• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fjársvik
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2019 í máli nr. S-161/2019:

Ákæruvaldið

(Sonja H.Berndsen saksóknarfulltrúi)

gegn

Davíð Ingi Þorsteinssyni

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 10. apríl 2019, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. febrúar 2019 á hendur:

 

                        „Davíð Inga Þorsteinssyni, kt. [...],

[...] Reykjavík

           

fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:

I.

 

1.      Fjársvik, með því að hafa [...] 2017, svikið út veitingar á veitingastaðnum [...] við [...] í Reykjavík, að verðmæti kr. 7.230, með því að vekja þá hugmynd hjá starfsmönnum staðarins að hann hygðist greiða fyrir veitingarnar sem hann gerði ekki.

Mál nr. 007-2017-50869

 

Telst brot þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2.      Þjófnað, með því að hafa [...] 2017 á [...] [...] í Reykjavík, tekið farsíma af gerðinni [...] af afgreiðsluborði í móttöku hótelsins, í eigu A kt. [...], af óþekktu verðmæti.

Mál nr. 007-2017-72731

 

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

 

[…]

 

4.      Þjófnað, með því að hafa [...] 2018, í félagi með nafngreindum manni, í verslun [...] í Reykjavík, stolið matvörum samtals að verðmæti kr. 72.181.

Mál nr. 007-2018-47463

 

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

5.      Þjófnað, með því að hafa [...] 2018, farið inn í eldhús á [...] við [...] í Reykjavík og tekið þaðan fimm vínflöskur og þrjár bjórflöskur af óþekktu verðmæti.

Mál nr. 007-2018-48063

 

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

II.

 

1.      Með því að hafa [...] 2017 ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 360 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 1,9 ng/ml, í þvagi mældist amfetamín, tetrahýdrókannabínólsýra og metýlfenídat) norður [...] í Reykjavík, uns Lögreglan stöðvaði aksturinn á [...] við [...]. 

            Mál nr. 007-2017-79239

 

2.      Með því að hafa [...] 2018 ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og áhrifa slævandi lyfja (í blóði mældist amfetamín 755 ng/ml, kókaín 20 ng/ml, MDMA 135 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 1,9 ng/ml og tramadól 315 ng/ml, í þvagi mældist amfetamín, kókaín, MDMA, metamfetamín, metýlfenídat, tetrahýdrókannabínólsýra og tramadól) um [...] og [...] í Reykjavík, uns lögreglan stöðvaði aksturinn á bifreiðarstæði við verslunina [...].

            Mál nr. 007-2018-25010

 

3.      Með því að hafa [...] 2018 ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 30 ng/ml, metamfetamín 35 ng/ml, metýlfenídat 20 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,7 ng/ml, í þvagi mældist amfetamín, metamfetamín, metýlfenídat og tetrahýdrókannabínólsýra) um [...] til norðurs og inn [...] í Reykjavík, uns lögreglan stöðvaði aksturinn við [...].

            Mál nr. 007-2018-27175

 

4.      Með því að hafa [...] 2018 ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist metamfetamín 185 ng/ml, metýlfenídat 20 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 1,2 ng/ml og vínandi 2,64‰, í þvagi mældist amfetamín, metamfetamín, metýlfenídat, tetrahýdrókannabínól-sýra og vínandi 2,22‰) vestur [...] í Reykjavík, uns lögreglan stöðvaði aksturinn.

Mál nr. 007-2018-33710

 

Teljast brotin samkvæmt fyrrnefndum ákæruliðum í kafla II varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr, allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, en brot samkvæmt lið 2 einnig við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga og brot samkvæmt lið 4 einnig við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. sömu laga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

            Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa og tjáði sig stuttlega fyrir dómi.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín að teknu tilliti til fráfalls ákæruvaldsins á 3. lið I. kafla ákæru. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

            Ákærði er nú sakfelldur fyrir fjögur auðgunarbrot og fjögur umferðarbrot en í öllum tilvikum var um að ræða akstur undir áhrifum fíkniefna og án þess að hafa gild ökuskírteini. Ákærði var síðast dæmdur fyrir umferðarlagabrot á árinu 2009 og ber því að líta á brot hans nú sem fyrstu brot og varða þau sektum.

Ákærði á að baki sakarferil sem nær aftur til ársins [...]. Síðan þá hefur hann fimmtán sinnum verið dæmdur til refsingar, nú síðast á árinu 2017. Í flestum tilvikum var ákærði sakfelldur fyrir auðgunarbrot en einnig fyrir rán, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlagabrot.

   Til þyngingar horfir að ákærði hefur ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot eins og sakarferill hans ber vitni um. Að gættum almennum ítrekunarskilyrðum 71. gr. almennra hegningarlaga er litið til 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt vísast til 72. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða  þannig hæfilega ákvörðuð 8 mánaða fangelsi.   

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökuréttindum í 3 ár og 2 mánuði frá uppkvaðningu dómsins að telja. Ákærði skal greiða sakarkostnað málsins sem er 555.659 kr. samkvæmt framlögðu yfirliti en sækjandi lækkaði fjárhæðina í þinghaldinu.

     Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)

 

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Davíð Ingi Þorsteinsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti í 3 ár og 2 mánuði frá uppkvaðningu dómsins að telja.

Ákærði greiði 555.659 krónur í sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)