• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Miskabætur
  • Ærumeiðingar
  • Sýkna
  • Meiðyrðamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2018 í máli nr. E-608/2017:

Þórarinn Jónasson

(Björgvin Þorsteinsson lögmaður)

gegn

Auði Jónsdóttur

(Ragnar Aðalsteinsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. janúar 2018, var höfðað 12. janúar 2017 af hálfu Þórarins Jónassonar, Laxnesi, Mosfellsbæ á hendur Auði Jónsdóttur, Barónsstíg 57, Reykjavík vegna ummæla stefndu um stefnanda í grein sinni Forseti landsins, sem birt var á vefmiðlinum Kjarninn.is 13. júní 2016.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:
Að eftirfarandi ummæli, í stafliðum a til c., sem voru viðhöfð um stefnanda í aðsendri grein á vefmiðlinum Kjarninn.is hinn 13. júní 2016, verði dæmd dauð og ómerk:

a.       „Hann sagði þetta vera dýraníð og náttúruníð af verstu sort. En hann gat ekkert gert, sama hvernig hann fjargviðraðist og skammaðist og varaði fólk við. Því hestabóndinn var í rjúkandi feitum viðskiptum og sennilega með nógu góð tök á hreppsnefndinni til að þetta fengi að viðgangast ár eftir ár- og enn þann dag í dag.“           

b.      „Mikið mátt þú skammast þín, Póri í Laxnessi [sic]. Karlkjáni með dollaraseðlana upp úr rassskorunni á reiðbuxunum þínum. Skammastu þín fyrir að eyðileggja náttúru Íslands og skammastu þín fyrir að fara svona illa með hestana þína að bjóða þeim upp á strá og mold.“

c.       „Körlum og kerlingum eins og Póra í Laxnessi [sic] sem eygja ekki náttúruna heldur bara peninga. Það sem hefur lifað og dafnað í þúsundir ára er skemmt á augabragði svo firrt fólk geti keypt sér nýtt sófasett eða farið í skemmtisiglingu, gott ef ekki stofnað póstkassafyrirtæki á suðrænni eyju og sent þangað féð sem ætti með réttu að vera burðarstoð samfélagsins.“

Að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir að hafa viðhaft og birt opinberlega á vefmiðli Kjarnans.is framangreind ærumeiðandi ummæli í stafliðum a-c um stefnanda en brot stefndu varða við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 242. gr. sömu laga. Til vara teljast brotin varða við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 242. gr. sömu laga.

Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 1.000.000 króna í miskabætur auk dráttarvaxta af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi, 12. janúar 2017, til greiðsludags.

Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 500.000 krónur til að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði og tveimur vefmiðlum, sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Til vara er krafist birtingarkostnaðar að álitum.

Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað
samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda þess, hvernig sem úrslit málsins verða, að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu ásamt álagi samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Mál þetta varðar ummæli stefndu í grein með heitinu Forseti landsins, sem rituð var til stuðnings forsetaframbjóðandanum Andra Snæ Magnasyni og birtist 13. júní 2016 á vefmiðlinum Kjarninn.is. Stefnda er rithöfundur og pistlahöfundur sem hefur látið til sín taka í opinberri umræðu og kveður hún náttúruvernd og umhverfishyggju vera sér ofarlega í huga. Stefnandi, sem kveðst betur vera þekktur sem Póri í Laxnesi, kveður stefndu beina í greininni að sér hörðum og illkvittnum spjótum. Í kjölfar birtingar greinar stefndu, sem inniheldur ummælin sem stefnandi krefst ómerkingar á, kvaðst sonur stefnanda, Haukur Þórarinsson, í viðtali á vefsíðunni visir.is 15. júní 2016 vera að leita lögfræðiráðgjafar vegna meiðyrðamáls, stefnda verði að svara fyrir sín skrif. Hann birti daginn eftir opna færslu á fésbókarsíðu sinni til andsvara við grein stefndu.

Stefnda kveður æskuheimili sitt hafa verið í Laxnesi, handan ár við Gljúfrastein, þar sem hún hafi búið meira eða minna fyrstu 25 ár ævi sinnar. Umrætt landsvæði, Laxnes og umhverfið í kring, skipi háan sess í huga stefndu og skipti hana miklu máli. Stefnda minnist gönguferða um landið í barnæsku, bæði með náttúrufræðingnum föður sínum og með afa sínum, nóbelsskáldinu á Gljúfrasteini. Báðir hafi þeir brýnt fyrir henni að ganga skyldi vel um landið sitt og m.a. aldrei rífa upp mosa. Stefnda muni eftir fallegum móum í Laxnesi æsku sinnar. Hún hafi búið erlendis undanfarin ár og hafi orðið fyrir áfalli þegar hún hafi litið landið aftur augum sumarið 2016. Það hafi orðið kveikjan að umræddum pistli.

Stefnandi kveðst hafa stofnað fjölskyldufyrirtækið Laxnes árið 1968 með eiginkonu sinni. Ferðaþjónustufyrirtækið, sem jafnframt teljist vera hið elsta sinnar tegundar hér á landi, bjóði upp á fyrsta flokks hestaleigu sem stækkað hafi jafnt og þétt í gegnum starfsárin. Starfsemin sé leyfisskyld og Heilbrigðiseftirlit taki út alla aðstöðuna og starfsemina og gefi út starfsleyfi. Tilkynnt sé um starfsemina til Matvælastofnunar sem sjái um úttekt og eftirlit á aðbúnaði og velferð dýra í samræmi við lög nr. 15/1994, um dýravernd og reglugerð nr. 499/1997, um dýrahald í atvinnuskyni.

Stefnda rekur í greinargerð sinni deilur og opinbera umfjöllun um meðferð stefnanda á landinu í Laxnesi, samskipti stefnanda við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ, Landgræðslu ríkisins, ferðamálayfirvöld og fleiri opinbera aðila. Leggur hún fram fjölda dómskjala í því skyni að sýna fram á deilurnar um meðferð stefnanda á landinu um áratuga skeið og til þess að varpa ljósi á ástand landsins vegna ofbeitar og meðferðar stefnanda á því í gegnum tíðina. Gögnin sýni fram á slæmt ástand landsins vegna hrossaleigustarfsemi stefnanda og varpi ljósi á nauðsyn og réttmæti tjáningar hennar.

Stefnandi kveðst hafa unnið ötullega að því í gegnum tíðina að græða upp landið í Laxnesi í samstarfi við Landgræðsluna. Vorið 2013 hafi sonur hans m.a. leitað til Landgræðslunnar eftir ráðgjöf um uppgræðslu lands og bætta beitarstýringu í Laxnesi og hafi góðum árangri þegar verið náð varðandi landbætur. Stefnandi kveður ásakanir stefndu í sinn garð ekki eiga við rök að styðjast og sé honum því nauðugur sá kostur að höfða dómsmál þetta til að ná fram rétti sínum og verja æru sína.

Við aðalmeðferð málsins kom stefnda fyrir dóm og gaf skýrslu. Vitni báru Haukur Þórarinsson, sonur stefnanda, Ólafur Dýrmundsson og Guðjón Borgþór Magnússon, nefndarmenn í ítölunefnd, og fyrrverandi og núverandi starfsmenn Landgræðslu ríkisins, þeir Sveinn Runólfsson, Andrés Arnalds og Bjarni Pétur Maronsson.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi höfði einkarefsimál þetta á hendur stefndu á grundvelli lagaheimildar í 3. tl. 1. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ummælunum sé augljóslega beint að stefnanda, enda sé hann nafngreindur í greininni. Stefnda beri ábyrgð á hinum umstefndu ummælum á grundvelli a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011.

Ómerkingarkrafa                   

Krafa um ómerkingu ummæla sé á því byggð að með hinum umstefndu ummælum um stefnanda í grein sinni, Forseti landsins, hafi stefnda vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda.           Með ummælunum fullyrði stefnda að stefnandi hafi eyðilagt náttúru Íslands og saki hann um náttúruníð af verstu sort í stafliðum a til c. Ummælin séu tilhæfulaus og algjörlega úr lausu lofti gripin. Með þessum fullyrðingum sé verið að væna stefnanda um refsivert athæfi. Stefnandi hafi í starfsemi sinni við rekstur hestaleigu lagt ríka áherslu á landgræðslu og uppbyggingu í þeim efnum, svo sem staðfest hafi verið af hálfu Landgræðslu ríkisins.

Stefnda fullyrði að stefnandi fari illa með hestana sína og saki hann um dýraníð af verstu sort, sbr. ummæli í stafliðum a og b. Í lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, séu gerðar miklar kröfur til þeirra sem fari með umhirðu og umsjá dýra. Rekstur hestaleigu sé leyfisskyld starfsemi, sem sæti eftirliti Matvælastofnunar, sem geri úttekt á velferð og aðstöðu dýranna. Stefnandi hafi kappkostað að búa hestunum eins góða aðstöðu og unnt sé og sinni þeim af kostgæfni og alúð. Fullyrðing um að einstaklingur hafi brotið gegn lögum um velferð dýra sé því augljóslega grafalvarleg, ekki síst þegar slíkri fullyrðingu sé beint að aðila sem atvinnu hafi af hestaleigu. Brotin sem stefnda saki stefnanda um að hafa framið séu svívirðileg að áliti almennings. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, illfýsin og rætin og til þess fallin að sverta mannorð stefnanda.

Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin í stafliðum a til c dæmd dauð og ómerk séu ríkir. Verði ekki fallist á að í þeim felist ærumeiðandi aðdróttun, samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sé til vara á því byggt að þau feli í sér ærumeiðandi móðgun og fari í bága við 234. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Krafa um miskabætur

Miskabótakrafa stefnanda sé á því reist að stefnda hafi með ummælum sínum veist með alvarlegum hætti og af ásetningi að æru stefnanda. Æra stefnanda og virðing hafi beðið hnekki við ummælin, enda vegi þau með óvægnum hætti að persónu stefnanda og ævistarfi hans. Með því hafi stefnda framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem stefnda beri skaðabótaábyrgð á, enda sé um ærumeiðandi aðdróttun að ræða sem bæði sé röng og borin út og birt opinberlega gegn betri vitund stefndu.

Fjárhæð miskabótakröfunnar taki mið af alvarleika aðdróttunar stefndu. Taka verði mið af því hve mikla umfjöllun og dreifingu greinin hafi fengið. Ummælin hafi verið til þess gerð að mæra Andra Snæ Magnason forsetaframbjóðanda. Það hafi orðið til þess að greinin hafi vakið gríðarlega athygli. Greinin hafi komið rækilega fyrir sjónir almennings á vefmiðlinum Kjarninn.is, enda sé vefmiðillinn víðlesinn. Auk þess hafi greininni verið dreift um veraldarvefinn af um 1800 manns. Til grundvallar kröfum sínum vísi stefnandi til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt til ákvæðis a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 séu fyrir hendi til að taka kröfu stefnanda til greina.

Krafa um refsingu      

Þess sé krafist að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda fyrir að viðhafa ummæli í stafliðum a til c. Lagaskilyrði séu til að dæma stefndu refsingu í málinu þar sem framsetning greinarinnar og illfýsin ósannindi hafi verið með þeim hætti. Ummælin varði við 235. gr. almennra hegningarlaga, enda innihaldi þau grófar ærumeiðandi aðdróttanir þar sem stefnandi sé sakaður um náttúru- og dýraníð og sé þar með gefin að sök refsiverð og siðferðislega ámælisverð háttsemi. Aðdróttanir þessar eigi ekki við nein rök að styðjast. Til vara sé byggt á því að ummælin feli í sér ærumeiðandi móðgun og varði við ákvæði 234. gr. almennra hegningarlaga.

Krafa um greiðslu fyrir birtingu dómsorðs í fjölmiðlum.

Krafa um birtingu dóms í einu dagblaði og tveimur vefmiðlum byggist á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt ákvæðinu megi dæma þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun til þess að greiða þeim sem misgert hafi verið við hæfilega fjárhæð til þess að kosta birtingu dóms í opinberu blaði eða riti, einu eða fleiri. Sökum þess að vefmiðillinn Visir.is hafi einnig fjallað um umstefnda grein sé nauðsynlegt að kynna ómerkingardóminn í Fréttablaðinu. Í ljósi þess að um alvarleg meiðyrði og aðdróttanir hafi verið að ræða sé nauðsynlegt að kynna ómerkingardóminn rækilega. Stefnandi krefjist því kostnaðar við birtingu í fjölmiðli.  

Um lagarök vísi stefnandi til 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. og 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæðis a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Krafa um miskabætur byggist á b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Vísað sé til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Um varnarþing sé vísað til 41. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti styðjist við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður og lagarök stefndu

Kröfum og málsástæðum stefnanda sé mótmælt sem röngum að því leyti sem þær fari gegn málatilbúnaði stefndu. Sýknukröfur stefndu byggist á eftirfarandi málsástæðum.

Ummælin sem krafist sé ómerkingar á séu vernduð af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár, sbr. 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Engar kringumstæður séu til staðar í málinu sem réttlæti takmarkanir á tjáningarfrelsi stefndu og eigi 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár ekki við í málinu. Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sé íslenskum dómstólum beinlínis óheimilt að meta ummælin sem krafist sé ómerkingar á einangrað og án þess að gætt sé að samhengi ummælanna í þeirri umræðu sem þau hafi fallið í. Meta eigi samhengi ummælanna m.a. í samhengi þeirra deilna sem framlögð gögn stefndu sýni fram á. Þau varði meðferð stefnanda á landinu í Laxnesi og deilur hans við bæjaryfirvöld og m.a. Landgræðslu ríkisins. Meta skuli ummælin í samhengi við almenna stjórnmálaumræðu, m.a. um náttúruvernd og umhverfismál, þ.m.t. í aðdraganda forsetakosninganna 2016, en greinin sem innihaldi ummælin hafi verið birt í tilefni framboðs Andra Snæs Magnasonar til forseta. Óheimilt sé að slíta ummælin úr því samhengi og þeim bakgrunni sem taka skuli mið af í mati á ummælunum. Líta beri til google earth-myndar frá 2017 af umræddu landi, sem sýni glöggt þá gróðureyðingu sem þar sé.

Engar takmarkanir á tjáningarfrelsi stefndu eigi við í málinu eða gætu réttlætt þöggun ummælanna. Ekki sé fyrir hendi nein „knýjandi samfélagsleg þörf“ til að þagga niður í ummælum stefndu. Til að ómerkja megi ummælin eða fallast á aðrar kröfur stefnanda þurfi hann að sýna fram á slíka knýjandi samfélagslega þörf til viðbótar því að sýna fram á að takmörkunin sé nauðsynleg og samræmist lýðræðishefðum. Stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun og muni ekki takast hún. Um þetta sé vísað til ítrekaðra dómafordæma MDE, m.a. í málum gegn Íslandi. Engu máli skipti við mat á ummælum hvort stefnandi hafi móðgast vegna þeirra heldur skuli einmitt ljá þeim aukna vernd.

Ummælin eigi erindi til almennings og séu liður í samfélagslegri umræðu um stjórnmálaleg efni. Í þessu samhengi hafi orðið stjórnmálaumræða verið túlkað vítt í dómum MDE og teljist taka til allrar umræðu um þjóðfélagsleg og samfélagsleg málefni. Öll umræða um náttúruvernd og umgengni þeirra um land, sem treyst sé fyrir umráðum landsvæða, eigi sérstakt erindi til almennings. Umræðu um náttúruvernd skuli ljá aukna vernd, enda eigi öll slík umræða sérstakt erindi til almennings og sé afar mikilvæg. Ítrekuð umfjöllun fjölmiðla um málefnið staðfesti að ritstjórnir hinna ýmsu fjölmiðla hafi metið það svo að almenningur eigi rétt á að heyra umfjöllun um það, þ.m.t. ummæli stefndu sem krafist sé ómerkingar á. Ummælin gangi hvergi lengra en fyrri umfjöllun fjölmiðla um sama efni. Augljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að fyrir ummælunum sé næg stoð í staðreyndum.

Til vitnis um mikilvægi umræðunnar sé vísað til þess að gögnin sanni að í tæp 30 ár hafi yfirvöld gert ítrekaðar athugasemdir við og haft afskipti af umgengni stefnanda um landið í Laxnesi, ofbeit þar og landrofi. Allt frá árinu 1991 og sleitulaust og ítrekað fram til ársins 2016 hafi starfsmenn Landgræðslunnar látið hafa eftir sér þungar athugasemdir um umgengni og háttsemi stefnanda. Þá hafi fjölmiðlar fjallað um málefnið á sama máta. Stefnda hafi í engu farið rangt með staðreyndir eða gengið lengra í gildisdómum sínum eða ályktunum en tilefni sé til og áður hafi komið fram hjá fjölmiðlum eða yfirvöldum. Ráða megi af skjali sem stefnandi leggi fram að þó að fyrst á árinu 2016 sé haft eftir Landgræðslunni að ástandið á landinu sé loks að batna frá því sem áður hafi verið sé umbótum alls ekki lokið. Skjalið staðfesti raunar hin umstefndu ummæli, að enn sé til staðar rof í landinu og að umgengni um landið hafi ekki verið í lagi, þó svo að beitarstýring hafi árið 2016 víðast verið færð til betri vegar. Skjalið hafi verið ritað u.þ.b. mánuði eftir birtingu ummælanna.

Allar fullyrðingar stefndu séu studdar gögnum sem staðfesti ummælin sem krafist sé ómerkingar á, einnig umrætt dómskjal stefnanda. Athygli veki ítrekað orðalag í stefnu um að ummæli stefndu séu „algerlega úr lausu lofti gripin“ og sett fram sem „illfýsin ósannindi“. Slík umfjöllun sé einkennileg með vísan til þess að stefnanda hafi um tæplega 30 ára skeið verið fullkomlega ljósar allar umsagnir Landgræðslunnar um málið. Því sé haldið fram að umfjöllunin sé „algerlega úr lausu lofti gripin“ þó að fyrir liggi tugir framlagðra skjala Landgræðslunnar og fjöldinn allur af fjölmiðlagreinum um sama málefni. Þegar slík gögn liggi fyrir verði því augljóslega ekki haldið fram að stefnda sé „gegn betri vitund“ að mótmæla illri meðferð á landinu. Stefnandi þekki fyrirliggjandi gögn, enda sjálfur viðtakandi á mörgum bréfum Landgræðslunnar og viðmælandi fjölmiðla um málefnið. Fullyrðingar stefnanda um að stefnda grípi eitthvað algerlega úr lausu lofti virðist því gegn betri vitund hans sjálfs. Í þessu ljósi verði sérstaklega að skoða alvarleika þess að setja fram kröfu um að stefndu verði gerð refsing fyrir ummælin. Mikil ábyrgð fylgi því að setja slíka kröfu fram og geri stefnda kröfu um að sú ábyrgð endurspeglist í málskostnaðarákvörðun dómsins.

Í dómum MDE hafi verið lögð áhersla á að við mat á ummælum þurfi að líta til þess í hvaða tilgangi og af hvaða tilefni ummælin falli. Ummælin sem krafist sé ómerkingar á hafi fallið í tilefni af forsetakosningunum 2016 og í þeim tilgangi að vekja athygli á þeim forsetaframbjóðanda sem helst hafi látið umhverfismál sér fyrir brjósti brenna. Greinin og ummælin séu liður í stuðningi við umhverfismál og náttúruverndarmál forsetaframbjóðandans og birt í þeim tilgangi að vekja athygli á þeirri náttúruvá og þeim umhverfisspjöllum sem felist í ofbeit og illri meðferð þeirra sem beiti hrossum á land án þess að gæta að náttúruverndarsjónarmiðum. Tilgangurinn hafi einnig verið sá að vekja athygli á tæplega þriggja áratuga baráttu landgræðsluyfirvalda til að fá stefnanda til að bæta umgengni sína um landið í Laxnesi og hefja uppbyggingu, uppgræðslu og lagfæringar á þeirri eyðileggingu sem orðið hafi af starfsemi hestaleigu hans og hrossabeit á landinu. Stefndu hafi vissulega verið heitt í hamsi hvað umræðuefnið snerti, enda hafi vandamálið sem hún lýsi í grein sinni verið viðvarandi a.m.k. allt frá árinu 1991. Ljóst sé að þegar ummælin hafi fallið hafi ekki enn að fullu verið búið að græða upp og lagfæra náttúruspjöllin, sem óumdeilanlega hafi orðið af rekstri hestaleigu stefnanda og hrossabeit á landinu. Umfjöllun um náttúruvernd og landspjöll teljist vera liður í stjórnmálaumræðu eins og MDE hafi skilgreint hugtakið.

Í stefnu sé beinlínis viðurkennt að tilgangur umfjöllunar stefndu sé forsetaframboð Andra Snæs og sagt að ummæli stefndu í greininni hafi verið til þess gerð að mæra Andra Snæ Magnason. Byggi stefnandi sjálfur ekki á því að eini tilgangur ummælanna sé illfýsi. Samkvæmt ítrekuðum niðurstöðum MDE þurfi stefnandi einmitt að sýna fram á að eini tilgangur ummæla sé persónuleg illfýsi og ekkert annað. Stefnandi byggi á því að tilgangur greinarinnar hafi verið að mæra Andra Snæ Magnason.

Stefnandi hafi sjálfur tjáð sig opinberlega og í skýrslum og samskiptum við stjórnvöld um málefnið í gegnum tíðina. Stefnda sé ekki upphafsmaður opinberrar umræðu um ástand lands og náttúru í Laxnesi. Stefnandi hafi tjáð sig í fjölmiðlum um málefnið og sé grein stefndu því andsvör við umræðu hans sjálfs. Taka skuli tillit til sjónarmiða um þátttöku í opinberri umræðu. Þar sem fjölmiðlar hafi ítrekað fjallað um málefni ofbeitar og meðferðar lands í Laxnesi njóti tjáning stefndu um málefnið aukinnar verndar og falli undir endursögn úr fjölmiðlum. Ummælum stefndu skuli ljá aukna og sérstaka vernd með tilliti til þessara sjónarmiða og vísireglna vegna opinberra ummæla stefnanda og fjölmiðla, m.a. um meðferðina á landinu í Laxnesi I vegna ofbeitar undir fyrirsögninni „Prófmál um landníðslu“.

Stefnda hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi ummælanna, hvort sem þau verði talin staðhæfing um staðreyndir eða gildisdómar. Stefnda hafi fært fullnægjandi sönnur á ummælin með framlögðum gögnum. Hún beri lögum samkvæmt enga sönnunarbyrði fyrir efni ummæla sinna, hvort sem þau yrðu talin staðhæfing um staðreynd, gildisdómur, ádeila eða ályktun. Stefnanda beri hins vegar að sýna fram á staðhæfingar sínar, m.a. um að ummælin séu „illfýsin ósannindi“ og að þau séu „algerlega úr lausu lofti gripin“. Vegna framlagðra gagna sé enn þyngri krafa gerð til þess að stefnandi sanni kröfur sínar og staðhæfingar. Slík sönnun muni ekki heppnast stefnanda. Sérstaklega sé mótmælt fullyrðingu stefnanda í stefnu um að stefnandi hafi unnið ötullega að því í gegnum tíðina að græða upp landið í Laxnesi. Framlögð gögn stefndu sýni fram á hið gagnstæða og vísist um þetta nánar til vísireglna MDE um heimild til endursagnar úr fjölmiðlum og til endursagnar orðróms.

Aðilar sem fram fari í opinberri umræðu með sviguryrðum eða viðhafi á annan máta ámælisverða háttsemi, svo sem meðferð lands með ofbeit og illri umgengni, líkt og samskipti stefnanda og Mosfellsbæjar við Landgræðsluna vegna Laxness um tæplega þriggja áratuga skeið beri vitni um, þurfi að þola að aðrir njóti aukinnar verndar og útvíkkaðs tjáningarfrelsis til harkalegrar gagnrýni á þá háttsemi. Stefnda byggi á vísireglum um fúkyrði og því að sjónarmið um heimild til að viðhafa fúkyrði verndi ummælin. Fúkyrði teljist ályktanir eða gildisdómar.

Stefnandi sé opinber persóna í þeim skilningi að hann reki fyrirtæki sem m.a. þjónusti ferðamenn og hafi tjáð sig sem slíkur um rekstur sinn á opinberum vettvangi, m.a. í fjölmiðlum. Þá njóti stefnandi fjárhagslegs ávinnings af því að sem flestir viti um tilvist fyrirtækis hans og kaupi af honum hestaferðir.

Ummælin séu ádeila, ályktun og gildisdómar, sem stefndu og hverjum sem er öðrum sé frjálst að viðhafa og njóti því aukinnar verndar. Stefndu sé frjálst að hafa skoðun á ástandi landsins í Laxnesi, á meðferð stefnanda á landinu þar og að tjá þá skoðun að hann gangi illa um landið. Samkvæmt skýru dómafordæmi MDE sé ályktun eða ágiskun um hugsanlegan ásetning annarra ávallt talin vera gildisdómur sem sé heimil tjáning sem njóti aukinnar verndar.

Umfjöllun um illa meðferð á dýrum vísi til sömu forsendna. Ofbeit á landi leiði ekki bara til tjóns á náttúrunni heldur einnig til þess að dýrin, sem beitt sé á hagana þar til þau hafi nagað þá ofan í rót, njóti ekki góðrar meðferðar eðli málsins samkvæmt. Umfjöllun um meðferð á dýrum sé einnig gildisdómur í því samhengi sem stefnda hafi sett þau ummæli fram. Stefnda vísi til frásagnar Landgræðslunnar af rýrum kosti sem hrossum stefnanda hafi verið boðið upp á, hvort sem um gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd verði talið að ræða, um að hrossin hafi nagað utan af heyi í plasthjúp „enda var ekki annað að hafa“ og landið „nauðbitið“. Bent sé á blaðagrein þar sem fullyrt sé að stefnandi hafi beitt 70 hrossum á land sem þoli 14 og verið kærður til lögreglu fyrir vikið. Í blaðagreininni segist garðyrkjustjóri (kærandi) ekki hafa kært sérstaklega meðferð hrossanna til lögreglu þar sem ástand hrossanna sé sér (sem garðyrkjustjóra) óviðkomandi. Ummælin hafi næga stoð í staðreyndum og framlögðum gögnum.

Ummælin sem krafist sé ómerkingar á beri augljóslega orðfæri gildisdóma þar sem m.a. sé gripið til myndlíkinga eins og að stefnandi sé „karlkjáni“ sem sé með „dollaraseðlana upp úr rassskorunni á reiðbuxunum“. Engum verði bannað að tjá slíka skoðun sína að einhver sé kjáni. Hér sé um augljósan gildisdóm að ræða og sé með nokkrum ólíkindum að þessi ummæli séu yfir höfuð hluti af annars óvenjulega víðtækri ómerkingarkröfu stefnanda. Ómerkingarkrafan gangi langt út fyrir allt meðalhóf í kröfugerð og hljóti það að koma til skoðunar við ákvörðun fjárhæðar málskostnaðar til handa stefndu.

Í ummælunum og umfjölluninni í heild felist nægur fyrirvari af stefndu hálfu til að ljóst sé hvað í ummælum hennar felist. Ástand landsins að Laxnesi liggi fyrir í skýrslum, ljósmyndum og umfjöllunum fjölmiðla í gegnum tíðina. Ástand landsins í dag geti hver sem er kynnt sér með því að keyra Þingvallaveginn. Ekki sé vegið að æru stefnanda meira en hann geri sjálfur með meðferð sinni á Laxnesi þannig að við öllum vegfarendum blasi frá Þingvallaveginum. Í fjölmiðli segi um land stefnanda að þar sé meiri landeyðing en dæmi sé um í Evrópu.

Ónákvæmni í orðavali hafi í dómum MDE notið sérstakrar verndar. Þar með geti ónákvæmni ekki verið tilefni til þess að takmarka tjáningarfrelsi þess sem viðhafi tiltekin ummæli. Óheimilt sé að túlka ummæli stefndu gagngert til að takmarka stjórnarskrárvarða heimild hennar til tjáningar. Ummælin verði ekki túlkuð á þann máta að réttlæta takmörkun á tjáningu hennar þannig að túlka skuli réttindi hennar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár þröngt. Slík meðferð á stjórnarskrárákvæðinu væri óheimil.

Í lýðræðisríki sé það ábyrgðarhluti að setja fram refsikröfu. Það skuli koma til skoðunar við ákvörðun fjárhæðar málskostnaðar stefndu til handa. Krafist sé sýknu af refsikröfunni. Ummælin feli hvorki í sér ærumeiðandi móðgun né aðdróttun og hafi stefnda enga ástæðu haft til að ætla annað en að þau væru sannleikanum samkvæm og heimil, enda hafi hún verið í góðri trú um það. Óheimilt væri að banna tjáningu jafnvel þó svo að fallist yrði á að tjáningin í þeim tilvikum væri meiðandi. Það sé ábyrgðarhluti stefnanda sem rekstraraðila í ferðaþjónustu, sem í næstum því þrjátíu ár hafi legið undir ámæli Landgræðslunnar fyrir ofbeit og illa meðferð landsins í Laxnesi, að krefjast refsingar einstaklings sem gagnrýnir hann opinberlega fyrir nákvæmlega sömu hegðun og stjórnvöld hafi áður gagnrýnt hann fyrir. Kröfu um birtingarkostnað sé mótmælt, krafan sé ósönnuð og sé fjárhæð hennar sérstaklega mótmælt. Krafan sé ekki byggð á neinum lögfræðilegum forsendum og sýkna beri af henni.

Um málskostnaðarkröfu stefndu sé vísað til nýlegra dómafordæma MDE í málum á hendur íslenska ríkinu. Í máli þessu höfði stefnandi, sem sé efnaður maður sem stundað hafi rekstur í ferðaþjónustu um áratuga skeið, mál gegn einstaklingi sem sonur stefnanda fullyrði að „lifi á listamannalaunum allt árið“. Fjárhæð listamannalauna sé hverjum manni kunn, enda opinberar upplýsingar, og í samanburði við rekstraraðila í ferðaþjónustu eigi við sjónarmið um jafnræði aðila og 6. gr. MSE. Íslenskir dómstólar geti ekki liðið það lengur að sterkefnaðir aðilar noti dómstóla sem þöggunar- og kælingartæki í opinberri umræðu sem þóknast ekki hinum sterkefnuðu og að þeir komist upp með slíka hegðun í skjóli dómstóla. Í þessu samhengi sé bent á einkaskilaboð Hauks Þórarinssonar, sonar stefnanda, til stefndu þar sem henni sé hótað að ummæli hennar komi til með „að kosta“. Því sé farið fram á álag á málskostnað og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað hvernig sem úrslit málsins verði. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt, einnig hvað varði upphafsdag. Öllum fjárhæðum sé mótmælt sem óhóflegum.

Vísað sé til 73. gr. stjórnarskrár, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu í C-deild stjórnartíðinda nr. 10/1979. Þá sé vísað til 234.–236. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Varðandi málskostnaðarkröfu vísi stefnda til 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en vegna greiðslu virðisaukaskatts sé vísað til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Niðurstaða

Stefnandi krefst þess að þau ummæli sem tilgreind eru í stafliðum a, b og c í kröfugerð hans verði dæmd dauð og ómerk, hann gerir fjárkröfu vegna birtingar dóms og krefst miskabóta úr hendi stefndu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir ærumeiðandi ummæli.

Heimild til þess að höfða einkamál til refsingar fellur niður sé mál ekki höfðað áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að sá sem heimildina hefur fékk vitneskju um hinn seka, sbr. 1. mgr. 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar málið var höfðað með birtingu stefnu 12. janúar 2017 voru meira en sex mánuðir liðnir frá því að ummæli stefndu birtust þann 13. júní 2016. Stefnandi byggir á því að ummælin hafi fengið mikla umfjöllun og dreifingu og hafi vakið gríðarlega athygli. Þau hafa því vart farið framhjá stefnanda sjálfum, enda kynnti sonur hans í viðtali tveimur dögum eftir birtingu þeirra að meiðyrðamál væri í undirbúningi og lögfræðiráðgjafar leitað. Skjal sem stefnandi styður málatilbúnað sinn einkum við er ritað 11. júlí 2016, en ekki hefur verið upplýst um annað tilefni til ritunar þess en málshöfðun stefnanda. Að þessu virtu verður ekki við annað miðað en að ummæli stefndu hafi þá verið komin til vitundar stefnanda, enda hefur hann ekki haldið öðru fram. Af því leiðir að heimild til að höfða einkamál til refsingar var niður fallin þegar mál þetta var höfðað og verður refsikröfu stefnanda samkvæmt því vísað sjálfkrafa frá dómi.

Stefnda, sem krefst sýknu af kröfum stefnanda, nýtur tjáningarfrelsis á grundvelli 1. málsliðar 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Álitaefni málsins varðar mörkin milli þessa frelsis stefndu til tjáningar og æruverndar stefnanda samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár. Í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í því felst að ummæli verða því aðeins ómerkt og bætur dæmdar að slík úrræði teljist nauðsynleg og samrýmanleg lýðræðishefðum. Við mat á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi kemur m.a. til skoðunar í hvaða samhengi tjáning stefndu var sett fram. Skiptir þá máli hvort líta megi á tjáninguna sem lið í almennri þjóðfélagsumræðu, sem eigi þannig erindi við almenning, og einnig það hvort í henni felist staðhæfing um staðreynd sem sönnuð verði eða hvort líta megi á hana sem gildisdóm, mat eða ályktun.

Stefnda skýrði frá því fyrir dóminum að þegar hún ritaði greinina hefði hún eftir langa fjarveru nýverið gengið um holtið við æskuheimili sitt og orðið sorgmædd þegar hún sá ástandið á landinu. Henni hefði ofboðið og hún verið undir hughrifum af þeirri upplifun við skrifin. Greinin er rituð til stuðnings forsetaframbjóðanda sem stefnda telur sérstaklega til tekna umhyggju fyrir náttúru landsins í orði og verki. Í greininni er vakin athygli á mikilvægi þeirra kosta fyrir forseta landsins og þörf á því að landið sjálft eigi sér málsvara. Með æskuminningu um vel gróna móa í Laxnesi, viðbrögðum afa síns við því að sjá hesta stefnanda naga móana niður í rót og lýsingu á því hvernig landið kom henni nýlega fyrir sjónir vekur stefnda athygli á því hvernig geti farið ef land sætir illri meðferð án viðbragða því til varnar.

Í ummælum í staflið a í kröfugerð deilir stefnda minningu um afstöðu afa síns til beitar hrossa í atvinnurekstri stefnanda, minnist orða afans um áhrif þessa á dýr og náttúru og skort á viðbrögðum stjórnvalda. Í ummælum í staflið b dregur stefnda upp skopmynd af stefnanda og skammar hann fyrir meðferðina á landinu. Í ummælum í staflið c er stefnandi talinn vera í hópi þeirra sem taka peninga fram yfir náttúru landsins og er slíkt verðmætamat gagnrýnt á myndrænan hátt í ummælum stefndu.

Stefnandi kveður umstefnd ummæli vera tilhæfulaus og algjörlega úr lausu lofti gripin. Verið sé að væna stefnanda um refsivert athæfi og séu hin umstefndu ummæli ósönn, illfýsin og rætin og til þess fallin að sverta mannorð stefnanda. Lögð hafa verið fram fjölmörg gögn um afskipti yfirvalda af meðferð stefnanda á landinu í Laxnesi og gögn um fjölmiðlaumfjöllun um ástand landsins, sem stefnandi hefur að einhverju leyti tekið þátt í. Rakið verður hér efni nokkurra skjala, sem mörg voru staðfest í framburði vitna fyrir dóminum.

Í bréfi starfsmanns Landgræðslu Íslands til stefnanda, dags. 10. júlí 1991, kveðst hann hafa „verulegar áhyggjur af meðferðinni á Laxnesi“ þar sem honum „sýnist að þarna sé um að ræða mikla ofbeit og landhnignun; bæði skerðingu beitarþols og jarðvegseyðingu“. Við könnun Landgræðslunnar á ástandi hrossahaga á öllu landinu á árunum 1994–1996 var vakin sérstök athygli á einu tilfelli, þ.e. jörðinni Laxnesi í Mosfellsdal. Í bréfum til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, annarra landeigenda í Laxnesi og til stefnanda lýsti Landgræðslan því í nóvember 1996 að saman færi mjög slæmt ástand lands og grófleg ofnýting beitarhaga. Landgræðslan hefði á undanförnum árum gert athugasemdir við ástand jarðarinnar án þess að þær hefðu leitt til nægilegra úrbóta, en um væri að ræða starfsemi stefnanda við umfangsmikla hestaleigu. Tilgangur bréfanna væri að vekja athygli landeigenda og bæjarstjórnar á alvöru málsins, ástandið væri óviðunandi og ekki væri forsvaranlegt fyrir landeigendur né bæjaryfirvöld að búskapur og atvinnustarfsemi í Laxnesi væri rekin af slíku skeytingarleysi fyrir náttúrunni.

Í bréfi Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins til Mosfellsbæjar 19. nóvember 1996 telur stofnunin það vera faglega skyldu sína að benda bæjaryfirvöldum á mjög slæmt ástand landsins í Laxnesi og að það teljist ekki vera hæft til beitar hrossa. Í niðurstöðu skýrslu, dags. 9. maí 1997, sem Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins gerðu um ástand hrossahaga á jörðinni segir að allt land sem tilheyri Laxnesi sé í slæmu ástandi eða óhæft til beitar. Friða þurfi hluta þess nú þegar og minnka álag á öðru landi. Í erindi Landgræðslu ríkisins til landbúnaðarráðherra 2. júní 1997 var Laxnes í Mosfellsbæ og nýting stefnanda sagt vera eitt versta ofbeitardæmið af völdum hrossa. Um væri að ræða illa nídd beitilönd og að viðleitni Landgræðslunnar til að bæta þar úr hefði ekki borið árangur. Búnaðarsamband Kjalarnesþings sendi bæjarráði Mosfellsbæjar 1. júlí 1997 áætlun um landnýtingu í Laxnesi í Mosfellsdal og þann 10. febrúar 1998 óskaði Landgræðsla ríkisins eftir því að sveitarfélagið myndi hlutast til um friðun efsta og neðsta hluta Laxneslands sunnan vegar fyrir beit. Nefnd til að ákvarða ítölu jarðarinnar skipaði sýslumaðurinn í Reykjavík að beiðni Mosfellsbæjar 16. mars 1999.

Í ítölugerð nefndarinnar, dags. 8. september 1999, kemur m.a. fram að hluti landsins sé í svo slæmu ástandi að nauðsynlegt sé að friða það fyrir beit hrossa og taka það til aðhlynningar. Þetta slæma ástand megi rekja til óhóflegrar beitar á landinu á undangengnum árum og einnig þess að um eðlisrýrt land sé að ræða sem víða sé með opin rofsár þar sem halli sé mestur. Úrskurðað var um friðun fjögurra beitarsvæða og að hámarksfjöldi hrossa mætti, miðað við 90 daga sumarbeit, vera samtals 30 á fimm öðrum tilgreindum beitarsvæðum. Lagði nefndin áherslu á að sveitarstjórn héldi uppi reglulegu eftirliti með því að eigi væri haft fleira í högum Laxness en nefndin hefði ákveðið í úrskurði sínum.

Með bréfi Landgræðslu Íslands til Mosfellsbæjar 24. júlí 2000 var athygli vakin á því að skoðun í kjölfar ábendinga hefði leitt í ljós að stefnandi beitti, þrátt fyrir ítöluúrskurðinn, a.m.k. 50 hrossum á land sunnan þjóðvegar sem skyldi alfriðað samkvæmt honum. Í kjölfarið samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar að ýtrustu aðgerðum og viðurlögum yrði beitt til að niðurstöður um mat á ítölu væru virtar. Um kæru garðyrkjustjóra Mosfellsbæjar til lögreglu vegna ofbeitar á landi í Laxnesi var fjallað í frétt í DV 24. ágúst 2000 og er þar haft eftir stefnanda að hann geti nýtt landið eins og hann vilji meðan það sé óskipt og ofanfjárgirðingu vanti. Í desember sama ár sendi forstjóri Landgræðslu ríkisins bréf til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þar sem bent var á að stofnunin hefði á undanförnum árum ítrekað þurft að hafa afskipti af landnýtingu í Laxnesi þar sem land hefði verið ofbeitt þannig að ekki samrýmdist gróðurverndarákvæðum laga um landgræðslu nr. 17/1965. Meðferð landsins fæli að mati Landgræðslunnar í sér röskun lífríkis og ef veita ætti hestaleigunni í Laxnesi starfsleyfi þá væri áríðandi að í slíku starfsleyfi yrði sett skilyrði sem tryggði að starfsemin í Laxnesi samrýmdist löggjöf um gróðurvernd.

Í gögnum frá árinu 2001 koma enn fram upplýsingar um að stefnandi sé ekki talinn fara að úrskurði ítölunefndar. Í umsögn starfsmanns Landgræðslunnar, sem skoðaði ástand hrossahaga í landi Mosfellsbæjar með búfjáreftirlitsmanni sveitarfélagsins 19. september 2001, kemur fram um jörðina í Laxnesi að sunnan vegar virðist lítill munur á ástandi lands þrátt fyrir ákvörðun ítölu í landið og að lítil merki friðunar sjáist á friðuðu landi vestast í hólfinu. Ástand norðan Þingvallavegar sé afar slæmt. Í austasta hólfinu sé land allt nauðbitið. Þar sé stór haugur af heyi í plasthjúp sem hross séu þegar búin að naga mikið utan af, enda ekki annað að hafa. Í hólfinu þar fyrir vestan sé land einnig nauðbitið. Sorglegt sé að horfa á hvernig þarna sé farið með verðmæti, bæði fóður og land. Á landi fyrir austan bæjarhúsin hafi greinilega verið beitt hrossum og hafi a.m.k. þrjú hross verið þar við skoðun, en samkvæmt ítöluákvörðun eigi þetta land að vera alfriðað.

Í ljósi framangreindra lýsinga á ástandi landsins á síðasta áratug síðustu aldar og ítrekaðra ummæla í gögnum sem studd eru framburði vitna um áralanga ofbeit, þrátt fyrir tilmæli fagaðila um annað, verður ekki fallist á það sem stefnandi heldur fram, að gagnrýni stefndu, sem fædd er árið 1973, á meðferð stefnanda á landinu í æsku hennar sé úr lausu lofti gripin og tilhæfulaus.

Ályktun stefndu í ummælum í staflið a, um að stefnandi, sem væri í rjúkandi feitum viðskiptum, væri sennilega með nógu góð tök á hreppsnefndinni til að þetta fengi að viðgangast ár eftir ár, vísar til áhrifa hans en telst ekki áburður um refsiverða háttsemi. Í bréfi stefnanda til bæjarstjóra Mosfellsbæjar, dags. 30. júlí 2001, sem varðar girðingar og kostnað vegna þeirra, telur stefnandi ástæðu til að benda bæjarstjóranum sérstaklega á að fyrirtæki hans sé stærsta ferðamiðstöð Mosfellsbæjar og hafi verið það frá 1968. Í niðurlagi ummæla stefndu í staflið a er gefið í skyn að ofbeit fái enn að viðgangast þar sem á eftir þankastriki bætt við orðunum „og enn þann dag í dag“. Næst er í greininni lýst fyrrnefndri heimsókn stefndu í holtið við æskuheimilið og að  henni hefði þótt hræðilegt að sjá landið. Þar væru ekki lengur móar heldur skrælnað lyng í moldarflögum, ryðgaður gaddavír, hrossaskítur. Hennar megin við girðinguna væri ekki neitt, en handan hennar skriðu stærðarinnar lúpínubeð yfir moldarflæmin. Ekki eru gerðar athugasemdir í stefnu við þessa lýsingu eða krafist ómerkingar þessara orða. Því er á hinn bóginn haldið fram í stefnu að stefnandi hafi í starfsemi sinni við hestaleigu lagt ríka áherslu á landgræðslu og uppbyggingu í þeim efnum. Þessu til sönnunar vísar stefnandi til staðfestingar starfsmanns Landgræðslu ríkisins frá 11. júlí 2016, sem stefnandi hefur lagt fram í málinu.

Í síðastnefndu skjali, sem ritað er eftir að umstefnd ummæli birtust, segir frá því að vorið 2013 hafi sonur stefnanda leitað til Landgræðslu ríkisins eftir ráðgjöf um uppgræðslu lands og bætta beitarstýringu í Laxnesi. Þar segir að land þar sé víða rofið og uppskerulítið til beitar. Áhersla sé nú lögð á uppgræðslu með lífrænum aðgerðum. Þessar aðgerðir séu farnar að skila árangri og fari svo sem horfi muni ásýnd lands í Laxnesi og uppskera þess breytast mjög til batnaðar á komandi árum og grundvöllur kominn til frekari áætlanagerðar til framtíðar. Beitarstýring í hrosshögum í Laxnesi sé í endurskoðun og hafi víðast verið færð til betri vegar. Þar sem mörg reiðhross séu í daglegu brúki myndist jafnan fórnarsvæði vegna umferðar við girðingarhlið og á viðkvæmum rekstrarleiðum. Verið sé að skoða með hvaða hætti megi draga úr umfangi þessara rofsvæða. Þá segir þar að vænst sé áframhaldandi góðs samstarfs við son stefnanda. Af efni skjalsins verður ekki dregin sú ályktun að landið í Laxnesi sé nú í góðu ástandi eða að beitarstýring á landinu sé til fyrirmyndar eða hafi verið það áður en sonur stefnanda, sem nú er fyrirsvarsmaður félagsins sem rekur hestaleiguna, óskaði ráðgjafar um uppgræðslu landsins. Höfundur skjalsins staðfesti fyrir dómi að ástand landsins hefði verið slæmt þegar hann hefði komið að því á árinu 2013. Landið hefði verið ofbeitt en unnið væri að því nú að bæta beitarstjórn.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvort og þá að hvaða leyti stefnandi eigi hlut að þeirri samvinnu sem nú hefur tekist með syni hans og starfsmanni Landgræðslunnar um beitarstjórnun og uppgræðslu landsins. Meðal gagna málsins eru samskipti í tölvupóstskeytum frá janúar og febrúar 2013 þar sem starfsmaður Landgræðslunnar vekur athygli, annars vegar Ferðamálastofu vegna gæðavottunar og hins vegar Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, á ástandi lands í Laxnesi. Var þá sonur stefnanda, sá sem svo vorið 2013 óskaði umræddrar ráðgjafar, til andsvara af hálfu hestaleigunnar, en ekki stefnandi. Að þessu virtu verður ekki fallist á að með þessari jákvæðu framvindu sé fram komin sönnun þess að stefnandi hafi í starfsemi sinni við hestaleigu lagt ríka áherslu á landgræðslu og uppbyggingu í þeim efnum, svo sem hann heldur fram.

Að virtu því að í júlí 2016 hafi beitarstýring, þrátt fyrir ráðgjöf frá árinu 2013, ekki að fullu verið færð til betri vegar verður að telja að sú ályktun stefndu, eftir að hafa litið landið eigin augum, að ofbeit á landinu fengi enn þann dag í dag að viðgangast, eigi sér nokkra stoð í staðreyndum málsins.

Þegar litið er til greinar stefndu í heild, og þá einkum þeirra atriða sem ummælin voru sett fram í samhengi við, þykir ljóst að ætlun stefndu hafi verið að vekja athygli á þeim verðmætum sem í náttúru landsins felast og því tjóni sem af því geti hlotist til lengri tíma ef fjárhagslegir stundarhagsmunir ganga framar því að halda uppi vörnum fyrir náttúru landsins. Slík skilaboð eru innlegg í mikilvæga þjóðfélagsumræðu. Ummælin voru sett fram í samhengi við það traust sem stefnda ber til forsetaframbjóðandans Andra Snæs til góðra verka í þessum efnum og í niðurlagi greinarinnar tekur hún fram að það væri rangt að kjósa hann ekki í komandi forsetakosningum. Þannig sé það nú bara.

Umstefnd ummæli voru liður í almennri þjóðfélagsumræðu og eiga stuðning í þegar fram kominni opinberri umfjöllun, sem stefnandi tók þátt í. Því má játa stefndu rýmri rétt til tjáningar en ella, án þess að hún teljist ærumeiðandi með þeim hætti að hún brjóti gegn þeim rétti stefnanda til æruverndar sem honum er tryggður með ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Við úrlausn á því hvort í ummælum sé fólgin ærumeiðandi aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga, eða ærumeiðandi móðgun samkvæmt 234. gr. laganna, skiptir máli hvort í þeim hafi falist gildisdómur eða staðhæfing um tiltekna staðreynd. Í dómaframkvæmd hefur mannréttindadómstóll Evrópu gengið langt í þá átt að telja ummæli fela í sér gildisdóm, enda þótt þau taki mið af staðreyndum, og jafnframt litið svo á að slík ummæli rúmist innan tjáningarfrelsis ef sá sem þau hafa beinst að hefur gefið tilefni til þeirra. Umstefnd ummæli eru í aðalatriðum gildisdómar, en slík ummæli verða hvorki sönnuð né afsönnuð. Að því marki sem í ummælum stefndu felast staðhæfingar um staðreyndir þykja þær samrýmast nægilega því sem upplýst má telja um atvik. Eins og ummælin eru fram sett verður ekki fallist á að í þeim felist áburður um refsiverða háttsemi, þótt stefnda telji háttsemi stefnanda ámælisverða og segi honum að skammast sín. Ummæli sem fela í sér mat stefndu eða gildisdóma þarf ekki að sanna frekar. Ekki hefur verið sýnt fram á að ummælin séu sett fram af illfýsi og verður ekki ráðið af framburði stefndu að slíkar hvatir hafi legið að baki skrifum hennar eða vilji til að valda stefnanda miska.

Að öllu þessu virtu verður ekki talið að stefnda hafi í grein sinni viðhaft móðgun eða ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda, eða borið slíka aðdróttun út, sbr. 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga, eða viðhaft óviðurkvæmileg ummæli, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Verður því að sýkna stefndu af kröfu stefnanda um ómerkingu ummælanna og þar með einnig af kröfu um greiðslu til að mæta kostnaði af birtingu dóms. Þá hefur ekki verið sýnt fram á ólögmæta meingerð gegn æru stefnanda og fer því á sama hátt um miskabótakröfu, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. 

Með vísun til 1. mgr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem ákveðinn er 1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ekki eru efni til að fallast á kröfu stefndu um álag á málskostnað á grundvelli 2. mgr., sbr. 1. mgr., 131. gr. laga um meðferð einkamála.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Kröfu stefnanda, Þórarins Jónassonar, um að stefnda, Auður Jónsdóttir, verði dæmd til refsingar er vísað frá dómi án kröfu. Stefnda er sýknuð af öðrum kröfum stefnanda. Stefnandi greiði stefndu 1.500.000 krónur í málskostnað.

                                                                                    Kristrún Kristinsdóttir