• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Hótanir
  • Húsbrot
  • Líkamsárás
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 10. júlí 2018 í máli nr. S-14/2017:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Vífli Þór Marinóssyni

(Árni Freyr Árnason lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. júní 2018, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi 14. mars 2017 „á hendur ákærða, Vífli Þór Marinóssyni, kt. …, óstaðsettum í hús, Reykjavík fyrir eftirgreind hegningarlagabrot:

 

1.                         

Fyrir stórfellda líkamsárás og tilraun til húsbrots, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 5. júní 2015, í og við íbúð á efri hæð hússins að … á Akranesi, veist að A…, kt. …, sem þar bjó, lagt til hans með hafnarboltakylfu þegar hann opnaði útidyrahurð fyrir ákærða og um leið reynt að ryðjast inn án heimildar en A… náði að verjast atlögunni með því að grípa í kylfuna, ýta ákærða út og loka hurðinni. Í framhaldi sló ákærði tvisvar sinnum með kylfunni í glerrúðu í útidyrahurðinni, þannig að rúðan brotnaði og glerbrot þeyttust yfir A… sem stóð innan við hurðina, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut grunnan skurð yfir miðju enni, lítinn skurð aftan við vinstra eyra og lítinn skurð á vinstra handarbak.

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og við 231. gr. sbr. 20. gr. sömu laga. 

2.

Fyrir eignaspjöll, með því að hafa á sama tíma og á sama stað og greinir í ákærulið 1, ónýtt glerrúðu í útidyrahurð á íbúð efri hæðar …, í eigu A… og B…, kt. ….

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.

Fyrir hótanir, með því að hafa á sama tíma og á sama stað og greinir í ákærulið 1, að lokinni þeirri atburðarrás sem þar er lýst, hótað A… og B… lífláti ef þau greiddu ekki leigu fyrir tiltekinn tíma og ef þau hringdu á lögreglu.

 

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A…, kt. …, kr. 708.919.- ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu, af kr. 505.900, - frá 5. júní 2015 til 17. ágúst 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af kr. 708.919,- samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða B…, kt. …, kr. 507.280.- ásamt vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. júní 2015 til 17. ágúst 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A… og B… sameiginlega kr. 43.907,- ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 17. ágúst 2015, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A… sem lögráðamanni D…, kt. …, kr. 150.000,- ásamt vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. júní 2015 til 17. ágúst 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða B…, sem lögráðamanni E…, kt. …, kr. 150.000,- ásamt vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. júní 2015 til 17. ágúst 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða B…, sem lögráðamanni F…, kt. …, kr. 150.000,- ásamt vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. júní 2015 til 17. ágúst 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

 

Þá krefjast A… og B… málskostnaðar sér að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins.“

 

Ákærði krefst þess að verða sýknaður af öllum liðum ákæru. Til vara krefst hann þess að verða sýknaður af ákæru um húsbrot og líkamsárás, en til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Ákærði krefst þess jafnframt að bótakröfum verði vísað frá dómi en að öðrum kosti verði hann sýknaður af þeim. Til þrautarvara krefst hann þess að kröfurnar verði lækkaðar verulega. Loks krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hringdi B… til lögreglunnar á Akranesi aðfaranótt föstudagsins 5. júní 2015, kl. 01.10, og óskaði eftir aðstoð vegna manns sem leigði hjá henni, sem hún sagði að hefði brotið rúðu í forstofuhurð hjá henni og ráðist á eiginmann hennar, A…. Er lögreglan kom á vettvang reyndist rúða brotin í forstofuhurð íbúðar hjónanna á efri hæð hússins. Lögreglan ræddi við þau og var A… þá með áverka á enni, sem blæddi úr. Er haft eftir þeim í skýrslunni að barið hafi verið að dyrum hjá þeim, A… farið til dyra og þegar hann opnaði hafi maður verið fyrir utan með hafnaboltakylfu og reynt að slá hann með kylfunni inn um dyragættina. Hafi A… náð að grípa í hafnaboltakylfuna og loka síðan dyrunum, en maðurinn fyrir utan hefði þá slegið í rúðu í hurðinni með þeim afleiðingum að hún brotnaði og glerbrotum rigndi yfir A…. Hafi maðurinn sagt við A… að hann yrði að borga leigjandanum á neðri hæðinni tryggingarfé til baka daginn eftir. Taldi A… að maður þessi tengdist leigjandanum, G…, sem leigði íbúðina á neðri hæðinni af þeim hjónum, en A… hefði nýverið átt samskipti við hana vegna vanskila hennar á leigu.  

 

Lögreglan ræddi við íbúa á neðri hæðinni, þar á meðal G…. Kemur fram að hún hafi verið áberandi ölvuð og vart viðræðuhæf af þeim sökum. Ákærði hafi þar einnig verið staddur og hafi lýsing A… á þeim manni sem ráðist hefði á hann og brotið rúðuna passað við hann. Ákærði kannaðist hins vegar hvorki við að hafa ráðist á einhvern né að hafa brotið rúðu. Hann kvaðst hafa setið inni hjá G… og svo heyrt læti á efri hæðinni en ekkert komið þar nærri. Samkvæmt skýrslu lögreglu bauð G… lögreglumönnum að skoða íbúðina. Hafi þeir þar séð hafnaboltakylfu, en á henni hafi verið nýlegar rispur og ákomur. Þá hafi verið sjáanlegt glerbrot á gólfi. Fram hafi komið hjá G… að hún hefði átt í deilum við A… vegna leigu og ástands íbúðarinnar. Einnig hafi verið staddur í íbúðinni H…, sem kvaðst ekki hafa séð neitt en heyrt skarkala á efri hæð hússins.

 

Tekin var ljósmynd af ákærða með hans samþykki og báru A… og B… kennsl á hann sem fyrrgreindan mann sem ráðist hefði að A… og brotið rúðuna í hurðinni. Var ákærði handtekinn kl. 01.55 og fluttur á lögreglustöðina á Akranesi.   

 

Fyrir liggur í málinu læknisvottorð Þóris Bergmundssonar læknis, útgefið 12. júní 2015, vegna áverka brotaþolans A…. Kemur þar fram að við komuna hafi verið 1 cm grunnur skurður yfir miðju enni með storknuðu blóði. Þá hafi verið lítill skurður yfir vinstra eyra. Mjög grunnur skurður hafi verið í hnakka vinstra megin, allt í allt um 5 cm að lengd með storknuðu blóði. Þá hafi verið lítill skurður á vinstra handarbaki.

 

 

 

 

III.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði kvaðst ekki hafa neina vitneskju um hvað gerðist umrætt sinn á efri hæð hússins að …. Sjálfur hefði hann ekki farið upp á efri hæðina og ekki gert það sem lýst er í 1.-3. tl. í ákæru. Hann hefði setið niðri að drekka hvítvín með G… og syni hennar, I…, er lögreglan kom á staðinn. Hefði lögreglan spurt hvort þau hefðu heyrt einhvern skarkala eða læti og hann þá sagst ekkert hafa pælt í því, þau hefðu bara setið niðri og verið að spjalla saman. Lögreglan hefði svo beðið hann um að koma út í garð þar sem tekin hefði verið af honum mynd með hans samþykki og í kjölfarið hefði hann verið handtekinn. Aðspurður kvaðst ákærði enga skýringu hafa á því hvers vegna fundist hefði glerbrot inni í íbúðinni á neðri hæðinni. Hins vegar væri sú eðlilega skýring á því að fundist hefðu glerbrot undir skóm hans að hann hefði verið að vinna við að gera húsið sitt upp og væntanlega gengið þar á glerbrot. Þá neitaði ákærði því eindregið að hafa handleikið hafnaboltakylfu þá sem fannst við leit í íbúðinni á neðri hæðinni.

 

Brotaþolinn A… lýsti atvikum þannig að þau hjónin hefðu umrætt kvöld verið að fara að sofa er bankað hefði verið á hurðina. Er hann hefði opnað hefði ákærði staðið þar með hafnaboltakylfu og ætlað að ryðjast inn. Kvaðst A… hafa náð að ýta honum út, nánast með því að ýta á kylfuna, og loka dyrunum. Hefði ákærði þá slegið einu sinni í  hurðarrúðuna og brotið hana. Hefðu glerbrot vegna þessa þeyst inn í íbúðina og hefði hann sjálfur við það fengið glerbrot í andlitið. Ákærði hefði hótað þeim hjónum og sagt að þau ættu að borga strax og að hann myndi drepa þau ef þau hringdu á lögregluna. Nánar spurt kvaðst vitnið ekki þora að segja að ákærði hafi verið með kylfuna reidda til höggs þarna í dyragættinni. Ákærði hefði hins vegar haldið á kylfunni, otað henni á undan sér og stigið aðeins inn fyrir gættina, líklega með annan fótinn. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið aðra áverka en skurð eða rispur á höfuðið, líklega eftir glerbrot. Hann hefði hins vegar ekki orðið fyrir höggi beint. Vitnið sagði afleiðingar þessa atburðar fyrir fjölskylduna ekki hafa verið góðar og lýsti þeim nánar.

 

Brotaþolinn B… kvaðst hafa heyrt að einhver væri að koma upp stigann, drifið sig í föt og kallað á A… því að hún hefði ekki þorað að opna. Viðkomandi hefði öskrað að þau ættu að endurgreiða leigu, annars myndi hann drepa þau og að hann myndi einnig gera það ef þau hringdu á lögregluna. Kvað hún atburðarásina hafa lokast svolítið fyrir sér en hún myndi þó eftir því að hafa séð manninn stíga inn með kylfuna en A… hefði náð að ýta honum út. Nánar aðspurð lýsti hún því að kylfan hefði komið inn um dyraopið í áttina að A…, eins og henni væri slegið í áttina að honum, en hann hefði náð að ýta kylfunni upp og ýta manninum þannig út. Eftir að A… hefði náð að loka dyrunum hefði kylfan komið beint inn um dyrarúðuna þannig að rúðan brotnaði og glerbrot dreifðust inn að eldhúsinu. Hefði hún þá séð að það var ákærði sem stóð fyrir utan dyrnar með kylfuna í hendi. Kvaðst vitnið þá hafa farið, sótt yngsta barnið, sem var grátandi, og hringt á lögregluna. Kvaðst hún ekki hafa séð ákærða fyrir þennan atburð en hún væri viss um að þetta hefði verið hann. Brotaþolinn lýsti miklum og slæmum afleiðingum sem atburður þessi hefði haft á líf fjölskyldunnar.

 

Vitnið I…, sem áður hét H…, kvaðst hafa verið staddur umrætt kvöld inni í herbergi á neðri hæð hússins ásamt lítilli systur sinni, en G…. og ákærði hefðu þá verið saman inni í eldhúsi. Kvaðst hann lítið geta upplýst um það sem gerðist á efri hæðinni. Þá sagðist hann ekki hafa verið í neinum samskiptum við ákærða og G…, en sagðist hafa heyrt G… tala um að hún ætlaði að senda einhvern handrukkara upp. Síðan hefði hann heyrt einhver læti uppi, öskur og brothljóð, en ekki skipt sér neitt af því. Lögreglan hefði svo komið og tekið ákærða í burtu.

 

Lögreglumennirnir Kristján Ingi Hjörvarsson og Þórir Björgvinsson komu fyrir dóminn og lýstu því hvernig aðstæður voru er þeir komu á vettvang og Þórir Bergmundsson læknir skýrði og staðfesti læknisvottorð vegna áverka A…. Aðspurður kvað hann lýsingu á áverkum brotaþola þannig að um fjóra skurði hafi verið að ræða á höfði og handarbaki. Kvað hann brotaþola hafa lýst því að hann hefði orðið fyrir drífu af glerbrotum, og gætu þessir áverkar hafa komið til vegna þessa. Kvað hann afleiðingar þessara áverka ekki vera varanlegar.

 

Einnig komu fyrir dóminn til skýrslugjafar þeir J… og K… en framburður þeirra verður ekki rakinn nánar hér.

 

 

IV.

Bæði A… og kona hans, B…, báru fyrir dómi á þann veg að maður, sem þau báru síðar kennsl á sem ákærða í máli þessu, hefði umrædda nótt reynt að ryðjast inn um forstofudyrnar á heimili þeirra, með hafnaboltakylfu í hendi, án heimildar þeirra. Var framburður A… á þann veg að ákærði hefði haldið á kylfunni og fremur otað henni á undan sér en að hún væri reidd til höggs. Jafnframt hefði ákærði stigið aðeins inn fyrir dyragættina, líklega með annan fótinn. A… hefði hins vegar náð að ýta honum aftur út, nánast með því að ýta á kylfuna, og loka dyrunum. Framburður B… var hins vegar á þann veg að kylfan hefði komið inn um dyraopið í áttina að A…, eins og henni væri slegið í áttina að honum, en að A… hefði náð að ýta kylfunni upp og ýta ákærða þannig út. Að þessu virtu, og gegn eindreginni neitun ákærða, verður ekki talið að ákærði hafi með umræddri háttsemi sinni gerst sekur um stórfellda líkamsárás skv. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður hann því sýknaður af þeim þætti ákærunnar. Hins vegar telst sönnun fram komin um að ákærði hafi með þessu gerst sekur um tilraun til húsbrots skv. 231. gr. sömu laga. Þá telst og sannað með framburði þeirra A… og B… að ákærði hafi brotið rúðu í forstofuhurð íbúðar þeirra og jafnframt haft í frammi hótanir gegn þeim, eins og nánar er lýst í ákæru. Verður ákærði því einnig sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði gekkst ákærði undir að greiða sekt og verða sviptur ökurétti vegna umferðarlagabrota með tveimur lögreglustjórasáttum 11. nóvember 2015. Þá var hann, hinn 17. febrúar 2017, dæmdur til að sæta 60 daga fangelsi og til sviptingar ökuréttar ævilangt vegna umferðarlagabrota. Þau brot sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin áður en ákærði gekkst undir ofangreindar sáttir  og fyrir uppkvaðningu dómsins. Ber því að ákveða refsingu hans nú að því leyti sem hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu virtu, og þegar einnig er til þess litið að ákærði beitti fyrir sig hafnaboltakylfu við húsbrotið, þykir refsing hans, með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

 

Talsmaður bótakrefjanda tók fram við aðalmeðferð málsins að höfuðstóll bótakröfu A… væri lækkaður í 505.900 krónur og að fallið væri frá kröfu þeirra A… og B… vegna viðgerðar á glugga að fjárhæð 43.907 krónur.

 

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir húsbrot, hótanir og eignaspjöll gagnvart A… og B… á heimili þeirra og verður á það fallist, meðal annars með hliðsjón af fyrirliggjandi vottorðum sálfræðings, að hann hafi með brotum sínum valdið þeim miska og fjártjóni, sem honum ber að bæta þeim á grundvelli  1. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur til handa hvoru þeirra um sig hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða A… 5.900 krónur og B… 7.280 krónur vegna útlagðs sjúkrakostnaðar, ásamt vöxtum sem tilgreindir eru í dómsorði. Hins vegar verður ekki talið að nægilega hafi verið í ljós leitt að börnin D…, E… og F… hafi orðið fyrir slíkum miska vegna brota ákærða að þau eigi rétt til miskabóta úr hendi ákærða. Verður kröfu þar um því hafnað.

 

Ákærði verður og dæmdur til að greiða þeim A… og B… 1.000.000 króna í málskostnað vegna lögmanns- og sálfræðiaðstoðar.

 

Með tilliti til niðurstöðu málsins þykir rétt að ákærði greiði útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins að fjárhæð 20.000 krónur og 2/3 hluta af málsvarnarlaunum og ferðakostnaði skipaðs verjanda, eins og nánar greinir í dómsorði. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Vífill Þór Marinósson, sæti fangelsi í 60 daga.

 

Ákærði greiði A… 205.900 krónur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtrygginu frá 5. júní til 14. október 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

 

Ákærði greiði B… 207.820 krónur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtrygginu frá 5. júní til 14. október 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

 

Ákærði greiði A… og B… óskipt 1.000.000 króna í málskostnað.

 

Ákærði greiði 20.000 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins og 2/3 hluta af 1.800.000 króna málsvarnarlaunum og 109.152 króna ferðakostnaði skipaðs verjanda síns, Árna Freys Árnasonar lögmanns. Sakarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.

 

Ásgeir Magnússon