• Lykilorð:
  • Aðfararheimild
  • Aðför
  • Ógilding
  • Vanlýsing

 

 

 

    

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R

14. desember 2018

 

 

 

Mál nr.            Y-6/2018:

 

Sóknaraðili:     Sverrir Pétur Pétursson

                        (Sveinn Guðmundsson lögmaður)

 

Varnaraðili:     Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra

                        (Bragi Björnsson lögmaður)

 

Dómari:           Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2018 í máli nr. Y-6/2018:

 

Sverrir Pétur Pétursson

(Sveinn Guðmundsson lögmaður)

gegn

Sýslumanninum á Norðurlandi vestra

(Bragi Björnsson lögmaður)

 

Mál þetta hófst með kröfuskjali sóknaraðila til dómsins sem barst 5. júlí sl. Sóknaraðili er Sverrir Pétur Pétursson, Reykjavík og varnaraðili Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, Blönduósi. Málið var tekið til úrskurðar eftir munnlegan málflutning sem fram fór 11. desember sl.

 

I.

Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. 2018-008410, sem fór fram hjá embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þann 8. júní 2018 að kröfu Sýslumannsins á Norðurlandi vestra, verði ógilt með úrskurði dómsins.

 

Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda, varnaraðila máls þessa, að mati dómsins.

 

Varnaraðili krefst þess að árangurslaust fjárnám sem gert var þann 8. júní 2018 hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í aðfararmáli nr. 2018-008410, fyrir kröfu að fjárhæð 64.000.000 króna verði staðfest. Jafnframt er krafist málskostnaðar.

 

II.

Sóknaraðili var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 29. apríl 2009 fyrir skattalagabrot með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, skilað inn röngum virðisaukaskattsskýrslum o.fl. fyrir uppgjörstímabil árin 2006 og 2007.

 

Sóknaraðili var einnig uppvís að sama broti fyrir uppgjörstímabilið 2008. Hins vegar voru vanskil á virðisaukaskatti fyrir uppgjörstímabilið 2008 ekki tekin með í framangreindu máli, þrátt fyrir að vera að mati sóknaraðila fullframið á þeim tíma en brotin voru framin yfir samfellt tímabil í sama rekstri.

 

Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta í lok ársins 2008 eftir að kröfur vegna uppgjörstímabila virðisaukaskatts á árinu 2008 gjaldféllu. Þeim kröfum mun ekki hafa verið lýst í þrotabú sóknaraðila. Kröfum varnaraðila vegna uppgjörstímabilanna árin 2006 og 2007 mun hins vegar hafa verið lýst í bú sóknaraðila að hluta. 

 

Á árinu 2013 var sóknaraðili svo dæmdur vegna skattalagabrots í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti o.fl. vegna uppgjörstímabilsins 2008, sbr. dóm frá 7. júní 2013 í máli nr. S-305/2013. Krafa sú sem varnaraðili sækir í þessu máli er vegna sektar fyrir framangreint tímabil. Með þessum dómi var fyrrgreindur dómur á sóknaraðila frá 29. apríl 2009 sem bundinn var skilorði tekinn upp og dæmdur með málinu, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tildæmd sekt fól jafnframt í sér hegningarauka við sekt samkvæmt fyrri dómi, sbr. 78. gr. laganna og með hliðsjón af 77. gr. þeirra. Vararefsing var eigi lögð við sektinni, enda hafði heimild til að leggja á vararefsingu verið fullnýtt með fyrri dómi, sbr. 1. mgr. 54. almennra hegningarlaga.

 

Sekt og sakarkostnaður samkvæmt dómi í málinu S-305/2013, samtals 64.125.500 krónur, mun hafa komið til innheimtu hjá varnaraðila þann 11. mars 2014. Þann 12. ágúst 2014 barst varnaraðila greiðsla vegna sakarkostnaðarins, að fjárhæð 125.500 kr. Engar greiðslur hafa borist inn á sektina, en við henni var sem fyrr segir ekki lögð vararefsing.

 

Þann 26. febrúar 2017 sendi varnaraðili aðfararbeiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna vangoldinnar sektar að fjárhæð 64.000.000 króna. Var beiðnin tekin fyrir þann 14. maí 2018, aðfarargerð nr. 2018-008410. Mætt var af hálfu sóknaraðila og því mótmælt að gerðin næði fram að ganga. Var gerðinni frestað til 8. júní 2018. Þann 8. júní 2018 var gerðin tekin fyrir að nýju og því aftur mótmælt að gerðin næði fram að ganga. Fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda/varnaraðila krafðist þess hins vegar að gerðin færi fram og var gerðinni lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989. Lögmaður gerðarþola lýsti því þá þegar yfir að hann myndi bera gerðina undir dómstóla. Þann 15. ágúst 2018 fyrndist sektin að sögn varnaraðila, sbr. 1. mgr. 83. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og hefur hún verið afskrifuð úr tekjubókhaldskerfi ríkisins.

 

III.

Sóknaraðili byggir á því í fyrsta lagi að sameina hefði átt útistandandi framangreind refsimál vegna vanskila á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfsemi sóknaraðila. Sóknaraðili telur að innheimta sektarinnar sé andstæð 180 gr., 153. gr. og 2. mgr. 186. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 

Sóknaraðili hafi verið dæmdur 29. apríl 2009 fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti og að hafa skilað inn röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir uppgjörstímabilin árin 2006 og 2007. Sóknaraðili hafi síðan verið dæmdur aftur fyrir sömu brot á árinu 2013 vegna uppgjörstímabilsins 2008, en krafa sú sem varnaraðili er að innheimta sé vegna þess tímabils.

 

Sóknaraðili kveður engar skýringar hafa verið gefnar á ástæðum þess að ekki var ákært fyrir vanskil á virðisaukaskatti fyrir uppgjörstímabilið 2008 í fyrra málinu árið 2009. Samkvæmt 24. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé hvert uppgjörstímabil tveir mánuðir. Vanskil sóknaraðila vegna innheimts virðisaukaskatts á árinu 2008 hafi því verið gjaldfallin á þeim tíma og um fullframið brot að ræða þegar ákæra var gefin út og fyrri refsidómur sóknaraðila féll þann 29. apríl 2009. Hafi brotið verið hluti af samfelldum vanskilum sóknaraðila á virðisaukaskatti á árunum 2006-2008 og mjög bagalegt fyrir sóknaraðila að málin hafi ekki verið kláruð í einu lagi strax á árinu 2009.

 

Sóknaraðili telur að búið sé að refsa honum tvisvar fyrir sama brotið sem hafi verið framið í einni heild á árunum 2006-2008 sem gangi þvert gegn meginreglum sakamálaréttarfars.

 

Þessu til stuðnings kveðst sóknaraðili benda á að brot hans gegn 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé flokkað sem rýmkað brot samkvæmt almennum reglum refsiréttarins. Sú aðferð að virða tvö eða fleiri brot, brotaþætti eða efnisatriði refsiákvæðis sem aðeins eitt afbrot hafi bæði réttarfarsleg og refsiréttarleg áhrif á meðferð og niðurstöður refsimála. Sóknaraðili bendir á að slík réttaráhrif hafi úrslitagildi vegna ákæru og dóms. Þar sem ekki megi ákæra né dæma tvisvar fyrir sama brotið (ne bis en idem og res judicata), megi ekki heldur hluta sundur rýmkað brot, ákæra og dæma háttsemina í tvennu lagi eða jafnvel í fleiri hlutum, sbr. 180. gr., 153. gr. og 2. mgr. 186. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 

Sóknaraðili bendir á að það sakarefni sem hann var dæmdur fyrir sé svokallað framhaldsbrot í flokki tegundar rýmkaðra brota. Með framhaldsbroti sé átt við framhaldandi röð samkynja eða eðlislíkra refsiverðra athafna eða athafnaleysis tilvika gegn öðrum hagsmunum en persónu manna. Báðir refsidómar sóknaraðila frá 2009 og 2013 séu fyrir eins brot. Sakarefnin í dómunum hafi verið náin í tíma og rúmi og brotin samfelld. Sóknaraðili telur að Hæstiréttur hafi staðfest að aðferðir sem þessar gangi ekki upp.

 

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að réttur sóknaraðila til réttlátrar málsmeðferðar hefur ekki verið virtur þegar litið sé til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. júní 2013. Þar hafi verið um rýmkað brot að ræða eða svokallað framhaldsbrot, sem taka hefði átt inn í ákæru og refsidóminn sem sóknaraðili hlaut á árinu 2009, enda ljóst að skattalagabrotin á árinu 2008 voru fullframin þegar ákæra á árinu 2009 var gefin út og brotin framin í einni samfellu. Hafi sóknaraðili þurft að þola endurtekna málsmeðferð og refsingu vegna eins og sama verknaðarins hlutrænt séð vegna sömu málsatvika. Af þeim sökum séu engin efni til að láta gerðina ná fram að ganga þegar tekið sé tillit til þeirra aðstæðna og atvika sem séu að baki kröfu varnaraðila. Verði fallist á kröfu varnaraðila sé ljóst að verið sé að halda sóknaraðila í gjaldþroti í lengri tíma enda hafi hann ekki bolmagn til að greiða þá fjárhæð sem krafist hafi verið fjárnáms fyrir.

 

Málskostnaðarkrafa sóknaraðila byggir á 129.–131. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Krafan um virðisaukaskatt ofan á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1988. Krafan byggir að öðru leyti á 1. mgr. 92. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

 

 

IV.

Kröfu sína byggir varnaraðili á því að endanlegur dómur um skyldu til greiðslu sektar liggi fyrir með dómi héraðsdóms í máli nr. S-305/2013 og sé dómurinn sjálfur gild aðfararheimild, sbr. 1. tl. 1. mgr. aðfararlaga nr. 90/1989. Þá komi fram í 1. mgr. 93. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 að innheimta megi ógreidda sekt með aðför, hafi hún hvorki verið greidd né um hana samið á tilskildum tíma, sbr. 87. gr. laganna.

 

Í dómnum hafi m.a. verið byggt á skýlausri játningu sóknaraðila máls þessa en engum þeim vörnum sem sóknaraðili leggur nú fram hafi verið haldið uppi í málinu. Hafi málinu hvorki verið áfrýjað né, eftir atvikum, beiðst endurupptöku þess, sbr. XXIX. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Sakamál verði hvorki endurupptekið né endurflutt í dómsmáli er varði gildi fjárnámsgerðar eftir 15. kafla aðfararlaga nr. 90/1989.

 

Fyrir liggi að öll skilyrði aðfarar voru fyrir hendi við framkvæmd gerðarinnar þann 8. júní 2018, um var að ræða skýra aðfararheimild, sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga, krafan hafi verið aðfararhæf, ófyrnd og aðför beint að þeim aðila sem skylda hafi hvílt á samkvæmt hljóðan aðfararheimildarinnar. Sóknaraðili máls þessa hafi enda í engu vikið að því í málatilbúnaði sínum að skilyrði aðfarar hafi ekki verið fyrir hendi.  Málsástæður lúta þess í stað allar að því að niðurstaða héraðsdóms í máli nr. S-305/2013 hafi verið efnislega röng en úr því verði ekki skorið í dómsmáli um gildi fjárnámsgerðar.

 

Varnaraðili vísar um málskostnaðarkröfu til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

V.

Fyrir liggur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2013 þar sem sóknaraðili var dæmdur til refsingar vegna stórfelldra brota á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Í málinu játaði sóknaraðili brot sín skýlaust. Ekki er sjáanlegt að nokkrum af þeim vörnum sem haldið er uppi í því máli sem hér er til úrlausnar hafi verið teflt fram í fyrrgreindu sakamáli og hefur því enda ekki verið haldið fram af sóknaraðila. Ekki verður annað séð en að ágreiningslaust sé að framangreindur dómur í málinu nr. S-305/2013 sé endanlegur í skilningi 186. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Það er því með öllu haldlaust fyrir sóknaraðila að byggja á því nú um fimm og hálfu ári frá því að dómurinn var upp kveðinn, til stuðnings kröfum sínum að dómurinn hafi verið rangur. Afdráttarlaus meginregla samkvæmt aðfararlögum nr. 90/1989 er að við aðfarargerð verði réttmæti dómsúrlausnar ekki vefengd, sbr. 2. mgr. 83. gr. og 2. mgr. 88. gr., sbr. 94. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

 

Sóknaraðili heldur því fram að honum hafi verið gerð refsing tvívegis vegna sömu brota, þ.e. í þeim skilningi að saksókn vegna brota á árinu 2008 hafi nauðsynlega þurft að eiga sér stað í máli því sem ákæruvaldið höfðaði árið 2008 vegna brota sóknaraðila á árunum 2006 og 2007. Þótt það skipti ekki máli við úrlausn málsins fær dómurinn ekki séð að vegna þess að þessi háttur hafi verið hafður á hafi refsiábyrgð vegna brota á árunum 2008 fallið niður með einhverjum hætti. Það var ekki ákært fyrir sannanleg brot vegna 2008 í fyrra málinu heldur var það gert í máli nr. S-305/2018 á meðan þau brot voru ófyrnd og skilorðsbundinn dómur frá 2009 tekinn upp og öll brotin 2006-2008 því dæmd saman. Burtséð frá því hvort þessi málsástæða sóknaraðila nú eigi við einhver rök að styðjast þá hefði sóknaraðili þurft að hafa hana uppi í málinu sem rekið var árið 2013 en það gerði hann ekki. Sóknaraðili hefur í engu rökstutt í sínum málatilbúnaði hvers vegna hann telji nú mögulegt eftir allan þennan tíma að halda fram þessari málsástæðu þvert gegn endanlegri niðurstöðu óáfrýjaðs héraðsdóms.

 

Þá er að mati dómsins haldlaus sú málsástæða að varnaraðila hafi borið að lýsa kröfu vegna vanskila árið 2008 í þrotabú sóknaraðila. Er málsástæðan og vanreifuð, þ.e. þýðing vanlýsingar í málinu. Krafa fellur ekki niður gagnvart skuldara þótt henni sé ekki lýst í þrotabú hans. Afleiðingin verður hins vegar sú að hún kemur ekki til álita eða uppgjörs að hluta eða öllu við þá sameiginlegu fullnustugerð sem gjaldþrotaskipti eru. Slík krafa er hins vegar undirseld reglum 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 um fyrningu krafna, eftir lok gjaldþrotaskipta.

 

Sóknaraðili hefur í engu byggt á því að aðfararheimild varnaraðila sem slík sé einhverjum annmörkum háð eða ekki til staðar og að því beri að fella gerðina úr gildi. Þá er engum málsástæðum hreyft um það að krafan sé haldin einhverjum ágöllum, sé fyrnd, röng eða fallin niður fyrir einhverjar sakir.

 

Heimild varnaraðila til að krefjast aðfarar fyrir sektargreiðslu þeirri sem sóknaraðila var gert að greiða með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-305/2013, 7. júní 2013, hefur þannig ekki verið dregin í efa. Er heimildin enda skýr, byggir á 1. tl. 1. mgr. 1. gr. og 5. gr. laga um aðför nr. 90/1989 sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 15/2016 og er í samræmi við dómsorð umrædds dóms.

 

Því verður kröfum sóknaraðila hafnað og aðfarargerð sýslumanns staðfest að kröfu varnaraðila.

 

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í  málskostnað, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

  

Málið fluttu Leó Daðason lögmaður, fyrir sóknaraðila vegna Sveins Guðmundssonar lögmanns, og Bragi Björnsson lögmaður, fyrir varnaraðila.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, Sverris Péturs Péturssonar, umfjárnámsgerð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. 2018-008410, sem fór fram hjá embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þann 8. júní 2018, að kröfu Sýslumannsins á Norðurlandi vestra, verði ógilt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, er hafnað og er aðfarargerðin staðfest.

 

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, 300.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Lárentsínus Kristjánsson (sign)