• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2018 í máli nr. S-257/2018:

Ákæruvaldið

(Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Unnari Erni Rósenkarssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 30. apríl 2018, á hendur Unnari Erni Rósenkarssyni, kt. 000000-0000, Melbæ 21, Reykjavík fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík, með því að hafa miðvikudaginn 12. júlí 2017 ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti um Sæbraut, uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við Kirkjusand.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í mars 1983. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 26. apríl 2018, á hann að baki nokkurn sakaferil. Hefur hann meðal annars ítrekað verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti. Ákærði var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot, meðal annars fyrir akstur sviptur ökurétti, með dómi 21. desember 2006. Þá var hann dæmdur í eins mánaða fangelsi fyrir hraðakstur og akstur sviptur ökurétti 6. október 2008. Hinn 2. apríl 2009 var ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot, meðal annars akstur sviptur ökurétti. Ákærði var 6. desember 2011 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti. Með dómi 4. september 2012 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í tvo mánuði fyrir akstur sviptur ökurétti. Var ákærða gerður tveggja mánaða hegningarauki við þann dóm með dómi 5. nóvember 2012 vegna aksturs sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi vegna aksturs sviptur ökurétti 8. mars 2017. Nú síðast var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði fyrir akstur sviptur ökurétti með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 12. janúar 2018. Það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu fyrrgreinds dóms frá 12. janúar 2018 og verður ákærða því dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með hliðsjón af framangreindu, dómvenju og að virtri 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Unnar Örn Rósenkarsson, sæti fangelsi í 60 daga.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir