• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2019 í máli nr. S-693/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)

gegn

Artur Pawel Wisocki og

(Ómar Örn Bjarnþórsson lögmaður)

Dawid Kornacki

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem dómtekið var 28. janúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 16. nóvember síðastliðinn, á hendur Artur Pawel Wisocki, fæðingardagur 14. desember 1989, pólskum ríkisborgara, [...], og Dawid Kornacki, kennitala 000000-0000, [...],[...],fyrir líkamsárásir á og framan við skemmtistaðinn Shooters að Austurstræti 12a í Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 26. ágúst 2018 sem hér greinir:

 

1.        Á hendur ákærðu báðum fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í félagi við tvo óþekkta karlmenn, veist með ofbeldi að A, kennitala 000000-0000, og veitt honum ítrekuð hnefahögg í andlit, höfuð og líkama, sparkað ítrekað í líkama hans, og ákærði Artur veitt honum þrjú hnéspörk í andlit, auk þess sem þeir héldu A og toguðu í hann þannig að hann komst ekki undan, allt með þeim afleiðingum að A hlaut mar yfir kinnbeini vinstra megin.

 

2.        Á hendur ákærða Artur fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa veist með ofbeldi að B, kennitala 000000-0000, og veitt honum hnefahögg í andlit, elt hann er hann reyndi að komast undan og hrint honum þannig að B féll fram fyrir sig, niður tvö þrep, höfuð hans skall á hurð og hann féll á magann á gólfið, og með því að hafa, þar sem B lá, veitt honum nokkur hnefahögg og spörk í andlit hans og höfuð, allt með þeim afleiðingum að B hlaut bólgu og mar á hægri augabrún, skrámu á hvirfli, margþætt brot í fimmta hálshryggjarlið, mænuáverka og meðfylgjandi lömun fyrir neðan háls.

 

       Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

       Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu A, kennitala 000000-0000, er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða honum miskabætur in solidum að fjárhæð kr. 2.500.000, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2018 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr., frá 15. desember 2018 til greiðsludags.“ Réttargæslumaður brotaþola krefst þóknunar.

 

Af hálfu B, kennitala 000000-0000, er þess krafist að ákærði Artur verði dæmdur til að greiða honum 10.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2018 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst brotaþoli þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda ákærða vegna líkamstjóns sem brotaþoli varð fyrir 26. ágúst 2018, sbr. 1. gr. laga nr. 50/1993. Þá krefst réttargæslumaður brotaþola þóknunar.

      

       Við þingfestingu játaði ákærði Artur Pawel sök í 1. ákærulið en neitaði sök í 2. ákærulið, nema hvað hann játaði að hafa slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið eins og greinir í annarri línu 2. ákæruliðar. Ákærði Dawid játaði að hafa sparkað í brotaþola en neitaði sök að öðru leyti. Ákærðu samþykktu bótaskyldu vegna 1. ákæruliðar en mótmæltu bótakröfunni sem of hárri. Ákærði Artur Pawel hafnaði bótakröfu í 2. ákærulið að svo stöddu. Í greinargerð sinni krefst hann þess aðallega að kröfunni verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.

       Loks krefjast ákærðu þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

       Málavextir eru þeir að brotaþolar voru að störfum sem dyraverðir á nefndum skemmtistað á þeim tíma sem í ákæru greinir. Fyrr um kvöldið munu ákærðu hafa komið á skemmtistaðinn ásamt fleiri mönnum og lent í útistöðum við dyraverði. Þeim var vísað út af staðnum í framhaldinu. Þeir fóru á brott en síðar komu ákærðu aftur ásamt þriðja manni og tveim öðrum. Í þetta skipti urðu átök milli ákærðu og brotaþola og eru þau ákæruefni málsins.

       Ákærði Artur bar við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði verið á skemmtistaðnum ásamt meðákærða og fleiri félögum sínum. Þeir hefðu orðið ósáttir við dyravörð og verið vísað út af staðnum. Þeir hefðu farið á annan stað og hitt þar samlanda sína. Þeir hefðu svo farið aftur á fyrri staðinn og þar kvaðst ákærði hafa slegist við dyraverði en gat ekki gert frekari grein fyrir því og bar við minnisleysi. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 26. ágúst og hefur setið í því síðan. Ákærði gaf síðar ítarlegri skýrslur hjá lögreglu sem ekki er ástæða til að rekja en í næsta kafla verður framburður hans fyrir dómi rakinn.

       Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu kvað ákærði Dawid sig, meðákærða og tvo félaga þeirra hafa verið á nefndum skemmtistað. Hann kvað sér hafa mislíkað framkoma dyravarðar við einn af gestum staðarins og farið að skipta sér af því. Í framhaldinu hefði honum og félögum hans verið vísað út. Þeir hafi þá farið á annan skemmtistað en komið aftur og þá hefðu brotist út slagsmál við dyraverðina. Ákærði viðurkenndi að hafa í slagsmálunum dregið dyravörð niður tröppur og þar sparkað í hann tvö til þrjú spörk. Hann kvaðst ekki muna hvar spörkin lentu en hann hefði þó ekki sparkað í höfuð dyravarðarins, enda hefði hann verið standandi. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald 27. ágúst og sat í því til 5. september. Ákærði gaf síðar ítarlegri skýrslur hjá lögreglu sem ekki er ástæða til að rekja en í næsta kafla verður framburður hans fyrir dómi rakinn.

       Brotaþolinn A fór á slysadeild og skýrði frá því að menn hefðu ráðist á hann og annan dyravörð. Brotaþoli kvað mennina hafa kýlt sig ofan á höfuðið. Hann hefði borið fyrir sig hendurnar og þannig dregið úr krafti högganna. Í vottorði er haft eftir honum að hann hafi ekki vankast og muni vel alla atburði. Þá kvartaði hann ekki um annað en eymsli í andliti vinstra megin. Læknir greindi meiðsli hans sem mar yfir kinnbeini vinstra megin undir auga. „Áverkar ekki alvarlegir og dæmast sem mar í andliti án brota“, eins og segir í vottorðinu.

       Í vottorði læknis á slysadeild varðandi brotaþolann B segir að hann hafi kvartað yfir verk í hálsi og sagst hvorki geta hreyft hendur né fætur. Síðan segir: „Við skoðun á bráðamóttöku var sjúklingur skýr og áttaður en meðtekinn af verk. Á höfði mátti sjá bólgu og mar á hægri augabrún og skrámu á hvirfli. Við skoðun á hálsi var sjúklingur með eymsli aftan á hálshrygg. Við taugaskoðun var sjúklingur skýr en hreyfði ekki útlimi. Svaraði hann engu sársaukaáreiti í útlimum og ekki var að finna neina vöðvaspennu í útlimum. Virtist sjúklingur ekki hafa skyn neðan við bringu en hafði eitthvað skyn í hæð við viðbein. Að öðru leyti var líkamsskoðun á bráðamóttöku án athugasemda.“ Tölvusneiðmyndir sýndu „margþætt brot í fimmta hálshryggjarlið með hálfrar beinbreiddar tilfærslu baklægt á liðbol miðað við sjötta lið og skagaði þannig inn í mænugang.“

       Ekki eru önnur læknisvottorð meðal gagna málsins en við aðalmeðferð gáfu tveir sérfræðilæknar skýrslur um ástand og batahorfur brotaþolans B og verða þær reifaðar í næsta kafla.

 

III

       Ákærði Artur bar við aðalmeðferð að nefnda nótt hefði hann komið á skemmtistaðinn með félögum sínum, meðákærða og fleirum sem hann nafngreindi. Einnig hefðu þar verið menn sem hann þekkti ekki. Þeim hefði ekki fundist vel tekið á móti þeim og dyraverðir verið þeim andsnúnir. Skömmu eftir að þeir komu á staðinn hefðu dyraverðir vísað einum gesti út og gert það allharkalega. Ákærði kvað þá hafa komist að því að þetta var landi þeirra og hefði það komið þeim í uppnám. Einn dyravörður tók upp kylfu og bankaði henni í hurðarkarm. Þá hefði það bæst við að bjór var stolið frá þeim félögum. Nú kom til orðaskipta við dyraverði og í  framhaldinu hefði ákærða og félögum hans verið vísað út af staðnum. Þeir hefðu þá farið á annan stað og fengið sér bjór. Þar kvaðst ákærði hafa hitt aðra menn sem hann hefði ekki þekkt. Það hefði svo orðið úr að þeir fóru allir á fyrri staðinn. Þar hefði komið til ryskinga og slagsmála en ekki kvaðst ákærði geta skýrt af hverju það varð.

       Ákærði kvað sig og félaga sína hafa verið óánægða með það sem gerðist á skemmtistaðnum en þegar þeir fóru þangað aftur hefði ekki verið ætlunin að gera eitthvað í líkingu við það sem gerðist og er ákæruefni málsins. Hann hefði farið aftur á staðinn ásamt meðákærða og félögum sínum. Þar hefðu þeir hitt dyraverðina fyrir utan og þar hefði komið til ryskinga milli þeirra og dyravarðanna. Einn dyravarðanna hefði hlaupið í burtu og kvaðst ákærði hafa farið á eftir honum. Hann kvað þá báða hafa dottið og meitt sig eins og hann orðaði það. Þá kvaðst hann hafa brotið rúðu með handleggnum. Þegar ákærði hafði staðið upp kvaðst hann hafa séð að slagsmálin fyrir utan voru enn í gangi og farið þangað. Þar kvaðst hann hafa slegið hinn dyravörðinn nokkur högg. Síðan hefðu ákærði og félagar hans farið á brott.

       Ákærði var spurður nánar um átökin og kvað hann meðákærða hafa komið fyrst að skemmtistaðnum en hann sjálfur hefði ráðist fyrst á brotaþolann B og barið hann. Brotaþoli hefði hlaupið inn á skemmtistaðinn og kvaðst ákærði hafa elt hann. Ákærði gat ekki skýrt af hverju hann hefði elt brotaþola en tók fram að ætlun hans hefði ekki verið að skaða hann. Það hafi verið eins og brotaþoli ætlaði inn á baðherbergi en hann hefði ekki náð því vegna þess að hann datt og kvaðst ákærði hafa fallið á hann. Ákærði kvaðst hafa brotið rúðu og var þá brotaþoli fallinn og hefði hann þá fallið líka og lent vinstra megin við brotaþola. Ákærði kvaðst hafa staðið upp og farið. Nánar kvaðst ákærði ekki geta lýst þessu enda hefði þetta gerst á einni sekúndu, eins og hann orðaði það. Ákærði kvaðst ekki hafa náð brotaþola þegar hann elti hann, þeir hefðu báðir dottið allt í einu. Ákærði kvaðst ekki hafa hrint brotaþolanum og ekki veist að honum á annan hátt þarna. Hann kvaðst ekki geta lýst þessu betur, þeir hefðu báðir dottið. Þá bar ákærði að þarna hefði verið mjög dimmt og hann verið ölvaður. Þá ítrekaði hann að allt hefði gerst mjög hratt. Þegar hann hefði séð að brotaþoli var ekki lengur hættulegur, eins og hann orðaði það, hefði hann staðið upp og farið. Ákærði kvað brotaþola ekki hafa staðið upp. Hann hefði reynt að segja eitthvað en hann vissi ekki hvað það var. Ákærði kvaðst nú hafa farið út og lamið brotaþolann A nokkrum sinnum og taldi sig einnig hafa reynt að sparka í hann. Síðan hefðu þeir ákærðu og félagar þeirra farið.

       Við aðalmeðferðina var sýnd upptaka úr öryggismyndavélum sem sýnir bæði það sem gerðist fyrir utan skemmtistaðinn og eins inni á honum. Ákærði þekkti sig á myndbandinu. Hann kvað myndbandið sýna að hann hefði reynt að hægja á sér til að falla ekki á brotaþola. Ákærði kvaðst hafa skoðað myndbandið vel og kvað það sýna að hann hefði frekar reynt að grípa í brotaþola en að hrinda honum.

       Ákærði Dawid bar á sama hátt og meðákærði um komu þeirra og félaga á skemmtistaðinn, brottför þeirra þaðan og för þeirra á annan skemmtistað. Þaðan hefðu þeir farið aftur á fyrri staðinn, en ekki kvað hann það hafa verið fyrir fram ákveðið heldur hefðu þeir gengið fram hjá og viljað kanna hvort þeir mættu fara aftur inn á staðinn. Þeir hefðu viljað fara inn en dyravörður hefði reynt að stöðva för þeirra. Þá hefði komið til átaka milli þeirra og dyravarðar, eins og sést á myndbandi úr öryggismyndavél sem ákærði vísaði til. Ákærði kvaðst hafa þrifið í úlpu dyravarðar og dregið hann út af skemmtistaðnum. Einnig kvaðst hann hafa slegið hann þrisvar til fjórum sinnum í fótleggi og bak. Þarna fyrir utan staðinn voru, auk ákærðu, einn nafngreindur kunningi og tveir aðrir sem hann kvaðst ekki vita hverjir eru. Ákærði neitaði að ákærðu og félagar þeirra hefðu farið á skemmtistaðinn til að ráðast á dyraverðina. Ákærði taldi sig, nánar spurður, hafa sparkað í læri brotaþolans A, sparkað með hné í rifbein hans og greitt honum högg með hendi. Hann neitaði að hafa slegið brotaþola í höfuð eða andlit. Ákærði kvaðst ekki geta borið um það sem gerðist inni á staðnum. Meðákærði hefði farið inn og komið út aftur eftir hálfa sekúndu, eins og hann orðaði það.

       Brotaþolinn B bar að hafa verið við vinnu sína á skemmtistaðnum ásamt brotaþolanum A. Nokkrir strákar hefðu komið inn og verið að drekka áfengi. Einn af strákunum hefði viljað fara út með bjór en honum hefði verið bannað það. Þá hefði hann farið að æsa sig og eins hefðu fleiri bæst í hópinn. Þeim hefði svo verið vísað út með aðstoð dyravarða af næstu skemmtistöðum. Þegar strákarnir voru að fara út hefði einn þeirra sagt við sig „bíddu bara þú verður laminn“. Strákarnir hefðu nú farið og skömmu síðar kvaðst brotaþoli hafa brugðið sér frá. Þegar hann kom aftur hefðu sex menn verið komnir að skemmtistaðnum. Þeir hefðu verið mjög æstir og ráðist á dyraverðina. Þeir hefðu kýlt brotaþolann A í anddyrinu og dregið hann niður tröppurnar. Þá kvað brotaþoli ákærða Artur hafa komið og kýlt sig og sparkað í sig. Brotaþoli kvaðst þá hafa hlaupið í átt að bakdyrunum til að komast til að sækja hjálp á öðrum skemmtistöðum. Ákærði hefði þá sparkað í sig aftanverðan þungu sparki og eins ýtt sér. Þegar það gerðist kvaðst brotaþoli hafa verið á palli fyrir ofan tröppur sem liggja að bakdyrunum. Brotaþoli kvaðst hafa lent í glugga og brotið hann og loks dottið í gólfið. Þá hefði ákærði kýlt sig og kýlt og kýlt eins og brotaþoli orðaði það. Brotaþoli kvaðst hafa lent á maganum og hefði ákærði hoppað á sér. Eftir þetta kvaðst brotaþoli ekki hafa fundið fyrir neinu. Hann kvaðst hafa legið þannig að fæturnir hefðu snúið upp í tröppurnar en höfuð í áttina að hurðinni. Þá kvaðst brotaþoli hafa allur verið blóðugur. Ákærði hefði farið og skilið sig eftir. 

       Brotaþolinn A bar að hafa verið við vinnu sína sem dyravörður á nefndum stað og á nefndum tíma. Hann kvað fimm eða sex menn hafa komið á staðinn. Einn af þeim hefði reynt að fara út með bjór í glerglasi. Dyraverðir hefðu bannað það og þá hefði einn af nefndum mönnum ýtt við brotaþolanum B. Í framhaldinu hefðu komið dyraverðir af nálægum stöðum og hefði mönnunum verið vísað út. Þeir hefðu farið en verið reiðir og hótað að þeir myndu koma aftur. Um hálftíma síðar hafi svo komið fimm eða sex menn og kvaðst brotaþoli þá hafa kallað á hinn brotaþolann en hann hafði brugðið sér frá. Brotaþoli kvað mennina hafa ráðist á sig en hinn brotaþolinn hefði hlaupið inn til að sækja aðstoð. Maður hefði hlaupið á eftir brotaþolanum inn á staðinn en komið svo út og ráðist á sig og lamið sig í hnakkann. Þá hefði brotaþoli verið umkringdur fjórum mönnum sem allir voru að berja hann. Brotaþoli kvaðst hafa þjáðst af svefnleysi vegna árásarinnar og eins hefði hann misst vinnuna í kjölfar hennar. Hann kvaðst hafa verið með verki í marga mánuði vegna afleiðingar árásinnar, bæði höfuðverk og verk vinstra megin í andliti.

       Nánar spurður um árásina kvaðst hann hafa fengið högg í höfuð, andlit og líkama. Hann kvaðst hafa reynt að verjast og borið fyrir sig hendurnar. Þá kvaðst hann hafa reynt að komast á brott til að sækja aðstoð. Hann kvað árásarmennina hafa farið og þá hefði hann farið inn til að huga að brotaþolanum B. Brotaþoli taldi sig muna að höfuð brotaþolans B hefði snúið að hurð og fætur í átt að barnum á skemmtistaðnum. Hann hefði legið í tröppum sem eru þarna niður að bakdyrum. Brotaþolinn B hefði ekki getað sagt margt en beðið um hjálp þar sem hann væri að deyja. Hann hefði ekki getað sagt hvað hefði gerst.

       Barþjónn á skemmtistaðnum kvað nokkra menn hafa komið á staðinn. Þá hefði það gerst að drukkinn maður vildi fara út með bjór í glerglasi. Dyravörður bannaði honum það og benti honum á að fá sér plastglas. Maðurinn var ekki ánægður með þetta og fór að ýta í dyravörðinn. Framangreindir menn fóru að skipta sér af þessu og eftir slagsmál hefðu dyraverðirnir sótt aðstoð. Mennirnir hefðu þá farið en komið svo aftur og reynt að komast inn. Þá kvaðst hann hafa séð brotaþolann B hlaupa í gegnum staðinn og mann á eftir honum. Þá hefði brotnað gler. Hann kvaðst hafa heyrt það en ekki séð. Hann kvaðst hafa komið að brotaþolanum þar sem hann hefði legið á bakinu og sagst ekki hafa tilfinningu í líkamanum. Þá hefði einnig verið þar kona er sagðist vera hjúkrunarfræðingur. Barþjónninn kvaðst hafa séð menn ráðast á brotaþolann A og berja hann.

       Dyravörður á öðrum skemmtistað bar að hann og fleiri dyraverðir hefðu verið beðnir um aðstoð við að koma mönnum út af skemmtistaðnum, sem um getur  í ákæru. Mennirnir hafi farið eftir smástund. Seinna kvaðst hann hafa verið staddur í verslun í nágrenninu og þá séð menn koma og ráðast að dyravörðum á skemmtistaðnum. Hann kvaðst hafa sótt hjálp og svo farið að skemmtistaðnum. Þá hafi dyravörður verið þar fyrir utan og hafi margir menn verið að ráðast á hann. Þegar mennirnir sáu að dyravörðunum hafði borist aðstoð hurfu þeir á braut. Dyravörðurinn kvaðst hafa farið inn á skemmtistaðinn eftir að átökunum lauk fyrir utan. Þar hefði hinn dyravörðurinn verið við tröppurnar að bakdyrum skemmtistaðarins. Dyravörðurinn hefði legið á maganum með fæturna upp í tröppunum. Rúða í hurðinni hafi verið brotin. Dyravörðurinn hafi beðið um að fæturnir á honum yrðu færðir til og beðið um það aftur eftir að það hafði verið gert. Þá hefði runnið upp fyrir viðstöddum að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Greinilegt hefði verið að dyravörðurinn var mjög þjáður en hann hefði ekkert tjáð sig um hvað hafði gerst. Síðan var hringt á lögreglu og sjúkrabíl.

       Dyravörður á enn öðrum skemmtistað bar að mönnum hefði verið vísað út af skemmtistaðnum, sem í ákæru getur. Þeir hefðu svo komið aftur ásamt fleiri mönnum og reynt að komast inn. Dyraverðirnir hefðu reynt að hindra það en mönnunum hefði tekist að komast inn. Þeim hefði verið komið út en þá hefðu þeir rifið einn dyravörðinn með sér niður á götu og byrjað að lemja hann og sparka í hann. Högg og spörk hefðu lent alls staðar í líkama dyravarðarins. Dyravörðurinn kvaðst hafa séð þetta frá vinnustað sínum. Þá kvaðst hann hafa komið að og reynt að aðstoða starfsbróður sinn.

       Dyravörður á þriðja skemmtistaðnum kvað brotaþolann B hafa beðið sig að koma og aðstoða vegna vandræða. Hann kvaðst hafa farið að staðnum og séð fimm til sjö útlendinga vera að hlaupa í burtu. Þá kvaðst hann hafa lagt saman tvo og tvo og hraðað sér á vettvang. Hann kvaðst hafa farið inn á skemmtistaðinn og fundið brotaþolann B liggja þar innst inni á gólfinu. Hann hefði talað skringilega og ekki getað hreyft sig. Dyravörðurinn kvaðst hafa farið út og á sinn vinnustað. Þá hefðu sjúkraflutningamenn verið komnir til brotaþola. Hann kvað brotaþola ekki hafa tjáð sig um það sem hafði gerst. Brotaþoli hefði legið á hægri hlið með bakið að hurðinni og hendurnar teygðar út. Fæturnir hefðu vísað til hægri þegar horft er á bakdyrnar. Dyravörðinn minnti að brotaþoli hefði verið marinn við vinstra auga.

       Kunningi ákærðu, sem var með þeim í umrætt sinn, bar á sama hátt og ákærðu um að þeir hefðu farið aftur á skemmtistaðinn, sem í ákæru getur. Þar hefði komið til slagsmála en ekki gat hann lýst þeim nánar. Hann kvaðst þó hafa það eftir ákærða Artur að hann hefði hlaupið á eftir dyraverði sem hefði dottið. Annar kunningi ákærðu, sem kom fyrir dóm, kvaðst ekki hafa farið aftur á staðinn.

       Sjúkraflutningamaður, sem kom á vettvang, bar að hann hefði komið að brotaþolanum B þar sem hann hefði legið við bakdyr. Hann hefði legið á bakinu og höfuðið hefði snúið til vinstri og fætur til hægri þegar horft er á bakdyrnar. Brotaþoli hefði verið með glóðarauga hægra megin. Sjúkraflutningamaðurinn spurði hvað hefði gerst og brotaþoli hefði sagt að ráðist hefði verið á hann og honum væri illt í hægri hendi og mögulega handleggsbrotinn. Brotaþoli bað um að vera reistur við en þegar það var reynt hefði honum fundist það vont og þá hefði verið hætt við það. Eftir nánari athugun hefði brotaþoli verið færður yfir á skröpur og síðan fluttur á slysadeild.

       Annar sjúkraflutningamaður bar að hafa komið á vettvang á eftir framangreindum sjúkraflutningamanni. Þá hefði brotaþoli legið við bakdyrnar. Hann hefði verið með fulla meðvitund en hreyfingarlaus. Hann hefði ekki getað hreyft útlimi og ekki sýnt viðbrögð við áreiti. Sjúkraflutningamaðurinn kvaðst ekki minnast þess að brotaþoli hefði sagt hvað hefði gerst. Hann lýsti legu brotaþola á sama hátt og fyrri sjúkraflutningamaður. Þá kvað hann brotaþola hafa verið með kúlu hægra megin á enni en hann mundi ekki eftir blóði á honum.  

       Lögreglumaður, sem ritaði frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Þegar hann kom á staðinn hefði brotaþolinn B legið við bakdyr skemmtistaðarins. Hann hefði kveinkað sér og sagst ekki geta hreyft sig. Gestir á staðnum báru að þeir hefðu ekki séð atburðinn, enda hefði allt gerst svo hratt. Gestirnir sögðust hafa heyrt læti og þá hefði maður verið að hlaupa út. Skömmu síðar hafi sjúkraflutningamenn komið og annast um brotaþolann eftir það. Þá kom einnig fyrir dóminn rannsóknarlögreglumaður og staðfesti þau gögn er hann vann.

       Læknir, sem ritaði framangreint vottorð vegna brotaþolans B, staðfesti það. Læknirinn kvaðst hafa fengið þær upplýsingar frá sjúkraflutningamönnum að brotaþoli hefði fallið niður tröppur og gæti hvorki hreyft hendur né fætur. Á slysadeildinni hefði brotaþoli kvartað yfir verkjum en verið vakandi og skýr. Taugaskoðun leiddi í ljós að hann gat ekki hreyft útlimi og svaraði ekki sársaukaáreiti. Brotaþoli hefði verið sneiðmyndaður sem hefði leitt í ljós brot á hálsliðum. Í framhaldinu hefði hann verið fluttur á gjörgæsludeild. Læknirinn kvað allnokkurn kraft þurfa til að brjóta hálshryggjarlið en einnig þurfi að taka tillit til þess hvernig höggið lendi á manninum.

       Læknir, sem ritaði framangreint vottorð vegna brotaþolans A, staðfesti það. Hann kvað brotaþola hafa komið daginn eftir atburðinn og verið meira í áfalli frekar en að hann kvartaði yfir áverkum. Í raun og veru hefði brotaþoli gert lítið úr áverkum sínum en verið í áfalli og dofinn. Hann hefði verið aumur yfir vinstra kinnbeini og gæti það hafa verið eftir högg. Þetta hafi verið mjög lítill áverki. Aðrir áverkar hafi ekki verið sjáanlegir. Hann hafi fengið lyfseðil fyrir róandi lyf og sambýliskonu hans bent á að hann þyrfti stuðning. Læknirinn kvað brotaþola hafa haft miklar áhyggjur af hinum brotaþolanum og afdrifum hans.

       Yfirlæknir á heilaskurðdeild Landspítalans, sem gerði aðgerð á brotaþolanum B í framhaldi af veru hans á slysadeild, bar að brotaþoli hefði fengið alvarlegan háls- eða mænuáverka. Myndatökur hefðu sýnt brot og tilfærslu í hálshrygg sem skýrði lömunina fyrir neðan háls. Brotaþoli hefði getað hreyft hendur að einhverju leyti en ekkert þar fyrir neðan. Hálsliðunum hefði verið komið í eðlilegt horf og þeir spengdir og festir. Þetta hafi verið gert til að minnka verki í framtíðinni og láta hálsinn líta nokkurn veginn eðlilega út. Áverkinn á mænunni hafi verið alvarlegur og litlar líkur á að hann muni ganga til baka. Það hafi þó ekki verið alveg ljóst á þessum tíma. Eftir tvo til þrjá mánuði hefði hins vegar verið ljóst að áverkinn var varanlegur og lömunin myndi ekki ganga til baka. Yfirlæknirinn kvað áverkann á mænunni hafa orðið við áverkann. Hrygginn sé hægt að laga og vonast til að mænan lagist við það. Það sé hins vegar sjaldnast raunin og hafi svo orðið hjá brotaþola. Mænan hafi skemmst og  „leiðsla yfir þetta skemmda svæði verður aldrei fyrir hendi“, eins og hann orðaði það.

       Yfirlæknirinn kvað alls konar áverka geta valdið svona meiðslum, t.d. við fall, bílveltu og annað þess konar. Yfirleitt þurfi allmikið til að svona áverki hljótist. Þó sé það til að áverkinn þurfi ekki að vera svo mikill ef hinn slasaði hafi lent illa og höfuðið brotnar undir honum eða bögglast. Lýsing brotaþola á því hvernig hann fékk áverkann var borin undir yfirlækninn og kvað hann það vel geta verið að hann hefði fengið áverkann á þann hátt. Þá kvað hann ekkert hafa komið fram um að háls brotaþola hefði á einhvern hátt verið afbrigðilegur fyrir þennan atburð. Það gæti því ekki verið skýring á afleiðingunum. Þá kvaðst hann ekki muna eftir áverkum á brotaþola þegar hann sá hann fyrst.

       Sérfræðingur í taugasjúkdómum, sem annast um brotaþolann B á Grensásdeild og hefur áratugum saman unnið með mænuskaðasjúklingum, bar að brotaþolinn hefði komið á deildina 24. september. Til að byrja með var hann með mikla verki og algjörlega ósjálfbjarga. Um væri að ræða alskaða á mænu brotaþola. Það þýddi að engin merki hefðu verið um hreyfigetu eða skynjun neðan skaðamarka, það er háls. Síðan hefði honum farið fram og gæti hann nú hreyft handleggi en ekki fingur. Þá væri örlítill skynjunarvottur í framhandleggjum. Einnig geti hann hreyft tær endrum og eins en ekki alltaf. Óljóst sé hvernig á því standi. Læknirinn kvað mænuskaða brotaþola hafa orðið við áverkann og sá skaði gangi ekki til baka. Hann sé þannig öðrum háður um nánast allar athafnir daglegs lífs og verði það framvegis. Brotaþoli hafi hins vegar ekki enn horfst í augu við þennan veruleika og sé vongóður um bata. Brotaþoli muni þurfa að vera á Grensásdeild í níu til tólf mánuði frá þeim tíma er hann varð fyrir áverkanum. Eftir þann tíma væri best að hann kæmist í sérútbúið húsnæði þar sem hann gæti gist en verið á Grensásdeild í dagvistun.

 

IV

       Ákærði Artur játaði sök í 1. ákærulið við þingfestingu. Ákærði verður því sakfelldur fyrir það sem hann er ákærður fyrir í þessum ákærulið, enda styðst játning hans við önnur gögn málsins.

       Ákærði Dawid játaði við þingfestingu að hafa sparkað í brotaþola. Við aðalmeðferð játaði hann að hafa slegið brotaþola þrisvar til fjórum sinnum í fótleggi og bak. Einnig að hafa sparkað í læri hans, sparkað með hné í rifbein hans og greitt honum högg með hendi. Hann neitaði að hafa slegið brotaþola í höfuð eða andlit. Meðal gagna málsins er myndband úr öryggismyndavél sem sýnir atburði þá fyrir utan skemmtistaðinn sem eru ákæruefni málsins. Á myndbandinu sjást ákærðu, ásamt fleiri mönnum, ráðast á brotaþola og rífa í föt hans, en hann var klæddur í þykka úlpu. Þá slá þeir hann og sparka í hann. Hins vegar sést ákærði hvorki slá hann í höfuð né andlit. Samkvæmt þessu er ósannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi veitt brotaþola hnefahögg í andlit og höfuð eins og hann er ákærður fyrir og verður hann því sýknaður af því en sakfelldur að öðru leyti fyrir það sem hann er ákærður fyrir í 1. ákærulið.

       Framangreint er í ákæru talið vera „sérstaklega hættuleg líkamsárás“ og talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Af hálfu ákærðu er hins vegar á því byggt að hér hafi verið um minni háttar líkamsárás að ræða sem varði við 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Benda þeir á að meiðsli brotaþola hafi verið minni háttar og ósannað sé að hann hafi borið andleg mein af árásinni. Í ákæru segir að áverki brotaþola hafi verið mar yfir kinnbeini vinstra megin. Er þetta byggt á áverkavottorði sem grein var gerð fyrir hér að framan.

       Til að líkamsárás geti átt undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga þarf annaðhvort stórfellt líkams- eða heilsutjón að hljótast af henni eða brot þarf að vera sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þar á meðal tækja, sem notuð eru. Hvorugu er til að dreifa í þessu máli. Áverki brotaþola var ekki mikill og engin tæki voru notuð. Aðferðir, það er atlögur, ákærðu og félaga voru ekki sérstaklega hættulegar, eins og sjá má á framangreindu myndbandi. Samkvæmt þessu verður brot ákærðu sem lýst er í 1. ákærulið, heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

       Í 2. ákærulið er ákærða Artur einum gefin að sök stórfelld líkamsárás. Hann hefur játað að hafa slegið brotaþola hnefahögg í andlit, eins honum er gefið að sök í upphafi ákæruliðarins. Ákærði neitar sök að öðru leyti en hann hefur kannast við að hafa elt brotaþola inn eftir skemmtistaðnum allt þar til þeir féllu báðir við bakdyrnar, eins og rakið var. Brotaþoli hefur borið á annan hátt, eins og rakið var í kaflanum hér að framan.

       Meðal gagna málsins eru upptökur úr öryggismyndavélum sem eru bæði fyrir utan skemmtistaðinn og eins inni á honum. Á myndbandinu sést þegar ákærðu og fleiri menn koma að skemmtistaðnum og ráðast umsvifalaust á brotaþola sem standa á útidyratröppunum. Þegar árásin hefur staðið mjög skamma stund hörfar brotaþolinn B inn á skemmtistaðinn og fylgir ákærði á eftir. Brotaþoli hleypur inn eftir skemmtistaðnum í áttina að bakdyrunum og ákærði á eftir. Á myndbandinu sést að ákærði reynir að ná taki á brotaþola en tekst það ekki. Skömmu síðar sést hvernig ákærði nær brotaþola nokkru áður en komið er að tröppunum sem liggja að útidyrunum. Á myndbandinu sést ákærði hrinda brotaþola sem í framhaldinu steypist fram fyrir sig og ofan í tröppurnar og ákærði á eftir. Ekki verður ráðið af myndbandinu hvort höfuð brotaþola skelli í hurðinni. Þá sést heldur ekki hvort ákærði slái hann og sparki eins og honum er gefið að sök en hann hefur neitað því. Samkvæmt áverkavottorði mátti sjá bólgu og mar á hægri augabrún brotaþola og skrámu á hvirfli. Brotaþoli hefur því væntanlega fengið högg á hægri augabrún og áverkann af því. Ekki verður hins vegar úr því skorið hvort þetta stafi af högginu sem ákærði veitti brotaþola við útidyrnar og hann hefur játað að hafa slegið brotaþola, eða höggum sem brotaþoli kveður ákærða hafa slegið sig þar sem hann lá í tröppunum. Vafann í þessu verður að meta ákærða í hag og sýkna hann af því að hafa slegið og sparkað í andlit brotaþola og höfuð eins og honum er gefið að sök. Hins vegar er sannað með myndbandinu að ákærði hrinti brotaþola eins og hann er ákærður fyrir. Samkvæmt áverkavottorðum og framburði lækna getur fall af þessu tagi orsakað líkamsmeiðingar þær sem brotaþoli varð fyrir. Það er því niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi hrint brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Þegar myndbönd af árás ákærðu og félaga þeirra á brotaþola eru skoðuð þá sést að ákærðu, ekki síst ákærði Artur, gengur fram af mikilli heift. Það er niðurstaða dómsins að ætlun ákærða hafi verið að skaða brotaþola og að honum hafi ekki getað dulist að afleiðingar af atlögu hans gætu orðið alvarlegar. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir að valda brotaþola þeim líkamsmeiðingum sem í ákæru greinir og varðar brot hans við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

       Ákærðu hefur ekki áður verið refsað. Árás þeirra á brotaþolann A var ofsafengin og voru ákærðu og félagar þeirra nokkrir saman að verki. Brotaþolinn var klæddur þykkri úlpu sem hefur vafalítið valdið því að meiðsli hans urðu ekki meiri og alvarlegri en raun bar vitni. Samkvæmt þessu er refsing ákærða Dawid ákveðin sex mánaða fangelsi sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda. Ákærði Artur hefur verið sakfelldur fyrir mjög alvarlega líkamsárás sem mun marka líf brotaþola það sem eftir er eins og rakið hefur verið. Refsing hans er hæfilega ákveðin 5 ára fangelsi. Til frádráttar refsivist ákærðu skal koma gæsluvarðhaldsvist þeirra eins og greinir í dómsorði.

       Ákærðu hafa samþykkt bótaskyldu gagnvart brotaþolanum A en mótmælt kröfunni sem of hárri. Við ákvörðun bóta til brotaþolans verður litið til þess hversu alvarleg árásin var þótt hann hafi ekki borið merki um mikla líkamlega áverka. Bætur til hans eru hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Í ljósi hinna alvarlegu og varanlegu áverka sem brotaþolinn B hlaut eru miskabætur til hans hæfilega ákveðnar 6.000.000 króna. Bæturnar skulu bera vexti eins og í dómsorði segir. Það athugast að upphafstími dráttarvaxta reiknast frá þeim degi er liðnir voru 30 dagar frá því ákærðu voru birtar bótakröfurnar, en það var við þingfestingu. Brotaþolinn B krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda ákærða vegna líkamstjónsins sem brotaþoli varð fyrir 26. ágúst 2018. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás á brotaþola og verður þessi krafa því tekin til greina.

       Ákærðu eru dæmdir til að greiða sakarkostnað eins og í dómsorði greinir. Þá skal hvor þeirra greiða verjanda sínum málsvarnarlaun sem ákvörðuð eru með virðisaukaskatti í dómsorði. Einnig verða þeir dæmdir til að greiða réttargæslumönnum brotaþola þóknun sem ákvarðaðar eru með virðisaukaskatti í dómsorði.          

 

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

       Ákærði, Artur Pawel Wisocki, sæti fangelsi í 5 ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 26. ágúst 2018.

       Ákærði, Dawid Kornacki, sæti fangelsi í 6 mánuði en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 27. ágúst 2018 til 5. september sama ár.

       Ákærðu greiði óskipt A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2018 til 11. janúar 2019 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.        

       Ákærði Artur greiði B 6.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. ágúst 2018 til 11. janúar 2019 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Viðurkennd er skaðabótaskylda ákærða vegna líkamstjónsins sem brotaþoli varð fyrir.

       Ákærðu greiði óskipt 162.910 krónur í sakarkostnað.

       Ákærði Artur greiði 44.910 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar lögmanns, 3.815.580 krónur og 52.800 krónur í aksturskostnað.

       Ákærði Dawid greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 2.434.740 krónur.

       Ákærðu greiði óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþolans A, Gríms Sigurðarsonar lögmanns, 779.960 krónur.

       Ákærði Artur greiði þóknun réttargæslumanns brotaþolans B, Sigurðar Arnar Hilmarssonar lögmanns, 1.148.860 krónur.

                                                           

Arngrímur Ísberg