• Lykilorð:
  • Fésekt
  • Hegningarauki
  • Líkamsárás
  • Skilorð

Árið 2019, mánudaginn 14. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-154/2018:

 

Ákæruvaldið

(Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri )

gegn

A

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður)

og

B

(Sigurður Freyr Sigurðsson lögmaður)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum 2. júlí  2018, á hendur A og B

„I.

fyrir líkamsárás

á hendur ákærða A, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. september 2017 fyrir utan skemmtistaðinn Lundann, Kirkjuvegi 21, Vestmannaeyjum, veist að B, og slegið hann í andlitið auk þess að hafa í kjölfar atvika sem lýst er í II. lið ákærunnar við Hótel Vestmannaeyjar, Vestmannabraut 28, Vestmannaeyjum, veist aftur að B og ýtt honum utan í útihurð hótelsins og slegið hann með vinstri hendi ítrekuðum höggum í maga, andlit og bak og skömmu síðar sparkað með vinstri fæti í síðu eða maga B er hann lá á fjórum fótum fyrir utan inngang hótelsins eftir að hafa fallið í jörðina. Af árásunum hlaut B sprungna vör, hrufl á hnakka og mar á vinstra gagnauga.

(Mál 319-2017-3738)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

II.

fyrir líkamsárás

á hendur ákærða B, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 16. september 2017 við Hótel Vestmannaeyjar, Vestmannabraut 28, Vestmannaeyjum veist að A, og slegið hann með vinstri hendi í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut skurð við nef vinstra megin og mar undir vinstra auga.

(Mál 319-2017-3738)

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Málið var þingfest 13. september 2018.

Með úrskurði dómsins 6. nóvember 2018 var hafnað frávísunarkröfum beggja ákærðu.

Ákærðu komu báðir fyrir dóm 18. desember 2018 og játuðu báðir skýlaust sök. Var málið þá tekið til dóms skv. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eftir að sækjandi og skipaðir verjendur höfðu tjáð sig um lagaatriði og viðurlög, enda taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningarnar væru sannleikanum samkvæmar.

            Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu ákærða A er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið, en til þrautavara að refsing ákærða verði eins væg og lög leyfa. Þá er krafist málsvarnarlauna fyrir skipaðan verjanda ákærða auk aksturskostnaðar verjandans.

Af hálfu ákærða B er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing eða að refsing verði felld niður, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er krafist málsvarnarlauna til handa skipuðum verjanda, úr ríkissjóði.

 

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærðu hafa báðir gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærðu hafa báðir með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða A hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað, en ákærði B gekkst undir 100.000 kr. fésekt í nóvember sl. vegna brots gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ber að ákveða refsingu hans með vísan til 78. gr. sömu laga vegna þess. Við ákvörðun refsinga beggja ákærðu verður jafnframt litið til hreinskilnislegra játninga þeirra, sem og atvika málsins að öðru leyti.

Skal ákærði A sæta fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Skal ákærði B greiða 100.000 kr. fésekt í ríkissjóð innan 4 vikna, en sæta ella fangelsi í 8 daga.

Þá ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar sbr. 235. gr. laga nr. 88/2008. Útlagður kostnaður við rannsókn skv. yfirliti rannsakara er kr. 33.800 og er vegna kostnaðar við för ákærða A til Vestmannaeyja og telst ekki til sakarkostnaðar og verður ákærðu ekki gert að greiða hann. Ákærðu skulu báðir greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, kr. 350.000 fyrir hvorn verjanda að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá ber ákærða A jafnframt að greiða aksturskostnað verjanda síns, kr. 11.880.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði A sæti fangelsi í 30 daga.

Fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði B greiði kr. 100.000 í fésekt til ríkissjóðs innan 4 vikna en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Ákærðu greiði sakarkostnað, ákærði A alls kr. 361.880, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, kr. 350.000 auk aksturskostnaðar verjandans, kr. 11.880, en ákærði B greiði alls kr. 350.000 í sakarkostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns.

 

Sigurður G. Gíslason