• Lykilorð:
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Viðurkenningardómur
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 12. desember 2018 í máli nr. E-3757/2017:

A

(Halldór Hrannar Halldórsson lögmaður)

gegn

B

(Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 25. október 2018, höfðaði A, [...], Reykjavík, hinn 20. nóvember 2017, á hendur B., [...], Reykjavík.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í slysi þann 15. ágúst 2015 á veitingastaðnum [...]. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefst hann þess að verða „aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss stefnanda hinn 15. ágúst 2010“. Þá krefst stefndi málskostnaðar, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

            Dómari og lögmenn aðila gengu á vettvang 24. október 2018, ásamt stefnanda og fyrirsvarsmanni stefnda.

 

I

Málsatvik

            Stefnandi varð fyrir slysi 15. ágúst 2015 er hún féll inni á veitingastaðnum [...] sem stefndi rekur í Reykjavík. Er ekki deilt um það að stefnandi varð fyrir meiðslum á hné er hún féll inni á veitingastaðnum, með þeim afleiðingum að hún var flutt þaðan með sjúkrabifreið og gekkst undir aðgerð vegna áverka sinna. Ágreiningur stendur um það hvernig slysið bar að og hvort orsök þess sé að rekja til aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á, stefnandi sjálf eða hvort um óhappatilvik sé að ræða. Atvik málsins eru að nokkru leyti umdeild. Þar á meðal er það hvort stefnandi hafi fallið í tröppum innan við útgöngudyr sem snúa að [...]-götu eða hvort hún hafi fallið áður en hún byrjaði að ganga upp tröppurnar, en í þessu sambandi er deilt um hvort skortur á stigahandriðum standi í orsakatengslum við fall stefnanda. Þá er deilt um það hver hafi verið orsök þess að hún missti jafnvægið, þ.e. hvort hún hafi runnið í bleytu eða hvort áfengisáhrifum verði þar um kennt.

            Af gögnum málsins verður ráðið að veitingastaðurinn hafi verið stækkaður einhvern tímann upp úr miðju ári 2013 þannig að rýminu þar sem slys stefnanda átti sér stað var breytt úr vinnustofum í bar með sætum og borðum fyrir gesti veitingastaðarins. Kemur þetta t.d. fram á teikningu áritaðri um samþykki byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar 2. júlí 2013.

            Stefndi kveður útgang þar sem stefnandi féll einungis hafa verið notaðan við vörumóttöku og sem neyðarútgang fram til ársins 2015, er gestir veitingastaðarins hafi farið að nota hann til að fara út fyrir og reykja. Hafi þá verið ráðist í tilteknar endurbætur til að tryggja öryggi gesta. Smíðaður hafi verið stigapallur fyrir innan dyr, þrep hafi verið stækkuð og endurnýjuð með grófhefluðu bryggjutimbri, auk þess sem tepparenningur hafi verið lagður fyrir neðan stiga og motta sett á stigapall innan við dyr. Meðal málsgagna eru ljósmyndir lögreglu af vettvangi fáum dögum eftir slysið og er ekki umdeilt hvernig umbúnaður við innganginn og stigann var þegar slysið átti sér stað, þar á meðal að tepparenningur og motta hafi verið á framangreindum stöðum, en hvorki þau handrið né hálkuvarnarrenningar fremst á þrepum sem sáust við vettvangsgöngu. Samkvæmt ljósmyndum og því sem fram kom við vettvangsgöngu eru fjögur þrep upp að útgöngudyrunum, en hið efsta, sem stefndi kallar stigapall, er u.þ.b. tvöfalt dýpra en hin.

            Samkvæmt matsgerð bæklunarskurðlæknis, dags. 9. febrúar 2017, sem stefnandi aflaði, er læknisfræðileg örorka (varanlegur miski) stefnanda metin til sjö stiga. Stefnandi kveðst þurfa að beina dómkröfu sinni að stefnda þar sem tjónið hafi ekki fengist bætt úr F+-tryggingu stefnda hjá Vátryggingafélagi Íslands vegna skilmála þeirrar tryggingar, en stefndi hafi ekki haft í gildi ábyrgðartryggingu á slysdegi.

 

II

Málsástæður stefnanda

            Stefnandi byggir á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi hennar á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttar og meginreglunnar um vinnuveitandaábyrgð, þar sem slys hennar hafi orsakast af vanbúnaði á stiga við inngang veitingastaðarins og hálku í stiganum. Stiginn þar sem stefnandi féll sé annar af tveimur inngöngum veitingastaðarins. Því sé talsverður umgangur um stigann, enda byggist rekstur veitingastaðarins á því að draga að sér viðskiptavini, sem gangi meðal annars um stigann. Stiginn sé u.þ.b. 120–150 cm að breidd, en er slysið varð hafi ekki verið handrið með fram stiganum. Stefndi hafi nú bætt úr vanbúnaði stigans með því að setja upp handrið beggja megin, eins og mælt sé fyrir um í byggingarreglugerð.

            Stefnandi vísar til þess að samkvæmt gr. 6.5.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum skuli vera handrið eða handlistar báðum megin á öllum stigum eða tröppum. Á stigum sem eru 0,9 m breiðir sé þó heimilt að hafa eitt handrið eða handlista. Samsvarandi ákvæði hafi verið í gr. 202.10 í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998. Stefnandi telji stigann ekki hafa verið í samræmi við fyrirmæli byggingarreglugerðar þar sem hvorki hafi verið handrið hægra né vinstra megin á stiganum. Þá sé samkvæmt gr. 12.2.2 í byggingarreglugerðinni mælt fyrir um að á gólf þar sem hætta er á hálku, t.d. vegna bleytu, skuli ávallt velja gólfefni með hálkuviðnámi sem hentar aðstæðum. Þá skuli vera handlistar til stuðnings á svæðum og rýmum opnum almenningi þar sem búast má við hálku vegna bleytu á gólfi. Stefnandi telji ljóst að yfirborð stigans, þar sem slys hennar varð, hafi ekki verið í samræmi við þessi ákvæði, þar sem yfirborðið hafi verið hált og ekkert handrið við stigann. Stiginn hafi því verið hættulegur fólki sem átti leið um hann, og ekki hafi verið gerðar nægjanlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir slys af völdum vanbúnaðar hans. Þá telji stefnandi að þrep stigans séu ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en samkvæmt gr. 6.4.6 skuli stigar og tröppur byggingar þannig hannaðar og byggðar að þær séu öruggar fyrir notanda og þægilegar til gangs. Þær skuli gerðar úr traustum efnum og þannig gerðar að hættu á slysum sé haldið í lágmarki. Þá skuli framstig þrepa samkvæmt gr. 6.4.9 aldrei vera minna en 240 mm.

            Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafi teikningar vegna breytinga á veitingastaðnum [...] verið samþykktar af byggingarfulltrúa Reykjavíkur 2. júlí 2013. Á þeim teikningum komi ekki fram hvort gert hafi verið sérstaklega ráð fyrir að handrið ætti að vera við stigann. Stefnandi telji að umráðamanni húsnæðisins hafi borið að fylgja ákvæðum byggingarreglugerðar við þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu við framangreint tímamark, enda sé í byggingarreglugerð vísað sérstaklega til þess í gr. 6.1.5 að við breytingar á mannvirkjum sem byggð eru samkvæmt eldri byggingarreglugerðum skuli, eftir því sem unnt er, byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Samkvæmt myndum sem birtust á vefsvæði veitingastaðarins, þá hafi greinilega verið gerðar breytingar á stiganum eftir stækkun veitingastaðarins haustið 2013. Af myndum sé ljóst að stiginn sem var þarna eftir breytingarnar hafi verið í samræmi við teikninguna sem skilað hafi verið inn vegna framkvæmdanna. Þegar slysið varð hafi þó verið búið að lengja efsta þrep stigans, þannig að gerður hafi verið pallur efst í stiganum og stiginn þannig lengdur inn á gólf veitingastaðarins. Stefnandi telji að við þessar breytingar á stiganum hafi átt að sjá til þess að stiginn væri þannig úr garði gerður að viðskiptavinum staðarins stafaði ekki hætta af notkun hans. Þó vera megi að stefndi hafi tekið formlega við rekstri staðarins eftir að umræddar breytingar voru gerðar, þá hafi stefndi og starfsmenn hans borið sjálfstæða skyldu til þess að tryggja öryggi viðskiptavina á staðnum og að allur útbúnaður staðarins væri í samræmi við öryggiskröfur og ákvæði byggingarreglugerðar.

            Stefnandi byggir á því að slys hennar hafi orðið vegna þess að hún rann í bleytu í hálum stiganum við inngang veitingastaðarins. Þar sem ekki var handrið á stiganum hafi hún ekki náð jafnvægi og því fallið á steingólfið við stigann. Hún telji því að vanbúnaður á stiganum hafi valdið slysi hennar og að stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi hennar á grundvelli meginreglunnar um skaðabótaábyrgð umráðamanns fasteignar/fasteignareiganda eins og hún hafi verið túlkuð í dómafordæmum Hæstaréttar. Stefnda hafi, sem umráðamanni húsnæðisins, mátt vera ljóst að frágangur á stiganum væri ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar og að hann væri hættulegur þeim sem leið áttu á veitingastaðinn. Þá hafi starfsmönnum stefnda enn fremur mátt vera ljóst að stiginn væri hættulegur eins og hann var útbúinn þegar slysið varð, þ.e. án handriðs.

            Þá byggir stefnandi á því að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu þar sem ekki hafi verið séð til þess að stiginn þar sem slysið varð væri hálkufrír og ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að tryggja öryggi gesta sem erindi áttu á veitingastaðinn. Strangar kröfur verði að gera til athafnaskyldu starfsmanna og búnaðar fasteigna í þessu tilviki þar sem um veitingastað sé að ræða, sem laði viðskiptavini til sín með auglýsingum og eigi afkomu sína undir því að almenningur leggi leið sína um staðinn. Sérstaklega sé vísað til reglna um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995, sem settar hafi verið á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í 39. gr. reglnanna sé sérstaklega mælt fyrir um að umferðarleiðir, þ.m.t. innbyggða eða fasta stiga, skuli staðsetja og útbúa þannig að fótgangendur megi nota þær vandkvæðalaust, með fullu öryggi og á þann hátt sem tilgangur þeirra segi til um. Þá sé tekið fram í 5. mgr. 6. gr. reglnanna að gera skuli ráðstafanir til að draga úr hálku á gólfum þar sem þess gerist þörf. Stefnandi bendi á að eftir slysið hafi stefndi bætt úr ágöllum stigans með því að setja upp handrið á báðum hliðum hans, eins og mælt sé fyrir um í byggingarreglugerð. Telji stefnandi að með þessu hafi stefndi í raun viðurkennt að útbúnaður stigans hafi ekki verið í lagi og þörf hafi verið á úrbótum.

            Stefnandi byggir á því að ekki sé hægt að kenna óaðgæslu hennar um slysið. Hún hafi ekki vitað af því að stiginn væri háll og því átt sér einskis ills von. Hún hafni sérstaklega ummælum í höfnunarbréfi stefnda, þar sem tekið sé fram að stefnandi hafi átt að vera fullkunnug aðstæðum á staðnum og hafi verið búin að drekka nokkur vínglös þegar slysið varð. Stefnandi kveðst hafa verið búin að panta sér eitt rauðvínsglas og smárétt þegar slysið varð, og hafa verið tiltölulega nýkomin inn á staðinn. Hún hafi því ekki verið búin að neyta áfengis er hún varð fyrir slysinu, þar sem ekki hafi verið búið að afgreiða pöntun hennar á borðið. Þá séu fullyrðingar um að hún hafi verið „vön aðstæðum“ á staðnum algjörlega órökstuddar. Hvergi í bráðamóttökuskrá slysadeildar eða læknisvottorðum komi fram að hún hafi verið ölvuð þegar slysið varð, enda hafi hún ekki verið búin að neyta áfengis. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir fyrrgreindum staðhæfingum. Þá hafi það staðið stefnda næst að tryggja sönnun fyrir því hvernig slysið atvikaðist og aðdraganda þess, og því verði að meta allan sönnunarskort varðandi þá þætti sem teljist óljósir í aðdraganda slyssins stefnda í óhag. Stefnandi bendir þó á að í höfnunarbréfi stefnda sé tildrögum slyssins ekki mótmælt og ekki gerð athugasemd við lýsingu stefnanda á slysinu, þ.e. að hún hafi runnið í bleytu í stiganum og fallið í honum þar sem ekki var handrið við hann.

            Með hliðsjón af öllu framansögðu telji stefnandi að stefnda beri að bæta henni það tjón sem hún varð fyrir í slysinu, þar sem orsakir þess megi rekja til vanbúnaðar stigans og til saknæmrar háttsemi starfsmanna veitingastaðarins.

            Stefnandi bendir loks á að gögn málsins sýni fram á að hún hafi hlotið varanlegan skaða í slysinu, og hún hafi því lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um skaðabótaskyldu stefnda vegna slyssins. Varðandi heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu sé vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

III

Málsástæður stefnda

            Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að óhapp stefnanda sé ekki að rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Slysið hafi ekki orsakast af vanbúnaði á stiganum. Frágangur stigans hafi verið og sé hefðbundinn og viðurkenndur. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við stigann af hálfu byggingaryfirvalda, hvorki fyrir né eftir þær breytingar sem gerðar hafi verið 2015. Þær breytingar sem gerðar hafi verið eftir slysið feli ekki í sér viðurkenningu á því að útbúnaður stigans hafi ekki verið í lagi.

            Þá sé ósannað með öllu að hálka hafi myndast í stiganum. Óveruleg úrkoma hafi verið þennan dag, eða samanlagt 0,5 mm frá kl. 9 til kl. 18, samkvæmt yfirliti frá Veðurstofu Íslands. Auk þess vísar stefndi til þess að þrepin séu úr grófhefluðu bryggjutimbri og tepparenningur hafi verið fyrir neðan stigann og motta að ofanverðu.

            Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína meðal annars á því að slysið megi rekja til óvarkárni stefnanda í aðdraganda þess. Stefnandi hafi vanið komur sínar á staðinn og því þekkt allar aðstæður mjög vel. Þá fullyrði einn starfsmaður stefnda að hann hafi afgreitt stefnanda með a.m.k. tvö vínglös þennan dag. Þótt áfengismagn í blóði stefnanda hafi ekki verið mælt við komu hennar á slysadeild feli það ekki í sér sönnun fyrir því að hún hafi ekki verið búin að neyta áfengis.

            Stefndi bendir á að stefnandi sé ein til frásagnar um slysið. Í bréfi hennar til lögreglustjóra hafi hún ekki nefnt hálku og að hún hefði runnið til. Þá hafi lýsingar hennar verið misvísandi um það hvort hún féll við stigann eða í honum á leiðinni upp, en stefndi mótmæli því sérstaklega að fyrsta þrepið hafi verið hált. Þá mótmælir stefndi því að hann hafi ekki gert athugasemdir við lýsingu stefnanda á atvikum í höfnunarbréfi sínu.

            Stefndi bendir á að svo virðist sem stefnandi hafi ekki borið fyrir sig hendurnar í fallinu. Það verði að gera almenna kröfu til varkárni þegar gengið sé upp stiga og handrið ekki nálægt. Það eitt að skrika fótur við þær aðstæður og slasast leiði ekki sjálfkrafa til þess að umráðamaður eða eigandi eignar verði bótaskyldur. Auðvelt sé að sannreyna aðstæður hjá stefnda, sem séu óbreyttar að öðru leyti en því að handrið hafi verið sett upp við stigann.

            Stefndi telji fall stefnanda hafa verið óhappatilvik sem hann beri ekki ábyrgð á, en rekja megi óhappið til óvarkárni stefnanda, sem verði undir þeim kringumstæðum að bera tjón sitt sjálf vegna eigin sakar.

            Til stuðnings varakröfu sé á því byggt að stefnandi verði að bera meginhluta tjóns síns sjálf vegna eigin sakar, en um um það vísist til málsástæðna varðandi aðalkröfu eftir því sem við eigi.

           

IV

Niðurstaða

            Við aðalmeðferð gáfu stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda aðilaskýrslu. Auk þess gáfu skýrslu tveir fyrrverandi starfsmenn veitingastaðarins og tveir gestir veitingastaðarins, vinafólk stefnanda.

            Stefnandi lýsti atvikum svo fyrir dómi að hún hefði verið að ganga upp umræddar tröppur, sem eru innanhúss á veitingastaðnum og liggja að útgangi sem snýr að [...]-götu, en hún hugðist fara út fyrir til að reykja. Lýsti stefnandi því svo að hún hafi verið að stíga í aðra tröppuna er hún rann til, snerist í tröppunum og féll á gólfið. Kvaðst hún hafa fálmað eftir einhverri handfestu, en ekkert hefði verið þarna sem hægt hefði verið að grípa í. Tvö vitni, vinafólk stefnanda, báru fyrir dómi um að hafa séð hana falla á þessum stað. Tveir fyrrverandi starfsmenn veitingastaðarins kváðust aftur á móti ekki hafa séð er stefnandi féll. Þótt ágreiningur virðist vera um það hvort stefnandi hafi verið komin í stigann eða ekki er hún féll hafa a.m.k. engar brigður verið bornar á að hún hafnaði rétt fyrir neðan stigann. Bendir ekkert í málinu til þess að atvik hafi verið með öðrum hætti en stefnandi lýsir og verður því lagt til grundvallar að hún hafi verið lögð af stað upp stigann er hún féll. Hefur orðalag bréfs hennar til lögreglustjóra, dags. 17. ágúst 2015, ekki talið hafa sérstaka þýðingu í þessu sambandi.

             Stefnandi kvað undirlagið greinilega hafa verið sleipt þar sem hún féll, en kvaðst þó, aðspurð fyrir dómi, ekki hafa veitt athygli neinni bleytu, hvorki fyrir né eftir slysið. Vitni hafa heldur ekki borið um að hafa veitt því athygli hvort einhver bleyta var í stiganum og er ekkert í gögnum málsins sem staðfestir það. Samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands mældist nokkur úrkoma umræddan dag, þó ekki veruleg. Þótt vera kunni að einhver bleyta hefði getað borist í tröppurnar, hvort heldur sem er af fatnaði gesta eða úr glösum þeirra, þá er ósannað að starfsmönnum stefnda hafi verið eða mátt vera um það kunnugt þannig að þeim hafi borið að bregðast við og gera ráðstafanir, þ.e. þurrka upp bleytuna.

            Óumdeilt er að gestir veitingastaðarins hafa notað umræddan útgang án þess að við því hafi verið amast af hálfu stefnda, t.d. til að fara út fyrir að reykja, eftir að veitingastaðurinn var stækkaður einhvern tímann eftir mitt ár 2013. Þá er óumdeilt að stefndi réðst í tilteknar endurbætur á stiganum til að bæta öryggi gesta nokkru áður en slysið varð, sennilega um vorið 2015. Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns stefnda fólust þær endurbætur í því að þrep voru dýpkuð og skipt var um efni í þrepunum, þannig að riffluðum borðum var skipt út fyrir borð úr „grófu bryggjutimbri“. Að hans sögn fór efnisvalið fram með aðstoð fagmanns, en hann kvað riffluðu borðin sem áður voru í tröppunum hafa safnað í sig vatni og verið frekar hál. Um mitt ár 2016 hafi síðan verið sett upp handrið beggja vegna við tröppurnar, auk þess sem hálkuvarnarrenningum var komið fyrir fremst á þrepunum, en hann tók fram að engin frekari slys hefðu orðið á fólki í stiganum eftir endurbæturnar vorið 2015.

             Stefnandi byggir á því að bæði gólfefnið í þrepunum og skortur á handriðum hafi verið varhugaverður og brotið í bága við núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þeirri reglugerð hafi borið að fylgja vegna breytinganna sem gerðar voru á stiganum 2015. Ekki er hins vegar sérstaklega á því byggt að umbúnaður stigans hafi frá upphafi verið í ósamræmi við þágildandi byggingarreglugerð.

            Skilja verður málatilbúnað stefnda svo að umdeilt sé hvort um slíkar breytingar hafi verið að ræða á stiganum 2015 að borið hafi að fylgja gildandi byggingarreglugerð við þær endurbætur, auk þess sem því sé mótmælt að umbúnaður stigans hafi verið varhugaverður.

            Í þessu efni hefur ákvæði gr. 6.1.5 í byggingarreglugerðinni, sem stefnandi vísar til og varðar sjónarmið algildrar hönnunar við breytingar eldri bygginga, enga þýðingu. Þá liggur ekkert fyrir í málinu sem bendir til þess að byggingaryfirvöld hafi gert kröfu um bættan umbúnað stigans í samræmi við gildandi byggingarreglugerð þegar ráðist var í framkvæmdir við stækkun veitingastaðarins.

            Samkvæmt gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, gr. 6.5.1, skulu vera handrið á öllum tröppum og það báðum megin á tröppum sem breiðari eru en 0,9 m. Óháð því hvort skylt hafi verið að fylgja gildandi byggingarreglugerð við endurbætur á stiganum árið 2015 eða ekki, þá verður ekki fram hjá því litið að stefndi rekur vínveitingastað og amaðist ekki við því að gestir veitingastaðarins notuðu téðan útgang, m.a. til þess að fara út að reykja. Sá stefndi sig knúinn til þess vegna aukinnar umferðar um útganginn að bæta öryggi gesta með því að ráðast í vissar endurbætur á stiganum. Má ætla að viðurhlutalítið hefði verið að bæta handriði eða handriðum við stigann er þær endurbætur fóru fram, í samræmi við gildandi byggingareglugerð. Var fyllsta ástæða til þess, þar sem þrepin eru um 160 cm á breidd, eins og fram kom við vettvangsgöngu, og ekki við neitt að styðjast fyrr en komið er upp í 4. og efsta þrepið eða stigapallinn, en þar eru þil úr málmi, eða klædd málmi, sem mynda háa veggi sitt hvorum megin við útganginn. Verður til alls þessa að líta við mat á því hvort einhver saknæm háttsemi eða athafnaleysi hafi átt sér stað af hálfu stefnda í tengslum við umbúnað stigans.

            Rétt er að geta þess að í greinargerð stefnda er því hvergi mótmælt að engin handrið hafi verið við stigann þegar stefnandi féll og verður það að teljast óumdeilt í málinu. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi var þó bent á járnstöng sem sést á einni ljósmynd í málsgögnum í svo gott sem lóðréttri stöðu upp við málmþil öðru megin við útganginn. Bar fyrirsvarsmaðurinn um að á opnunartíma hafi þessi stöng alla jafna verið fest upp á krók á málmþilinu og myndað þannig handrið öðrum megin stigans, en ekki fullyrti hann neitt um það hvort stöngin hefði verið í þeirri stöðu við slys stefnanda og var ekki á því byggt við munnlegan málflutning.

            Ekkert liggur fyrir í málinu sem rennir stoðum undir þá staðhæfingu stefnanda að bryggjutimbrið í þrepunum henti ekki aðstæðum. Við vettvangsgöngu kom heldur ekkert fram sem bent getur til þess að efnið í þrepunum sé varhugavert, en að vísu var þurrt í veðri þegar vettvangsgangan fór fram. Þá er óumdeilt að við slysið var tepparenningur fyrir neðan stigann og motta á dyrapalli við útgöngudyrnar, eins og sést á ljósmyndum, og verður því ekki annað séð en að viðhlítandi ráðstafanir hafi verið gerðar til að komast hjá því að bleyta bærist í stigann með skófatnaði fólks.

            Ekki liggur fyrir neitt sem bendir til þess að stefnandi hafi fallið af öðrum ástæðum en hún lýsir, svo sem vegna skófatnaðar, ölvunarástands eða umferðar annarra gesta í stiganum. Í þessu sambandi er ósannað með því sem fyrir liggur í málinu, þar á meðal framburði vitna, að stefnandi hafi neytt vínveitinga inni á veitingastaðnum, en hún viðurkenndi fyrir dómi að hafa neytt tveggja léttvínsglasa í veislu áður en hún kom á veitingastaðinn.

            Samkvæmt framanrituðu verður að líta svo á að það hafi verið óhappatilviljun er stefnandi missti jafnvægið í stiganum umrætt sinn. Á hinn bóginn verður að telja að líklegra sé en ekki að algjör skortur á handriðum við stigann hafi átt þátt í því að stefnandi féll eða a.m.k. hve slæmt fallið varð, enda hefði stefnandi mögulega getað varist falli með því að ganga nálægt eða styðja sig við handrið á leið upp stigann, hefði það verið þar. Mátti stefnda, sem laðaði til sín gesti meðal annars með sölu vínveitinga, vera það ljóst að verulegt tjón gæti hlotist af ef fólk missti jafnvægið í stiganum. Hefði stefndi með auðveldum hætti getað tryggt öryggi gesta sinna mun betur en gert var með því að koma fyrir handriðum við stigann, eins og síðar var gert í kjölfar slyssins. Í ljósi algjörs skorts á handriðum þykir stefndi verða að bera hallann af vafa um það hvort handrið hefði getað forðað líkamstjóni stefnanda. Verður að virða það honum til saknæms athafnaleysis að hafa ekki komið upp handriðum við stigann eftir að umferð um hann jókst við stækkun veitingastaðarins. Verður að leggja til grundvallar að það athafnaleysi stefnda standi í beinu orsakasambandi við fall og líkamstjón stefnanda og það líkamstjón sé jafnframt sennileg afleiðing af því athafnaleysi. Þykja því lagaskilyrði uppfyllt, samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar, sakarreglunni, til þess að stefndi verði látinn bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda.

            Eins og fyrr sagði er ósannað með gögnum málsins og framburði vitna að stefnandi hafi verið undir slíkum áfengisáhrifum umrætt sinn að það verði virt henni til eigin sakar. Að sama skapi er ósannað að stefnandi hafi sýnt af sér óvarkárni með því að bera ekki fyrir sig hendurnar við fallið eða að hún hafi þekkt aðstæður á veitingastaðnum svo vel að það verði virt henni á einhvern hátt til eigin sakar. Á öðrum málsástæðum er varakrafa stefnda um skiptingu sakar ekki byggð og verður henni hafnað.

            Samkvæmt öllu framanrituðu verður fallist á dómkröfu stefnanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu.

            Með hliðsjón af því að nokkur vafaatriði eru í málinu þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu, samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 29. ágúst 2017. Málskostnaður gjafsóknarhafa greiðist úr ríkissjóði, sbr. 127. gr. laga nr. 91/1991, þ.m.t. þóknun lögmanns stefnanda, sem þykir hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir með hliðsjón af tímayfirliti lögmannsins, án virðisaukaskatts.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Við dómsuppkvaðningu var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Dómari og lögmenn aðila voru sammála um það að endurflutningur málsins væri óþarfur, þrátt fyrir þann drátt sem varð á uppkvaðningu dómsins, sem helgaðist af embættisönnum dómarans.

 

 

 

 

Dómsorð:

            Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, B, vegna líkamstjóns sem stefnandi, A, varð fyrir í slysi þann 15. ágúst 2015 á veitingastaðnum [...].

            Málskostnaður milli aðila fellur niður.

            Gjafsóknarþóknun lögmanns stefnanda, Halldórs Hrannars Halldórssonar, 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                                 Hildur Briem (sign.)