• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Eignaupptaka
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 9. október 2018 í máli nr. S-176/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

Arnis Simanovs

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 27. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 20. ágúst sl., á hendur Arnis Simanovs,   

 

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að kvöldi þriðjudagsins 3. júlí 2018, ekið bifreiðinni […] austur Suðurlandsveg við Ölkelduháls í Sveitarfélaginu Ölfusi, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa áfengis (vínandamagn í blóði 1,58 ‰).

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist með vísan til 2. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987 að bifreiðin KK-682 verði gerð upptæk.

 

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og lýsti yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði átta sinnum áður sætt refsingu, í öll skiptin vegna ölvunaraksturs og þar af sex jafnframt vegna aksturs sviptur ökurétti. Þann 9. desember 2009 var ákærða gerð sekt vegna ölvunaraksturs. Þann 9. janúar 2014 var ákærða gerð sekt, meðal annars vegna ölvunaraksturs. Þann 19. maí sama ár var ákærði dæmdur til fangelsisrefsingar vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti. Var hann þá jafnframt sviptur ökurétti ævilangt. Þann 30. september sama ár var ákærða dæmdur hegningarauki vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti. Þann 3. september 2015, var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 60 daga, vegna ölvunaraksturs, sem varðaði við 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, sem og vegna aksturs sviptur ökurétti. Var þá jafnframt áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða. Þann 10. maí 2017, var ákærða gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti. Var þá aftur áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða. Þann 19. maí sama ár, var ákærða dæmdur hegningarauki vegna ölvunaraksturs, er varðaði við 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, sem og vegna aksturs sviptur ökurétti. Var ákærða þá gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði og enn áréttuð ævilöng svipting ökuréttar hans. Loks var ákærði þann 19. september 2017, dæmdur hegningarauki vegna ölvunaraksturs, er varðaði við 3. mgr. 45. umferðarlaga, sem og vegna aksturs sviptur ökurétti. Var honum þá gert að sæta fangelsi í 60 daga og enn áréttuð ævilöng svipting ökuréttar hans. Að framangreindu virtu telst ölvunarakstursbrot ákærða nú ítrekað í fimmta sinn. Þá telst honum í fjórða sinn gerð refsing fyrir aksturs sviptur ökurétti.

Refsing ákærða er að virtum sakaferli hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, er ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 42.655 kr. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hafði ákærði þrisvar sinnum á síðustu þremur árum, fyrir brot það sem lýst er í ákæru sætt refsingu sem og ökuréttarsviptingu, vegna brota gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga, þ.e. ölvunarakstur þar sem vínandamagn í blóði nemur meira en 1,2‰. Ákærði er nú fundinn sekur um brot gegn sama ákvæði og hann sviptur ökurétti vegna þess. Að framansögðu virtu þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, enda er ákærði samkvæmt gögnum málsins skráður eigandi umrædds ökutækis. Með vísan til þessa og að því virtu að framangreint ákvæði laganna er ófrávíkjanlegt ber að fallast á kröfu ákæruvaldsins um upptöku framangreinds ökutækis líkt og greinir í dómsorði.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Arnis Simanovs sæti fangelsi í sex mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 42.655 krónur.

Gerð er upptæk bifreiðin […].

 

                                                            Hjörtur O. Aðalsteinsson.