• Lykilorð:
  • Gripdeild
  • Ítrekun
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginnn 13. júní 2018 í máli nr. S-298/2018:

Ákæruvaldið

                                                (Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

 

            Mál þetta sem dómtekið er í dag var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 22. maí sl. „á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin í Reykjavík, nema annað sé tekið fram:

Þjófnað, með því að hafa,:

1.      Að kvöldi miðvikudagsins 13. apríl 2016, í verslun Hagkaups við Skeifuna 7, stolið tveimur sokkapörum, samtals að verðmæti kr. 2.499.

2.      Að morgni laugardagsins 25. júní 2016, í verslun Hagkaups í Kringlunni 4-12, stolið fimm flöskum af kardimommudropum, samtals að verðmæti kr. 1.595.

3.      Þriðjudaginn 25. apríl 2017, í verslun ÁTVR að Hólabraut 16 á Akureyri, stolið einni flösku af áfengi að verðmæti kr. 6.999.

4.      Fimmtudaginn 27. apríl 2017, í verslun ÁTVR að Hólabraut 16 á Akureyri, stolið einni flösku af áfengi að verðmæti kr. 3.899.

5.      Föstudaginn 28. apríl 2017, í verslun ÁTVR að Skeifunni 5, stolið einni flösku af áfengi að verðmæti kr. 8.299.

6.      Mánudaginn 1. maí 2017, á Fosshóteli við Þórunnartún 1, stolið fjórum flöskum af léttvíni að óþekktu verðmæti.

7.      Að morgni sunnudagsins 7. maí 2017, á 101 Hóteli við Hverfisgötu 10, stolið flösku af áfengi að óþekktu verðmæti.

8.      Föstudaginn 11. ágúst 2017, í verslun ÁTVR að Stuðlahálsi 2, stolið einni flösku af áfengi að verðmæti kr. 7.390.

9.      Laugardaginn 23. september 2017, í verslun ÁTVR að Austurstræti 10A, stolið einni flösku af áfengi að verðmæti kr. 8.499.

10.  Laugardaginn 23. september 2017, á Hótel Marína að Mýrargötu 10, stolið einni flösku af áfengi að áætluðu verðmæti kr. 7.000-8.000.

11.  Þriðjudaginn 26. september 2017, á Hótel Marína að Mýrargötu 10, stolið einni flösku af áfengi að áætluðu verðmæti kr. 7.000-8.000.

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                                                                                                                                                                                      I.             

Gripdeild, með því að hafa,:

1.      Sunnudaginn 24. apríl 2016, í verslun Bónuss í Spönginni, tekið fjóra pakka af nautalundum, samtals að verðmæti kr. 29.784, og gengið með þær út um lager verslunarinnar án þess að greiða fyrir vörurnar en starfsmaður verslunarinnar hafði afskipti af honum fyrir utan verslunina og kastaði ákærði þá vörunum frá sér.

2.      Að kvöldi mánudagsins 13. júní 2016, á Hótel Borg við Pósthússtræti, tekið fjórar flöskur af víni að óþekktu verðmæti af bar hótelsins og farið með þær út án þess að greiða fyrir flöskurnar.

3.      Aðfaranótt fimmtudagsins 30. júní 2016, í verslun 10-11 að Barónsstíg 4, tekið matvörur samtals að verðmæti kr. 12.231 og gengið út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar, starfsmaður verslunarinnar hafði afskipti af ákærða fyrir utan verslunina og hafði ákærði þá borðað hluta af matvörunum.

4.      Aðfaranótt fimmtudagsins 30. júní 2016, á Kex Hostel að Skúlagötu 28, tekið þrjár flöskur af áfengi að óþekktu verðmæti úr eldhúsi gististaðarins og við afskipti starfsmanns farið út af gististaðnum með flöskurnar án þess að greiða fyrir þær.

5.      Mánudaginn 31. júlí 2017, í verslun 10-11 að Barónsstíg 4, tekið gosdrykk að verðmæti kr. 269 og drukkið gosdrykkinn inni í versluninni án þess að greiða fyrir hann.

12.  Þriðjudaginn 26. september 2017, á Hóteli 101 við Hverfisgötu 10, tekið eina flösku af áfengi að verðmæti kr. 9.900 af bar hótelsins og farið með hana út af hótelinu án þess að greiða fyrir flöskuna.

6.      Að kvöldi þriðjudagsins 26. september 2017, á Center Hotel Klöpp, að Klapparstígi 26, tekið vínflösku að verðmæti kr. 5.000 af afgreiðsluborði, starfsmaður hótelsins hafði þá afskipti af ákærða en ákærði fór út af hótelinu með flöskuna án þess að greiða fyrir hana.

 

Teljast brot þessi varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

1.      Vegna ákæruliðar I.3 gerir Erla Skúladóttir hdl. fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), kt. 410169-4369 kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 6.999 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. apríl 2017 til 1. júlí 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.

2.      Vegna ákæruliðar I.4 gerir Erla Skúladóttir hdl. fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), kt. 410169-4369 kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 3.899 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. apríl 2017 til 1. júlí 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.

3.      Vegna ákæruliðar I.5 gerir Erla Skúladóttir hdl. fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), kt. 410169-4369 kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 8.299 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. apríl 2017 til 1. júlí 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.

4.      Vegna ákæruliðar I.8 gerir Erla Skúladóttir hdl. fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), kt. 410169-4369 kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 7.390 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. ágúst 2017 til 4. október 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.“

 

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Hann á að baki nokkurn sakaferil. Honum var síðast gerð sekt með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. september 2017 vegna fíkniefnalagabrota og með dómi Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2017 vegna umferðarlagabrota. Þá hlaut hann síðast dóm fyrir þjófnað í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. ágúst 2014. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til skýlausrar játningar hans, fjölda tilvika, 255. gr., 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

            Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur krafist þess að ákærði verði dæmdur til skaðabóta að fjárhæð samtals 26.587 krónur. Ákærði hefur fallist á kröfuna og verður hann því dæmdur til greiðslu skaðabóta sem nemur verðmæti þeirra með vöxtum eins og í dómsorði greinir, auk málskostnaðar.

            Engan kostnað leiddi af meðferð málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D ó m s o r ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði.

            Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 26.587 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 6.999 krónum frá 25. apríl 2017 til 27. sama mánaðar, en þá af 10.898 krónum til 28. sama mánaðar, en þá af 19.197 krónum til 1. júlí 2017, en þá með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga, til greiðsludags, og að auki með vöxtum samkvæmt 8. gr. laganna af 7.390 frá 11. ágúst 2017 til 4. október sama ár, en þá með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laganna til greiðsludags, auk 62.000 króna í málskostnað.