• Lykilorð:
  • Fjárskipti
  • Ógilding samnings
  • Ógildingarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 3. desember 2018 í máli nr. E-57/2017:

A

(Tinna Björk Gunnarsdóttir lögmaður)

gegn

B

(Harpa Hörn Helgadóttir lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. nóvember sl., er höfðað af A…, …, …, á hendur B…, …, …, með stefndu birtri 10. maí 2017.

 

Stefnandi krefst þess að fjárskiptasamningur sinn og stefnda, sem þau gerðu vegna skilnaðar …, verði felldur úr gildi með dómi. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

 

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðarreikningi.

 

II.

Málsaðilar, sem gengu í hjónaband …, slitu samvistum um miðjan maí 2016. Stuttu síðar, eða hinn 7. júní sama ár, óskuðu þau skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumanninum á Vesturlandi á grundvelli 33. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Lögðu þau þá fram samkomulag um fjárskipti sem þau undirrituðu og staðfestu í viðurvist fulltrúa sýslumanns. Var leyfi til skilnaðar að borði og sæng gefið út þennan sama dag.

 

Í fjárskiptasamningnum voru eignir búsins tilgreindar þessar: Bifreiðin X…, fellihýsið X… og X…. Var samið um að eignirnar myndu skiptast þannig að stefndi myndi greiða stefnanda 525.000 krónur fyrir hlut hennar í bifreiðinni, 250.000 krónur vegna hlutdeildar hennar í fellihýsinu og 2.241.464 krónur fyrir hlut hennar í fasteigninni X…. Loks sömdu aðilar um að stefndi myndi yfirtaka sameiginlegar skuldir, samtals að fjárhæð 28.017.072 krónur. Fyrir liggur að í skiptasamningnum er hvorki vikið að eignarhlutum aðila í fyrirtækjunum D…. og E… né innbúi þeirra og inneign á bankareikningum.

 

Stefnandi leitaði aðstoðar lögmanns á haustmánuðum 2016 þar sem hún taldi að á hana hefði hallað í fjárskiptum aðilanna við skilnaðinn. Í bréfi lögmannsins til stefnda, dags. 17. nóvember sama ár, var á það bent að í skilnaðarsamkomulagi aðilanna væri hvorki getið um hlutafjáreign stefnda í E… né um D…, sem þau rækju enn sameiginlega. Var og tekið fram að stefnandi teldi rétt að gengið yrði frá samkomulagi um þessi atriði áður en til lögskilnaðar kæmi. Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 3. janúar 2017, var þessu sjónamiði stefnanda hafnað og tekið fram að stefndi teldi enga ástæðu til að breyta skilnaðarsamkomulaginu áður en til lögskilnaðar kæmi.

 

Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefnda með stefnu birtri 10. maí 2017, eins og áður segir, til ógildingar á umræddum fjárskiptasamningi.

 

Undir rekstri málsins fór stefnandi fram á það við dóminn að dómkvaddur yrði sérfróður og óvilhallur matsmaður til að meta verðmæti fyrirtækjanna D… og E… miðað við 7. júní 2016. Í þinghaldi hinn 23. október 2017 var í því skyni dómkvaddur dr. Arnar Bjarnason, hagfræðingur hjá Reykjavík Capital ehf. Á matsfundi 28. nóvember 2017 urðu lögmenn aðila sammála um að matið skyldi miðast við verðmæti fyrirtækjanna um mitt ár 2016 í stað 7. júní sama ár. Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, dags. 15. desember 2017, segir svo í niðurstöðukafla: „Það er mat undirritaðs matsmanns að áætlað verðmæti 100% hlutafjár í E… um mitt ár 2016 sé um 75 milljónir króna og samsvarar um það bil 3,36x EBITDA ársins 2016 og 3.32x áætluð EBITDA ársins 2017 samkvæmt verðmatslíkani matsmanns. Það er mat undirritaðs matsmanns að verðmæti 100% hlutafjár í D… um mitt ár 2016 hafi verið ekkert, eða 0.“

 

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af aðilum málsins, auk þess sem tekin var vitnaskýrsla af dómkvöddum matsmanni, Arnari Bjarnasyni.

 

III.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að fjárskiptasamningur, sem aðilar hafi ritað undir er þeim var veittur skilnaður að borði og sæng hjá sýslumanni, hafi verið bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma. Beri því að fella samninginn úr gildi með vísan til heimildar þar um í 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Sé í því sambandi bent á að í 6. gr. laganna komi fram að þegar hjón skilji að borði og sæng eða lögskilnaði skuli skírri hjúskapareign hvors um sig skipt til helminga. Þá komi og fram í 103. gr. laganna að hvor maki um sig eigi tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga. Frá þessari helmingaskiptareglu hjúskaparlaga sé einungis hægt að víkja ef sérstakar undantekningar eigi við, sem ekki sé um að ræða í máli þessu. Rétt sé og sanngjarnt að skipta eignum aðila í samræmi við þessa helmingaskiptareglu, en það hafi ekki verið gert. Vísi stefnandi til þess í því sambandi að hlutafjáreign stefnda í fyrirtækinu E… hafi átt að koma til skipta, enda hafi hún ekki verið séreign stefnda samkvæmt kaupmála og teljist því hjúskapareign hans í skilningi 54. gr. hjúskaparlaga. Þar sem eign þessi hafi ekki komið til skipta hafi verið brotið gegn helmingaskiptareglunni og þar með reglum hjúskaparlaga.

 

Þegar umræddur fjárskiptasamningur hafi verið gerður hafi andlegt ástand stefnanda verið slæmt. Hún hafi verið óvinnufær til lengri tíma og hún sé enn að reyna að vinna sig út úr þessu og ná heilsu. Byggi stefnandi á því að fullfrísk og heil heilsu hefði hún aldrei samþykkt umræddan samning í andstöðu við helmingaskiptaregluna.

 

Fjárskiptasamningurinn hafi alfarið verið gerður á forsendum stefnda, sem hafi útbúið samninginn og viljað ganga skjótt frá skilnaðarkjörum. Hann hafi haft miklu betri innsýn í verðmæti hlutafjáreignar sinnar en hún. Hann hafi unnið hjá E… og séð um rekstur þess félags ásamt sameigendum sínum. Stefnandi hafi aftur á móti engar upplýsingar haft um rekstur þess og því ekki haft sömu aðstöðu til að taka upplýsta ákvörðun að því leyti. Þá hafi hún ekki notið liðsinnis lögmanns eða annars sérfræðings við gerð samningsins.

 

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína til vara á 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samnningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en samkæmt ákvæðinu megi víkja samningi til hliðar, í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Þá komi fram í 2. mgr. 36. gr. að við mat á framangreindum skilyrðum skuli líta til efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komi til. Þar sem efni fjárskiptasamningsins sé ekki í samræmi við meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti, með því að stefndi hafi fengið í sinn hlut eignir sem með réttu hefðu átt að koma í hlut stefnanda, telji stefnandi það styðja að samningurinn sé ósanngjarn í skilningi tilvitnaðrar 1. mgr. 36. gr.

 

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að verulegur munur hafi verið á stöðu samningsaðilanna þegar samningurinn hafi verið gerður í júní 2016. Þá hafi stefndi haft mun betri yfirsýn yfir þær eignir sem átt hafi að koma til skipta, auk þess sem hann hafi að mestu séð um samningsgerðina.

 

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á þeirri meginreglu að hjónum sé frjálst við skilnað að skipa málum sínum með samningum og að hvorki ákv. 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga né ógildingarákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu, enda sé fjárskiptasamningur þeirra á engan hátt ósanngjarn. Þegar metið sé hvort samningur sé ósanngjarn í skilningi tilvitnaðs ákv. 2. mgr. 95. gr. sé m.a. litið til þess hvort samningurinn sé óeðlilegur samanborið við væntingar aðila og hvort maki sem hallað sé á hafi gert sér grein fyrir efni samningsins. Kanna þurfi aðdraganda, hag hjóna og liðsinni við samningsgerðina, auk þess sem kannað sé hvort samningurinn sé flókinn. Ljóst sé að ekkert þessara atriða eigi við um samningsgerð aðila. Þannig liggi fyrir að samningurinn hafi verið ritaður á staðlað form sýslumanns og hafi hann verið undirritaður og staðfestur af báður aðilum að viðstöddum fulltrúa sýslumannsins, sbr. 1. mgr. 95. gr. og 43. gr. hjúskaparlaga. Stefnandi hafi gengið til samninga af fúsum og frjálsum vilja, að gættri leiðbeiningarskyldu af hálfu sýslumanns. Stefnandi hafi ekki leitað aðstoðar sérfræðings, frekar en stefndi, sem henni hefði þó verið í lófa lagið að gera, sérstaklega með tilliti til þess að hún hefði haft forgöngu um skilnaðinn og talið sig finna til vanmáttar gagnvart stefnda. Stefndi mótmæli því og sem röngu og ósönnuðu að andlegt ástand stefnanda hafi verið slíkt við undirritun samningsins að hún hafi verið ófær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Þvert á móti hafi ástand hennar hvorki verið annað né verra en almennt hafi verið meðan aðilarnir voru í hjúskap. Ekki liggi fyrir nein læknisfræðileg gögn til staðfestingar um meint sjúkdómsástand stefnanda í byrjum júní 2016. Fyrirliggjandi læknisvottorð staðfesti einungis óvinnufærni hennar frá og með 1. desember 2016 en segi ekkert til um ástand hennar þegar hún ritaði undir samninginn.

 

Því sé mótmælt að umræddur samningur hafi verið gerður á forsendum stefnda. Aðilar hafi staðið að honum í sameiningu, en hann sé hvorki flókinn né óvenjulegur. Báðum hafi verið það ljóst að samningurinn væri ekki tæmandi um eignir þeirra þar sem ekki hafi verið þar getið um innbú þeirra, innstæður á bankareikningum eða eignarhluti í E… og D…. Hafi þau verið sammála um að halda eignum þessum utan við hinn skriflega fjárskiptasamning.

 

Stefndi bendir á að báðum aðilum hafi verið það ljóst við undirritun samningsins að verðmæti E… væri að mestu leyti bundið við persónu stefnda sem og annarra hluthafa. Án vinnuframlags þeirra væri verðmæti félagsins takmarkað, enda sé það rekið utan um atvinnustarfsemi hluthafanna.

 

Stefndi byggir á því að fyrirliggjandi matsgerð um verðmæti E… hafi ekkert sönnunargildi í málinu. Þannig sé ljóst að þær forsendur sem matsmaður gefi sér standist ekki, m.a. hvað varði þá staðhæfingu að viðskiptakröfur félagsins séu að fullu innheimtanlegar.

 

V.

Niðurstaða

Eins og áður er rakið eru í fjárskiptasamningi aðila einungis tilgreindar sem eignir búsins bifreiðin X…, fellihýsið X… og fasteignin að X…. Var um það samið að stefndi myndi greiða stefnanda 525.000 krónur fyrir hlut hennar í bifreiðinni, 250.000 krónur vegna hlutdeildar hennar í fellihýsinu og 2.241.464 krónur fyrir hlut hennar í fasteigninni, en á móti myndi stefndi yfirtaka sameiginlegar skuldir búsins, samtals að fjárhæð 28.017.072 krónur. Liggur fyrir í málinu mat Daníels Rúnars Elíassonar, löggilts fasteignasala, dags. 31. maí 2016, þess efnis að áætlað markaðsvirði einbýlishússins að X… hafi á þeim tíma verið 33.000.000 króna, en ekkert liggur hins vegar fyrir um áætlað verðmæti bifreiðarinnar og fellihýsisins á þeim tíma. Verður af málatilbúnaði stefnanda ráðið að hún geri í sjálfu sér ekki ágreining um þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar við framangreint uppgjör aðilanna heldur byggist kröfugerð hennar einvörðungu á því að inn í samkomulag þeirra hafi vantað þriðjungs eignarhlut búsins í E….

 

Stefndi vísaði til þess í greinargerð sinni að ekkert lægi fyrir um andvirði framangreindrar hlutafjáreignar stefnda í E… og að stefnda hefði ekki frekar en stefnanda verið ljóst hvert virði þessarar eignar væri. Báðir aðilar hefðu litið svo á að verðmæti eignarhlutans væri bundið við persónu stefnda, sem og annarra hluthafa, og að án vinnuframlags stefnda væri verðmætið takmarkað. Væri þetta ástæða þess að aðilar hefðu látið vera að taka þessa tilteknu eign inn í fjárskiptin. Þá kom fram í skýrslu stefnda fyrir dómi að hann hefði séð um að stilla upp eignum og skuldum í umræddum skiptasamningi og að hann hefði ekki séð ástæðu til þess að taka þessa eignarhlutdeild í fyrirtækinu inn í samninginn með tilliti til þess að þetta væri félag í hans eigu.

 

Undir rekstri málsins fyrir dómi aflaði stefnandi, eins og áður segir, mats dómkvadds matsmanns á því hvert hefði verið áætlað verðmæti alls hlutafjár í E… um mitt ár 2016, eða um það leyti sem skiptasamningur aðila var gerður. Varð niðurstaða matsins sú að verðmæti félagsins hefði á þeim tíma verið um 75 milljónir króna. Þar sem því mati hefur ekki verið hnekkt verður lagt til grundvallar að þetta hafi verið verðmæti félagsins þegar skiptasamningur aðila var gerður og að verðmæti þriðjungs hlutafjár stefnda í félaginu hafi því numið um 25 milljónum króna.

 

Þegar til alls framangreinds er litið verður að telja að stefnandi hafi á engan hátt getað áttað sig á því þegar umræddur samningur var gerður hvers virði eignarhluti stefnda í E… væri í raun og veru og að sá hluti tilheyrði með réttu eignum sameiginlegs bús þeirra. Með hliðsjón af því verður að fallast á það með stefnanda að samningur aðila um fjárskipti þeirra hafi verið bersýnilega ósanngjarn þegar til hans var stofnað. Ber því að taka dómkröfu hennar til greina og fella samninginn úr gildi með vísan til 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

 

Stefndi greiði 1.700.000 krónur í málskostnað er renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 1.700.000 króna þóknun lögmanns hennar.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Fjárskiptasamningur stefnanda, A…, og stefnda, B…, dagsettur …, er felldur úr gildi.

 

Stefndi greiði 1.700.000 krónur í málskostnað er renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 1.700.000 króna þóknun lögmanns hennar.

                                                                                                Ásgeir Magnússon