• Lykilorð:
  • Gáleysi
  • Líkamstjón
  • Tilkynning

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2018 í máli nr. E-3306/2017:

Kristján Guðmundsson

(Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður)

gegn

Sjóvá – Almennum tryggingum hf.

(Kristín Edwald lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl. var höfðað með stefnu birtri 18. október 2017. Málið var endurupptekið af dómara 21. júní 2018 með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 og dómtekið að nýju að fram komnum umbeðnum skýringum lögmanna aðila viðvíkjandi stefnubirtingu annars vegar og staðsetningu starfsstöðva vátryggingataka hins vegar.

Stefnandi er Kristján Guðmundsson, [...]

Stefnt er Sjóvá-Almennum tryggingum, [...]

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til greiðslu bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu BL ehf. hjá stefnda vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir á verkstæði BL ehf. þann 6. mars 2013. Jafnframt er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnda, en til vara að skaðabótaskylda stefnanda verði aðeins viðurkennd að hluta vegna þess óhapps sem stefnandi varð fyrir þann 6. mars 2013 og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

I.

Stefnandi þessa máls er bifvélavirki að mennt og starfaði frá árinu 1989 við viðgerðir á bifreiðum, meðal annars hjá bílaumboðunum Ræsi og Heklu. Á árinu 2004 hóf hann störf hjá Bifreiðum og Landbúnaðarvélum ehf. (B&L) sem er forveri vátryggingartakans BL ehf. Samkvæmt gögnum málsins vann stefnandi í upphafi við sölu á bílavarahlutum bæði í gegnum síma og í verslun félagsins. Á árinu 2005 mun stefnandi hafa verið færður í starf við verkstæðismóttöku og séð þar meðal annars um að bóka tíma fyrir verkstæðið, taka á móti viðskiptavinum og reikningagerð. Stefnandi mun hafa tekið við starfi verkstjóra atvinnubílaverkstæðis B&L að Fosshálsi 1 í Reykjavík á árinu 2009 og annast þá meðal annars um daglegan rekstur, innkaup, umsjón með verkbeiðnum og samskipti við viðskiptavini. Árið 2010 mun stefnandi hafa tekið við starfi verkstjóra „Verkstæðis 2“ hjá B&L en á þeim tímapunkti var eignarhald B&L og Ingvars Helgasonar hf. komið á eina hendi og munu félögin hafa verið sameinuð undir nafninu BL ehf. árið 2012. Árið 2012 mun stefnandi hafa tekið við starfi verkstjóra „Verkstæðis 1“ hjá vátryggingartaka. Þann 1. mars 2013 var stefnandi fluttur úr stöðu verkstjóra yfir í stöðu þjónustufulltrúa vegna skipulagsbreytinga hjá BL ehf. Starf þjónustufulltrúa felst einkum í samskiptum við viðskiptavini, tímabókanir og reikningagerð.

Hinn 6. mars 2013 varð stefnandi fyrir óhappi á vinnustað. Í aðilaskýrslu sinni við aðalmeðferð málsins lýsti stefnandi aðdragandanum með þeim hætti að hann hafi gengið frá verkstæðismóttöku, þar sem hann vann á þessum tíma, inn á verkstæðið til að afla sér upplýsinga um bíl sem þar var í viðgerð. Þar hafi hann hitt yfirmann sinn, Bjarna Benediktsson, og þegar hann gekk til baka í átt að verkstæðismóttöku hafi hann litið til hliðar í samtali þeirra Bjarna og þá stigið hægra fæti í snjóbleytu á gólfinu, runnið til og sett „hægri höndina fram“ til að verjast falli. Að sögn stefnanda tókst honum að stöðva sig með hendinni en fundið slæman verk í baki og þurft aðstoð við að standa upp. Eftir að hafa reynt að harka af sér um stund hafi hann ákveðið að fara heim úr vinnu þar sem hann hafi átt erfitt með að setjast niður og ekki getað sinnt vinnu sinni. Kona stefnanda hafi sótt hann og stutt hann út í bíl ásamt syni stefnanda. 

Samkvæmt gögnum málsins leitaði stefnandi til heimilislæknis síns fimm dögum eftir óhappið eða þann 11. mars 2013. Þar er skráð að stefnandi hafi dottið á verkstæðisgólfi, meitt sig í baki, hægri fæti og hægri axlargrind. Var hann greindur með tognun og ofreynslu á aðra ótilgreinda hluta axlargrindar og fékk ávísað verkjalyfjum.

Af hálfu BL ehf. var tilkynning um atvik þetta send til Vinnueftirlitsins þann 14. mars 2013. Þar segir að stefnandi hafi gengið eftir verkstæðisgólfi, runnið til og fengið slink á bakið.

Stefnandi mun hafa leitað til heimilislæknis síns í þrígang í apríl 2013. Í sjúkraskrá kemur fram að stefnandi hafi fengið sterasprautu auk þess sem hann hafi farið í segulómskoðun og verið sendur í meðferð til sjúkraþjálfara.Stefnandi leitaði til heimilislæknis í nokkur skipti í maí 2013 ásamt því að fara í röntgenmyndatöku á hægri öxl. Þann 28. maí 2013 framkvæmdi Ágúst Kárason læknir klemmulosandi aðgerð vegna axlatognunar og baktognunar. Samkvæmt gögnum málsins var þó ekki unnt að greina nein áverkamerki á axlarliðnum eða sinum í kring.

Stefnanda var sagt upp störfum hjá BL ehf. í október 2013 og lauk uppsagnarfresti í lok janúar 2014. Stefnandi hóf síðar að vinna sem verkstjóri atvinnubílaverkstæðis Brimborgar þann 3. febrúar 2014. Þann 19. júní 2014 lenti stefnandi í vinnuslysi er hann var að reynsluaka bifreið sem stöðvaðist skyndilega og hann skall með brjóstkassann í stýrið en stefnandi var ekki í bílbelti. Hann leitaði á slysadeild sex dögum síðar, var með verki beggja megin auk þess sem talið var að hann væri rifbeinsbrotinn.

Skömmu síðar eða þann 30. júní 2014 leitaði stefnandi til Torfa Magnússonar taugalæknis. Þær rannsóknir sem Torfi framkvæmdi voru ekki taldar sýna merki um áverka eða þrýsting á taugar. Stefnandi leitaði til Finnboga Jakobssonar taugalæknis í október 2014 og reyndi hann meðferð með taugalamandi lyfjum. Taldi Finnbogi mögulegt að stefnandi hefði fengið togáverka á efri hluta taugaflækju við óhappið þann 6. mars 2013.

Með bréfi 3. desember 2013, óskaði stefnandi eftir því við stefnda að tekin yrði afstaða til bótaskyldu vegna óhapps stefnanda þann 6. mars 2013. Í bréfinu er rakið að stefnandi hafi runnið í snjóbleytu sem hafi myndast eftir að bifreið hafði verið flutt inn á verkstæðið og hafi hann fallið í gólfið á hægri fót og hægri öxl. Þá er vísað til þess að það sé í verkahring starfsmanna BL ehf. að hreinsa upp bleytu af gólfinu og að óhapp stefnanda hafi orsakast af vanrækslu starfsmanna. Stefndi svaraði með tölvupósti 13. janúar 2014 þar sem bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu BL ehf. hjá stefnda var hafnað. Í tölvuskeytinu var því mótmælt að stefnandi hafi fallið á öxlina heldur hafi honum skrikað fótur og fengið slink á hægri síðu en ekki fallið í gólfið. Stefndi viðurkenndi hins vegar bótaskyldu úr slysatryggingu launþega með þeim fyrirvara að óljóst væri hvort orsakatengsl teldust vera milli allra einkenna stefnanda og óhappsins.

Stefnandi skaut ágreiningi aðila til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 14. janúar 2015. Í málskotinu er óhappi stefnanda lýst með þeim hætti að hann hafi stigið með annan fótinn í snjóbleytu og hafi borið hinn fótinn fyrir sig til að forðast fall með þeim afleiðingum að snúningur hafi komið á skrokkinn og hann fengið mikið högg á öxlina. Í málskotinu var meðal annars vísað til reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða og því haldið fram að vátryggingartaki hafi ekki gætt að því að hreinsa og hálkuverja gólf verkstæðisins.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum kvað upp úrskurð þann 10. febrúar 2015 og komst að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu BL ehf. hjá stefnda.

Með tölvubréfi 12. febrúar 2015 upplýsti stefndi að hann hygðist ekki ætla að hlíta úrskurði nefndarinnar þar eð of strangar sönnunarkröfur væru gerðar gagnvart vátryggingartakanum BL ehf. og ósamræmi væri við sambærileg mál.

Með matsbeiðni, dags. 27. apríl 2016, var þess óskað að Sveinbjörn Brandsson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hrl. legðu mat á afleiðingar af óhappinu á heilsufar stefnanda samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Niðurstaða þeirra var á þá lund að við mat á varanlegum miska yrði að taka tillit til þess að stefnandi hafði fyrir óhappið 2013 lent í tveimur alvarlegum vinnuslysum og verið metinn til 40 miskastiga vegna þeirra. Við mat á varanlegum miska vegna óhappsins þann 6. mars 2013 lögðu matsmenn til grundvallar varanlegan áverka á öxl og bak og væri miski stefnanda hæfilega metinn 15 stig. Við mat á varanlegri örorku var litið til þess að stefnandi hefði áður verið metinn til samtals 50% skerðingar á vinnugetu vegna eldri slysa. Þrátt fyrir það kom það fram á matsfundi að stefnandi hefði talið sig fullvinnufæran. Matsmenn gengu samt sem áður út frá því að starfsgeta stefnanda hafi verið varanlega skert fyrir óhappið 6. mars 2013 og þá einkum hvað varðar erfiðari verkefni. Þá telja matsmenn að stefnandi eigi að geta sinnt sölustörfum sem og verkstjórn á bifreiðaverkstæðum en með nokkrum takmörkunum umfram það sem leiðir af eldri slysum. Matsmenn telja einnig að stefnandi geti unnið ýmis önnur störf sem ekki krefjast líkamlegra átaka og þá með nokkrum takmörkunum. Var honum því metin 10% varanleg örorka vegna óhappsins.

Stefndi greiddi stefnanda bætur þann 7. apríl 2017, annars vegar úr slysatryggingu launþega og hins vegar almennri slysatryggingu.

II.

Stefnandi byggir á því að slysið megi rekja til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna og gáleysis forsvarsmanna vátryggingartakans BL ehf. sem beri ábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttar.  Stefnandi hafi verið í öryggisskóm með hálkuvörðum sóla þegar hann gekk um verkstæðisgólfið. Sú vinnuregla hafi verið í gildi meðal starfsmanna að sópa snjó og bleytu sem barst inn á verkstæðisgólfið ofan í niðurföll við bílastæði, áður en hafist var handa við vinnu á viðkomandi bifreið. Stefndi telur að sú vinnuregla samræmist hættu sem skapist þegar snjór bráðnar á verkstæðisgólfi. Þennan morgun hafi verið lítið að gera á verkstæðinu og starfsmönnum því verið í lófa lagið að sópa bráðnandi snjónum ofan í niðurföllin eins og venja hafi verið.

Vinnuveitandi beri ábyrgð á því að vinnuaðstæður séu í samræmi við reglur laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, reglur settar með stoð í lögunum og aðrar reglur sem lúta að vinnuaðstæðum.

Stefnandi vísar til þess að fjallað sé um gólf og hálku á vinnustöðum í reglum um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995. Í 2. mgr. 6. gr. reglna þessara segi að gólf og gólfefni í vinnurými skuli vera þannig að það hæfi því starfi sem þar er unnið með tilliti til slits, burðarþols og hreinsunar. Í 5. mgr. 6. gr. sömu reglna segi m.a. að gera skuli ráðstafanir til að draga úr hálku gerist þess þörf. Þá segi  í 1. mgr. 39. gr. reglnanna að umferðarleiðir skuli vera útbúnar þannig að fótgangendur megi nota þær vandkvæðalast með fullu öryggi á þann hátt sem tilgangur þeirra segi til um þannig að starfsmönnum sem eru við vinnu í grennd við þær stafi ekki hætta af.

Stefnandi vísar til þess að öryggisreglur miði að því að fækka slysum á vinnustað og gera þann sem hefur fjárhagslega ábyrgð á vinnustað ábyrgan. Sá sem ber áhættu af atvinnurekstri og njóti ágóðans verði einnig að sæta ábyrgð sem felist í því að greiða bætur fyrir það tjón sem hljótist beinlínis af ótryggum vinnustað. Slíkt sé ekki hægt að leggja á almenna starfsmenn.

Stefnandi telur að vátryggingartaki hafi fullnægt framangreindum skyldum. Hálkan sem myndaðist á gólfinu hafi verið var slík að hálkuvarðir öryggisskór stefnanda hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir slysið. Ekki þurfi að fara mörgum orðum um hversu hættulegt geti verið að sópa ekki bráðnandi snjó af flísalögðu gólfi þar sem starfsmenn og viðskiptamenn ganga reglulega um. Gera verði þær kröfur til vinnuveitanda að tryggt sé að starfsumhverfi starfsmanna sé öruggt þannig að starfsmenn renni ekki til við vinnu sína. Því hafi ekki verið framfylgt af hálfu forsvarsmanna vátryggingartaka.

Stefndi hafi sjálfur, á fyrri stigum þessa máls, lagt áherslu á sópa beri bleytu og snjó í niðurföllin. Misræmi sé í málflutningi stefnda um þetta efni.

Stefnandi telur ekki óraunhæft að ætlast til þess af starfsmönnum að viðkomandi þrífi snjó og bleytu eftir hverja bifreið sem inn í lyftustæði þeirra kemur, þ.e. svæðið þar sem viðgerð og viðhaldsvinna fer fram. Stefndi bendir á að hver viðgerð taki frá þrjátíu mínútum upp í tvær og hálfa klukkustund. Hver starfsmaður sinni samkvæmt því sex til átta bifreiðum dag hvern, sem sé ekki óeðlileg krafa.

Með hliðsjón af framangreindu og þeirri staðreynd að brotið hafi verið gegn skráðum hátternisreglum sem á starfssviðinu gilda telur stefnandi að forsvarsmenn vátryggingartaka hafi sýnt af sér gáleysi. Á grundvelli þeirrar ólögfestu meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð telur stefnandi að um sé að ræða bótaskylda háttsemi og því eigi hann rétt á greiðslu úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka.

Stefnandi mótmælir því að hafa sýnt af sér gáleysi þegar slysið varð og því síður stórfellt gáleysi, sbr. 1. mr. 23. gr. a. skaðabótalaga. Stefnandi vísar til þess að í framlögðum sjúkraskrám sé greint frá því að stefnandi hafi verið ófær um að sitja og standa óstuddur strax eftir slysið. Hann hafi verið sóttur á vinnustað af unnustu sinni, en slysið ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins í samræmi við lög og reglur.

Stefnandi hafi ekki mætt til vinnu daginn eftir að slysið átti sér stað og slysdagur verið síðasti dagurinn sem stefnandi var fær um að sinna starfi sínu hjá vátryggingartaka.

Stefnandi skírskotar til þess að öfug sönnunarbyrði í þeim tilvikum sem slys eru ekki tilkynnt miði meðal annars að því að auka nákvæmni slysarannsókna með tilliti til sakar og auka varnaðaráhrif slíkra rannsókna. Eðlilegt sé að sá sem beri ábyrgð á tilkynningu hagnist ekki af því að slysavettvangur spillist þar sem slys er ekki tilkynnt í tíma, meðan unnt er að rannsaka slysavettvang og meta orsakir slyssins út frá honum. Bæru starfsmenn hallan af skorti á slíkri rannsókn gæti það leitt til þess að slys yrðu síður tilkynnt af vinnuveitendum í ljósi þess að það væri vinnuveitendum mögulega í óhag.

Stefnandi byggir á því að vinnuveitendum beri að fylgja ákvæðum 79. gr. laga 46/1980, sbr. 34. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Vinnuveitanda beri samkvæmt þessu að tilkynna vinnuslys til Vinnueftirlits ríkisins, án ástæðulausrar tafar, ef starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Hvergi í lögskýringargögnum sé að finna ummæli þess efnist að huglægt mat tilkynningarskyldra aðila skuli ráða för um hvort slys, sem uppfyllir skilyrði 1. mgr. 79. gr. vinnuverndarlaga, skuli vera tilkynnt eða ekki.

Það eitt að ágreiningur sé um tildrög og eðli slyssins sýni hversu mikilvægt það var að fá Vinnueftirlitið til að rannsaka það.

Þrátt fyrir þetta og niðurstöðu Úrskurðarnefndar vátryggingarmála í máli stefnanda nr. 18/2015, hafi stefndi hafnað því að stefnandi eigi rétt til greiðslu úr ábyrgðartryggingu vátryggingataka en hafi þó viðurkennt bótaskyldu úr slysatryggingu launþega.  Með vísan til alls framanskráðs telur stefnandi að taka beri kröfu hans til greina um greiðslu úr frjálsri ábyrgðartryggingu vátryggingataka hjá stefnda.

III.

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að ósannað sé að óhapp stefnanda sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi vátryggingartakans BL ehf. eða starfsmanna hans eins og stefnandi heldur fram.

Stefndi reisir varnir sínar í fyrsta lagi á því að vinnuaðstæður hjá vátryggingartakanum hafi verið forsvaranlegar og því hafnað að óhapp stefnanda sé afleiðing af óforsvaranlegum vinnuaðstæðum eða gáleysis starfsmanna eins og stefnandi heldur fram.

Í öðru lagi mótmælir stefndi því að meintur skortur á því að tilkynna um óhapp stefnanda til Vinnueftirlitsins skuli leiða til þess að stefndi skuli bera hallann af sönnunarskorti um atvik málsins og aðstæður á slysstað.

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang meintra einkenna sinna eða að orsakatengsl séu milli þeirra og umrædds óhapps.

Í fjórða lagi er á því byggt af hálfu stefnda að stefnandi skuli bera allt tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar ellegar óhappatilviljunar.

Stefndi mótmælir að stefnandi hafi sannað að tjón hans megi rekja til atvika sem vátryggingartakinn BL ehf. skuli bera skaðabótaábyrgð á að lögum og verði felld undir ábyrgðartryggingu hans hjá stefnda. Um slíka ábyrgð fari samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar ásamt reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefndi byggir á því að ósannað sé að óhapp stefnanda sé að rekja til atvika sem vátryggingartakinn eða starfsmenn hans beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Þannig telur stefndi ósannað að slys stefnanda verði rakið til vanrækslu á skyldum sem á vinnuveitanda hvílir samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum sem settar eru með stoð í þeim lögum.

IV.

Samkvæmt gögnum málsins mun stefnandi hafa lokið námi í bifvélavirkjun árið 1995. Hefur hann lengst af starfað við sitt fag, auk þess að sinna ýmiss konar þjónustu sem því tengist. Á starfsferli sínum hefur stefnandi sinnt almennum störfum á bifreiðaverkstæðum, annast verkstjórn og daglegan verkstæðisrekstur, annast sölu á bílavarahlutum o.fl. Í skýrslu stefnanda hér fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kom fram að hann hafi hafið störf hjá vátryggingartaka árið 2004 og starfað þar allt til ársins 2014. Greindi stefnandi frá því að hann hafi í upphafi starfað við varahlutasölu í verslun vátryggingartaka og farið þaðan í starf við verkstæðismóttöku. Í framhaldi af því varð hann verkstæðisformaður á atvinnubílaverkstæði vátryggingartaka og gegndi því starfi til ársins 2010 þegar hann varð verkstjóri á „Verkstæði 2“ hjá vátryggingartaka, en undir rekstri málsins hefur verið upplýst að það verkstæði er starfrækt í húsnæði vátryggingartaka við Sævarhöfða 2 í Reykjavík árið 2009. Þar var hann fram til ársins 2012 þegar hann tók við verkstjórn á „Verkstæði 1“ sem einnig er staðsett að Sævarhöfða 2. Því starfi gegndi hann þar til hann var færður yfir í verkstæðismóttöku í sama húsi 1. mars 2013.  

Í málinu er óumdeilt að bleyta hafi verið á verkstæðisgólfi vátryggingartaka 6. mars 2013 þegar atvik þau urðu sem mál þetta er sprottið af. Jafnframt er ágreiningslaust með aðilum að bleyta þessi hafi verið af völdum snjóa.

            Í skýrslu sinni hér fyrir dómi lýsti stefnandi því svo að starfsmenn í verkstæðismóttöku, þar sem hann starfaði á þeim tíma sem hér um ræðir, hafi daglega átt erindi inn á verkstæði til að athuga með framgang verkefna þar. Að sögn stefnda hafði hann orðið var við bleytu umræddan dag, eins og alltaf þegar snjóaði. Kvaðst hann hafa verið í hálkuvörðum skóm, sem hann átti sjálfur. Síðastgreint atriði fékk ekki stoð í framburði Bjarna Benediktssonar sem þá var framkvæmdastjóri þjónustusviðs vátryggingartaka og vitni varð að atvikum. Lýsti Bjarni aðdragandanum með þeim hætti að hann hefði ásamt stefnanda verið að ganga frá verkstæðiskompu í átt að móttökunni þegar stefnanda hefði skrikað fótur í bleytu á gólfinu. Aðspurður kvaðst Bjarni halda að stefnandi hefði verið í sandölum þegar þetta gerðist, en algengt hafi verið að starfsmenn í móttöku hafi verið í léttari fótabúnaði en starfsmenn á verkstæði.

Svo sem áður er fram komið hafði stefnandi á þessum tíma starfað um margra ára skeið á verkstæðum vátryggingartaka í húsinu nr. 2 við Sævarhöfða. Upplýst er raunar að atvik málsins urðu einungis fáum dögum eftir að stefnandi færðist úr starfi á verkstæði yfir í verkstæðismóttöku í þessu sama húsi. Verður samkvæmt því ekki annað lagt til grundvallar en að stefnandi hafi í ljósi menntunar sinnar og áralangrar starfsreynslu verið öllum hnútum og aðstæðum á vinnustað sínum kunnugur. Ganga verður út frá því að sú þekking stefnanda hafi náð yfir mögulegar slysahættur á verkstæðunum að Sævarhöfða 2. Í því samhengi má ganga út frá því að stefnandi hafi verið vel meðvitaður nauðsyn þess að gæta varúðar gagnvart hálkublettum sem daglega kunna að myndast þar þegar vatn eða olía berst inn á verkstæðisgólf. Með vísan til 3. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 má að áliti dómsins leggja til grundvallar að möguleg hálkumyndun af slíkum völdum teljist óhjákvæmilegur hluti þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Verður samkvæmt því fallist á það með stefnda að óraunhæfar kröfur verði ekki lagðar á vátryggingartaka hvað viðvíkur þrifum á verkstæðisgólfum, sérstaklega ekki við aðstæður á borð við þær sem stefnandi lýsti í skýrslu sinni hér fyrir dómi, þ.e. þegar snjór berst inn með bílum og töluvert álag ríkir sökum stöðugs straums bifreiða til athugunar og viðgerða.  

Undir rekstri málsins hefur allmikil áhersla verið á það lögð af hálfu stefnanda að vátryggingartaki hafi vanrækt tilkynningarskyldu, sbr. ákvæði 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Í ljósi þeirrar lýsingar sem stefnandi gaf sjálfur við aðalmeðferð málsins, þ.e. að hann hafi ekki fallið allur í gólfið heldur náð að bera höndina fyrir sig og sjálfur talið að hann væri tognaður og gæti „hrist þetta af sér“ þrátt fyrir verki, má fallast á það með stefnda að atvik hafi ekki þótt vera svo alvarleg í upphafi að tilefni væri til þess að vátryggingartaki tilkynnti um þau til Vinnueftirlitsins innan þeirra skömmu tímamarka sem tilgreind er í tilvísuðu lagaákvæði. Við mat á þessu atriði telur dómurinn að líta beri til þeirrar staðreyndar að stefnandi leitaði sjálfur ekki til læknis fyrr en fimm dögum eftir atvikið, nánar tiltekið 11. mars 2013, sbr. framlagt læknisvottorð Lárusar Ragnarssonar 11. desember 2014. Með framburði stefnanda sjálfs er upplýst að hann féll ekki allur í gólfið í umrætt sinn og bar sig ekki svo illa eftir á að það hefði átt að gefa vátryggingartaka tilefni til tilkynningarskyldu samkvæmt ákvæði 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Ber hér aftur að sama brunni sem fyrr, þ.e. að við túlkun laga og málsatvika verði óraunhæfar kröfur ekki gerðar til málsaðila út frá þeirri vitneskju sem fyrir lá á þeim tíma sem málsatvik urðu. Á þessum grunni og í ljósi þess sem upplýst þykir um nánari atvik, sbr. skýrslur stefnanda sjálfs og Bjarna Benedikssonar, fyrrverandi samstarfsmanns stefnanda hjá vátryggingartaka, hér fyrir dómi, þykir auk þess vandséð að rannsókn Vinnueftirlitsins hefði bætt nokkru við þær upplýsingar sem að öðru leyti eru tiltækar í máli þessu. Hefur dómurinn í því sambandi litið sérstaklega til þess að undir rekstri málsins hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að ætla að aðstæður á verkstæðinu hafi nokkuð breyst á þeirri viku sem leið frá því að stefnandi datt við vinnu sína og þar til tilkynnt var um atburðinn til Vinnueftirlitsins. Þá hefur ekkert verið lagt fram sem gefur tilefni til að álykta að nokkuð hafi verið athugavert við gólfefni á staðnum né að umferðarleiðir hafi aukið á hættu. Hefði þetta átt að geta talist orsakaþáttur hefði stefnandi þurft að renna stoðum undir það með einhverjum gögnum. Það hefur hann ekki gert. Með skírskotun til langrar og viðamikillar reynslu stefnanda af aðstæðum á bifreiðaverkstæðum, þar sem iðulega má vænta hálkubletta samkvæmt framanskráðu bar stefnanda að gæta ýtrustu varúðar við för um vinnusvæðið. Að teknu tilliti til framburðar stefnanda sjálfs og Bjarna Benediktssonar þykir ekki unnt að slá því föstu að stefnandi hafi gætt slíkrar varúðar. Að atvikum málsins heildstætt virtum verður ekki á það fallist með stefnanda að staðreynt sé nokkuð um ágalla eða vanbúnað á vinnuaðstæðum stefnanda hjá vátryggingartaka, sbr. ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Að öllu framanskráðu virtu verður ekki talið að fall stefnanda 6. mars 2013 hafi verði rakið til vanbúnaðar á verkstæðinu eða annarra atvika sem vátryggingartaki bar ábyrgð á. Að mati dómsins er engin ályktun nærtækari en sú að fallið verði rakið til óhappatilviljunar eða gáleysis stefnanda sjálfs. Samkvæmt þeirri niðurstöðu á stefnandi ekki rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu vátryggingartaka hjá stefnda vegna þeirra atvika sem hér um ræðir. Verður stefndi því sýknaður að kröfum stefnanda í máli þessu. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Kristjáns Guðmundssonar, í máli þessu.

            Málskostnaður fellur niður.

 

Arnar Þór Jónsson.