- Lykilorð:
- Jafnræðisregla
- Stjórnarskrá
- Alþjóðasamningar
- Ógilding stjórnarathafnar
DÓMUR
Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2018 í máli nr. E-2174/2017:
K
(Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður)
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
(Erla Svanhvít Árnadóttir lögmaður)
1.    
Mál þetta var höfðað 23. júní 2017 og dómtekið
18. apríl 2018. Ekki tókst að leggja dóm á málið innan lögbundins frests og var
málið endurflutt og dómtekið að nýju 29. júní síðastliðinn. Stefnandi er K.
Stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114 í Reykjavík. Dómari tók við
málinu 10. janúar 2018 en hafði ekki fram að því haft nein afskipti af rekstri
þess.
2.    
Dómkrafa stefnanda er tvíþætt; 1) Að synjun
stefnda 28. júní 2010 á umsókn hans um tekjutengdar greiðslur til foreldra á
vinnumarkaði verði ógilt. 2) Að synjun stefnda 7. mars 2011 á umsókn hans um
tekjutengdar greiðslur til foreldra á vinnumarkaði verði ógilt. Þá krefst
stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 2.488.935 krónur í málskostnað eins
og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum
stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu. Stefndi krafðist í öndverðu frávísunar
allra krafna stefnanda en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 9. mars 2018.
3.    
Í málinu er deilt um hvort stefnandi, sem faðir
alvarlega fatlaðs barns, eigi rétt á tekjutengdum greiðslum fyrir foreldra á
vinnumarkaði samkvæmt 8. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra
langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Þá er deilt um hvort það skilyrði
laganna að nefnt ákvæði eigi aðeins við um tilvik barna sem greinast með
alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun eftir 1. október 2007
standist að lögum. Stefndi hefur í tvígang synjað umsóknum stefnanda um slíkar
greiðslur á þeim grundvelli að fötlun sonar stefnanda var greind fyrir 1.
október 2007. Stefnandi skaut síðari ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar
fæðingar- og foreldraorlofsmála, sem staðfesti ákvörðun stefnda. Stefnandi
höfðaði dómsmál á árinu 2014 og krafðist tiltekinna greiðslna á grundvelli 8.
gr. laga nr. 22/2006. Fjárkröfur hans voru reistar á því að hann ætti samkvæmt
lögum rétt til tekjutengdra greiðslna úr hendi stefnda í fimm mánuði á árinu
2011. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 595/2015, uppkveðnum 2. júní 2016, var
máli stefnanda vísað frá héraðsdómi. Niðurstaðan var byggð á því að í 8. gr.
laga nr. 22/2006 væri ekki kveðið á um skýlausan rétt foreldris til
tekjutengdra greiðslna vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða alvarlegrar
fötlunar barns, heldur að foreldri gæti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt
rétt á slíkum greiðslum í allt að sex mánuði samkvæmt mati stefnda. Taldi
Hæstiréttur að með því að stefnandi hefði ekki í málinu gert kröfu um ógildingu
stjórnvaldsúrlausna stefnda og ekki nyti við í málinu neinna gagna um það
hvernig þessum matskenndu lagaákvæðum hefði verið beitt í framkvæmd brysti
dómstóla vald til þess að taka kröfur stefnanda til greina. Í máli því sem hér
er til úrlausnar kemur því deila þessi fyrir dóm öðru sinni og freistar
stefnandi þess nú að fá nefndar stjórnvaldsúrlausnir stefnda ógiltar.
4.    
Stefnandi byggir á því að hinar umdeildu
ákvarðanir stefnda brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár.
Þannig sé stefnanda mismunað á grundvelli greiningardags sonar hans. Með þessu
sé algjörlega litið fram hjá aðstæðum þeirra einstaklinga sem í hlut eiga eða
þörf þeirra fyrir umönnun. Stefnandi telur að af jafnræðisreglu stjórnarskrár
leiði að börn sem glíma við sambærilegan sjúkdóm eða fötlun á sama tíma eigi
rétt á að njóta sambærilegs stuðnings eða réttar til að fá notið umönnunar
foreldra eða forráðamanna. Tengsl þessarar umönnunarþarfar og þess hvenær
nákvæmlega sjúkdómur barns greindist séu að mati stefnanda ekki málefnalegur
grunnur til að skera úr um hverjir njóti réttar og hverjir ekki. Þá telur
stefnandi að ákvarðanir stefnda fari í bága við ákvæði 1. mgr. 76. gr.
stjórnarskrár um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til
aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og
sambærilegra atvika. Þá telur stefnandi að ákvarðanir stefnda fari alveg
sérstaklega í bága við ákvæði 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár þar sem kveðið er á
um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra
krefst. Með setningu laga nr. 22/2006 hafi löggjafinn viðurkennt að við þær
aðstæður að foreldrar þurfi að leggja niður störf til að annast um barn sitt þá
skuli framfærsla þeirra tryggð með tekjutengdum greiðslum til foreldrisins. Með
þessu hafi löggjafinn kveðið á um tryggingu verndar og umönnunar barna í
samræmi við það sem velferð þeirra krefst. Með því að miða rétt þennan við
greiningardag barns sé á hinn bóginn komið í veg fyrir að öll börn sem eins er
ástatt fyrir njóti þessarar verndar og þar með brotin jafnræðisregla. Stefnandi vísar til samnings
Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, alþjóðasamnings um efnahagsleg,
félagsleg og menningarleg réttindi og félagsmálasáttmála Evrópu til stuðnings
kröfum sínum. Stefnandi vísar til þess að hvað sem líði því hvort fjárkröfur
hans á hendur stefnda séu fyrndar eða ófyrndar hafi hann lögvarða hagsmuni af
úrlausn ógildingarkrafna sinna. Þannig geti réttur til greiðslna á grundvelli
8. gr. laga nr. 22/2006 vaknað hvenær sem er vegna sjúkdóms barns og því sé vel
hugsanlegt að slík atvik geti komið upp síðar vegna sonar stefnanda. Þá vísar
stefnandi til þess að tilgangur og réttaráhrif kröfugerðar hans séu skýr og
valdi stefnda engum vandkvæðum við að taka til varna í máli þessu. Þá skeri
dómur um fyrri kröfu hans að fullu úr málinu efnislega og því hafi enga þýðingu
að vísa frá síðari kröfunni.
- Stefndi vísar til þess að ákvarðanir hans séu í
     fullu samræmi við 20. gr. laga nr. 158/2007 um breytingu á lögum nr.
     22/2006. Ákvæði breytingarlaganna sé afdráttarlaust um að byggja beri
     aðgreiningu þeirra sem réttar njóta samkvæmt ákvæðinu og hinna sem ekki
     njóta réttarins á því hvort sjúkdómur eða fötlun barna þeirra hefur
     greinst fyrir eða eftir 1. október 2007. Stefndi telur sér óheimilt að
     veita undanþágu frá þessu. Með því að mat stefnda á greiðslum til
     stefnanda sé fyllilega lögmætt séu ekki forsendur fyrir því að dómstóll
     endurskoði þetta mat stefnanda. Þá byggir stefndi á því að með því að
     samþykkja umsókn stefnanda um grunngreiðslur samkvæmt 19. gr. laga nr.
     22/2006 hafi stefndi tryggt rétt stefnanda nægjanlega samkvæmt 65. gr. og
     75. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi hafnar því að ákvarðanir hans
     hafi verið andstæðar 65. gr. stjórnarskrárinnar eða ákvæðum barnasáttmála
     Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar sé fyllilega
     heimilt að mismuna fólki að því gættu að slík mismunun sé byggð á lögmætum
     og málefnalegum sjónarmiðum. Í því sambandi verði að ætla löggjafanum
     svigrúm til að takmarka réttindi án þess að farið sé gegn stjórnarskrárvörðum
     rétti einstaklinga. Þannig sé nauðsynlegt þegar félagsleg réttindi eru
     lögleidd að afmarka við tiltekið tímamark hvenær reglur um slík réttindi
     taki gildi. Greiningartími hljóti að teljast málefnalegur grundvöllur til
     að miða við í þeim efnum. Slíkt viðmið sé almennt og gildi óháð aldri
     barns, kynferði, ríkisborgararétti eða þjóðernisuppruna. Ákvæðið brjóti
     því ekki í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þá ítrekar stefndi kröfu sína um frávísun
     málsins. Tilgangur stefnanda með ógildingarkröfum sínum hljóti að vera að
     geta síðar haft uppi fjárkröfur á hendur stefnda. Þær fjárkröfur telji
     stefndi fyrndar. Því hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn
     ógildingarkrafna sinna. Um þetta vísi stefndi til nýlegs fordæmis
     Hæstaréttar sem hann telji að eigi að leggja til grundvallar í þessu máli,
     sem er dómurinn frá 8. mars 2018 í málinu nr. 145/2017. Hins vegar bendir
     stefndi á að seinni stjórnvaldsúrlausn stefnda hafi verið staðfest af
     úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála en stefnandi hafi ekki
     krafist ógildingar þess úrskurðar. Telur stefndi því að þó kröfur
     stefnanda myndu ná fram að ganga myndi úrskurður úrskurðarnefndar
     fæðingar- og foreldraorlofsmála standa óhaggaður. Einnig með vísan til
     þessa telur stefndi að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn
     ógildingarkrafna sinna.
Niðurstaða
- Greiðslukerfi laga nr. 22/2006, eins og því var
     breytt með lögum nr. 158/2007, ákveður að kerfi greiðslna til foreldra
     langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skiptist í tvennt. Annars vegar
     eru grunngreiðslur til foreldris sem getur hvorki sinnt störfum utan
     heimilis né námi vegna þess að barn þess þarfnast verulegrar umönnunar
     vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar. Skilyrði þess að
     foreldri njóti réttar samkvæmt þessu eru nánar afmörkuð í lögunum og að
     nokkru háð mati stefnda. Hins vegar eru tekjutengdar greiðslur sem
     foreldri sem leggur niður launað starf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp
     koma þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða
     alvarlega fötlun getur átt rétt á í allt að þrjá mánuði. Aftur eru
     skilyrði þess að foreldri njóti réttarins nánar afmörkuð í lögunum og
     einnig er réttur til tekjutengdra greiðslna að nokkru háður mati stefnda.
     Umfang greiðslna er mjög ólíkt. Synjun stefnda 28. júní 2010 á umsókn
     stefnanda um tekjutengdar greiðslur til foreldra á vinnumarkaði, sem og
     synjun stefnda 7. mars 2011 á sams konar umsókn stefnanda eru einvörðungu
     á því byggðar að fötlun sonar stefnanda var greind fyrir 1. október 2007.
- Við gæslu hagsmuna ríkisvaldsins eða einstakra
     þátta þess í skiptum við almenna borgara getur það ekki verið hlutverk
     stjórnvalda að leita allra leiða eða beita öllum brögðum til að fá sýknu
     fyrir hið opinbera eða til að fá málum vísað frá dómi. Þeim sem falið er
     að koma fram fyrir hönd ríkisvaldsins í dómsmáli er ekki tækt að verjast
     með öllum sömu ráðum og einkaaðilum. Þeim sem fara með opinbert vald eða
     sem falið er að gæta hagsmuna hins opinbera er trúað fyrir hlutverki sem
     þeir verða að sinna í almannaþágu og af virðingu fyrir skyldu sinni til að
     stuðla að réttmætri niðurstöðu. Þar getur tilgangurinn ekki helgað
     meðalið. Sonur stefnanda er enn á barnsaldri. Augljóst er, sérstaklega með
     tilliti til sjúkdóms hans og fötlunar, að þau atvik gætu enn orðið í lífi
     hans sem myndu kalla á að foreldrar hans þyrftu að leggja niður störf til
     að annast hann. Hagsmunir stefnanda af því að fá úrlausn um það hvort hann
     geti notið slíks réttar eða hvort gildissviðsákvæði hinnar umþrættu
     lagagreinar útiloki hann frá slíkum rétti eru því brýnir og augljósir og
     atvikum á annan veg háttað en til dæmis í dómi Hæstaréttar frá 8. mars
     2018 í málinu nr. 145/2017. Varðar þá öngvu hvort fjárkröfur þær sem
     stefnandi taldi sig eiga á hendur stefnda vegna hinna umþrættu ákvarðana
     stefnda frá 28. júní 2010 og 7. mars 2011 eru fyrndar eða ekki.
- Sá réttur sem í máli þessu er deilt um hvort
     stefnandi skuli njóta er í raun réttur barns til umönnunar sem því er
     nauðsynleg til að tryggja velferð þess. Þörf barns fyrir slíka umönnun er
     háð ástandi þess en alls ótengd því hvenær sjúkdómur þess eða fötlun er
     greind eða læknisfræðilega staðfest. Samkvæmt 3. mgr. 76. gr.
     stjórnarskrár, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, skal börnum
     tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í
     athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 97/1995, var tekið fram að
     gengið væri út frá því að nánari reglur um félagslega aðstoð samkvæmt 76.
     gr. yrðu settar með lögum. Með ákvæðinu væri ákveðið að til þyrftu að vera
     reglur sem tryggðu þessa aðstoð. Var sérstaklega í því sambandi vísað til
     12. og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu, sem fullgiltur var af Íslands
     hálfu 1976, og 11. og 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og
     menningarleg réttindi, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 1979. Þá verður
     nú að telja að við túlkun 76. gr. stjórnarskrár verði einnig að líta til
     samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem fullgiltur var árið
     1992 og fengið lagagildi með lögunum nr. 19/2013. Það er viðurkennd regla
     að norrænum rétti að skýra skuli lög til samræmis við alþjóðasamninga sem
     ríki hefur staðfest eftir því sem kostur er. Samkvæmt þessu hefur 76. gr.
     stjórnarskrárinnar verið skýrð þannig að skylt sé að tryggja að lögum rétt
     sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu
     eftir fyrirfram gefnu skipulagi, sem ákveðið sé á málefnalegan hátt.
     Samkvæmt þessu verður einnig með lögum að tryggja börnum þá vernd og
     umönnun sem velferð þeirra krefst. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar
     hefur almenni löggjafinn vald um það hvernig þessu skipulagi skuli háttað.
     Skipulag, sem löggjafinn ákveður, verður þó að fullnægja þeim
     lágmarksréttindum sem felast í ákvæðum 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þá
     verður það að uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver
     einstaklingur njóti samkvæmt því jafnréttis á við aðra sem réttar njóta,
     svo og almennra mannréttinda, samanber til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá
     19. desember 2000 í málinu nr. 125/2000. Ljóst er af íslenskri
     dómaframkvæmd að það er á valdi almenna löggjafans að ákveða þau mörk sem
     félagsleg réttindi samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar miðast við, svo
     fremi sem þau uppfylla önnur ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þau verða
     skýrð með hliðsjón af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem íslenska
     ríkið hefur undirgengist. Þannig getur löggjafinn takmarkað gildissvið
     slíkra réttinda, til dæmis með tilliti til fjárhagslegra hagsmuna
     ríkisins, eða það svigrúm sem talið er vera fyrir hendi til að verja fé
     til slíkra þarfa. Þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans til mats á því
     hvernig þessi lágmarksréttindi skuli ákvörðuð geta dómstólar ekki vikið
     sér undan því að taka afstöðu til þess hvort það mat samrýmist
     grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Eins og atvikum er háttað hér verður
     ekki fallist á að það standist málefnalega skoðun að gera greinarmun á rétti
     til félagslegrar aðstoðar til fjölskyldna barna sem eru fötluð eða
     alvarlega veik eftir því hvenær fötlun þeirra eða sjúkdómur er greindur.
     Með því að stefndi hefur byggt synjun sína á umsóknum stefnanda á þessu
     einu verður fallist á það með stefnanda að ógilda beri ákvarðanir stefnda.
     Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda
     greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar,
     Júlíar Óskar Antonsdóttur, sem telst hæfilega ákveðin 1.800.000 krónur. Ástráður
     Haraldsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Synjun stefnda 28. júní 2010 á umsókn stefnanda um
tekjutengdar greiðslur til foreldra á vinnumarkaði er ógild. Synjun stefnda 7.
mars 2011 á umsókn stefnanda um tekjutengdar greiðslur til foreldra á
vinnumarkaði er ógild. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður
stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns
stefnanda, Júlíar Óskar Antonsdóttur, 1.800.000 krónur.
Ástráður Haraldsson