• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 24. október 2018 í máli nr. S-62/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Þórarni Sighvatssyni

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru, dags. 20. september 2018, á hendur ákærða, Þórarni Sighvatssyni, kt. …, Gríshóli, Stykkishólmi. Málið var dómtekið 18. október 2018.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir líkamsárás laugardaginn 18. ágúst 2018, í reiðhöllinni við Fákaborg í Stykkishólmi, með því að hafa slegið X…, kt. …, í andlitið svo hann hlaut mar og bólgur á enni og mar á kinnbeini hægra megin.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Fyrirkall í máli þessu var birt fyrir ákærða 1. október 2018. Við þingfestingu málsins 18. sama mánaðar sótti ákærði ekki þing og var málið þá dómtekið að kröfu ákæruvaldsins samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Með vísan til þeirrar lagagreinar þykir mega jafna útivist ákærða til játningar hans, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins. Brot ákærða telst því sannað og réttilega heimfært til laga í ákæruskjali.

Refsing ákærða, sem er með hreint sakavottorð, þykir hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Loks verður ákærða með vísan til. 235. gr. laga nr. 88/2008 dæmd til að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglu, svo sem greinir í dómsorði.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Þórarinn Sighvatsson, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði 17.500 krónur í sakarkostnað.

 

                                                                                    Guðfinnur Stefánsson