• Lykilorð:
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 23. október 2018 í máli nr. S-47/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jósep F. Guðbjörnssyni

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 17. ágúst 2018 á hendur ákærða, Jósep F. Guðbjörnssyni, kt. …, Álftarima 11, Selfossi. Málið var dómtekið 18. október 2018.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir umferðarlagabrot, en ákærða er gefið að sök „að hafa sunnudaginn 8. júlí 2018 ekið bifreiðinni RV334, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis (1,87 ‰ greindist í blóðsýni), á bifreiðastæði við tjaldstæðið við Kalmansvík á Akranesi.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga með síðari breytingum.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsilaga í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði frá árinu 2014 hlotið þrjá dóma, einu sinni gengist undir viðurlagaákvörðun og einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum.

Með brotum sínum nú hefur ákærði í þriðja sinn gerst sekur um brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga og annað sinn verið sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti. Að öllu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi

Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga verður ákærði sviptur ökurétti ævilangt.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglu, svo sem greinir í dómsorði.

   Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

                                               

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jósep F. Guðbjörnsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærða greiði 37.663 krónur í sakarkostnað.

                                                                       

 

                                                                                    Guðfinnur Stefánsson