgr. 47. gr. laga nr. 26/1994 um fjöl­eignarhús. Einnig liggur fyrir að kostnaðar vegna fram­kvæmdarinnar var ekki getið við umrædda afsalsgerð né heldur í tryggingarbréfi og þá var þessa kostnaðar heldur ekki getið í skýrslu þrota­manns hjá skiptastjóra 19. janúar 2017. Þá styðja útgáfudagsetningar og gjald­dagar, auk fyrrgreindar skýringar á tilefni greiðslu, það enn fremur að umræddar fram­kvæmdir hafi verið ákveðnar eftir að stefnda B tók við eigninni sem þing­lýstur eigandi. Að öllu framan­greindu virtu, og þar sem ann­­arra gagna nýtur ekki við, þá er ósannað að stefnda B hafi tekið yfir kostn­aðar­­­­­hlut þrotamanns vegna fram­­kvæmda á vegum húsfélags að fjár­hæð 850.000 krónur sem búið hafi verið að ákveða að ráðast í fyrir eiganda­skipti fast­eignar­innar.

Í málinu er uppi ágreiningur um það hvort leggja beri til grundvallar fyrirfram­greidda húsaleigu þrotamanns til stefndu, 100.000 krónur á mánuði til tólf mánaða, sam­tals 1.200.000 krónur, samkvæmt leigusamningi þeirra á milli, dagsettum 1. júní 2016, vegna leigu hinnar fyrrnefndu á húsnæðinu. Stefnandi byggir á því að samn­ingur­inn hafi verið gerður til málamynda. Hann hafi fyrst komið fram með framlagn­ingu skjalsins við meðferð máls þessa fyrir dómi 27. febrúar 2018. Stefnandi vísar til þess að samningsins hafi ekki verið getið við afsalsgerð 1. júní 2016 og hans hafi ekki verið getið við skýrslu­gjöf þrota­manns hjá skiptastjóra 19. júní 2017. Þá hafi samn­ing­num ekki verið þinglýst og því telji stefnandi að engin sönnun liggi fyrir því að hann hafi verið gerður á þeim tíma sem getið er í samningnum eða á tímabili nálægt þeim degi. Að mati stefnanda ber samningurinn öll merki þess að vera mála­mynda­gerningur og er honum mótmælt. Við mat á gildi samningsins verður að mati dóms­­­ins að líta til þess að um er að ræða samning milli nákominna og til hags­bóta fyrir þrota­­­­mann sem gert var kleift að búa áfram í húsnæðinu án röskunar á persónu­leg­um högum. Samn­ing­num var ekki þinglýst, sem er óvenjulegt í almennu tilliti. Samn­­ingsins er ekki getið í skýrslu þrotamanns hjá skiptastjóra 19. janúar 2017. Þá var samningurinn ekki lagður fram með greinargerð stefndu við meðferð máls þessa fyrir dómi 19. desember sama ár, þó að byggt væri á því í greinargerðinni að húsa­­­leigusamningur stefndu og þrota­manns væri fyrir hendi með ákvæði um fyrir­fram­­greiðslu. Er það því mat dóms­ins að meiri líkur en minni séu á því að samn­ingur­inn hafi verið gerður eftir á til mála­mynda. Að framan­greindu virtu er það mat dómsins að ósannað sé að við það hafi verið miðað að þrota­maður greiddi stefndu B fyrirfram húsaleigu að fjár­hæð 1.200.000 krónur fyrir afnot af hús­næðinu.

Stefnda B byggir á því að hún hafi greitt þrotamanni 2.000.000 króna vegna kaupa á fast­­eigninni. Í því sambandi hefur stefnda lagt fram milli­færslu­­­­­­­kvittun frá Lands­­­­­­­­bankanum, dagsetta 13. júní 2016, klukkan 11:30, að fjárhæð 2.000.000 króna, þar sem greið­andi er maki stefndu og viðtakandi greiðslu er þrota­maður. Þá er á kvitt­­un­­inni tekið fram til skýringar að um sé að ræða greiðslu sam­kvæmt kaup­samn­­ingi. Stefnandi telur að um­rædd greiðsla samrýmist ekki því sem fram komi í afsali 1. júní 2016, að um­samið kaupverð hafi verið að fullu greitt við útgáfu afsalsins. Þá telur stefn­andi að greiðslan samrýmist hvorki því sem fram hafi komið í skýrslu þrota­manns hjá skiptastjóra né upp­lýs­ing­um í skattframtali þrotamanns 2017. Enn fremur byggir stefnandi á því að milli­færslu­kvittunin gefi ekki rétta mynd af framangreindum gjörn­ingi og hefur hann lagt fram hreyfingalista bankareikningsins máli sínu til stuðn­ings. Við mat á greiðslu þessari er að mati dómsins til þess að líta að við skýrslugjöf þrota­manns hjá skiptastjóra 19. janúar 2017 var meðal annars tekið fram að engin greiðsla hefði komið til vegna afsals íbúðar­innar, einungis eftirgjöf á skuldum. Þá sam­rýmist greiðslan ekki því sem fram kemur í fyrrgreindu afsali, að fasteignin hafi verið að fullu greidd 1. júní 2016. Að þessu virtu er að mati dóms­ins ósannað að stefnda B hafi í raun greitt þrota­manni 2.000.000 króna vegna kaupa á fast­eigninni.

Stefnda B byggir á því að hún hafi tekið á sig kostnað vegna kaup­samn­ings á um­ræddri fasteign, 665.880 krónur. Stefnda hefur lagt fram ljósrit af reikningi frá lög­manns­­­stofu, dagsettan 1. júní 2016, með gjalddaga sama dag og ein­daga 15. sama mán­aðar, sem nemur framangreindri fjárhæð að viðbættum virðis­auka­skatti. Á reikn­­­ingnum er tilgreind sú skýring að um sé að ræða reikning vegna lög­fræði­þjónustu og þóknun vegna sölu fasteignar að X. Stefnandi hefur mótmælt því að reikn­ingurinn eigi rétt á sér þar sem hann sé málamyndagerningur. Telur stefnandi að reikningurinn hafi enga haldbæra tengingu við eignaryfirfærsluna og að fjárhæð reikn­ings­ins sé óhófleg miðað við að um sé að ræða einfalda afsalsgerð vegna ráð­stöfunar á fast­­eign innan fjölskyldu. Þá telur stefnandi að ekki hafi verið sýnt fram á að reikn­ingur­­­inn hafi verið greiddur. Að mati dómsins þykir rétt við úrlausn þessa atriðis að leggja til grundvallar að stefnda B hefur ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á það að reikningurinn hafi í raun verið greiddur og þegar af þeirri ástæðu verður talið ósannað að hún hafi tekið á sig kostnað vegna kaup­samnings á um­­ræddri fast­eign.

Þá byggir stefnda B á því að þrotamaður hafi verið í skuld við hana, til þeirrar skuldar hafi verið stofnað fyrir útgáfu tryggingar­bréfsins en lítill hluti skuldar sem lá til grundvallar tryggingar­bréfinu, 643.542 krónur af samtals 8.000.000 króna, hafi komið til uppgjörs við sölu fasteignar­innar. Stefnandi hefur mótmælt því að slík skuld hafi verið til staðar samkvæmt tryggingarbréfinu. Meðal gagna sem stefnda og meðstefndi C hafa lagt fram er millifærslu­kvittun frá Arion banka, dagsett 12. nóv­ember 2013, um inn­borgun meðstefnda C inn á bankareikning þrotamanns, að fjár­hæð 3.538.056 krónur. Á millifærslu­kvittun­inni kemur fram sú skýring að um hafi verið að ræða [i]nn­­­borgun á reikning án frekari tilgreiningar. Stefnandi hefur mót­mælt því að milli­færslukvittunin hafi nokkra þýðingu í málinu þar sem ekki verði séð að hún tengist stefndu B með neinum hætti. Þá verði ekki með nokkru móti séð að greiðslan tengist afsalsgerðinni 1. júní 2016. Hvað varðar tryggingarbréfið og gildi þess þá ber að mati dómsins að líta til þess að útgáfa þess og þinglýsing átti sér stað stuttu áður en dómur í fyrr­greindu máli nr. E-[...] var kveðinn upp varð­andi lögskipti skipta­beið­anda og þrota­manns. Dregur það eitt og sér úr áreiðanleika skjals­­ins. Þá er í skýrslu þrota­manns hjá skipta­­­stjóra 19. janúar 2017 ekki getið um skuld þrota­­­­­manns við stefndu. Slík skuld er ekki heldur gefin upp í skatt­framtöl­um vegna áranna 2016 og 2017. Af hálfu stefndu B hafa engin önnur gögn verið lögð fram til skýr­ingar á því hvaða skuldir þrotamanns liggja til grundvallar trygg­ingar­bréf­inu, hvaða fjár­­hæðir um er að ræða eða hvenær eða af hvaða tilefni stofnað hafi verið til skulda. Fyrir liggur að stefnda B hefur ekki lýst neinum kröfum í bú þrota­manns. Hvað varðar framan­­­greinda millifærslukvittun þá ber efni skjals­­ins það með sér að það tengist fjár­muna­­legri ráðstöfun milli meðstefnda C og þrota­­manns á árinu 2013 en ekki milli þrota­­manns og stefndu B og hafa engin gögn verið lögð fram af hálfu stefndu sem skýra það hvernig greiðsla þessi tengist henni eða um­ræddri ráðstöfun á fasteign þrota­manns til stefndu í júní 2016. Að öllu framan­greindu virtu er ósannað að meint skuld þrota­manns við stefndu B, að fjárhæð 643.542 krónur, hafi komið til frá­­dráttar kaup­­verði fasteignarinnar.

Með vísan til alls framangreinds þá er það mat dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á það að stefnda B hafi greitt fyrir íbúð þrotamanns með öðrum hætti en með því að yfirtaka áhvíl­andi lán Íbúðalánasjóðs á íbúðinni, að fjárhæð 12.467.109 krónur, miðað við eftirstöðvar lánsins 1. júní 2016 með verðbótum. Munar miklu á því verði og verðmæti fasteignarinnar samkvæmt framangreindu fasteignamati Þjóðskrár Íslands á árinu 2016. Stefnda B og þrota­­maður eru nákomin í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 en þegar svo háttar til standa líkindi til þess að um gjafagerning hafi verið að ræða. Stefnda B byggir á því að henni hafi verið ókunnugt um það hvort þrotamaður hefði verið gjaldfær eða ógjald­fær við ráðstöfun fasteignarinnar í júní 2016. Ráðstöfun fasteignarinnar átti sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frest­dag, sem var 16. júní 2016. Við mat á skilyrðum rift­unar samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefur ógjaldfærni þrotamanns ekki þýðingu fyrir úr­lausn málsins. Ráðstöfun fasteignarinnar átti sér stað í framhaldi af því að framan­greindur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-[...] var kveð­inn upp [...] 2016 og nokkrum dögum áður en fyrrgreind aðfararbeiðni E var tekin fyrir hjá sýslumanni 8. júní sama ár. Eins og atvikum máls­ins er háttað að þessu leyti þá bendir allt til þess að með ráðstöfun fast­eignar­­innar til stefndu hafi verið um að ræða ráðstöfun á eign skuldara með gjafagerningi þegar eigna­missir blasti við. Stefnda hefur ekki hnekkt þeim líkum að ráðstöfun fast­eignar­innar með framan­­greind­um hætti hafi ekki verið gjafagerningur. Að öllu þessu virtu verður lagt til grund­­­vallar að mismunurinn á eftir­­stöðvum lánsins 1. júní 2016 með verðbótum, 12.467.109 krónur, og virði fast­eignar­­innar á árinu 2016 sam­kvæmt fast­eignamati Þjóð­­­­skrár Íslands, 17.900.000 krónur, nánar tiltekið eignarhlutinn í fasteigninni að and­virði 5.432.891 króna, sem rann til stefndu B við afhendingu afsals til þing­­lýsingar 6. júní 2016, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991, nokkrum dögum fyrir fyrr­greindan frest­dag, hafi verið án endur­gjalds og því gjafa­gern­ingur þrota­manns til stefndu. Gjafagerningurinn sé því riftan­­legur sam­kvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefur stefnandi sam­kvæmt framansögðu jafnframt gert líklegt að um­rædd fjár­hæð hefði ella runnið til þrota­búsins. Verður því fallist á þá dóm­kröfu stefn­anda að rift verði með dómi ráð­stöfun þrotamanns til handa stefndu að and­virði 5.432.891 króna sem fram fór 6. júní 2016 með afsali og afhend­ingu þrotamanns til stefndu á 100% eignar­hlut þrota­manns í fasteigninni að X, fnr. [...], Reykja­vík.

 

Niðurstaða varðandi 3. dómkröfu um endurgreiðslu:

Stefnandi byggir á því að stefndu B beri að greiða bætur sem nemi að minnsta kosti verðmæti hinnar framseldu eignar. Miðar stefnandi andlag bóta við verð­­mæti eignar­hlutarins, að lágmarki 5.432.891 krónu, sem nemur verð­mæti fast­eignar­­innar á árinu 2016 samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár Íslands að frá­dreginni áhvíl­­andi skuld við Íbúða­lánasjóð miðað við eftirstöðvar lánsins 1. júní 2016 með verð­­­­­­­­bótum. Með vísan til þess sem að framan greinir um framangreindar fjár­hæðir og að um hafi verið að ræða riftanlegan gjafagerning þrotamanns til stefndu sam­kvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, sem samanlagt hafi numið 5.432.891 krónu, þá verður lagt til grundvallar að stefnda hafi með ráðstöfuninni auðgast um þá fjárhæð og stefn­andi orðið fyrir sam­svar­andi skerðingu á eign sinni. Að þessu virtu, og með vísan til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, verður stefndu B gert að greiða stefnanda bætur sem nema þeirri fjárhæð.

 

Niðurstaða varðandi vexti og málskostnað:

Fyrir liggur að afsal fyrir umræddri fasteign var móttekið til þinglýsingar 6. júní 2016. Þá var mál þetta þingfest 14. september 2017. Skaðabótakröfur skulu almennt bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjóns­atvik og fjárhæð bóta. Gögn hafa ekki verið lögð fram sem upplýsa um að­drag­anda máls­­­­höfðunar þessarar en að mati dómsins þykir rétt að leggja til grundvallar þing­­­­festingardag málsins, 14. september 2017, sem það tímamark þegar sannanlega voru lagðar fram upplýsingar varðandi tjónsatvik og fjárhæð bóta. Stefnandi hefur ekki fært fram sérstök rök fyrir því að miða skuli upphafstímamark dráttarvaxta við þing­­­­­festingardag og verður því hin almenna eins mánaðar regla samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 lögð til grundvallar um þetta atriði. Að öllu framan­greindu virtu, og með vísan til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991, þá verður lagt til grundvallar að fjár­­hæð framangreindra bóta beri almenna vexti frá 6. júní 2016 til 14. október 2017, en fjárhæðin beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir niðurstöðum málsins og í samræmi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndu gert að greiða stefnanda óskipt málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðis­­­auka­skatts.

Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Rift er þeirri ráðstöfun þrotamanns, D, að gefa út og veita veð­heimild í fast­eign­inni að X, [...], Reykjavík, með tryggingar­bréfi, mót­teknu til þing­lýsingar 7. mars 2016, til handa stefndu, B og C, að fjárhæð 8.000.000 króna á 2. veðrétt fasteignarinnar, með upp­færslu­rétti.

Rift er ráðstöfun þrotamanns, D, til handa stefndu B, að andvirði 5.432.891 króna, sem fram fór 6. júní 2016 með afsali og afhendingu þrotamanns til stefndu á 100% eignarhlut þrotamanns í fasteigninni að X, fnr. [...], Reykjavík.

Stefnda, B, greiði stefnanda, þrotabúi A, 5.432.891 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­­ingu frá 6. júní 2016 til 14. október 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu, B og C, greiði stefnanda óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað að með­töldum virðisaukaskatti.

 

Daði Kristjánsson